24.01.1964
Neðri deild: 44. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú gert svo ýtarlega grein fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir, að þar er raunverulega engu við að bæta. En það, sem mig langaði til að ræða hér með nokkrum orðum, er afkoma og afkomuhorfur þeirra aðila, sem hér er gert ráð fyrir að styrkja að nokkru úr ríkissjóði. Þessir aðilar eru vinnslufyrirtæki sjávarútvegsins annars vegar og togararnir hins vegar aðallega, og skal ég leyfa mér að fara um þessa hlið málsins nokkrum orðum.

Í desembermánuði 1962 var skipuð nefnd til að rannsaka, eins og það var orðað, hag og afkomuhorfur togaraútgerðarinnar og gera tillögur til ríkisstj. um rekstur togaranna í framtíðinni á þeim grundvelli, að togaraútgerð hér á landi verði rekin með eðlilegum hætti, eins og segir í útnefningu n. í þessa nefnd voru skipaðir Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, sem var formaður n., Jónas Jónsson framkvstj. og Svavar Pálsson endurskoðandi. N. hóf síðan störf og lét það verða sitt fyrsta verk að safna gögnum um rekstrarafkomu togaraflotans á árunum 1961 og 1962 og vinna síðan úr þeim og gera till., sem á þeim hlutu að byggjast, og hafði n. lokið störfum og skilað áliti nú skömmu fyrir næstliðin áramót.

Rekstrarafkoman 1961 og 1962 var fengin á þann hátt, að það var safnað, eins og ég sagði, skýrslum frá togaraútgerðarfélögunum flestum. Þar fengust upplýsingar um rekstur 29 skipa, þar af voru 4 nýju og dýrustu skipin „elimineruð“ úr þessum upplýsingum, því að þau eru á margan hátt svo ólík gömlu nýsköpunartogurunum, að þau áttu þar ekki samleið. Nokkrir reikningar eða nokkrar upplýsingar af þessum 25, sem eftir voru, voru að vísu þannig, að þeir voru gerðir upp á nokkuð mismunandi hátt, en það var reynt að samræma og færa til sambærilegs vegar, þannig að meðaltal og meðaltalsniðurstaða fengist. Eftir að það hafði verið gert eftir þeim beztu upplýsingum, sem n. hafði, og þeim lagfæringum, sem hún taldi rétt að gera, varð niðurstaðan sú, að meðalrekstrarhalli togaranna 1961 hefði verið 3 millj. 125 þús. kr. á skip og rekstrarhalli 1962 3 millj. 562 þús. kr. Þar við er þó að athuga, að árið 1962 var, ef ég svo má segja, mjög ónormalt ár, þar sem togararnir lágu bundnir í höfn vegna verkfalla 4–5 mánuði af árinu.

Þetta er það brúttótap, sem n. telur að hafi orðið á hverjum einum togara. En á þessum árum voru styrkir nokkrir greiddir til þess að aðstoða þessi útgerðarfyrirtæki, og tapið varð þá, eftir að þessir styrkir höfðu verið dregnir frá á árinu 1961, 1 millj. 387 þús. og á árinu 1962 1 millj. 902 þús., sem eins og ég sagði áðan er þetta hátt, sennilega að einhverju leyti og áreiðanlega vegna þess, að útgerð skipanna árið 1962 varð með annarlegum hætti.

Þá hefur n. einnig gert tilraun til þess að gera áætlun um afkomu togaranna á árinu 1963. Það byggist ekki á neinum reikningum, eins og eðlilegt er, því að reikningar útgerðarfélaganna voru auðvitað ekki komnir fram, þegar nefndin lauk störfum í nóvembermánuði s.l., en hún hefur gert þetta á þann hátt að taka kostnaðarliði togaranna til meðferðar og athuga þær breytingar, sem á þeim hafa orðið frá árunum áður, og gera sér á þann hátt hugmynd um, hver afkoma hafi orðið.

Niðurstaðan af þessari áætlunargerð nefndarinnar er sú, að líklegt sé, að halli á árinu 1963 hafi orðið um 3 millj. 476 þús. kr. á skip. Þó segir n., að í þessu sambandi sé það að athuga, að það aflamagn, sem hún hafi gert ráð fyrir í þessum útreikningi sínum, hafi ekki náðst, meðalafli togaranna á árinu 1963 hafi orðið minni en gert sé ráð fyrir í áætluninni, þannig að líkur eru til, að þessi tala, sem hér er nefnd, 3 millj. 476 þús., sé frekar of lág heldur en of há.

Þetta ástand togaraútgerðarinnar er vissulega mjög athyglisvert og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, af hverju þessi lélega afkoma stafar, ef menn yfirleitt vilja þá halda áfram rekstri togaranna, en ekki hreinlega leggja þessa útgerð niður, ef hún verður ekki framkvæmd með öðrum hætti en þessum, að hún sé rekin með svona gífurlegu tapi ár eftir ár, sem ekki er unnt að jafna nema með beinu framlagi frá öðrum aðilum, bæði ríkissjóði og öðrum. (Gripið fram í.) Ég skal koma að því síðar.

