31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í D-deild Alþingistíðinda. (2880)

46. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti Þessi till. er gamall kunningi hér á Alþingi, svo að ég tel ekki ástæðu til þess að láta fylgja henni mörg orð að þessu sinni, en mér finnst þó rétt að rifja forsögu hennar upp í nokkrum megindráttum.

Efni till. er það, að Alþingi felur ríkisstj. að hlutast til um, að Seðlabankinn endurkaupi framleiðslu- og hráefnavíxla iðnaðarfyrirtækja eftir ákveðnum reglum, er settar verði með svipuðu sniði og reglur þær, er gilda um endurkaup framleiðsluvíxla sjávarútvegs og landbúnaðar.

Forsaga þessa máls er í stuttu máli sú, að hinn 3. júní 1958 var samþykkt till. hér á Alþingi, sem gekk í mjög svipaða átt og þessi till.till. var samþykkt með algeru samkomulagi allra þeirra flokka, sem þá áttu sæti á Alþingi. Það var alger samstaða um hana, og þess vegna mátti vænta þess, að þá þegar yrði unnið að framgangi hennar. En þó að síðan séu nú liðin bráðum 6 ár, bólar ekki neitt á því, að unnið sé að framgangi þessarar till. Ég hef kynnt mér það, að það stóð ekki neitt á þáv. ríkisstj., þegar till. var samþykkt, vinstri stjórninni svokölluðu, að vinna að framgangi þess máls, nema ef það kann að hafa strandað eitthvað á þeim ráðh., sem sá um framkvæmd þessara mála. En það er algerlega rangt, sem hefur áður komið fram í umr. hér á Alþingi, að það hafi nokkuð strandað á þáv. forsrh., að þetta mál væri tekið fyrir til afgreiðslu í ríkisstj. Ég hef kynnt mér það, að það er alveg rangt. Sú ríkisstj, fór ekki heldur með völd nema í 6 mánuði eða tæplega það, eftir að þessi till. var samþykkt, og aðrar ríkisstj. hafa þess vegna átt að sjá um það á þessum tíma, að þessi till. kæmi til framkvæmda, í rúmlega 5 ár, sem liðin eru síðan vinstri stjórnin fór frá völdum. Af hálfu þeirra ríkisstj., sem hafa farið með völd á þessum 5 ára tíma, hefur ekkert bólað á því, að reynt yrði að framkvæma þessa till. Rétt er þó að geta þess, að það mun hafa verið skipuð sérstök nefnd til þess að gera athugun á endurkaupum á hráefnavíxlum iðnaðarins, eða a.m.k. ber ríkisreikningurinn frá 1962 vitni um þetta, því að þar sést, að störf þessarar n. hafa kostað 65 þús. kr. En nál., sem þessi nefnd hefur skilað, ef það hefur eitthvað verið, hefur enn ekki séð dagsins ljós, a.m.k. ekki opinberlega og enginn árangur hefur orðið af hennar störfum, svo að sjáanlegur sé. Það verður þess vegna ekki séð, að þær ríkisstj., sem hafa farið með völd á undanförnum 5 árum, stjórn Alþfl. fyrst og síðan núv. ríkisstj., hafi haft nokkurn áhuga á því að framkvæma þessa till. Þó er ljóst mál, að það ástand hefur skapazt á þessum tíma, að það hefur verið stóraukin nauðsyn fyrir að sinna þessu mikla vandamáli iðnaðarins, þ.e. að hann sæti við sama borð og aðrir atvinnuvegir hvað snertir kaup Seðlabankans á hráefnavíxlum. Á þessum tíma hafa átt sér stað tvær stórfelldar gengisfellingar, og það hafa átt sér stað ýmsar hækkanir aðrar, sem hafa að sjálfsögðu gert það að verkum, að þörf iðnaðarins fyrir það, að hann fengi sína afurðavíxla selda eða fengi afurðalán á svipaðan hátt og aðrir atvinnuvegir, hafa stórkostlega aukizt. En þrátt fyrir þessa þörf iðnaðarins hafa þeir flokkar, sem með völdin hafa farið á þessum árum, algerlega lokað augunum fyrir þessari nauðsyn og ekkert sinnt þessum vandamálum iðnaðarins. Þetta sýnir, að enn er sá hugsunarháttur ríkjandi i landinu með þeim mönnum, sem með völdin fara, að iðnaðurinn eigi að vera eins konar olnbogabarn í þjóðfélaginu og hann eigi ekki að njóta sama réttar í þessum efnum og t.d. sjávarútvegur og landbúnaður.

Ég tel af þeim ástæðum, sem ég hef nú greint, í fyrsta lagi þeirri, að Alþingi hefur þegar markað stefnu í þessu máli, en ekki verið framkvæmd, og í öðru lagi vegna þess, að þörf iðnaðarins fyrir þessa lausn málanna er miklu brýnni nú en áður, að þá sé nauðsynlegt, að Alþingi endurnýi þessa ályktun sína og ýti á eftir því, að ríkisstj. láti þessa viljayfirlýsingu Alþingis koma til framkvæmda. Og ég verð að segja það í framhaldi af þeim umr., sem urðu hér í hv. d. í sambandi við annað mál, en snertir þó þetta mál nokkuð, að þá vildi ég vænta þess, að þessu máli yrði nú sýndur nokkur meiri áhugi en á undanförnum árum hjá hæstv. ríkisstj., og þess vegna ætti að mega vænta þess, að þessi till. næði framgangi að þessu sinni, og það væri því rétt af ríkisstj. að sýna meiri áhuga á þessu sviði en komið hefur fram hjá henni á undanförnum 5 árum. En hitt er þó líka ómótmælanlegt, að ef þessi till. verður enn einu sinni látin daga uppi og ekkert verður gert til þess að framkvæma viljayfirlýsingu Alþingis frá 1958, þá hefur hæstv. ríkisstj. ekki þann áhuga i iðnaðarmálum, sem hún vill vera láta, og þá er það hennar stefna, hvað sem öllum yfirlýsingum líður af hennar hálfu, að iðnaðurinn eigi að vera olnbogabarn meðal atvinnuvega landsins.

Ég skal svo ekki hafa þessi ummæli fleiri að sinni, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til fjvn.