31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í D-deild Alþingistíðinda. (2882)

46. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það eru ekki nema tvö eða þrjú atriði i ræðu hæstv. viðskmrh., sem ég þarf að víkja að að þessu sinni.

Hann ræddi nokkuð um afstöðu vinstri stjórnarinnar til till., sem samþ. var hér á þingi 1959, og hvers vegna vinstri stjórnin hefði ekki tekið þá till. til framkvæmda. Eins og menn sjá af efni þeirrar till., sem hér liggur fyrir og er shlj. þeirri till., sem samþykkt var á þingi 1958, fjallar hún um iðnaðarmál, um lánamál iðnaðarins, og venjum samkvæmt er það iðnmrh., sem á að taka slík mál upp í ríkisstj., ef nauðsynlegt er að taka slík mál upp á þeim vettvangi, eins og t.d. það er eðlilegt, þegar um lánamál landbúnaðarins er fjallað, þá er það landbrh., sem tekur þau mál upp í ríkisstj. og við Seðlabankann. Og þar sem, eins og rétt var, eins og hæstv. viðskmrh. réttilega sagði, bankamálin heyrðu á þeim tíma undir ríkisstj. alla, þá var það iðnmrh. að hreyfa þessu máli í ríkisstj. og fá hana til þess að taka þetta mál upp við Seðlabankann. En að því er mér er bezt kunnugt, var aldrei gerð nein tilraun til þess af þáv. iðnmrh. að taka þetta mál upp í ríkisstj. og fá hana til að taka þessa till. Alþingis upp við Seðlabankann. Í þeim umr., sem urðu í sambandi við annað mál, er snertir þetta, snemma á þessu þingi, kom það fram frá hv. 1. þm. Austf. og hv. 5. þm. Austf., sem þá áttu báðir sæti í ríkisstj., að þetta mál hefði aldrei verið tekið upp á fundum hennar, og ég hef einnig rætt þetta mál við þáv. forsrh., sem skipaði forsæti í ríkisstj., og það hafði aldrei verið farið fram á það við Hermann Jónasson, að þetta mál yrði tekið upp á fundum ríkisstj. Það stafar einfaldlega af því, að það hefur vantað forgöngu þess ráðh., sem þetta mál heyrir sérstaklega undir, hæstv. iðnmrh., að taka þetta mál upp í ríkisstj. Og ég held, að það sé rétt munað hjá mér, að það hafi einmitt verið hæstv. núv. viðskmrh., sem fór með iðnaðarmálin í vinstri stjórninni. Þess vegna horfir þetta mál þannig við, að ef vinstri stjórnina er að saka um það, að hún hafi ekki hreyft þessu máli sérstaklega á þeim 6 mánuðum, sem hún fór með völd, eftir að þessi till. var samþykkt, þá liggur sökin fyrst og fremst hjá þáv. hv. iðnmrh., núv. viðskmrh. Og mig undrar það ekki neitt, þó að þessi hæstv. ráðh. hafi verið athafnalítill í þessum málum á þessum 6 mánuðum, því að síðan þá er hann búinn að eiga sæti í ríkisstj. í á sjötta ár og hefur stundum farið með iðnaðarmálin og ég held oftar með bankamálin, án þess að nokkuð hafi verið gert til þess að framkvæma þessa ályktun Alþingis. Mér finnst þess vegna liggja nokkurn veginn ljóst fyrir, að ef nokkurn einstakan mann er um það að saka, að þessum vilja Alþingis, sem felst í till. frá 1958 um lánamál iðnaðarins, hefur enn ekki verið komið fram, sé það hæstv. núv. viðskmrh., sem sé sökudólgurinn í þeim efnum og honum megi frekar kenna en nokkrum öðrum manni um það algera aðgerðarleysi, sem hefur ríkt í þessum málum fram á þennan dag. Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta atriði að sinni.

