19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í D-deild Alþingistíðinda. (3013)

104. mál, heildarskipulag Suðurlandsundirlendis

Flm. (Unnar Stefánsson):

Herra forseti. Að undanförnu hafa átt sér stað allmiklar umr. innan þings og utan um stöðu og framtíð landbúnaðarins á Íslandi. Nátengt þessu viðfangsefni og óaðskiljanlegt er vandamálið um staðsetningu og þróun byggðarinnar á landinu. Á undangengnum árum og áratugum hefur þjóðfélagið tekið miklum stakkaskintum úr fábreyttum búskaparháttum, sem miðuðust við það eitt að afla fólkinu brýnasta lífsviðurværis, og hefur svo verið allt frá landnámstíð. Meðan landbúnaðurinn byggðist á nýtingu beitar á afréttarlöndum, var búsetan af mjög eðlilegum orsökum svo dreifð um landið sem frekast var kostur. Með tilkomu stórvirkrar véltækni, samgöngum og nútímamöguleikum á öllum sviðum til hagnýtingar sjávarafla og orku til iðnaðar hefur þjóðin fært sig frá þessum frumstæðu lífsbjargarbúskaparháttum samfara stórfelldum fólksflutningum úr dreifbýli til þéttbýlis. Þessi þróun hefur orðið stöðug og nokkuð jöfn og virðist halda áfram, enda þótt háværar raddir séu löngum uppi um að hindra hana. Sannast sagna er það, að ekki hefur verið af opinberri hálfu gert neitt verulegt átak til að hafa hönd í bagga með þessari framvindu mála, hvorki til að stöðva hana né heldur til að beina henni til ákveðinnar áttar með skipulögðum hætti. Ég veit ekki til þess, að nokkurn tíma hafi verið gerð svo mikið sem tilraun til þess að áætla eða spá fram í tímann um tilflutning fólks í landinu frá einu héraði til annars. Er þó augljóst, hvílíkt hagræði hefði verið og gæti verið í framtíðinni varðandi fjárfestingu af hálfu hins opinbera í hínum einstöku byggðarlögum, ef slík áætlun væri gerð. Reynslan sýnir, að allmikil verðmæti hafa beinlínis fárið forgörðum við lagningu vega, síma, rafmagns að býlum í dreifbýli, sem fljótlega hafa síðan fárið í eyði og eru enn að fara í eyði og eru ekki horfur á, að komist í byggð á ný. Meira að segja hafa allmörg býli farið í eyði af þeim, sem fengu rafmagn samkv. 10 ára áætluninni, sem tæpast er lokið nú. Er því ljóst, að æskilegt vært, að meira raunsæis og framsýni gæti hér eftir en verið hefur í þessum efnum.

Á þskj. 151 hef ég flutt till., sem á að teljast viðleitni í þessa átt og ábending um leið. Hún er þó engan veginn nýstárleg. Þetta er sama leiðin og farin hefur verið í fjölmörgum öðrum ríkjum hin síðustu ár til lausnar á hliðstæðum vanda og hér er við að glíma. Hér er um að ræða svokallaða svæðaskipulagningu. Kjarni málsins er sá, að hið opinbera reyni að hafa hönd í bagga með þeirri þróun, sem verður í byggð landsins, með forustu um skinulagða eflingu ákveðinna, valinna svæða eða landshluta, sem fyrir fram gerð vísindaleg athugun leiðir í ljós, að vel væru til búsetu fallin. Ef það væri talið markmið í sjálfu sér og viðurkennt sem slíkt, sem ég hygg að vera muni, að sporna þurfi við stórfelldari röskun í byggð landsins en þegar er orðin með vexti Reykjavíkur og Faxaflóasvæðisins, sem kallað er Stór-Reykjavík, verður hið opinbera fyrr en síðar að eiga frumkvæði að lausn þessa verkefnis, t.d. með því að beina fjármagni og framkvæmdum að þeim svæðum landsins, sem valin yrðu í þessu skyni. Með svæði er hér átt við landfræðilega afmarkað hérað, sem er í atvinnulegu tilliti innbyrðis samræmt með sameiginlegu viðskiptakerfi og samgöngum og gæti lotið sameiginlegri héraðsstjórn um viss mikils háttar verkefni.

Víða í erlendum ritum er rætt um þrjá þætti skipulagsstarfsins: í fyrsta lagi þróun landbúnaðar, í öðru lagi þróun iðnaðar og í þriðja lagi félagslega og menningarlega aðstöðu íbúanna í landinu.

Um landbúnaðarmálin hyggst ég fara færri orðum en ástæða væri til. En af umr., sem hér hafa fárið fram, má ráða, að endurskipulagning íslenzks landbúnaðar hljóti að fara fram fljótlega og gæti þá orðið veigamikill þáttur í slíkri svæðaskipulagningu sem hér er gert ráð fyrir að upp verði tekin. Og víst er um það, að íslenzki landbúnaðurinn verður að vera arðsamari en verið hefur, ef hann á að standast til lengdar samkeppni við aðra atvinnuvegi.

