20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

1. mál, fjárlög 1964

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það var á fyrstu dögum þessa vetrar, sem við þm. úr Norðurl. v. fengum sendibréf norðan frá Siglufirði, frá bæjarstjóranum þar, í þessu bréfi skýrir hann okkur frá samþykkt, sem gerð hafi verið á fundi bæjarstjórnar Siglufjarðar 29. okt. í haust, og hún fól í sér áskorun til þm. úr kjördæminu um að beita sér fyrir því, að fjárveiting ríkisins til hafnarframkvæmda í Siglufirði á fjárl. ríkisins 1964 verði ekki undir 2 millj. kr. Í bréfi bæjarstjórans er frá því skýrt og færð rök fyrir því, að það sé mikil þörf fyrir þetta fé. Í fyrsta lagi telur hann, að nauðsynlegt sé að vinna að áframhaldandi uppbyggingu innri hafnarinnar, sem svo er nefnd. Í hana sé þegar komið stórfé og nauðsynlegt sé að koma því sem fyrst í arðbæra notkun. Þá er í öðru lagi endurbygging öldubrjótsins, sem sé ónýtur orðinn og hafi verið önnur aðalupp- og útskipunarbryggja kaupstaðarins. Og svo nefnir hann í þriðja lagi lokaátakið í endurbyggingu hafnarbryggjunnar, en allt eru þetta verk, sem þarfnast mikilla fjármuna, en hafa mjög mikla þýðingu, öll þessi hafnarmannvirki, fyrir Siglufjarðarbæ.

Ég geri ráð fyrir því, að Siglfirðingar hafi orðið fyrir vonbrigðum, þegar fréttist um till. hv. fjvn. um fjárframlög til hafnarinnar þar, því að þar var lagt til, að veittar yrðu aðeins 600 þús. kr. í þetta, og segir það lítið til að mæta þörfinni. Þetta var samþykkt við 2. umr. Fjárveitingin í hafnarmannvirki og lendingarbætur er nú, ef ég man rétt, á frv. 17 millj. 550 þús., og þessu hefur hv. nefnd skipt á milli rúmlega 50 staða. Og þar fær engin höfn meira en 700 þús. kr., það er hámarkið. Nokkrir staðir fá þá upphæð. Við 2. umr. bar hv. 5. landsk. þm. fram brtt. viðkomandi Siglufjarðarhöfn, aðaltill. og varatill., um verulega hækkun á framlagi þangað. Till. voru báðar felldar. En rétt þykir nú, þó að ekki blási byrlega fyrir þessu hagsmunamáli Siglfirðinga, að gera smátilraun til að fá ofur litla hækkun á þessu framlagi, og því er það, að við þrír þm. Norðurl. v., ég ásamt þeim hv. 3. og hv. 5. þm, kjördæmisins, höfum leyft okkur að bera fram brtt. um þetta efni á þskj. 178. Við leggjum þar til, að fjárveitingin verði hækkuð um 100 þús. kr., það er ekki meira, sem við förum fram á, úr 600 þús. í 700 þús., þannig að Siglufjörður komist í hæsta flokkinn. Við teljum, að hann verðskuldi þetta fyrir margra hluta sakir, sá ágæti staður, að vera þarna í efsta flokki með 700 þús. kr., og við gerum okkur nokkrar vonir um, að hv. alþm. geti á þetta fallizt.

Fleiri brtt. eru það ekki, sem ég hef hér til að mæla fyrir, og mundi litlu breyta um útkomuna á fjárl., þótt á hana væri fallizt, þessa einu.

Hæstv. fjmrh. flutti hér ræðu fyrir fáeinum mínútum. Hann brá sér þá til Svíþjóðar. Líklega eru stjórnarhættir þar nokkuð öðruvísi en hér á landi um þessar mundir. Þeir leggja ekki eins mikið kapp á það, Svíarnir, að ná jafnvægi í efnahagsmálum með gengisfellingum og hækkandi álögum í ótal myndum eins og íslenzka ríkisstj. Trúlega telja Svíar sér ekki til hagsbóta að taka íslenzku ríkisstj. til fyrirmyndar, og íslenzka ríkisstj. telur sig víst ekki heldur þurfa að læra neitt af Svíum. Það er nú eiginlega heldur lakara fyrir okkur. En meðan svona stendur, sýnist þýðingarlítið að reyna að gera samanburð á stjórnarháttum þessara tveggja þjóða, meðan hvorug vill taka hina til fyrirmyndar.

Það var mikill völlur á hæstv. fjmrh. fyrst eftir að hann kom í ríkisstj. Manni skildist af ræðum hans á þingi um fjármál, að nú ætti að renna upp ný öld sparnaðar og hagsýni í ríkisrekstrinum á öllum sviðum. Hann talaði um, að koma þyrfti á fót hagsýslustofnun, sem hann nefndi svo. Og þetta mun hafa verið gert. En í ræðu sinni hér í dag sagði hæstv. ráðh., að því miður hefði verið lítill skilningur hjá stjórnarandstöðunni á nýtízkulegum hagsýsluvinnubrögðum. Honum þótti þetta miklu miður. Hann sagði, að það hefði verið farið inn á nýjar brautir hin síðari ár, unnið í kyrrð og ró, ekki með hraða, en að staðaldri. Og hann sagði, að eðli hagsýslunnar væri það, að hún væri seinunnin.

