11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (3054)

118. mál, fræðslu- og listaverkamiðstöðvar

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 2. þm. Sunnl. leyft mér að flytja s þskj. 204 till. til þál. um endurskoðun löggjafar í þeim tilgangi að stofna eða efla fræðslu- og listaverkamiðstöðvar í byggðum landsins. Till. er þess efnis að fela ríkisstj. að skipa 5 manna nefnd til að endurskoða lög frá 1947 um viðhald fornra mannvirkja og byggðasöfn, lög frá sama ári um héraðsskjalasöfn og I. kafla l. frá 1963 um almenningsbókasöfn og gera jafnframt till. um samræmda löggjöf í þeim tilgangi að stofna eða efla fræðslu- og listaverkamiðstöðvar í byggðum landsins undir umsjá sérfróðra manna, er búsettir verði, eftir því sem við verður komið, í hlutaðeigandi héraði eða landshluta. í till. er gert ráð fyrir, að ráðuneytisstjórinn í menntmrn. eigi sæti í n. og sé formaður hennar, að öðru leyti séu nm. skipaðir samkv. tilnefningu þannig, að einn nm. sé tilnefndur úr landsfjórðungi hverjum, en tilnefning fari fram á fjórðungssambandsfundi eða á fundi, þar sem mættir eru 1—2 fulltrúar frá hverri sýslunefnd og bæjarstjórn í fjórðungnum. Síðan segir svo í till., að n. skuli í starfi sínu hafa samráð við þjóðminjavörð, þjóðskjalavörð, bókafulltrúa ríkisins, forstöðumenn listasafns ríkisins, náttúrugripasafnsins, svo og sýslunefndir og bæjarstjórnir, eftir því sem við verður komið.

Efni þessarar till. er í rauninni komið frá fjórðungsþingi Norðlendinga, er haldið var sumárið 1962, og frá Jóhanni Skaftasyni sýslumanni og bæjarfógeta á Húsavík, sem um skeið var formaður fjórðungssambandsins. Frá þessum aðilum bárust þessar till. á sínum tíma eða svipaðar till. inn í n., sem þá starfaði á vegum ríkisstj. að því að gera athuganir og till. varðandi staðsetningu ríkisstofnana. Og þessi nefnd fékk Jóhann Skaftason sýslumann, sem er mikill áhugamaður í þessu máli og viðurkenndur áhugamaður um eflingu þjóðlegrar menningar og landsbyggðar, til þess að gera grg. um nokkra þætti þessa máls, og sú grg., sem hann á sínum tíma gerði fyrir n., er prentuð með þessari till. sem fskj. í þessari n. áttum við hv. 2. þm. Sunnl. sæti og ekki aðrir, sem nú eiga sæti á þingi, og þess vegna er það, að við höfum tekið þetta mál til flutnings hér á þingi til þess að kynna það og fá það tekið til þinglegrar meðferðar.

Ég skal ekki hafa um þessa till. mörg orð, enda er hér margt annað á dagskrá, og get látið mér að mestu nægja að vísa til grg., sem till. fylgir, og fskj., sem ég nefndi áðan. En fyrir hvatamönnum þessa máls á Norðurlandi, sem í raun og veru hafa komið því á framfæri opinberlega, vakir, að gerð verði tilraun til þess, eins og segir í till., að koma upp eins konar menningarmiðstöðvum og fræða í byggðum landsins, þar sem það telst framkvæmanlegt, og að í þessum menningarmiðstöðvum eða í sambandi við þær séu héraðsskjalasöfn og byggðasöfn og almenningsbókasöfn og jafnframt söfn listaverka og söfn náttúrufræðilegs efnis, og þá fyrst og fremst varðandi íslenzka náttúrufræði, sem sé að þarna séu miðstöðvar þjóðlegra fræða og sér í lagi fræða, sem varða þann landshluta, sem hér er um að ræða, þjóðtegra fræða, bæði á sviði bókmennta og lista og náttúrufræði. Þetta er það, sem fyrir hvatamönnum þessa máts vakir. Jóhann Skaftason segir í áminnztu fskj. m, a., með leyfi hæstv. forseta:

