20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

1. mál, fjárlög 1964

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér hafa verið haldnar þær ræður, m.a. af ráðh., hæstv. samgmrh. og hæstv. fjmrh., sem ástæða væri til að svara. En nú er liðið nokkuð yfir miðnætti, og ég hef þar að auki undanfarnar nætur vakað meira en sofið og þm. vilja gjarnan fara að ljúka þingstörfum fyrir jólin, svo að sennilegt er, að réttara sé að fara ekki mikið út í að svara þessum ræðum, sem þó ættu það meira en skilið. Ég mun því fyrst og fremst í þetta sinn mæla hér fyrir nokkrum till., sem allar snerta umbótamál í Vestfjarðakjördæmi, en þessar till, flyt ég ásamt þeim hv. 1. þm. Vestf., Hermanni Jónassyni, og hv. 3. þm. Vestf., Sigurvin Einarssyni. Þeir hafa nú þegar mælt fyrir þeim till., sem þeir eru fyrstu flm. að, og mun ég nú fara nokkrum orðum um þær till. á þskj. 185, sem ég er 1. flm. að.

Þarna er fyrst till. við 13. gr. C, þ.e.a.s. um hafnarbætur, og snertir till. Ísafjörð. Það er kunnugt, að Ísafjarðarhöfn er frá náttúrunnar hendi ein af beztu höfnum landsins. Ísafjarðarpollur hefur verið viðurkenndur sem ein bezta og fegursta höfn frá náttúrunnar hendi. En það eitt nægir ekki, hafnir eru meira en geymslustaðir skipa. Hafnir eiga að vera búnar út til þess að veita þjónustu atvinnulífinu, og vegna þess verður jafnvel á stað eins og á Ísafirði að byggja dýr og mikil hafnarmannvirki. Á undanförnum árum hefur á Ísafirði verið unnið að mikilli stækkun á bátahöfninni og byggður þar mikill hafnarbakki og framkvæmd mikil dýpkun bátahafnarinnar. Ísafjörður á mikinn og góðan fiskiskipaflota og Ísafjörður er mesti verzlunarstaður og einn af mestu útgerðarstöðum á Vestfjörðum. Að þessari höfn ber því vel að búa. Á fjárlfrv. núna eru 450 þús. kr. til Ísafjarðarhafnar. En allmörg smákauptún víðs vegar um landið hafa fengið ekki aðeins þá upphæð núna á fjárl. til hafnarbóta hjá sér, heldur miklu hærri upphæðir. Ég tel, miðað við þær framkvæmdir, sem þarna hafa verið unnar á undanförnum árum og verður að vinna í framhaldi af því til umbóta í Ísafjarðarhöfn, fjarri lagi að veita ekki hærri upphæð til þessara nauðsynlegu mannvirkja, sem standa þarna undir miklum framleiðsluverðmætum. Og leggjum við því til, að framlag til Ísafjarðarhafnar verði 700 þús. kr. í stað 450 þús.

Í annan stað leggjum við til, að fjárveiting til Patreksfjarðarhafnar verði 550 þús. kr. í staðinn fyrir 300 þús. kr., sem nú er lagt til að þessi fjárveiting verði á fjárl. ársins 1964.

Á Vatneyri við Patreksfjörð hefur verið byggð höfn með sérstökum hætti. Það hefur verið grafinn inn í hina svokölluðu Vatneyrartjörn skipgengur skurður, og síðan var ætlunin að grafa upp Vatneyrartjörnina og byggja þar hafnarbakka og myndarlega hafnaraðstöðu. Þetta verk er nokkuð á veg komið og höfnin tekin í notkun fyrir alllöngu, en þó er langt frá því, að þetta mikla hafnarmannvirki sé fullgert. Það er líklega sanni nær, að verkið sé tæplega hálfnað. Bygging slíkrar hafnar, sem þarna hefur verið ráðizt í, kostar vitanlega tugi millj., en sum undanfarin ár hafa samt verið ætlaðir nokkrir tugir þús. kr. til umbóta í Patreksfjarðarhöfn. En nú er nokkuð bætt úr frá því, sem var á síðustu 2 árum, er Patreksfjarðarhöfn eru ætlaðar 300 þús. kr. Við teljum þetta allt of lága upphæð og leggjum til, að Patreksfjarðarhöfn fái 550 þús. kr., og er sú upphæð þó margsinnis of lág.