Hæstv. ráðh. var með nokkurn samanburð á útgjöldum fjárl. fyrr og nú í ræðu sinni hér í dag. Ég geri ráð fyrir, að við séum sammála um það, þm., að það skipti miklu máli, ef hægt er að spara í ríkisrekstrinum, og ýmsir hafa sennilega gert sér góðar vonir um, að það yrði gert undir stjórn núv. hæstv. fjmrh. Þeir hafa byggt þessar vonir á því, hvernig hann talaði í upphafi sinnar ráðherratíðar. Sjálfsagt höfum við verið sammála um, að það, sem mestu máli skiptir í þessu sambandi, sé, ef það sé hægt að spara eitthvað við stjórn á ríkisbúskapnum, sjálfa yfirstjórnina. Menn vilja fá, sem eðlilegt er, sem mest af ríkisfé til nauðsynlegra framkvæmda, það er allt annað mál, en hitt skiptir afar miklu, að það sé gætt hagsýni og reynt að spara, eftir því sem unnt er, í stjórn á þessu stóra búi.

En hvernig hefur þá til tekizt fyrir hæstv. ráðh. og hans hagsýslu á undanförnum árum í þessu efni? Ég gerði það nú í kvöld hér undir umr., að ég fór að athuga fjárl. nokkur síðustu árin, og ég tók aðeins eina grein fjárl. til athugunar, það er 10. gr. Þar er fært það fé, sem veitt er til ríkisstj., og það er í tveimur aðalliðum, það er stjórnarráðið og utanríkismál. Það hefði verið fróðlegt að taka líka næstu gr. á fjárl., sem er 11. gr., hún er mjög skyld þessari að því leyti, að þar er lærður stjórnarkostnaður á þjóðarheimilinu. Þar er kostnaður við dómgæzlu og lögreglustjórn og skattaálögur og skattainnheimtu og annað slíkt. En mér gafst nú ekki tími til þess í kvöld, það mætti gera þetta síðar. En ég athugaði, hvernig þetta væri með 10. gr., kostnaðinn við ríkisstj. undanfarin ár samkv. fjárl.

Fyrst er frá því að greina, að árið 1958 voru fjárveitingar á þessari grein 25.3 millj. Þá var ég búinn að bæta þar við nokkurri upphæð, sem á því ári var færð á 17. gr. fjárl., það voru vissir liðir viðkomandi utanríkismálum, sem síðan hafa verið færðir á 10. gr., og ég bætti þeim þarna við, til þess að samanburðurinn væri réttur. Þetta voru 25.3 millj., sem fóru til ríkisstj. 1958 samkv. fjárl. fyrir það ár. 1939 hækkar þetta upp í 31.3 eða um 6 millj. Og svo kemur nú hæstv. núv. fjmrh. til skjalanna, og á fyrsta ári hans, 1960, hækkar þetta á fjárl. um tæpar 11 millj., upp í 42, þessi grein. En svo skeður nú það merkilega á næsta ári, að 1961 nær hann ekki alveg sínu fyrra meti, því að þá er upphæðin á fjárl. til ríkisstj. 230 þús. kr. lægri en árið áður, árið 1960. En þetta breyttist nú fljótlega aftur, því að 1962 er þessi gr. fjárl. komin upp í 48.7 millj, og 1963, á því ári, sem nú er bráðum búið, er þessi gr. á fjárl. 50.7 millj. Svo fer nú heldur að kárna gamanið. Ég var að athuga fjárlfrv. nýja núna eftir 2. umr., og ég tók þar með till. til breyt. á 10. gr., sem hv. fjvn. hefur lagt fram og reiknar nú með að verði samþykktar á morgun, og verði það gert, þá er þessi gr. komin upp í 68.2 millj. Þannig lítur þetta þá út: 25.3 millj. 1958, 68.2 1964, þessi eina gr. á fjárl., kostnaðurinn við stjórn ríkisins, stjórnarráðið og utanríkismál.

Já, hann segir, að hagsýslan vinni ekki með hraða, en að staðaldri. Hún nuddar þetta jafnt og þétt, en ég verð nú að segja það, að mér finnst hraðinn hafa verið alveg nógur á þessu upp á við. Mér finnst það fyrir mitt leyti.

Hæstv. ráðh. virðist, ef dæma má eftir orðum hans hér í dag, bera mjög fyrir brjósti þá fátæku um þessar mundir og þá, sem hafa lágar tekjur. Það kom fram í ræðum hans báðum hér í dag. Hann finnur niðurgreiðslunum það til foráttu m.a., að þeir ríku og hátekjumenn njóti þeirra eins og hinir. En hvernig var með skattalagabreytinguna, sem hæstv. ráðh. beitti sér fyrir, skömmu eftir að hann kom í ríkisstj.? Fyrir hverja var breyt. á tekjuskattslögunum gerð? Var hún fyrir þá fátæku og lágt launuðu? Nei, þeir fengu ósköp lítið í sinn hlut af tekjuskattslækkuninni. Hinir fengu margfalt meira. Þeir ríku fá hins vegar ekki meira af niðurgreiðslunum en hinir fátæku. Þeir fá jafnmikið, en ekki meira. Það er nokkuð mikill munur, finnst mér, á þessu tvennu. Já, hæstv. ráðh. vill fara að vinna fyrir þá fátæku og lágt launuðu, og hann sagði m.a. í ræðu sinni áðan, að þarna væri verkefni fyrir hagsýslu að finna ráð til að hlynna að þessum, sem lakar væru settir í þjóðfélaginu. Já, þetta væri ágætt verkefni fyrir hans hagsýslustofnun. En ég er bara svo óskaplega hræddur um það, að þarna komi þá fram náttúra hagsýslunnar, sem hann var að lýsa fyrr í dag, að hún sé ósköp sein í svifum og vinni ekki með neinum hraða. Ég er hræddur um, að það komi í ljós, gægist þar fram það eðli hennar, þegar hún á að fara að vinna fyrir þessa fátæku og lágt launuðu.