Staðsetning nýrra iðnfyrirtækja er eitt meginatriðið í allri skipulagsvinnu, enda eru fáar aðgerðir af opinberri hálfu líklegri til árangurs á þessu sviði. Uppbygging arðsamra iðnfyrirtækja í þessu sambandi yrði vafalaust stærsta tækið, sem hið opinbera hefði í sínum höndum í þessu sambandi. Má benda á sem dæmi um þróun iðnaðar bæinn Selfoss, þar sem öflugur iðnaður af hálfu samvinnusamtaka hefur rennt traustum stoðum undir þá miðstöð, sem þar er orðin miðsvæðis í landbúnaðarhéraði. Bersýnilegt er, að staðsetning kísilgúrverksmiðju við Mývatn með 50 manna föstu starfsliði eða svo og með útskipunarhöfn á Húsavik getur orðið lyftistöng fyrir byggðarlagið í Suður-Þingeyjarsýslu og myndað ásamt Akureyri, þar sem mikill iðnaður er fyrir, öflugt byggðarlag á austanverðu Norðurlandi. Eftir því sem lífskjörin batna, verða gerðar sífellt meiri kröfur á sviði menningarmála. Á þessu sviði hefur þéttbýli ótvíræða yfirburði yfir dreifbýll. Það er að minni hyggju undirstaða að eflingu þéttbýlis úti á landsbyggðinni sem mótvægis við Reykjavík, að íbúar þess svæðis eigi kost á sambærilegri aðstöðu til að njóta þess bezta, sem völ er á í félagslífi og menningarmálum í landinu.

Í till. minni á þskj. 151 er gert ráð fyrir, að hafizt verði handa um slíka heildarskipulagningu á Suðurlandsundirlendi. Á seinasta þingi voru færð rök að því, hvers vegna það hérað væri valið. Þar bíða einmitt mjög brýn verkefni úrlausnar. Þar eru ríkulegust landgæðin, þar eru miklar óbeizlaðar orkulindir í fallvötnum og hverasvæðum. Það var á það bent í grg., að reynsla sú, sem fengist við skipulagningu þess svæðis, yrði mjög mikilsverð við samningu sérstakrar löggjafar um heildarskipulagningu landsins alls, sem æskilegt væri að gera hið fyrsta. Það var bent á aðkallandi nauðsyn þess að taka skipulagsmál þessa héraðs fyrir sem sérstakt verkefni. Þar var getið um hafnarmál, hafnargerðir, t.d. í Þorlákshöfn og á Eyrarbakka, samgöngumál, þ, á m. staðsetningu Austurvegar um Ölfus eða brú á Ölfusárósi, bent var á heilbrigðismál með hliðsjón af staðsetningu og byggingu sjúkrahúss o.s.frv.

Till. þessi var send til umsagnar nokkrum aðilum og hlaut mjög jákvæðar undirtektir, m.a. frá sýslunefnd Arnessýslu, rannsóknaráði ríkisins og bankastjóra Framkvæmdabanka Íslands, sem þá hafði með höndum þau störf, sem Efnahagsstofnuninni hafa síðar verið falin. Taldi hann æskilegt, að samið yrði hið fyrsta heildarskipulag fyrir Suðurlandsundirlendið með hliðsjón af þeirri mannvirkjagerð, sem þar hlyti að vera á næsta leiti.

Þegar tillaga þessi var áður flutt, lá fyrir á hv. Alþingi óafgreitt frv. til nýrra skipulagslaga. í því frv. var gert ráð fyrir því að skipta landinu í skipulagsumdæmi eftir kjördæmum með 7 manna skipulagsnefnd í hverju umdæmi. Þessi till. um skipulagsumdæmi var síðan felld niður úr því frv. til skipulagslaga, þegar það var borið fram á yfirstandandi Alþingi. En heimilt er samkv. því frv., að nálæg sveitarfélög komi á fót samvinnunefnd sín á milli um skipulag, eins og nú á sér stað um Reykjavik og nágrannasveitarfélög. Tel ég þessa skipan allgóða, enda er hér um skipulagningu annars eðlis að ræða. En niðurfelling þessa ákvæðis um skipulagsnefndir í skipulagsfrv. styður að því, að till. sú, sem hér er fram borin, verði samþykkt og þessi mál tekin upp alveg sérstaklega.

Það var stór atburður í sögu íslenzkrar hagstjórnar, þegar samin var fyrsta þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin á árinu 1963, og komst þar með í framkvæmd enn eitt framfaramálið, sem Alþfl. íslenzki hefur barizt fyrir til heilla og farsældar okkar þjóð. Þó höfum við rætt hér á Alþingi í vetur um, að æskilegt væri að stuðla að örari hagvexti, meiri aukningu þjóðarframleiðslunnar en þar er gert ráð fyrir. Ég tel, að samþykkt þessarar till., ef hún yrði skynsamlega og röggsamlega framkvæmd, sé einmitt líkleg til þess, þegar á lengra tímaskeið er litið, að stuðla að örari vexti lífskjaranna í landinu og traustari þjóðfélagsbyggingu en elta mundi verða.

Að lokum legg ég til, að till. þessari verði vísað til allshn. Sþ. og umr. verði frestað.