Nú hefur það yfirleitt verið skoðun manna hér á Alþingi, held ég megi fullyrða, að það beri ekki að leggja niður togaraútgerðina, heldur reyna þvert á móti að halda henni gangandi. Það er viðurkennt, að togararnir hafa á undanförnum átum dregið mikla björg í bú og það sé ekki að vita nema þeir erfiðleikar, sem þeir eiga nú við að stríða, séu tímabundnir, þannig að aftur geti komið sá tími, að þeir geti vel staðið fyrir sínu, og stórvirkustu veiðitækin, sem við eigum, eru þó þessir togarar. En eigi að síður er rétt og nauðsynlegt að leitast við að gera sér grein fyrir, af hverju þessi hallarekstur stafar, og það hefur n. líka gert, og skal ég greina frá þeirri niðurstöðu, sem hún hefur komizt að um það efni.

Nefndin telur, að þessar orsakir séu í meginatriðum tvær. Önnur orsökin er hinn tiltölulega litli afli, sem skipin hafa fengið, og hitt atriðið, sem n, telur vera höfuðorsök í þessu tapi, er það, eins og n. segir, að þar sé um að ræða úrelt vinnufyrirkomulag um borð í skipunum, sem leiði til þess, að mannahald verði óeðlilega dýrt, miðað við þann afla, sem á skipið kemur.

Um fyrra atriðið, aflarýrnunina, er það að segja, að það fer ekki á milli mála, að hún er að verulegu leyti fram komin vegna þess, að togurunum hefur með útfærslu landhelginnar verið ýtt burt af þeim miðum, sem þeir áttu bezt áður. Þetta hefur leitt til þess fyrst og fremst, að aflinn hefur minnkað. Þetta hefur verið reynt að meta eftir föngum og fengnir til þess þaulkunnugir togaraskipstjórar og aðrir menn, sem gerla mega um þetta vita, og hafa þeir komizt að þeirri niðurstöðu, að aflabresturinn, vegna þess að togararnir hafa verið hraktir af þessum beztu miðum sínum, nemi í kringum 600 lestir á ári á skip. Þetta er því tilfinnanlegra vegna þess, að togararnir eru nú miklu meir en áður háðir veiðum á heimamiðum, þar sem afli á fjarlægum miðum hefur minnkað mjög verulega frá því, sem áður var, sérstaklega ef farið er aftur til áranna 1958 og 1959, þegar veiðin var hvað mest á Nýfundnalandsmiðum og togararnir fengu þá þar svo mikinn afla, að það gaf þeim fyrra árið mjög góða afkomu og það síðara sennilega sæmilega. Það er sjálfsagt alveg óumdeilt, að þetta er önnur aðalástæðan fyrir því, að útkoman hjá togurunum er eins léleg og hún er í dag.

Hitt atriðið, sem n. telur fram sem aðalatriði, er, að vinnubrögð um borð í skipunum séu úrelt. Það rökstyður n. á þennan hátt:

Áhafnir á brezkum togurum eru nú um 20 manns og á þýzkum togurum 24 menn, en á íslenzkum togurum af sömu stærð og við sömu veiðar er að jafnaði 31 maður. N. telur, að með hliðsjón af því, hvað aflabrögðin hafa minnkað, þá sé þessi mannfjöldi á íslenzkum togurum óþarfur og sé hægt að komast af með færri menn eða svipaða tölu og á sambærilegum erlendum togurum.

Þessi mannfjöldi eða þessir fleiri menn á íslenzku togurunum heldur en hinum erlendu kosta eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, frá 800 þús. kr. til 1 millj. 260 þús. kr. á ári, eftir því, hvort talan er tekin eftir þeim ensku eða þýzku, en auk þess segir n. mundu sparast útgjöld, sem leiðir af mannahaldi, svo sem fæði, ýmiss konar tryggingar o.fl., er nemi frá 252 þús. til 396 þús. kr. á skip. Samtals nemur þetta þá á skip, bæði bein laun til þessara manna og annar kostnaður í kringum þá, frá 1 millj. 54 þús. til 1 millj. 656 þús., en það svarar til nær eins þriðja hluta eða helmings þeirrar upphæðar, sem áætlunin sýnir sem halla á rekstri togarans.