Þriðja till. okkar er um fjárveitingu til Suðureyrarhafnar við Súgandafjörð. Suðureyri er mikil útgerðarstöð. Þar býr harðduglegt fólk. Þeir eiga, Súgfirðingar, mikinn og góðan fiskiflota, en hafnaraðstaðan hefur verið þar mjög erfið. Fjörðurinn er stuttur og liggur fyrir opnu hafi, og bátaflotinn hefur verið þar undir áföllum vegna lélegra hafnarskilyrða. Nú fyrir tveim árum réðust Súgfirðingar í það að grafa innanvert við Suðureyri bátahöfn, og er því verki langt komið. Þetta hefur kostað margar millj., og er þó eftir, svo að fullgerð sé þessi bátahöfn, að leggja til þess mannvirkis margar millj. í viðbót. Skuldir hvíla þungt á þessu tiltölulega fámenna plássi vegna hafnarinnar, og ríkissjóður þarf því að gera sitt ýtrasta til, að þessu mannvirki verði lokið á fáum árum. svo að full not verði af hinu dýra mannvirki. Á fjárl. er núna till. um, að Suðureyrarhöfn fái 200 þús. kr. Við leggjum til, að þarna verði fjárveitingin 600 þús., og er það áreiðanlega sízt um of djúpt í ár tekið. Ég hef fylgzt með því, að síðan Súgfirðingar urðu að hætta áframhaldi þessarar mannvirkjagerðar, hefur sá hluti verksins, sem lokið var, orðið fyrir stórkostlegum skemmdum og heldur áfram að skemmast, ef ekki verður hægt að ganga þar betur frá hafnargörðum. 200 þús. kr. eru því hláleg upphæð til mannvirkis eins og Súgandafjarðarhafnar og kemur að litlu gagni, er naumast hægt að firra þann hluta verksins, sem þegar hefur verið unnin, skemmdum og sköðum.

Þá er fjórða till. okkar um hafnarbætur á Tálknafirði. Á seinustu árum hefur vaxið upp myndarlegt þorp innan við Sveinseyri í Tálknafirði. Þar hafa verið byggð hafnarmannvirki, sem líklega eru hvergi á Íslandi eins myndarleg miðað við mannfjöldann, sem þarna býr. Þarna hefur verið komið fótum undir mjög myndarlegan fiskveiðiflota. Byggðin hefur aukizt ört, svo að einsdæmi er á Vestfjörðum. Allt hefur verið þarna byggt frá grunni. Þarna voru, þegar ég var ungur maður, aðeins þrír sveitabæir, innra Tunguþorpið svokallaða, en nú er þetta myndarleg útgerðarstöð. En þrátt fyrir þessar eindæma miklu hafnarframkvæmdir í Tálknafirði eru nú ætlaðar til þeirra aðeins 100 þús. kr., og það fer ekki mikið fyrir 100 þús. kr. í hafnarmannvirkjum. Það hljóta allir þeir að vita, sem nokkuð fylgjast með kostnaði við gerð slíkra mannvirkja. 100 þús. kr. eru smápeningur. Við leggjum til, að Tálknafjarðarhöfn fái 550 þús. kr.

Þannig stendur á á Þingeyri við Dýrafjörð, að þar er trébryggja, sem tekin er að hrörna, þannig að hún getur ekki talizt örugg fyrir bátana á Þingeyri, og hefur nú um sinn verið framkvæmdur undirbúningur af sérfræðingum til þess að gera þar varanleg hafnarmannvirki, sem áætlað er að kosti mjög margar millj. kr. Hafnarnefnd Þingeyrar kom á liðnu ári til fundar við Vestfjarðaþm. og lagði þá uppdrætti og áætlanir vitamálastjórnar fyrir þm. og gerði þeim grein fyrir mannvirkinu og fjárhagsaðstöðu sinni til byrjunarframkvæmda, og var það álit Vestfjarðaþm. þá, að sjaldan hefði verið betur farið af stað með að búa sig að heiman með fjármagn til fyrsta áfanga eins og þeir höfðu gert þarna Þingeyringarnir. Enn þá eru þeir ekki komnir af stað með þessa miklu hafnarframkvæmd, sem þeir hafa látið undirbúa og áætla af sérfræðingum, en nú hyggjast þeir hefjast handa, og þeir fá það svar nú í sambandi við afgreiðslu fjárl., að til þessa margmilljóna mannvirkis skuli þeir nú fá 300 þús. kr. Þetta teljum við langt um of lítið og leggjum til, að það verði 500 þús., sem ætlað verði til þessa verks, og vitum við þó, að það hefði þurft að veita miklu, miklu meiri aðstoð.

Hér hef ég nefnt sex hafnarstaði á Vestfjörðum, útgerðar- og fiskihafnir, sem skila miklum aflafeng og verðmætum í þjóðarbúið. Það hefur verið tekið eftir því, að til þessara sex hafna eru samtals nú á fjárl. ætlaðar 1 millj. 450 þús. kr., til sex hafna, þeirra sem ég nú hef nefnt, fimm, Ísafjarðar, Patreksfjarðar, Suðureyrar, Tálknafjarðar og Þingeyrar, og Drangsneshafnar, sem hv. 1. þm. Vestf. ræddi hér um áðan. Hvað er milljónin á okkar dögum? sagði fjáraflamaður einn fyrir fáum árum. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að hún væri orðin lítil, hún væri ekki stór peningur, og 1 millj. 400 þús., tæplega hálf önnur millj., til byggingar eða umbóta á sex höfnum, það er ekki stór upphæð. Það er alger misskilningur, ef menn halda, að það sé hægt að vinna nein stórvirki með slíku fjármagni. Og þó verður ekkert um það deilt, að Vestfirðirnir þurfa vissulega umbætur í vegamálum sínum, samgöngum, en undirstaðan undir öllu atvinnulífi þeirra eru hafnirnar, og vil ég segja, að framlög til hafna á Vestfjörðum, það er það, sem mest kallar að, og til þess duga engir smáaurar, því að þessar hafnir eru á byrjunarstigi sem hafnir að öðru leyti en því, að þær leggja til góð náttúruskilyrði. Hér þarf miklu við að bæta. Samkv. okkar till. hækkar þessi upphæð til þessara nefndu sex hafna þannig, að heildarupphæðin yrði 3 millj. 350 þús. eða að meðaltali rúmlega hálf millj. á hverja þeirra. En samkv. till., sem nú eru gerðar um þetta á fjárl., er meðaltalsupphæðin 240 þús. á hverja höfn.

