31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í D-deild Alþingistíðinda. (2881)

46. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrri flm. þessarar till., að efni hennar er gamall kunningi hér á hinu háa Alþingi. Hv. þm. virtist telja afstöðu til þessarar till. prófstein á það, hvern hug stjórnmálaflokkar eða ríkisstj. bæri til iðnaðarins. Nú er ég honum alveg sammála um, að nauðsynlegt er, að iðnaðurinn fái hjá Seðlabankanum eðlilega og hliðstæða afgreiðslu við það, sem sjávarútvegur og landbúnaður hafa fengið hjá Seðlabankanum um alllangt skeið undanfarið. En til þess að tryggja það, að iðnaðurinn fái í Seðlabankanum sams konar aðstöðu og sjávarútvegur og landbúnaður, er auðvitað ekki nóg að flytja till. hér á hinu háa Alþingi. Það er ekki nóg, að hið háa Alþingi samþykki till. um þetta efni. Það eitt, sem máli skiptir, er það, að Seðlabankinn geti með eðlilegum hætti, án þess að skaða þjóðarbúið í heild, veitt iðnaðinum sams konar fyrirgreiðslu framvegis og hann hefur veitt landbúnaðinum og sjávarútveginum um alllangt skeið undanfarið. En það mál er ekki eins einfalt og virðast kann. Kom það greinilega fram, þegar till., efnislega séð samhljóða þessari, var samþykkt vorið 1958, en þá var að völdum hér samsteypustjórn Framsfl., Alþb. og Alþfl. Hv. þm. minnti á samþykkt þeirrar till. og sagði, að framkvæmd hennar hefði alls ekki strandað á vinstri stjórninni. Mér er spurn: Á hverju gat framkvæmd hennar strandað öðru en þeirri stjórn, sem fór með völd, nema þá hún hafi strandað á stjórn Seðlabankans? En það get ég upplýst, hef raunar gert það áður og skal endurtaka það hér og undirstrika það rækilega, að frá vinstri stjórninni, frá stjórn Hermanns Jónassonar, fóru aldrei nein tilmæli til Seðlabankans um að framkvæma efni þessarar till. Og það getur hv. þm. fengið staðfest í skjölum stjórnarráðsins og hjá stjórn Seðlabankans, ef hann óskar eftir því.

En þá er spurningin: Hver átti að hafa forgöngu um það í ríkisstj. Hermanns Jónassonar að ýta á eftir framkvæmd þessarar till. gagnvart Seðlabankanum? Undir hvaða ráðh. skyldi það hafa heyrt að reyna að koma efni þessarar till. á framfæri við Seðlabankann og fá hann til þess að framkvæma till.? Í stjórn Hermanns Jónassonar heyrðu bankamál ekki undir neinn einstakan ráðh., þau heyrðu ekki undir viðskmrh., svo sem átti sér stað í fyrrv. ríkisstj. og öðrum ríkisstj. síðan. Bankamál heyrðu undir ríkisstj. alla og þar með formlega séð undir forsrh., enda voru öll bankamál í þeirri ríkisstj. og á þeim þingum, sem hún sat, flutt af forsrh. í nafni ríkisstj. sem heildar. Enginn einstakur ráðh., ekki heldur forsrh., gat afgreitt bankamálin. Þau voru afgreidd af ríkisstj. í heild. Það kom aldrei til úrskurðar í ríkisstj., og hefði slík till. átt að leggjast fyrir ráðherrafund af þáv. forsrh., að ríkisstj. beindi þeim tilmælum til Seðlabankans, að hann framkvæmdi efni þeirrar till., sem samþykkt hafði verið vorið 1958.

