05.02.1964
Sameinað þing: 38. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í D-deild Alþingistíðinda. (2945)

72. mál, rafvæðingaráætlun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að þessi áætlun, sem raforkumálastjóri sendi mér s.1. haust, hefur ekki verið birt, er aðeins sú, að eins og stendur í bréfi raforkumálastjóra, er þetta lausleg áætlun hjá honum, sem hann hefur talið að þyrfti að endurskoða. áður en hún yrði birt. En þetta er ekkert leyniplagg. Það getur ekki verið neitt leyndarmál, hvað þarna er unnið að, en það þykir ekki eðlilegt að birta frumdrög að áætlun. sem e.t.v. á eftir að breytast mjög mikið. Það er rétt, að raforkumálastjóri gerði ráð fyrir því, að áætluninni yrði lokið 1963. Það varð bara ekki. Endanleg áætlun lá ekki fyrir, og þeir hafa verið að vinna að þessu enn á raforkumálaskrifstofunni. Eins og ég sagði áðan, er trúlegt, að það geti orðið fyrir lok marz n.k., það er mjög trúlegt, að þá verður vitanlega áætlunin birt.

Eins og ég sagði áðan, hefur verið unnið að því að gera áætlun um, hvað kostaði að leggja rafmagn frá samveltum til býla, sem eru með 2 km fjarlægð eða allt að því, en það hefur ekki verið unnið að því að gera áætlun um samveltur milli þeirra bæja, sem hafa meiri vegalengd en það. Hins vegar ætti að vera fljótlegt og það er sjálfsagt að verða við þeirri ósk að gera sér grein fyrir því, hvað það kostaði að miða fjarlægðina við 21/2—3 km. Það ætti ekki að vera svo mjög seinlegt og sízt af öllu þegar það kort, sem ég áðan nefndi, er til og bæirnir taldir þar upp. Kortið er vitanlega gefið út í einhverjum ákveðnum mælikvarða, og þá er hægt að mæla vegalengdina. En það er hins vegar vitað mál, að hver km í línum kostar um 90-100 þús. kr. Hv. frsm. sagði hér áðan, að það mætti vinna að þessu á ódýrari hátt en raforkumálastjórnin hefur látið gera, með því t.d. að bjóða það út. Ég er nú yfirleitt því fylgjandi að bjóða út verk, en ég efast mikið um, að það sé framkvæmanlegt að bjóða út línulagnir fyrir rafmagnsveitur, því að það er áreiðanlega betra, að það séu engir viðvaningar, sem að því vinna. Það verður að gera það vel, og það verður að vanda það, og ég hef nú heyrt allt annað um það, hvernig hefur gengið að leggja þessar línur, heldur en það, sem hv. frsm. sagði hér áðan. Ég hef heyrt orð fara af því, að þessir línuflokkar, sem eru orðnir mjög vanir þessum störfum, vinni hratt og það gangi vel hjá þeim. Og það eru alltaf sömu mennirnir, sem eru hafðir í þessu, þeir eru orðnir vanir þessu og vinna þetta miklu fljótar og betur en þeir gerðu, þegar þeir voru ávanir, og það hefur verið lögð áherzla á, að það þyrfti ekki að vera að skipta um menn í þessu, heldur væri hægt að halda þeim mannskap, sem er orðinn æfður í að vinna þessi verk.

Það er raunar ekki meira um þetta að segja. Það ber í rauninni ekkert á milli mín og hv. frsm. um það, hvort leggja beri áherzlu á að flýta rafvæðingunni eða ekki. Við erum ábyggilega sammála um það. En ég tel, að það sé eðlilegt á hinum næsta áfanga að miða við vegalengdina 2 km og þeir bæir, sem hafa meiri vegalengd, fái dísilstöðvar, en síðar verði að því unnið, þegar frá líður, að tengja fleiri og fleiri býli, eftir því sem mögulegt er, og ég ætla, að hv. frsm. sé ekki fjarri því að hafa svipaða skoðun á þessu og ég.