Þá flytjum við hér enn eina smátill, viðvíkjandi hafnarmálum á Vestfjörðum. Það er breyt. á liðnum: ýmsar hafnargerðir. Sá liður er nú á fjárlagafrv. 100 þús. kr. Leggjum við til, að hann verði 500 þús. kr. og aftan við hann bætist: Þar af 350 þús. kr. til byggingar fiskihafnar við Hreggsstaði á Barðaströnd (fyrsti áfangi) 350 þús. — Á Barðaströndinni er engin höfn. Þar eru engin hafnarmannvirki. En fiskimið Breiðfirðinga og Vestfirðinga liggja þannig, að höfn á Barðaströnd væri mjög mikils virði, ekki aðeins fyrir breiðfirzka fiskimenn, heldur engu síður fyrir fiskimenn af Vestfjörðum. Þeir þurfa oft, Vestfirðingarnir, að sækja suður fyrir Látrabjarg á Breiðafjarðarmiðin, sem eru mjög fiskisæl, og þeim væri oft mikið öryggi í því að geta leitað hafnar við Breiðafjörð, þannig að þeir þyrftu ekki að leggja í Látraröst og taka siglingu heim í hinum verstu veðrum. En slík höfn er ekki fyrir hendi. Fyrst og fremst yrði þó slík hafnargerð þarna á Barðaströndinni nálægt Hreggsstöðum hugsuð sem grundvöllur að útgerð fyrir fólk, sem þar býr, eða fólk, sem tæki sér þar bústað, þegar þessi skilyrði væru fyrir hendi, miðað við hin góðu fiskimið, sem þarna eru fyrir utan, en ég hef þegar bent á, að slík höfn hefði einnig mikla þýðingu sem öryggishöfn fyrir Vestfjarðafiskiflotann. Það er því ekki að efa, að þetta mannvirki, sem þarna er lagt til að fái 350 þús. kr. fjárveitingu til byrjunaráfanga, á rétt á sér og hefði þýðingu fyrir marga útgerðarstaði á Vestfjörðum. Menn hafa oft talað um, að það sé þörf á því, að góð öryggishöfn væri sunnan til á Snæfellsnesinu, ekki sízt vegna skipa, sem gerð séu út norðan Snæfellsness. En þetta er engu síður staðreynd að því er snertir sjósókn af Vestfjörðum suður fyrir Látrabjarg, suður fyrir Bjargtanga og á Breiðafjarðarmiðin. Það er mjög mikilsvert fyrir þá að eiga aðgang að öryggishöfn þarna utanvert við Breiðafjörð norðanverðan.

VIII. liðurinn á þskj. 185, sem við flytjum, er varðandi jarðhitarannsóknir á Vestfjörðum. Ég hef fengið hjá raforkumálastjóra skýrslu um jarðhitarannsóknir á Vestfjörðum, og á henni má sjá, að það eru til 130 staðir á Vestfjörðum, þar sem jarðhiti hefur verið mældur af raforkumálastjórninni. Á sumum þessum stöðum er mjög mikill jarðhiti og allmikið vatnsmagn, en á öðrum stöðum minna, og sumir þessara staða liggja nálægt þéttbýli og gætu þannig haft mikla þýðingu fyrir byggðirnar á Vestfjörðum. Þekktustu jarðhitasvæðin á Vestfjörðum eru á Reykhólum á Barðaströnd og á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, en sem sé, mældir hitastaðir á Vestfjörðum eru um 130. Í námunda við Bolungarvík er heit laug. Í námunda við Súgandafjörð er heit laug. Í námunda við hið nýja þorp í Tálknafirði eru heitar laugar. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur og aðkallandi, að rannsókn fari fram á þessum stöðum og jarðboranir verði framkvæmdar, einkanlega á hitastöðunum, sem eru í námunda við þéttbýli, til þess að þessi náttúruauðæfi verði nytjuð. Jarðhitasjóði eru nú á þessu fjárlfrv. ætlaðar 7 millj. 200 þús. kr. í tekjur, og leggjum við til, að til jarðborana á Vestfjörðum verði af þessari upphæð varið 2 millj. kr., og það er a.m.k. skoðun mín, að þarna ætti að byrja á þeim jarðhitastöðum, sem liggja í námunda við kauptún á Vestfjörðum.

Ég vil vænta þess, að þessar till., sem ég hef nú gert grein fyrir, njóti skilnings hv. alþm. Þær miða allar að því að treysta grundvöllinn að atvinnulífi Vestfirðinga og nytja verðmæti, sem nota ber í þjónustu fólksins, sem þar býr.