En í sambandi við það, sem hæstv. viðskmrh. var að gefa í skyn, að það væri ekki hægt að framkvæma þessa till. um aukin kaup Seðlabankans á hráefnavíxlum iðnaðarins eða framleiðsluvíxlum iðnaðarins öðruvísi en tekin væri upp stórfelld og aukin frysting á sparifé, þá vil ég aðeins benda honum á þá staðreynd, að áður en þessi frysting sparifjárins var tekin upp, voru kaup Seðlabankans á afurðavíxlum miklu meiri en þau eru í dag. Á þeim árum, sem vinstri stjórnin fór með völd, hygg ég, að það sé rétt munað hjá mér, að Seðlabankinn hafi þá keypt afurðavíxla, sem námu allt að því 67% af verðmæti viðkomandi vöru. Í dag hygg ég, að Seðlabankinn kaupi ekki nema sem svari 55% svo að hans kaup á þessum víxlum hafa tiltölulega stórminnkað á þessum tíma, þrátt fyrir það að frysting sparifjár hafi verið tekin upp í stórum stíl á þessum árum, en ekki tekin upp í tíð vinstri stjórnarinnar. Ég held, að þetta sýni alveg fullkomlega, að það er ekkert samhengi þarna á milli og það er ekki minnsta þörf fyrir frystingu á sparifé, til þess að Seðlabankinn geti keypt afurðavíxla í mjög verulegum mæli, þar sem reynslan sjálf sýnir, að á þeim tíma, þegar engin frysting sparifjár átti sér stað í Seðlabankanum, var hann fær um að kaup afurðavíxla af atvinnuvegunum í miklu ríkari mæli en nú á sér stað.

Það er ekki annað en hreinn tilbúningur, að það sé eitthvert samband á milli þessa tvenns, frystingarinnar á sparifénu og kaupa Seðlabankans á afurðavíxlum. Það er bara kenning, sem hefur verið búin til í seinni tíð til þess að réttlæta frystinguna á sparifénu, — kenning, sem reynsla fyrri tíma hefur sýnt, að er algerlega röng. Og ég er líka alveg sannfærður um það, að ef svo færi, að þetta frv., sem nú liggur fyrir um aukna frystingu sparifjárins, næði fram að ganga, yrði það ekki til þess að bæta aðstöðu atvinnuveganna í þessum efnum, því að það mundi alveg augljóslega leiða af því, ef frysting sparifjárins yrði aukin og meira fé tekið af viðskiptabönkunum en nú á sér stað, að viðskiptabankarnir ættu miklu örðugra með að veita atvinnuvegunum þá fyrirgreiðslu, sem þeir veita þeim í dag, auk þess sem það mundi tvímælalaust leiða til þess, að þegar þannig yrði þrengt að viðskiptabönkunum og þeir gætu ekki haldið uppi eðlilegri bankastarfsemi, Því að það er alveg augljóst, ef á að taka 25% af því sparifé, sem kemur inn til þeirra, þá þrengjast þeirra starfsmöguleikar alveg stórkostlega, — þá verður það að sjálfsögðu til þess, eins og þegar er farið að bera á í vaxandi mæli, að þeir menn, sem þurfa á lánsfé að halda, hvort sem það er til framkvæmda eða af öðrum ástæðum, leita að sparifé utan við bankana, fara til einstaklinga og kunningja sinna, sem hafa sparifé með höndum, og fá þá til að lána sér. Þetta hefur þess vegna ekki önnur áhrif en þau, að spariféð kemur ekki inn í bankana og fer eftir einhverjum öðrum leiðum, sem eru að sjáifsögðu miklu óheilbrigðari en það, að spariféð gangi gegnum bankana. Þetta verður til þess að ýta undir alls konar lánastarfsemi, meira og minna óheilbrigða, utan við sjálfa bankastarfsemina í landinu. Ég er þess vegna alveg sannfærður um, að það er ekki hægt að gera annað verk, sem stuðlar meira að óheilbrigðri starfsemi bankamálanna í landinu heldur en auka frystingu sparifjárins frá því, sem nú er. En hitt mundi verða til þess að koma henni i miklu eðlilegra horf og svipaðra því, sem á sér stað í öðrum löndum, ef það yrði dregið úr frystingunni á sparifénu. Þess vegna er ég algerlega ósammála hæstv. viðskmrh. um, að það yrði til bóta fyrir atvinnuvegina að auka frystingu á sparifénu, heldur yrði það þvert á móti til þess að þrengja stórlega þeirra hlut frá því, sem nú er, því að þótt yrði gefið loforð um það, að Seðlabankinn keypti eitthvað meira af afurðavíxlum en nú á sér stað, þá mundi það aftur á móti þýða, að aðstaða viðskiptabankanna þrengdist svo mikið, að þeir neyddust til að veita atvinnuvegunum miklu minni fyrirgreiðslu en þeir gera í dag, auk þess sem þetta ýtti svo undir það, eins og ég áðan færði rök að, að spariféð mundi meira og meira leita að leiðum utan við sjálfa bankastarfsemina í landinu, fara meira og meira inn á svartamarkað, eins og hefur átt sér stað í vaxandi mæli að undanförnu og hefur hinar verstu afleiðingar í för með sér að mörgu leyti, því að við sjáum það t.d. á skýrslum núna, að sparifjárinnlög fara heldur minnkandi í bönkunum.

