12.02.1964
Sameinað þing: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (3046)

116. mál, hámarksvinnutími barna og unglinga

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Við höfum, 3 þm. Alþfl., leyft okkur að flytja till. til þál. um hámarksvinnutíma barna og unglinga, m.ö.o. um, að sett verði vökulög barnanna. Till. hljóðar, með leyfi hæstv. forseta, svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa frv. til laga um hámarksvinnutíma barna og unglinga í hinum ýmsu starfsgreinum og leggja frv. fyrir þingið svo fljótt sem þess er kostur.“

Börn og unglingar hafa um aldir unnið mikið í landi okkar. Hefur það jafnan þótt góður skóli, svo framarlega sem starfið hefur ekki ofboðið kröftum og þroska æskufólksins. Eðlilegt væri, að vinna barna og unglinga væri jafnan í hófi og eingöngu miðuð við uppeldislega þörf. Á þetta ekki sízt við nú, eftir að þjóðin má heita bjargálna og þarf ekki að slíta kröftum æskunnar til að hafa í sig og á. En því miður hefur þróun þessara mála ekki orðið á þann æskilega hátt á síðustu árum, heldur þvert á móti. Eftir því sem skortur á vinnuafli hefur verið meiri í landinu, hafa atvinnufyrirtæki sótzt meira eftir börnum og unglingum til vinnu og boðið þeim hærra kaup. Freisting peninganna hefur reynzt sterk, svo að barna- og unglingavinna er hér meiri en í öðrum löndum, sem hafa sambærileg lífskjör. Hafa glöggir gestir tekið eftir því hér, að barnavinna er mun meiri en annars staðar, og undrast, að þjóð, sem er svo félagslega þroskuð sem Íslendingar, skuli láta jafnmikla barnavinnu viðgangast og hér hefur verið.

Sérstaklega er það varhugavert, sem farið hefur vaxandi, að láta börn og unglinga standa við vinnu í húsum inni, þar sem birta og loftræsting eru oft ófullnægjandi, sex, átta og jafnvel

tíu klst. á dag. Hefur þetta víða haft þau áhrif á börnin, að skólamenn hafa talið sig knúða til þess að vara við hinum langa vinnutíma innanhúss og minna þau og foreldrana á, að börn verði að njóta hvíldar, birtu og yls þann tíma, sem þau eru ekki í skóla.

Oft hafa unglingar fært heimilum sínum björg í bú og veitt mikilsverða fjárhagslega aðstoð. Hitt mun þá algengara á síðari árum, að foreldrar lofi börnum og unglingum að eiga sjálf það fé, sem þau fá í kaup. Eru ýmis dæmi þess, að þau fjárráð hafi verið meiri en góðu hófi gegnir og oft ekki börnunum eða unglingunum til góðs.

Við teljum, flm. þessarar till.. sjálfsagt, að börn og unglingar vinni, en að vinnan verði fyrst og fremst að miðast við uppeldisþarfir þeirra. Vinnutíminn verður að vera í samræmi við aldur og getu, og hann má ekki verða svo langur, að hann svipti unglingana eða börnin eðlilegum tómstundum og hollri útivist, sérstaklega ekki þegar sól er hæst á lofti á sumrin. Virðist tímabært, að sett verði lög um hámarksvinnutíma barna og unglinga í hinum ýmsu starfsgreinum. Til slíkrar löggjafar verður að vanda. Þar þurfa að koma til ráð lækna, kennara, uppeldisfræðinga og að sjálfsögðu foreldra. Ekki þarf að taka fram, að bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur þurfa að vera með í ráðum og láta í ljós sitt álit og sína reynslu. Við viljum vona, að hv. þm. geti verið sammála um að láta undirbúa slíka löggjöf og leggja hana síðan fram. í trausti þess legg ég til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.