Þá hef ég með þessum orðum, sem ég nú hef sagt, gert grein fyrir þeim brtt., sem ég er aðalflm. að. En þá vil ég þessu næst leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir þann skilning, sem hún hefur sýnt framkvæmdum, sem eru á vegum A.S.Í. á þessu fjárlagafrv. eru ætlaðar 750 þús. kr. a.m.k., eins og stendur í frv. og tekið var fram í framsöguræðu hv. formanns fjvn., til orlofsheimilahverfis þess, sem A.S.Í. er að byggja nú austur í Árnessýslu. Þetta orlofsheimilahverfi verkafólks er hugsað þannig, að þar verði þurrkaðir og ræktaðir 12 ha. lands, þar verði byggð vatnsveita, skolpveita og hitaveita og byggð þar um 35 hús, 32 þeirra smáhýsi til dvalar fjölskyldum og einstaklingum í sumarleyfi sínu og 3 allstórar byggingar. Þetta orlofsheimilahverfi mun kosta, eftir því sem nú er áætlað, eigi minna en fast að 20 millj. kr. Ég þakka sem sé fjvn. fyrir að hafa sýnt skilning á þessari framkvæmd, sem er vissulega á almenningsþágu, í þágu verkafólks í landinu, og hygg, að framkvæmdinni sé að mjög verulegu leyti borgið á árinu 1964 með þessari aðstoð af ríkisins hendi. Ekki sízt vil ég þakka formanni fjvn. fyrir hans atbeina að því, að svona myndarlega var brugðizt við málaleitunum A.S.Í. vegna þessarar framkvæmdar.

Á 22. gr. er svo tekin upp 3 millj. kr. ríkisábyrgðarheimild til þessa mannvirkis.

Úr því að ég er kominn hérna í ræðustól, þá kemst ég nú ekki hjá því að víkja örfáum orðum að hinni snotru ræðu hæstv. fjmrh. Hann vék að stefnu ríkisstj. í launa- og kjaramálum fátæka fólksins og sagði, að hún væri sú að reyna að tryggja fátæka fólkinu, láglaunafólkinu raunhæfar kjarabætur. En jafnframt vék hann svo að A.S.Í. og nokkrum stórum verkalýðsfélögum og taldi þau hafa alranga stefnu í þessum málum og lítinn skilning á því göfuga verkefni að bæta kjör hinna fátæku og lágt launuðu. Hann sagði, að það væri engin raunhæf kjarabót fyrir verkafólkið að því að fá hækkað kaup, ef allir aðrir fengju hina sömu prósenttölu í hækkun. Og það er þá væntanlega minna en ekki nein kjarabót að því fyrir verkafólk, ef svo er á málum haldið, að aðrir fái miklu hærri prósenttölu í kjarabætur heldur en þeir lægst launuðu. En það er einmitt það, sem hefur gerzt á þessu ári, að fjöldamargar aðrar stéttir en verkalýðsstéttin hafa fengið margfalt meiri kjarabætur en hinir lægst launuðu. Það er staðreynd, sem hæstv. fjmrh. getur varla verið búinn að gleyma, að hinir hæst launuðu í þjóðfélaginu hafa fengið allt upp í 90% kauphækkun á þessu ári. Hinir lægra launuðu hjá ríkinu voru ekki aldeilis í náðinni á sama hátt og þeir hæst launuðu, þeim var mátulegt að fá 20% kjarabót. Og ég er hræddur um, að það verði heldur lítið úr kjarabót þeirra, ef það gerir hana að engu, að aðrir fái jafnmikið, þegar þarna hefur gerzt það, að hinir betur settu og hærra launuðu hafa fengið fjórfalt til fimmfalt meiri launabót. Og þetta hlýtur auðvitað að vera spegilmyndin af stefnu hæstv. ríkisstj.

Það er ekki fyrir atbeina verkafólks, að það er búið að tengja, fastbinda með löggjöf og á annan hátt kjör margra annarra stétta við launakjör verkalýðsstéttarinnar. Það er lögbundið, að ef kaup verkafólks hækkar, skuli afurðir bænda hækka. Það er lögbundið, að ef almenn launahækkun verður, skuli opinberir starfsmenn fá sín ákveðnu launakjör endurskoðuð, vafalaust með tilliti til hlutfallslegrar hækkunar. Og það var nýlega settur á fót af hæstv. ríkisstj. gerðardómur til þess að ákveða laun verzlunarmannastéttarinnar, og í þeim gerðardómi er ákveðið, að ef almennar launahækkanir verði, skuli niðurstaða gerðardómsins breytast til hækkunar. Þetta er allt búið að setja í eina kippu. Og svo verður niðurstaðan sú, að þegar á að hreyfa til laun verkafólksins, þarf þetta allt að fylgjast með. Og til hvers hefur þetta verið tengt svona saman? Hefur þetta verið gert að beiðni verkafólksins? Nei, ég held ekki. Það hefur verið gert til þess, að verkafólkinu skyldi, þegar röðin kemur að því, vera torveldara en nokkrum öðrum að hreyfa þetta hjól um eina tönn, og það er vissulega líka orðið svo, að til þess að mjaka þessu hjóli nokkurn skapaðan hlut þarf heljarátak. Og það var ekki sparað að setja afl alls ríkisvaldsins og þingmeirihl. Alþingis í gang til þess að lögbinda það, að eftir að hæst launuðu embættismenn þjóðarinnar höfðu fengið 90% kauphækkun, skyldi það lögum bundið, að verkafólkið fengi ekki hreyft sitt kaupgjald um einn einasta eyri, og hygg ég, að fátt sanni betur heilindin í skrafi hæstv. ráðh. um áhuga þeirra á raunhæfum kjarabótum fyrir hina lægst launuðu, fátækustu. Það frv. til l. er sönnunargagn, sem ekki verður litið fram hjá í þessu efni.

