20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

1. mál, fjárlög 1964

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Ég flyt við fjárl. þrjár brtt., ásamt þeim 2. þm. Sunnl. og 6. þm. Sunnl., sem ég ætla að leyfa mér að gera örlitla grein fyrir.

Fyrsta brtt. er á þskj. 178, VII. Sú till, hljóðar um það, að nýr liður komi við 13. gr. C, VII: Þorlákshöfn, 700 þús. kr. Eins og kunnugt er, hófust stórframkvæmdir í Þorlákshöfn á þessu ári, og þeim er áformað að ljúka um áramótin 1965–66, ef allt fer að óskum. Þar er gert ráð fyrir að rísi ný höfn, sem taki á móti 30–40 fiskibátum og nægi þeim til nauðsynlegra athafna. Þetta mál hefur verið talið eitt af fremstu hagsmunamálum Sunnlendinga og lengi verið til umr., enda eina hafnarvon þeirra um mörg næstu ár. Annars staðar á Suðurlandi, þar sem hafnarstæði hafa helzt talizt vera fyrir hendi, sýnast af sérfræðingum aðstæður vera þannig, að ókleift sé sakir kostnaðar að leggja þar í verulegar framkvæmdir á næstu tímum. Hins vegar eru slík hafnarstæði, svo sem eins og við Dyrhólaós, Þykkvabæ, Eyrarbakka og Stokkseyri, til frekari undirbúningsrannsóknar og athugunar, sem og sjálfsagt er, þannig að úr því fáist skorið, hversu mikill kostnaður væri við það í stórum dráttum að byggja þarna nýtilegar hafnir. Þessar sérstöku framkvæmdir, sem nú eru hafnar á þessu ári í Þorlákshöfn og þegar hefur stórfé verið varið til, eru enn tiltölulega skammt á veg komnar. Aðstæður eru þarna á þessum slóðum æði erfiðar, þar sem unnið er að mestu leyti fyrir opnu úthafi og verulega undir því komið, að hagstæð vindátt ríki, þegar garðar eru reistir. Þetta er því sannarlega hið mesta áhættuverk, og það hafa allir þeir, sem komið hafa nærri þessu máli, gert sér ljóst frá öndverðu. Og fyrir þær sakir má reikna með því, að sá kostnaður, sem áætlaður hefur verið, aukist mjög frá því, sem nú er talið, og kemur væntanlega á næsta ári til enn aukins kostnaðar.

Þá geta og komið til og munu að sjálfsögðu koma til önnur atvik, að jafnframt byggingu hafnargarðanna verði að leggja í mikinn kostnað við hliðarráðstafanir, sem getur orðið allverulegur. Það hefur t.d. komið í ljós á þessu ári og enda hefur það sjálfsagt komið áður í ljós, en þó alveg sérstaklega þegar byrjað var á hafnargarðabyggingunum, að sjór getur gengið mjög langt á land upp sunnan hafnarsvæðisins, og vafalaust verður í því efni að gera ráðstafanir til að verja bæði hafnarsvæðið og byggðina þar í grennd. Til hinnar nýju hafnargerðar er stofnað og unnið samkv. sérstökum verksamningi, og hefur verið aflað fjár til að standa undir þeim samningi af hálfu þess opinbera með erlendri lántöku, allt að 2 millj. dala. Ríkissjóður mun standa undir afborgunum og vöxtum af þessu láni að fullu, a.m.k. fyrsta kastið og fyrir afborgunum og vöxtum er séð í fjárlfrv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil taka það alveg sérstaklega fram í sambandi við þessa till., að hún er ekki meint þannig, að ekki hafi verið lagt kapp á það af hinu opinbera að leggja ríflega af mörkum til hins mikla fyrirtækis, sem hér hefur verið stefnt að og byrjað að vinna að, því að hæstv. fjmrh. og enn fremur hæstv. félmrh. hafa báðir sýnt hinn bezta skilning á þessu máli frá öndverðu og mikilvægi þess alls og stutt það vel. Hins vegar sýnist okkur flm. þessarar brtt. óvarlegt að sleppa Þorlákshöfn alveg úr tölu þeirra hafna, sem sérstaklega og beint fá ákveðið tillag til sín á 13. gr., svo sem Þorlákshöfn hefur notið undanfarin ár. Það er ekki að vita, hve erlenda lánið endist, og eins hitt og það er aðalatriðið, að aðrar framkvæmdir, sem ekki heyra beint undir lánsfé eða framkvæmdir samkv. verksamningnum, geta komið til og koma vafalaust til vegna öryggis og uppkomu höfuðframkvæmdanna og enn fremur af ýmsum öðrum orsökum.

Af því, sem ég hef greint hér í sem stytztu máli, sýnist eðlilegt eftir atvikum að tryggja aðra leið til nokkurrar fjáröflunar í Þorlákshöfn en lánaleiðina, þá leið, sem gæti orðið til að létta á lánunum, sem eins og ég sagði áðan er óvíst, hversu endast, og mun koma til verulegs gagns fyrir aðrar nauðsynlegar framkvæmdir til öryggis við byggingu hafnargarðanna.