Af hverju er það, sem sparifjárinnlög fara minnkandi i bönkunum? Það er vegna þess að frysting sparifjárins í Seðlabankanum hefur þær afleiðingar, að viðskiptabankarnir geta ekki veitt sömu fyrirgreiðslu og þeir ella mundu gera. Og vegna þess að viðskiptabankarnir geta ekki veitt eðlilega fyrirgreiðslu, leita menn nú, bæði einstaklingar og fyrirtæki, í vaxandi mæli að lánsfé utan við bankastarfsemina og verður talsvert ágengt í þeim efnum, og þetta leiðir að sjálfsögðu til þess, að sparifjárinnlögin fara lækkandi í bönkunum. Ef við viljum raunverulega stuðla að því að auka sparifjárinnlögin í viðskiptabönkunum og stuðla að heilbrigðri bankastarfsemi í landinu, er ekkert ráð heilbrigðara og réttara í þeim efnum, heldur en draga úr sparifjárfrystingu Seðlabankans, gefa viðskiptabönkunum meira olnbogarúm til að halda uppi heilbrigðri bankastarfsemi, og það mundi sýna sig, ef þetta væri gert, að þá mundu sparifjárinnlögin aftur fara vaxandi í viðskiptabönkunum. Ég held því þess vegna fram, að það sé ekki hægt að hugsa sér meira óráð, sem mundi bitna harðar á atvinnuvegunum, jafnt iðnaðinum og öðrum atvinnugreinum, heldur en fara inn á það svið að auka frystingu sparifjárins frá því, sem nú er. Hitt er miklu vissara að mundi verða atvinnuvegunum að gagni, ef dregið yrði úr sparifjárfrystingunni og viðskiptabönkunum gefnar frjálsari hendur en nú á sér stað. Þess vegna er ég algerlega ósammála hæstv. viðskmrh. um, að það sé einhver leið til úrbóta i þessum efnum að auka sparifjárfrystinguna frá því, sem nú er. Og ég er líka víss um, að ef það væri heilbrigðari stjórn á bankamálunum en er í dag, þá væri nú, alveg eins og á árinu 1958, auðvelt að veita atvinnuvegunum 67% afurðalán í staðinn fyrir 55%, og það væri líka hægt að veita iðnaðinum meiri úrlausn en á sér stað, en að sjálfsögðu með því að breyta algerlega um stjórn og þá stefnu, sem nú á sér stað í þessum málum.