Síðan horfið var góðu heilli frá því að gera það frv. að lögum, hefur staðið yfir barátta um það, hvað væri hægt að hækka laun hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu, og hvernig hefur það gengið? Var það ekki auðsótt mál? Var það ekki auðsótt mál að fá laun hinna lægst launuðu hækkuð um 20%, eins og hinir lægst launuðu, sem urðu harðast úti af starfsmönnum ríkisins, fengu minnstar kjarabætur? Nei, það lá ekki á lausu, hvað þá heldur að ætla hinum lægst launuðu 90% kjarabót. Það hefði verið talin nokkuð ósvífin fjarstæða. Sannleikurinn er sá, að þeir eru margir í þjónustu ríkisins, sem á þessu ári fengu 7 þús. til 10 þús. kr. kauphækkun á mánuði, en 10 þús. kr. eru nærri tvenn mánaðarlaun verkamanns. Þeir fengu þessa kauphækkun ofan á sitt allháa kaup fyrir. Nú í dag er e.t.v. að fást fram breyting á launum verkafólks eftir mikil átök og harða baráttu. Er þar um 90% hækkun að ræða? Er þar kannske um 20% hækkun að ræða? Nei, það er aðeins um 15% hækkun að ræða, og leikur þó vafi á því á þessari stundu, að atvinnurekendur hafi treyst sér til þess að fallast á það.

Í framhaldi af ræðu hæstv. ráðh. vil ég aðeins víkja nokkuð að tali hans um hagkvæmni, rasjónaliseringu, ráðstafanir til aukningar framleiðni og annað þess konar. Það er rétt, ég hef heyrt bæði hann og ýmsa úr liði hæstv. ríkisstj., einkum framámenn þar, tala mikið um þessa hluti, en ég hef minna orðið var við áhuga þeirra fyrir þessum hlutum í verki. Og ég hygg, að það eigi langt í land, að við stöndum jafnfætis okkar nágrannaþjóðum t.d. í umbótum á þessu sviði, af því að hér er frekar um orð að ræða heldur en aðgerðir. Hæstv. ráðh. var ekki neitt í vanda með það, hvernig ætti að ákveða hinum lægst launuðu kaup. Það átti að gerast þannig, að verkalýðurinn átti að fá þau laun, sem útflutningsframleiðsluatvinnuvegirnir þyldu á hverjum tíma. Það er skammturinn. Ég held, að það sé dálítið athugavert við þessa einföldu kenningu hæstv. ráðh. Hún lítur ekkert ósnoturlega út, en hún er á sandi byggð, ef ekki kemur fleira til. Íslenzkir atvinnuvegir þola minna kaupgjald en atvinnuvegir nágrannaþjóða okkar, t.d. Norðmanna, af því að þeir eru lítið rasjónaliseraðir m.a. og lítið vit í margvíslegum atvinnurekstri hér á landi.

Ég skal nefna þess nokkur dæmi, hvað rasjónaliseringunni er langt komið hjá okkur, hagsýninni í rekstrarvinnubrögðum. Ég var miðaldra maður, þegar ég átti heima í einu kauptúni vestur á landi og fylgdist þar með atvinnulífinu. Þar var þá engin bryggja. Bátarnir lögðust, þegar þeir komu með afla sinn, langt frammi á höfn, og svo var goggaður hver fiskur upp úr lest og goggaður aftur af þilfarinu og settur niður í flutningabát, flutningabátnum síðan fleytt að landi og fiskurinn goggaður enn upp úr bátnum á plan, steinsteypt plan þar í fjörunni, og síðan var tekið til við aðgerð hans þar og honum komið fyrir í saltfiskshúsi hinum megin við götu, þó ofan við aðgerðarplanið. En þarna á þessu svæði í kringum aðgerðarhúsið voru engir fiskreitir. Þegar saltfiskurinn var fluttur á þurrkunarstaðinn, var hann þess vegna tekinn upp, borinn í smáeiningum á handbörum niður í fjöruna, settur þar um borð í flutningabát. Þessi flutningabátur fleytti svo fiskinum eina 600 metra meðfram landi út að þeim stað, þar sem fiskreitirnir voru og átti að þurrka hann. En akvegur var enginn milli lendingarstaðarins og þeirra staða, þar sem fiskreitirnir voru. Þar var fiskurinn þveginn, og síðan var hann borinn út á fiskreitina þarna og þurrkaður. En svo þurfti að flytja hann aftur, fleyta honum aftur meðfram landinu öfuga leið á bát í fiskhúsið, þegar hann var orðinn þurr, og síðan útskipun langa leið.

