22.01.1964
Sameinað þing: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í D-deild Alþingistíðinda. (2898)

47. mál, afurða- og rekstrarlán landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því, sem hv. frsm. sagði í sambandi við þessa till. Það væri vitanlega æskilegast, að bændur gætu fengið sem mest og helzt allt greitt fyrir afurðirnar, um leið og þær væru afhentar. En eitt veit ég, að þótt fyrirtæki bænda, sem verzla með landbúnaðarvörur, ættu kost á því að fá 100% lán til þess að geta borgað 100% út, þá mundu þau ekki gera það af eðlilegum ástæðum. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkurt fyrirtæki, sem tæki vörur til sölumeðferðar, sæi sér fært nokkru sinni að greiða strax við afhendingu meira en 90%, fyrr en varan er seld og vitað, hvað fyrir hana kemur, jafnvel þótt þær verðtryggingar séu fyrir hendi, sem nú eru.

Það er rétt, að aðalfundir Stéttarsambands bænda hafa gert kröfur og borið fram óskir um aukin afurðalán. En það er ekki rétt, að það hafi aðeins verið núna síðustu ár, eins og hv. frsm, sagði, heldur er hitt rétt, að síðan farið var að halda aðalfundi Stéttarsambands bænda, frá því að þessi samtök voru stofnuð, hafa fundirnir borið þessar óskir fram af eðlilegum ástæðum. En árangurinn hefur ekki orðið meiri en þetta þrátt fyrir stjórnarskipti vegna margs konar erfiðleika á því að uppfylla þessar óskir og kröfur bændanna. Það er þess vegna ekkert nýtt í málinu, þótt bændur fái ekki 90% borgað út á afurðirnar nú, og það er ekki nýtt í málinu, þótt bændur fái ekki meira en 2/3 útborgað strax eins og nú, heldur hefur þetta verið þannig síðustu 20 árin a.m.k., að bændur hafa ekki fengið hærri útborgun út á afurðirnar strax heldur en þeir fá nú. Enda reynir hv. frsm. ekki að halda því fram, að útborgun til bænda nú síðustu árin hafi lækkað frá því, sem áður var, hann reynir það ekki, vegna þess að það væri algerlega rangt. Hitt er rétt, að afurðalánin í Seðlabankanum eru að prósentutölu lægri nú en þau voru um skeið. Þau voru um skeið 67%, en eru nú 55%. En þótt afurðalánin hafi lækkað, hefur lánastarfsemin ekki minnkað, því að til viðbótar við afurðalánin hafa viðskiptabankarnir lánað til þess, að stofnanir bændanna þyrftu ekki að lækka útborgun til þeirra frá því, sem verið hefur. Það er þetta, sem hefur gerzt. Og það er rétt, að síðan 1943, að lög um 6 manna nefnd urðu til, sem starfað hefur verið eftir í meginatriðum síðan, eru bændur skoðaðir sem nokkurs konar launþegar, þótt þeir séu framleiðendur, vegna þess að þeim er ætlað að bera ekki minna úr býtum en öðrum launþegum, þ.e. verkamönnum, sjómönnum og iðnaðarmönnum.

Nú hefur því verið haldið fram, að bændur væru jafnvel verst launaða stéttin í landinu, þrátt fyrir þessi ákvæði. Og þannig var þetta a.m.k. um skeið, á meðan bændur fengu ekki útborgað það verð, sem þeim var reiknað af 6 manna nefnd, vegna þess að bændur urðu að bera hallann af útflutningnum og grundvallarverðið náðist ekki. Þá voru þeir vitanlega verr settir að þessu leyti en þeir launþegahópar, sem kjör bændanna eru miðuð við. En þetta hefur farið batnandi síðari árin, eins og kunnugt er, síðan bændunum var tryggt grundvallarverðið með því, að ríkissjóður greiði nú þann halla, sem bændur báru áður.

Það má skipta bændum í 4 hópa í aðalatriðum, Þegar talað er um tekjur þeirra. Það er nokkur hópur, sem fær laun frá 200—250 þús., það er annar hópur, sem fær laun frá 150—200 þús., og svo er hópur, og allstór, frá 100—150 þús., en svo eru allt of margir bændur, sem eru með laun frá 40—100 þús. kr. Og það er þessi hópur bænda, sem býr vitanlega við bág kjör og liggur mest á að lyfta undir á einhvern máta og dregur vitanlega stórkostlega niður meðaltekjur bændastéttarinnar. En þetta er nú annað mál.