Ef það væri rétt hjá hv. þm., að afstaða ríkisstj. eða einstakra ráðh. til þessarar till. skæri úr um það, hvort menn vildu hafa iðnaðinn olnbogabarn í þjóðfélaginu eða ekki, ef afstaða ríkisstj. eða ráðh. skæri úr um það, hvort menn vildu iðnaði vel eða illa, þá hlyti þessi afstaða að túlkast á þann hátt, að vinstri stjórnin hafi viljað hafa iðnaðinn olnbogabarn, að vinstri stjórnin hafi viljað iðnaðinum illa og þá fyrst og fremst sá flokkur, sem fór með forsæti i ríkisstjórninni, þ.e.a.s. Framsfl., flokkur forsætisráðherra. Þetta er hins vegar alger rangtúlkun.

Mér kemur ekki til hugar, hef aldrei sagt og mun aldrei segja, að flutningur till, hér á Alþingi né heldur samþykki Alþingis á till. sé neinn endanlegur prófsteinn á það, hvaða hug menn bera til heillar iðngreinar eins og iðnaðarins, sem hér á hlut að máll. Það er nefnilega eitt að flytja till. á Alþingi, jafnvel að greiða atkv. með till. á Alþingi, og því miður annað að eiga að sjá um framkvæmd á efni till. Það fékk vinstri stjórnin því miður að reyna. Og í sannleika sagt brást vinstri stjórnin af ábyrgðartilfinningu við efni þeirrar till., sem samþykkt hafði verið og flutt af Sveini Guðmundssyni. Vinstri stjórnin gerði sér grein fyrir því, að það væri alveg þýðingarlaust að beina tilmælum til Seðlabankans um að framkvæma efni þessarar till., nema því aðeins að gera annað tveggja, að sjá Seðlabankanum fyrir nýju fé til þess að lána iðnaðinum eða þá mæla með því við Seðlabankann, að hann drægi úr útlánum sinum til annaðhvort sjávarútvegs eða til landbúnaðar. Þá var ekki fyrir hendi neinn gjaldeyrisvarasjóður, sem hægt væri að eyða í þessu sambandi. Hann var enginn til. Seðlabankinn skuldaði erlendis. Þess vegna var þáv. forsrh., Hermanni Jónassyni, fullkomlega ljóst, eins og okkur öllum hinum 5, sem í þeirri ríkisstj. sátum, að ef iðnaðurinn ætti að fá endurkaupafé úr Seðlabankanum, yrði eitt af þrennu að gerast: Seðlabankinn að fá nýtt fé eða draga yrði úr útlánum Seðlabankans til sjávarútvegs eða í þriðja lagi að draga úr útlánum Seðlabankans til landbúnaðar. Ekkert af þessu þrennu vildi nokkur okkar í þáv, ríkisstj., og þess vegna beindu menn aldrei þessum tilmælum til Seðlabankans. Það bar ekki og ber ekki enn að skoða sem fjandskap við iðnaðinn né heldur skoða það þannig, að við teljum hann eiga að vera olnbogabarn, heldur einfaldlega af því, að okkur skorti ráð til þess að auka ráðstöfunarfé Seðlabankans, fyrst við vildum ekki draga úr útlánum hans til sjávarútvegs eða til landbúnaðar.

Stjórn Hermanns Jónassonar bar því miður ekki gæfu til að hafa tækifæri til að taka ýtarlega á þessu máli, því að nú leið ekki á löngu, þangað til hún hvarf frá völdum. En þegar hún var farin frá völdum, var breytt um fyrirkomulag um meðferð bankamálanna og viðskmrh. fengin þau mál til meðferðar. Mér voru fengin viðskiptamálin til meðferðar. Ég lét það vera eitt af mínum fyrstu verkum í þeirri stjórn, eftir að ég tók við stjórn viðskiptamálanna, að skipa nefnd, sumpart sérfróðra manna og sumpart fulltrúa frá iðnaðinum, hagsmunaaðilanum í þessu sambandi, til þess að athuga möguleika á því, að Seðlabankanum yrði gert kleift að hefja endurkaup á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins. Sú nefnd vann mjög gott starf, starfaði lengi, starfaði í ein tvö ár, og þær till., sem nú liggja fyrir um þessi efni og ég skal víkja fáeinum orðum að hér á eftir, eiga einmitt að verulegu leyti rót sína að rekja til starfs þessarar n. Nefndin var á einu máli um, að það væri ekki hægt að leggja til, að dregið yrði úr lánum til sjávarútvegs eða til landbúnaðar til þess að hjálpa iðnaðinum. Hún var á einu máli um, að eina raunhæfa ráðið, sem iðnaðinum gæti að gagni komið, væri að auka ráðstöfunarfé Seðlabankans. Þess vegna er það einmitt, sem núv. ríkisstj. hefur flutt um það frv., sem liggur fyrir þessu þingi, að ráðstöfunarfé Seðlabankans skuli aukið þannig, að heimild Seðlabankans til þess að binda hluta af innstæðuaukningu í bönkum og lánsfjárstofnunum skuli aukin frá því, sem verið hefur. Það er yfirlýstur tilgangur með þessari ráðstöfun m.a., að þá skuli Seðlabankinn hefja endurkaup á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins, auk þess sem þessi ráðstöfun á að gera Seðlabankanum kleift að auka afurðakaup af landbúnaðinum frá því, sem verið hefur. Þetta hefur hvort tveggja komið greinilega fram í umr. um seðlabankafrv.