Þeir sögðu, atvinnurekendurnir á þessum stað að það væri svo dýrt að verka þarna fisk, að kaupið yrði að vera afskaplega lágt, miklu lægra en t.d. á Ísafirði. Og það var talinn sjálfsagður hlutur. Þegar aftur kaupið var orðið jafnhátt í kauptúnunum á Vestfjörðum og á Ísafirði, þá fóru vinnubrögðin við fiskverkunina fyrst nokkuð að batna. Hækkað kaup varð þarna til þess að knýja á um vitlegri vinnubrögð.

Nú kunnið þið að segja: Þetta var nú þá, og þetta var nú þar, og það eru liðnir áratugir síðan. Svona er það ekki nú. — En þá ætla ég bara að víkja mér í Viðeyjarklaustur, þá ætla ég að venda mér til Reykjavíkur, þar sem hæstv. fjmrh. hefur verið borgarstjóri og stjórnað m.a. útgerðarmálum. Bæjarútgerð Reykjavíkur er á margan hátt myndarlegt fyrirtæki, eitt af þeim myndarlegri í landinu. Togaraflota á fyrirtækið allgóðan, og aðstaða Reykjavíkurborgar til þess að hlúa að þessu stóra og mikla atvinnufyrirtæki hefur verið góð. Nú réðst Bæjarútgerð Reykjavíkur í það að byggja fiskverkunarstöð í Reykjavík. Ætli henni hafi ekki verið valinn staður hér við hafnarbakkana í Reykjavík, svo að flutningar yrðu sem minnstir á fiskinum? Nei, ekki aldeilis, langt vestur í bæ. Þangað verður að flytja hvern ugga, sem salta á af togurum bæjarútgerðarinnar. Látum það vera, þetta er nú ekki það versta hér í Reykjavík. Það má vera, að úr því að önnur verri dæmi finnast, gæti þarna rasjónaliseringarhæfileika hæstv. fjmrh. einmitt í verki. Þegar afli berst nú hér í Reykjavíkurhöfn, þá er ekki fullkomin uppskipunartækni þar viðhöfð. Þar er hafður einn allstór kassi til að setja fiskinn í, og hann er hífaður upp á bifreið. Svo ekur bifreiðin af stað, og hún fer langt vestur á Seltjarnarnes. Þar er íshús sett. En þar er engin fiskimjölsverksmiðja, svo að hausar og bein, allur úrgangur er tekinn aftur frá þessu íshúsi vestur á Seltjarnarnesi, fluttur í gegnum alla Reykjavíkurborg og inn að Kletti. Þetta er Kleppsvinna. Þar er fiskimjölið malað úr fiskúrganginum. Svo er fiskimjölið tekið aftur og flutt gegnum hálfa Reykjavíkurborg til útskipunar. Eru þetta vitleg vinnubrögð? Er þetta rasjónalisering? Nei, þetta er Kleppsvinna. Þetta eru vitfirrt vinnubrögð í sjálfri höfuðborg Íslands í dag, þar sem búið er að tala svo mikið um rasjónaliseringu og framleiðni, en ekki gera neitt. Og hvað halda menn svo, að sé um kaupgetu slíkra fyrirtækja, sem svona vitlaust eru rekin, svona vitlaust er búið í haginn fyrir? Kaupgetan verður engin. Það er ekki geta til þess að bera eðlilega hátt kaupgjald. Það er litið á kaupgjaldið sem seinasta útgjaldalið, sem ekki sé efni á fyrir útgerðina að greiða, en það byggist m.a. á svona rasjónaliseringu.

Ætli þetta sé einsdæmi í Reykjavík? Nei, það er ekki einsdæmi. Annað íshús er sett hér langt austur í bæ. Það hefur enga hafnaraðstöðu þar. Þar er sams konar flutningavitleysan í algleymingi. En kjötvinnslumiðstöð er sett á sjávarbakkann. Eða hvaða vit ætli sé í því að hafa sjö hraðfrystihús í Keflavík, sjö hraðfrystihús, smáholur, öll vitanlega þannig, að öll vinnsla í þeim er margfalt dýrari en ef væri byggt eitt myndarlegt hraðfrystihús og öll vinnsla færi fram í því, búið út sem nýtízku verksmiðja? Geta menn ekki ímyndað sér það, að ef aðstaða útgerðarinnar væri slík, að fyllstu tækni væri beitt við uppskipun, fiskvinnslustöðvarnar væru á hafnarbakkanum rétt steinsnar frá, öll færsla á fiskinum gengi á færiböndum úr skipi og upp í fiskvinnslustöðvarnar og síðan um fiskvinnslustöðvarnar væru færiböndin látin annast flutningana, — halda menn, að ekki yrði eitthvað meira eftir til þess að geta greitt vinnulaun, án þess að gengið væri nærri getu fyrirtækisins? Ég efast ekkert um það.

Auk þess er margföld reynsla af því, að það er ekki aðalhjálpræðið fyrir atvinnuveg að níða kaupið hjá verkafólki niður úr öllu valdi. Gamli Ford skildi það fyrir löngu. Hann þótti brjóta öll viðskiptalögmál Bandaríkjanna, þegar hann móti ráðum allra hækkaði kaupið í sinni verksmiðju, jók allan framkvæmda- og framleiðsluhraða, svo að þótti stappa nær byltingu með þessu, og fór sínu fram og sannaði það, að með hækkun kaupgjalds til sinna manna varð hann valdur að tæknilegum tímahvörfum, sem réttilega má nefna byltingu.