Hv. frsm. minntist hér á þau kjör, sem bændur í nágrannalöndunum búa við, t.d. það, að bændur í Danmörku og Noregi fái útborgað fullt verð við afhendingu varanna. Hvernig má nú þetta ske, t.d. í Danmörku, Þar sem mikið er flutt út, mjög mikið af landbúnaðarvörum, en útflutningsbætur eru sáralitlar miðað við það, sem hér er, þær eru mjög litlar. Þessi fullyrðing hjá hv. frsm. er alls ekki rétt, það stenzt ekki, vegna þess að mjólkursamlög og kjötsamlög danskra bænda geta ekki gert upp heildarverð til bóndans fyrr en vitað er, hvert jafnaðarverðið verður. Danskir bændur verða að bera hallann af útflutningnum að langmestu leyti og láta innanlandssöluna bæta þetta upp. Af því leiðir, að bændur geta ekki fengið fullt verð við afhendingu vörunnar, eins og hv. frsm. sagði hér áðan. Ég skal ekkert segja hv. þm. þetta til lasts, heldur það, að hann hefur ekki kynnt sér málið nógu vel, áður en hann kemur með þessa staðhæfingu hér í stólinn. En norskir bændur eru ekki betur settir að þessu leyti. Enda þótt það sé iðulega í norskum sláturhúsum, að bændur geta komið með nautgrip og selt hann og fengið hann borgaðan út í hönd, þá er þetta ekki sú almenna regla. En það er það vitanlega, sem máli skiptir í þessu efni.

Það hefur oft verið talað um það, að landbúnaðurinn búi við miklu verri lánskjör en t.d. sjávarútvegurinn. Þetta les maður iðulega um í Tímanum, og það er stutt síðan ég las um það í Tímanum, að útlán til Sambands ísl. samvinnufélaga gegnum afurðalánin hafi verið aðeins 8 millj. kr. hærri nú við síðustu áramót heldur en áramótin 1962—1963. Ég ætla ekkert að rengja þetta, vegna þess að mér er ekki kunnugt um það, að hve miklum hluta Sambandið tekur afurðalán. Ég veit, að það eru ýmis stór félagasamtök bænda, sem eru utan við Sambandið, og má þar t.d. nefna Sláturfélag Suðurlands, sem tekur sjálft sín afurðalán, KEA tekur sjálft sín afurðalán, Mjólkurbú Flóamanna, og þannig mætti telja væntanlega fleiri fyrirtæki. Ég ætla þess vegna ekki að halda því fram, að þessi upphæð sé röng. En ég vil af því tilefni benda á, að afurðalánin í heild hafa hækkað ákaflega mikið frá því í fyrra, að 30. nóv. 1962 voru heildarafurðalán 293 millj. 612 þús., en 30. nóv. s.l. voru afurðalánin 380 148 500 kr. eða nærri 90 millj. kr. hærri. Hverjir hafa fengið þessi afurðalán? Það skal ég ekkert segja um, en afurðalánin lækkuðu nokkuð í desember. 31, des. 1962 voru afurðalánin 290 millj. 352 þús., en 31. des. s.l. 350 milli. 422 þús., og það er vitanlega vegna þess að birgðirnar hafa lækkað í þessum mánuði. Það var flutt út mikið af kjöti fyrir áramót, og það hefur verið flutt út ákaflega mikið af mjólkurdufti og osti einnig á þessu hausti. En þetta sýnir það. að afurðalánin hafa hækkað frá því á árinu 1962. Og vegna þess að það hefur verið fullyrt, að sjávarútvegurinn fengi öðruvísi afgreiðslu í sambandi við afurðalánin heldur en landbúnaðurinn, hef ég gert fsp. til Seðlabankans, hvort þetta væri rétt, því að ef landbúnaðurinn fengi ekki nú sams konar fyrirgreiðslu og sjávarútvegurinn, hefði Seðlabankinn ekki staðið við sín fyrirheit, sem hann hefur gefið, að landbúnaðurinn skuli njóta ekki lakari afgreiðslu. Og hér er bréf, dags. 11. des., frá Seðlabankanum, þar sem tekið er fram, hvernig þessi lán eru framkvæmd, og ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv forseta — að lesa þetta bréf unn, vegna þess að það skýrir málið:

,.Í bréfi hins háa ráðuneytis, dags. 10. þ.m., er beðið um skýringar á því, sem fram hefur komið í umr. á Alþingi, að afurðalán Seðlabankans nemi 55% af verðmæti sjávarafurða, en 53%a af verðmæti landbúnaðarafurða. Öll afurðalán Seðlabankans byggjast á svokölluðu skilaverði afurða, en það er reiknað út á eftirfarandi hátt:

Skilaverð landbúnaðarafurða, sem fara í innanlandsölu, er skrásett heildsöluverð hjá framleiðsluráði landbúnaðarins, að frádregnum opinberum gjöldum, sem nema um 2.2%. Skilaverð útfluttra landbúnaðarvara er fob: verðmæti þeirra að frádregnum opinberum gjöldum, 1.6%, auk umboðslauna til söluaðila. Skilaverð sjávarafurða er fob: verðmæti þeirra að frádregnum opinberum gjöldum, 7.4%, og umboðslaunum til söluaðila,

Af framangreindu má ráða, að umrædd fullyrðing, sem komið hefur fram á Alþingi, er á misskilningi byggð og röng, þannig að lánin eru afgreidd með sama hætti, bæði til sjávarútvegs og landbúnaðar.“

Hitt er svo annað mál, og það geta menn vitanlega rætt um, að það sé nauðsynlegt, að þessi lán séu hærri, og ég vil taka undir það. Ég vil taka undir það, að það er æskilegt, að bændur geti fengið sem mest greitt út á afurðirnar og sem fyrst. Ég vil taka undir það, að það væri hægt að greiða til bænda 90% við afhendingu vörunnar, og ég tel, að það sé ekki óeðlilegt, að það verði stefnt að þessu marki. En eins og ég sagði í byrjun máls míns, hafa kröfur frá bændasamtökunum verið gerðar í þessa átt í 15-20 ár, og þetta hefur ekki tekizt enn. Og mér dettur ekki í hug að halda, að það sé af viljaleysi. Það hefur ekki tekizt enn að borga bændum meira en sem svarar 2/3 stuttu eftir afhendingu vörunnar, og það tókst ekki heldur á meðan í stjórn voru flokksbræður hv. frsm. Og ég gæti verið sammála hv. frsm., ef hann segði: Mínir flokksbræður gerðu það, sem í þeirra valdi stóð til þess að leysa þetta og bæta úr þessu, en það tókst ekki vegna margs konar erfiðleika, sem í vegi voru. — Og úr því að við getum nú verið sammála um það, ég og hv. frsm., að vegna erfiðleika hafi ekki verið hægt að bæta úr þessu, meðan framsóknarmenn voru í ríkisstj., þá væri ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að ég gerði þá kröfu til hv. frsm. og þeirra 8 hv. flm. að þessari till., að þeir gerðu sér grein fyrir því, að það gætu jafnvel verið erfiðleikar á því núna að bæta úr öllu því, sem þeirra ríkisstj. gat ekki leyst, og nú er það svo, eins og kunnugt er, að Seðlabankinn getur ekki veitt meiri lán en sem svarar því fjármagni, sem hann hefur yfir að ráða hverju sinni. Og nú er vitað, að að því er stefnt, að fjármagn Seðlabankans geti aukizt. til þess fyrst og fremst að auka útlánin til atvinnuveganna.

Í þessari till. er ekki rætt aðeins um Seðlabankann, heldur ríkisbankana, og af því má ráða, að hv. flm. ætlast til, að bað komi peningar úr þeirri átt heldur en frá Seðlabankanum einum, og mér finnst það mjög skynsamlegt að gera sér grein fyrir því, að það verður ekki hægt að gera þá kröfu til Seðlabankans eins að hann leysi þetta. Ég mundi þess vegna segja. að eins og þetta mál hefur verið á dagskrá í áratugi, þá muni það ekki síður vera á dagskrá hjá núv. ríkisstj., að auka útlánin til höfuðatvinnuveganna, til þess að létta undir rekstri þeirra og skapa vaxandi möguleika til aukinnar framleiðni og vaxandi framleiðslu. Þetta hlýtur að vera markmiðið að gera og það er ekki síður takmark þessarar ríkisstj. heldur en þeirra, sem á undan hafa verið, og ég geri alveg ráð fyrir því og reyndar veit það. að hv. framsóknarmönnum, þótt þeir flytji þessa till.. þá dettur þeim ekki í hug, að það verði mögulegt að borga 100% út á afurðirnar og ekki heldur að svo stöddu 90%. En þetta eru frómar óskir og frá sjónarmiði bændanna og þeirra, sem vilja fyrir þá vinna, ekkert óeðlilegt, þótt þær komi fram og þær séu ræddar af fullri hreinskilni og skilningi og viðurkenningu á beim erfiðleikum, sem ekki eru aðeins núna, til þess að leysa úr þessu, heldur hafa alltaf verið.