M.ö.o.: það, sem núv. ríkisstj. hefur lagt til, er, að það verði gert, sem eitt getur komið iðnaðinum að gagni, að Seðlabankinn fái aukið fé. Ríkisstj. hefur lýst yfir því, að ef frv. nái fram að ganga, muni hún beita sér fyrir því við Seðlabankann, að þetta aukna fé verði sumpart notað til þess að hefja endurkaup á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins, sérstaklega þá útflutningsvöruvíxlum iðnaðarins. Og Seðlabankinn hefur lýst yfir í viðræðum, sem fram fóru um frv. milli viðskmrn. og Seðlabankans, áður en það var lagt fram, að ef hann fái þetta aukna ráðstöfunarfé, muni hann m.a. nota það í því skyni að hefja endurkaup á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins. Það er því einmitt núv. ríkisstj., sem gert hefur það eina raunhæfa í því máli að bæta lánsfjáraðstöðu iðnaðarins.

Þær ríkisstj., sem hingað til hafa setið að völdum, svo sem m, a. ríkisstj. Hermanns Jónassonar, fundu ekki ráð til að rétta iðnaðinum hjálparhönd í þessu efni. Þm. og flokkar hafa flutt um þetta till. á Alþingi. Það er iðnaðinum gagnslaust. Alþingi hefur meira að segja samþykkt till. um þetta efni. Þær till. hafa ekki lagagildi, eins og allir vita, og iðnaðinum er ekkert gagn að slíkum tillöguflutningi, ekki einu sinni að samþykki slíkra tillagna. Það eina, sem iðnaðinum er gagn að, er, að Seðlabankinn fái fé til að lána iðnaðinum. Og einmitt um það efni hefur núv. ríkisstj. flutt frv., sem nú er til meðferðar hér á hinu háa Alþingi. Ef hv. fyrri flm. þessarar till. hefur raunverulegan áhuga á því að efla hag iðnaðarins, sem ég skal sízt draga í efa, ef flokkur hans hefur raunverulegan áhuga á því að bæta hag iðnaðarins og veita honum greiðari aðgang að lánsfé en átt hefur sér stað, þá á hann að sýna þann vilja sinn í verki með því að styðja seðlabankafrv. ríkisstj., því að það veitir Seðlabankanum nýtt fé, sem hann hefur lýst yfir að hann muni sumpart nota iðnaðinum til stuðnings. Raunhæfa ráðið til að hjálpa iðnaðinum er því að samþykkja seðlabankafrv., en hvorki að flytja né heldur að samþykkja þáltill. um þetta efni, því að það er búið að sýna sig, sýndi sig fyrir 6 árum, að það eitt kemur iðnaðinum ekkí að gagni. Ég hef enga löngun til þess að taka þátt í slíkum leik. Hitt vil ég heldur gera, að eiga þátt í raunhæfum ráðstöfunum, sem geta komið þessari miklu og vaxandi iðngrein að notum.