Hér var minnzt á Svía áðan. Það var þjóð, sem var til fyrirmyndar, og hún er það sannarlega á ýmsum sviðum, þó að henni sé stjórnað af sósíaldemókrötum, eins og hæstv. ráðh. sagði. Í því landi hefur verkamaðurinn t.d. 12 kr. á tímann, sænskar, 96–100 kr. íslenzkar. Hvað ætli atvinnurekendurnir hér segðu við því? Ég held, að þeir féllu í öngvit. Hvað hefur hafnarverkamaðurinn hér? 30 ísl. kr., ekki þriðjung af því, sem hafnarverkamaðurinn sænskt hefur. Þarna væri unnt að taka sér Svíþjóð til fyrirmyndar, þó að henni sé stjórnað af sósíaldemókrötum og ekki af íhaldinu. Eða Bandaríki Norður-Ameríku, hvað ætli hafnarverkamaðurinn í New York hafi? 3–4 dollara á tímann, hálft annað hundrað ísl. kr., eða eitthvað slíkt. Það borgar Eimskip hafnarverkamanninum þar, þegar það borgar hafnarverkamanninum hér við útskipun í skipin og uppskipun um 30 kr., fimmfalt meira. Þar er tækni, þar er framleiðni, þar er rasjónalisering ekki bara orð tungumjúkra manna, heldur orðið að framkvæmd, að veruleika.