„Héraðsskjala- og byggðasöfnin eru í fæðingu, en þau eru enn lítils megnug. Kapp þarf að leggja á að efla þau, og fer vel á, að ríki og héruð hafi samvinnu um það. Er nú aðstaða til þess orðin góð, þar sem hægt er að kaupa smámyndaræmur (mikrofilmur) af skjalasöfnum og ljósprentaðar útgáfur af ýmsum fornum bókum. Héraðsskjalasöfnin hafa þegar tekið við ýmsum gömlum opinberum skjölum og bókum og taka við því framvegis. Almenningur varðveltir margs konar ritaðan alþýðufróðleik, sem söfnunum mun áskotnast smátt og smátt, en strax þarf að rannsaka, hvað af því tagi er fáanlegt. Þjóðminjasafnið varðveltir allmikið af fornum munum, sem það getur sér að meinalausu afhent viðkomandi byggðasöfnum, þegar þau öðlast hæf húsakynni og hætta að láta sér nægja gömlu torfbæina, sem uppbúnir á sinn rétta hátt eiga aðeins að vera einn gripur í fórum byggðasafnsins. Byggðasöfnin eru smátt og smátt að verða lista- og menningarsögusöfn héraðanna. Þar sem í sama héraði er bæði skjalasafn og byggðasafn, gæti sami maður veitt þeim báðum forstöðu í byrjun. Ætti hann að vera lærður í fornfræði, sögu Íslands eða íslenzkri tungu og hafa lokið háskólaprófi í þeim fræðum. Hann gæti einnig verið bókavörður héraðsins, og væri heppilegt, að hann hefði sér til aðstoðar launaða stúdenta, sem leggja vildu stund á þau fræði, sem söfnin varðveittu, og gætu þeir búið sig þar að nokkru undir háskólapróf jafnframt starfi við safnið.“

Á það hefur verið lögð sérstök áherzla, og ég sé ástæðu til þess að nefna það hér, að sem forstöðumenn þessara menningarmiðstöðva í landshlutunum veldust menn, sem væru vel undir það starf búnir, og sér í lagi menn, sem lokið hafa háskólaprófi í íslenzkum fræðum við háskólann hér, og að þeir menn yrðu þar með starfandi víðs vegar um landið í stað þess, sem nú á sér stað, að menn, sem slíka menntun hafa, safnast flestir saman hér í höfuðborginni, af því að hér og óvíða annars staðar eru verkefnin. Þetta er einmitt að ýmissa dómi mjög mikið atriði í þessu máli. Sama er að segja að sjálfsögðu að því er varðar listasöfnin og náttúrufræðisöfnin, að til þeirra þyrftu að veljast sérfróðir menn. Væri þannig að því stefnt að dreifa kröftum sérmenntaðra manna á þessum sviðum meir um landið en gert hefur verið.

Jóhann Skaftason bendir á það í þessari ritgerð m.a., að fyrr á tímum hafi verið til fjöldi fræða- og menningarmiðstöðva víðs vegar um landið. Hann bendir á skólana fornu og biskupsstólana og á klaustrin, þar sem án efa hafa verið unnin merkileg verk, sem hafa kannske átt meiri þátt í því en nokkuð annað að halda uppi íslenzkri menningu og sjálfstæði og hróðri Íslands og íslenzkrar menningar. Og einnig var það svo, að fyrr á tímum fór svo um flesta menn, sem æðri menntun höfðu hér á landi eða sóttu hana út yfir hafið, að þeir gerðust starfsmenn kirkjunnar, sóknarprestar í þjónustu hennar víðs vegar um landið, og einnig á mörgum prestssetrum voru einmitt slíkar menningarmiðstöðvar. Nú eru þessar menningarmiðstöðvar flestar algerlega horfnar af landsbyggðinni, og yfirleitt fer ekki að verða um slíkt að ræða í sambandi við t.d. kirkjulegar stofnanir, enda starfa fræðimenn nú á sérsviðum og fá menntun til þess, sams konar menn og áður gengu í þjónustu kirkjunnar. Eitthvað ætti að koma í staðinn fyrir þetta, segir Jóhann Skaftason, og kannske er það hugsunin um þessar fornu fræðamiðstöðvar í dreifbýlinu, sem hefur vakið menn til umhugsunar um þetta framtíðarmál.

Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi, að tveir hv. alþm., hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 3. þm. Norðurl. v., hafa á þskj. 49 flutt till. til þál., sem varðar einn þátt þess máls, sem ég nú hef rætt, og var sú till. flutt nokkru fyrr en við fluttum okkar till. En sú till. fjallar um listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur. Ég teldi eðlilegt, að þessar tvær till. yrðu athugaðar samtímis, þó að sú till., sem ég nefndi nú, fjalli ekki nema um hluta af efni þeirrar till., sem hér liggur fyrir, og þess vegna mundi ég telja heppilegt, að till. á þskj. 204 yrði vísað til þeirrar n., sem hefur hina till. til meðferðar, sem mig minnir, að sé hv. fjvn. Ég vil biðja hæstv. forseta að athuga það mál, áður en atkvgr. fer fram um n., en ég mundi telja eðlilegt, að báðar till, fengju meðferð í sömu nefnd. Legg ég nú til, að till. verði vísað til n. og til síðari umr.