06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (2866)

44. mál, héraðsskólar o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. allshn., hv. 11, þm. Reykv. (EA), hefur þegar gert ýtarlega grein fyrir afstöðu okkar minnihlutamanna í allshn., sem viljum leggja til, að till. á þskj. 45 verði samþykkt.

Ég vil aðeins leyfa mér að taka undir það, sem hann sagði hér áðan, að það virðist nokkuð einkennilegt, að hv. meiri hl. skuli draga þá ályktun af umsögn fræðslumálastjóra, sem prentuð er hér sem fskj. III með nál. minni hl., að ekki sé ástæða til þess að samþykkja till. Í þessari umsögn sinni gerir fræðslumálastjóri grein fyrir því, hvernig þessi mál standi og hvað unnið hafi verið að þeim á vegum fræðslumálaskrifstofunnar á undanförnum áratugum, en út af fyrir sig segir hann ekkert um það, hvort hann leggi til, að till. verði samþ. eða felld. Það er vitað mál, að stofnun eins og fræðslumálaskrifstofan og embættismaður eins og fræðslumálastjóri, þessir aðilar eru alltaf að vinna að þessum málum, safna upplýsingum þar að lútandi og leggja grundvöll að ýmiss konar till. um þessi mál. En eigi að síður hefur flm. þessa máls og við minnihlutamennirnir í allshn, erum þeim sammála — þótt tímabært nú að leggja til, að mþn. yrði sett í málið, og það er svo sem ekkert óalgengt, að mþn. séu settar í mál, sem eru á vegum ríkisstofnana og hafa verið það áratugum saman. Á einhverju stigi málsins þykir tímabært, að mþn. fjalli um það, og mþn. nýtur þá auðvitað góðs af þeim upplýsingum og gögnum, sem hlutaðeigandi ríkisstofnun hefur safnað.

Nú standa þessi mál svo, fræðslumál dreifbýlisins, og þar með eru héraðsskólamálin, að það virðist alveg sérstök þörf á, að Alþingi eða n., sem það kýs, staldri ofur lítið við og liti yfir sviðið, eins og það er í dag, líti yfir verkefnin og taki stefnu í þessum málum, — stefnu, sem eðlilegt er að Alþingi taki. Ég vil m.a. nefna það í þessu sambandi, að nú alveg nýlega hafa verið samþ. hér á Alþingi breyt. í sambandi við héraðsskólalöggjöfina. Þessar breyt. eru þess efnis, að ríkinu er heimilað að taka að sér rekstrar- og stofnkostnað, eins og hann verður, nokkurra tiltekinna héraðsskóla, skóla. sem allir hafa nokkuð lengi verið starfandi. Á þeim stöðum, þar sem hlutaðeigendur óska þess. að þessi heimild sé notuð, eru þessir héraðsskólar, sem upphaflega voru sjálfseignarstofnanir, orðnir eða að verða ríkisskólar. Og þá er eðlilegt, að menn spyrji: Hvernig á að fara um þá héraðsskóla, sem síðar verða stofnaðir? Auðvitað verða, hvað sem hver segir, stofnaðir einhverjir nýir héraðsskólar á komandi árum. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessu, og það væri m.a. eitt af verkefnum þessarar mþn. að gera það.

Af sérstökum ástæðum hefur þörfin fyrir aukið rúm í héraðsskólum orðið sérstaklega brýn sums staðar á landinu nú síðustu árin, og ég fer ekki nánar inn á það að rekja þær ástæður, þær eru fyrir hendi. Það getur vel verið, að í sumum tilfellum sé það heppileg leið til þess að bæta úr þessari þörf að stækka eldri héraðsskóla, sem starfandi eru, en á öðrum stöðum er það e.t.v. ekki heppileg leið. Á öðrum stöðum er það e.t.v. heppilegri leið að reisa sérstakan héraðsskóla, og ég hef hérna fyrir framan mig bréf, sem er alveg nýkomið til okkar þm. Norðurl. e., þar sem verið er að beina því til okkar að hafa frumkvæði um stofnun héraðsskóla í Eyjafjarðarsýslu. Ég get nefnt það sem dæmi um það, sem á döfinni er í þessum málum.

þál., sem Alþingi gerði fyrir nokkrum dögum um fræðslumál í dreifbýlinu, fjallar ekki um neinn undirbúning að lagabreytingum. Hún var aðeins þess efnis að skora á ríkisstj. að breyta reglugerðum, sem settar hafa verið skv. núgildandi l., og taka inn í nýja reglugerð um tiltekin atriði, sem nefnd eru í þeirri þál. Við vorum því allir fylgjandi í hv. allshn., að sú till. yrði samþ. En verksvið mþn. skv. Þessari till., sem hér liggur fyrir, er á miklu breiðara grundvelli en verkefni þeirrar till. var, og það er mjög sennilegt, að þó að þessi till., sem hér liggur fyrir, yrði samþ. sem þál., þá kæmu eigi að síður, áður en mþn. hefur lokið störfum, til framkvæmda þau atriði, sem fjallað er um í þál., sem samþ. var fyrir nokkrum dögum og hér hefur verið minnzt á.

Ég verð að segja það og taka undir þau orð, sem hv. frsm. minni hl. lét falla í því sambandi, að mér kemur þetta nokkuð á óvart, — kom það á óvart í n. og kemur það á óvart, — ef það reynist svo nú, að Alþingi vilji ekki, eins og þessi mál nú standa víða um land, gera ráðstafanir til þess, að fram fari heildarathugun á þessum málum.

Undirtektir fjórðungssambandanna, sem hv. frsm. minni hl. las hér áðan, gefa nokkra hugmynd um það, hvernig á þessi mál er litið úti á landsbyggðinni, sem býr við það ástand, sem nú er í þessum málum. Þar er það talið æskilegt, að athugun fari fram á þeim grundvelli, sem hér er lagt til. Það er auðvitað svo, að einstakir þm. geta borið fram hér á hinu háa Alþingi till. um byggingu einhvers héraðsskóla í einhverju héraði, sem þeir hafa sérstakan áhuga fyrir. En hitt sýnist á allan hátt eðlilegra, að þessi mál séu tekin til meðferðar á milli þinga af þingkjörinni n. og að þar fari fram athugun, sem nær til landsins alls. Þess vegna vil ég nú, þrátt fyrir það þótt meiri hluti hafi ekki fengizt fyrir því í hv. allshn. að þessu sinni, vænta Þess, að niðurstaðan verði önnur hér í þinginu og að till. verði samþykkt.