Það, sem útflutningsatvinnuvegirnir þola, á verkafólkið að hafa í kaup, segir hæstv. ráðh. Þessi kenning getur verið góð og gild, ef atvinnulífinu er stjórnað af viti og búið um það eins og eftirlætisbarn, en ekki olnbogabarn. En þannig er búið að íslenzku atvinnulífi, hverjum sem það er að kenna. Og það verða allir að játa, að það er ekki allt vitlegt, þetta fyrirkomulag, sem ég er að lýsa og allir hér inni vita að er satt og rétt. Vitlausara er varla hægt að hugsa sér það. Ég held líka, ofan á allt annað, að hæstv. ríkisstj. hafi rekið skammsýna launamálapólitík, rangláta að því leyti, að hún hefur sýnt það með stefnu sinni og framkvæmd, að hún vill hækka laun hinna hæst launuðu mest, hinna lægst launuðu minnst. Og það hefur komið seinast fram í launamálabaráttu verkafólksins nú og allri þeirri andspyrnu, sem verið hefur gegn henni. Ég er þeirrar skoðunar, að ef hæstv. ríkisstj. hefði, — skal ég þó ekkert sérstaklega saka hana fyrir fjandskap við baráttu verkalýðshreyfingarinnar í þetta skipti, því að það hefur þó helzt örlað á skilningi nú úr þeirri átt, — ef hæstv. ríkisstj. hefði haft skilning á því, að nú þyrfti að leiðrétta laun verkafólks, þannig að í samræmi væri við laun annarra stétta og launabætur þeirra á þessu ári, hefði verið hægt að fallast á það af verkalýðshreyfingunni, ef þessi laun, sem nú hefðu verið ákveðin í samræmi við annað, hefðu verið verðtryggð gegn vaxandi dýrtíð og verðbólgu, að semja til langs tíma og skapa þannig atvinnulífinu aukið öryggi, ef gætt var þess að halda jafnvægi einnig í þróun verðlagsmála, eftir að þetta hefði verið gert. En þetta var ekki gert. Verkafólkið fékk ekki nema 15% kauphækkun, en frá því að gerður var bráðabirgðasamningur um kaup verkafólks s.l. vor, hafði dýrtíðin aukizt um 11%. Meðan á samningahríðinni stóð núna, lögðu svo sérfræðingar ríkisstj. gögn í hendur okkar um það, að raunverulega væru 6 vísitölustig komin, þótt þau væru ekki komin inn í verðlagskerfið núna, og rétt að koma, en það er sama sem 4%. 4% og 11% eru 15%, og dýrtíðin hefur þannig samkv. Vísitölumælingu sjálfrar ríkisstj. vaxið um 15% frá vordögum, að síðast var staðið upp frá samningaborði og gerðir bráðabirgðasamningar, sem allir viðurkenndu að gætu ekki verið varanlegir, af því að þeir væru of lágir. Nú fær verkafólkið 15% kauphækkun, stendur núna að gerðum þessum samningum nákvæmlega í sömu sporum og þegar upp var staðið frá samningaborðinu s.l. vor. Síðan var sagt við okkur: Nú verðið þið að gefa okkur a.m.k. eins árs samningstímabil, helzt 2 ára, og þá jafnframt tekið í mál að setja upp takmarkað vísitölukerfi, sem ekki átti að mæla samt erlendar verðhækkanir. En við í verkalýðshreyfingunni vorum ekki örlátari en það, að við sögðum: Þegar við stöndum nú í sömu sporum og í vor að gerðum samningum, þá getum við ekki fallizt á að taka á okkur áhættu af dýrtíð, vaxandi dýrtíð á komandi mánuðum, lengur en 6 mánuði fram í tímann. Og þá má búast við því með sömu þróun og verið hefur, að kaupgjald verkafólksins, sem nú hefur verið ákveðið með samningum, verði farið að rýrna talsvert. — En þeir ætluðu okkur nú árið eða helzt tvö ár, hvað sem kaupmáttur vinnulaunanna hefði þá verið kominn niður. Og það er rétt með herkjum, að það er hægt að sansa menn á það að ætla okkur að taka af kaupinu, eins og það er nú ákveðið með 15% hækkun, taka á okkur rýrnum í næstu 6 mánuði fram undan, en farið fram á, að það verði gert fyrir heilt ár eða jafnvel tvö. Og þetta er allt gert af umhyggju fyrir verkafólkinu, því er sýndur sérstakur velvilji umfram alla aðra. En verkalýðshreyfingin stendur ekki á verðinum, fáum við að heyra, ekki fyrir þetta fólk. Af hverju er það? Af því að við vildum ekki breyta hlutfallinu milli launa ófaglærðra verkamanna og iðnaðarmanna, sem taka tímakaup eða vikukaup. Og þarna eru á milli nokkur prósent, sem iðnlærðu mennirnir, sem hafa stundað iðnnám í 4 ár, hafa hærra en ófaglært verkafólk. Okkur hefur verið legið á hálsi fyrir þetta, við segjum, að það sé réttlátt, að iðnlærðu mennirnir séu ívið hærri, og hér sé ekki óeðlilegt hlutfall á milli, enda höfum við sannanir á borðinu fyrir því, að svo er ekki, því að það er sérstaklega hörgull á, að ungt fólk fáist til að læra iðngreinar, og þar er manneklan mest. Ef þetta hlutfall væri enn þá gert iðnlærða fólkinu óhagstæðara, fengi þjóðfélagið að súpa af því seyðið, að við fengjum ekki fólk til þess að mennta sig verklega, og það væri ekkert vit í því, ég fullyrði það. Verkafólkið telur ekki gengið á sinn rétt með þessu, að kaup hinna iðnlærðu tíma- og vikukaupsmanna hækki um sama hundraðshluta og kaup hinna ófaglærðu, en það er það, sem hefur gerzt nú. Hins vegar féllst verkalýðshreyfingin sjálf ekki á það, að kaup þeirra manna, sem taka laun eftir uppmælingu, yrði nú hækkað í sama hundraðshluta, og þeir hafa þannig ekki verið teknir með í þessa mynd, ekki fengið þá kaupbreytingu, sem hér var um að ræða, og verkalýðshreyfingin gerði það ekki að sínu máli.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, er kannske búinn að tala of lengi, eins og á stendur. En ég vil halda því fram, að það er ekki óyggjandi og rétt eða traust kenning, sem hæstv. fjmrh. byggir á, þegar hann segir án annarra skýringa, að verkafólkið eigi að fá þau laun, sem útflutningsatvinnuvegirnir þoli. Það verður þá að vera svo bezt, að þeim sé stjórnað af viti, þeir séu reknir af viti a.m.k. Ég fæ ekki heldur séð, að hann fari með rétt mál, þegar hann segir, að hæstv. ríkisstj. hafi sérstakan áhuga á því að tryggja laun hinna lægst launuðu, því að þar hefur bæði af ríkisstj. og atvinnurekendum verið lagzt á móti því, að verkafólkið fengi nokkra sambærilega launahækkun við það, sem hinir hærra launuðu í þjóðfélaginu hafa fengið með góðu samþykki allra aðila. Þar tala því verkin. Það eru hinir hæst launuðu, sem hafa fengið hinar mestu kjarabætur á yfirstandandi ári, og hinir lægst launuðu hafa fengið þær naumast skornar, skornar sannarlega við nögl.

Það var rétt, sem minnt var á hér áðan af 1. þm. Norðurl. v. (SkG), að sama var alveg upp á teningnum, þegar núv. hæstv. ríkisstj. breytti skattalöggjöf. Sú breyting var ekki gerð fyrir þá lægst launuðu, hún var gerð fyrir þá hæst launuðu, þeir fengu margfalda skattalækkun.

Sporin eru alls staðar í þessa átt, að núv. hæstv. ríkisstj, hefur ekki aukið jöfnuð í þjóðfélaginu í tekjuskiptingunni, heldur ójöfnuð, hefur haft þá stefnu að bæta kjör hinna bezt settu og þrengja heldur kosti hinna, sem við erfiðust lífskjörin búa. Og þetta tel ég ranga stefnu.

Það hefur fram að þessu ekki verið haft samráð eða samstarf við verkalýðshreyfinguna. En nú er haft orð á því, að eftir því sé óskað, og ég vil vona, að þar fylgi hugur máli, og skal ekkert rengja það að svo komnu. Og ég veit það, að þjóðfélagi okkar er full þörf á því, að það sé ekki látlaust stríð milli ríkisvaldsins og verkalýðssamtaka. En þá verður líka að sveigja stefnuna til þeirrar áttar, að það fólk, sem í verkalýðshreyfingunni er og hefur hana sem sitt sverð og sinn skjöld, megi við þá stefnu una. Annars getur það samstarf ekki orðið.