Þá er það önnur till., sem ég leyfi mér að mæla fyrir, og hún er á sama þskj., nr. 178, IX. Þar er farið fram á, að við 13. gr. F. IX komi nýr liður, svo hljóðandi: Til Flugbjörgunarsveitar Rangæinga 50 þús. kr. Það kom í ljós við 2. umr. fjárl., að farið er að skipta fé á milli flugbjörgunarsveita. Þá datt okkur í hug, flm., að fleyta fram till. þeirri, sem ég hef hér getið. Í Rangárþingi eru flugbjörgunarsveitir staðsettar á tveim stöðum, annars vegar á Hellu á Rangárvöllum og hins vegar að Skógum undir Eyjafjöllum. Þær eru stofnaðar fyrir allmörgum árum. Hefur milli þessara sveita verið hin bezta samvinna, og í raun og veru má telja þetta eina björgunarsveit, því að þær vinna sameiginlega að sínum málum og hafa í sameiningu átt samvinnu við Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur. Flugbjörgunarsveit Rangæinga hefur haldið uppi nokkurn veginn reglulegum æfingum og átt þátt í leiðöngrum til bjargar. Þær þykja, þessar sveitir í Rangárþingi, sæmilega vel búnar og þjálfaðar. Svæði það, sem þessar sveitir vinna á, er hið mesta hættusvæði, bæði fyrir flugvélar og eins við ströndina fyrir skip. Og til þessara sveita hefur á liðnum árum þótt gott að leita og taldar til mikils öryggis. Flugbjörgunarliðið sjálft er fjölmennast og eins og ég áður sagði sæmilega vel útbúið. Að sjálfsögðu hefur starf sveitarinnar haft allverulegan kostnað í för með sér, bæði útbúnaður allur og eins útkall og æfingar. Lítils háttar styrkur hefur fengizt til þessarar starfsemi heima fyrir, en hann er óverulegur. Formaður flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík hefur tjáð mér, að þessar sveitir hafi undanfarið unnið mjög ötullega, og hann undirstrikar þá miklu þýðingu, sem þær hafa haft og munu hafa í framtíðinni, og telur, að það sé engin leið að hugsa sér það, að þessar sveitir haldi ekki áfram störfum, eins og verið hefur. Það er fyrir ófyrirsjáanleg atvik, að ekki var hreyft þessu máli við 2. umr., og er það kannske nokkur sök, en ég vil þó vænta þess, að það tefji ekki fyrir því, að hv. alþm. sjái sér fært að samþykkja till., þótt seint fram komi.

Þá er það þriðja till. okkar þremenninganna og sú síðasta, sem ég mæli fyrir. Hún er á sama þskj., XXIV, og hún er á þessa leið: Við 22. gr. XXXIV. Nýr liður: Ríkisstj. er heimilt að taka allt að 10 millj. kr. lán til byggingar nýs strandferðaskips fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar-Þorlákshöfn. — Svo sem þm. mun vera kunnugt, hefur hv. 2. þm. Sunnl. ásamt mér flutt í hv. Nd, frv. til l. um smíði nýs strandferðaskips fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar-Þorlákshöfn. Fyrri flm. frv., hv. 2. þm. Sunnl., mælti fyrir þessu frv. á sínum tíma og gerði rækilega grein fyrir undirstöðu þess, að frv. er lagt fram. Till. þessi er flutt til þess að fylgja eftir í framkvæmd því mikla nauðsynjamáli, að Vestmanneyingar fái nokkurn veginn greiða og sér hentuga leið til að tengjast þjóðvegakerfi landsins, og við teljum, að það verði með hagkvæmustum og eðlilegustum hætti með því móti að styrkja þá til að koma upp skipi, sem stundi aðallega þessa siglingaleið, Vestmannaeyjar-Þorlákshöfn.

Þegar áætlaðri hafnargerð í Þorlákshöfn lýkur, eftir svo sem 2 ár, má gera ráð fyrir því, að áætlunarsiglingar til Þorlákshafnar geti orðið öruggar í flestum veðrum, og er þá að sjálfsögðu náð hinu mikilsverðasta marki. Um það er ekki deilt, hversu mikið hagsmunamál Vestmanneyingum er að því að leysa þetta mál, og ekki heldur um það, hvert réttlætismál það er gagnvart þeim. Það er öllum hv. þm. sjálfsagt mjög vel ljóst. Og fyrir Suðurlandsundirlendið er það einnig og ekki síður mjög mikilvægt, að sambandið við Vestmannaeyjar, hinn mikla útvegsbæ, verði sem nánast, og mundi verða báðum til hagsbóta á margvíslegan hátt. Þetta bendir til þess, sem koma skal og verður ekki komizt hjá, og á málinu má að okkar áliti, flm. brtt,, engin veruleg bið verða. Sé hafizt handa á næsta ári um byggingu skips á þessari siglingaleið, þá má ætla, að hvort tveggja verði jafnsnemma eða svo til, nauðsynleg aðstaða í Þorlákshöfn og strandferðaskipið, sem þangað á að ganga.

Í frv., sem ég gat um og liggur fyrir Nd., er gert ráð fyrir lántökuheimild til ríkissjóðs að fjárhæð allt að 10 millj. kr. En þó að það frv. einhverra hluta vegna nái ekki fram að ganga á þessu þingi, þá er heimildin til staðar fyrir ríkisstj. að ráðast í byggingu strandferðaskipsins, ef þessi brtt. okkar þremenninganna verður samþ. hér að þessu sinni.

Hef ég þá lokið að mæla fyrir þessum þrem brtt., og ég vil vænta þess, að þær verði samþ., með því að vissulega er hér um mikilsverð málefni að ræða. Um það efast enginn. Ég endurtek, að ég vænti þess, að þm. sjái sér fært að fylgja brtt., þannig að þær allar nái samþykki.