Nú má segja, að náttúrlega væri það ekki eðlilegt að gera ráð fyrir því, að sá vinningur, sem fengist af breyttu vinnufyrirkomulagi, rynni allur til útgerðarinnar, heldur yrði nokkur hluti látinn ganga til skipshafnarinnar og kæmi fram í hærri launum vegna breytingar á vinnufyrirkomulaginu. En ef gert væri ráð fyrir, að helmingurinn af beinum launasparnaði rynni til áhafnarinnar, þá yrði samt eftir fyrir skipið frá 650 þús. til 1 millj. kr. Þetta ásamt aflarýrnuninni nær að vísu ekki alveg að fullu að bæta þann halla, sem er á skipunum, en fer mjög nálægt því.

Þá hefur n. einnig gert nokkurn samanburð á þeirri aðstöðu, sem íslenzk togaraútgerð og erlend á við að búa, og hefur þá tekið til samanburðar bæði brezka og þýska togara. Í Bretlandi var árið 1962 greiddur styrkur á hvern úthaldsdag, sem svaraði 17 sterlingspundum eða 2000 kr., rúmum til allra skipa yfir vissa stærð, sem stunda veiðar á fjarlægum miðum. Til viðbótar þessu var svo veittur sérstakur styrkur til olíukyntra gufuskipa af svipuðum aldri og nýsköpunartogararnir íslenzku, og nam hann frá 3 pundum og 2 shillingum og upp í 8 pund á úthaldsdag, þannig að styrkurinn gat alls numið á dag frá 2400 kr. til 3000 kr. á hvern úthaldsdag. En auk þessara styrkja eru svo veitt brezkum togurum eða togaraeigendum óafturkræf framlög til nýbyggingar togara, og getur það numið allt að 50 þús. sterlingspundum á skip eða í kringum 6 millj. kr., þó ekki yfir 25% af byggingarkostnaði, og með ýmsum nánart skilyrðum.

Í Þýzkalandi er styrkjum hagað nokkuð á annan veg. Þar er ekki veittur styrkur á úthaldsdag, heldur er bætt við vissum hundraðshluta af söluverði afla frá 3–6%. Þessi styrkur getur orðið á skip minnst 350 þús. kr. á ári, en mest í kringum 700 þús. kr.

Í Bretlandi og í Þýzkalandi geta heimaborgarar selt afla sinn án nokkurra tolla, en Íslendingar verða að greiða í Bretlandi 10% toll af brúttósöluverði að frádregnum tollinum, en í Þýzkalandi er þetta breytilegt eftir árstíðum og getur komizt upp í 11½%. En þar við er því að bæta, að tollurinn í Þýzkalandi á sennilega fyrir sér að hækka, eftir því sem árin líða, vegna þess að Þýzkaland er aðili að Efnahagsbandalaginu og Efnahagsbandalagið, eins og kunnugt er, gerir ráð fyrir því að hækka á nokkrum árum toll á innfluttum vörum frá þeim löndum, sem utan bandalagsins eru, þangað til komið er upp í visst hámark, sem ekki hefur verið náð enn og sennilega ekki nærri því.

Það, sem íslenzkur togari þess vegna verður að greiða umfram togarana þýzku og brezku vegna tolla, nemur í kringum 650 þús. kr. af andvirði þeirra sex söluferða, sem áætlaðar eru, en dæmið um íslenzku togarana er sett þannig upp, að það er gert ráð fyrir því, að þeir fari sex söluferðir til útlanda, en afla úr öðrum sex veiðiferðum landað heima.

Ef gert er svo upp, hvað þessir brezku og þýzku togarar fá umfram íslenzka togara, eða sá aðstöðumunur, sem er á milli brezkra og þýzkra togara annars vegar og íslenzkra hins vegar, að meðtöldum raunar þó þeim beinu styrkjum, sem þeir fá, þá lítur dæmið þannig út:

Beinir styrkir til erlendu togaranna eru taldir minnst vera 350 þús., mest 930 þús. Tollar, sem íslenzkir togarar greiða erlendis, en erlendir togarar sleppa við, eru minnst 410 þús., en mest 650 þús., miðað við þann ferðafjölda, sem ég nefndi. Mismunurinn í mannahaldi, þ. e. að þeir hafa, íslenzku togararnir, 7–11 mönnum fleira en þeir erlendu, þýðir minnst 802 þús. kr. og mest 1260 þús. kr. Ýmis kostnaður, sem erlenda útgerðin hefur hagkvæmari en sú íslenzka, nemur um 252 þús. minnst og 696 þús. kr. mest. Og samtals er þessi aðstöðumismunur, þegar frá er dreginn styrkurinn hér heima, 1 millj. 814 þús. minnst og 3 millj. 236 þús. mest.

Það gefur því auga leið, að þegar þar við bætist svo sú aflarýrnun, sem togararnir hafa orðið fyrir, þá er samkeppnisaðstaða þeirra við erlendu togarana ærið slæm. Sem smáatriði í þessu sambandi að vísu, en þó munar um, er það, að hér verða íslenzku togararnir, sem leggja upp afla sinn heima, að greiða olíuna talsvert hærra verði en hinir erlendu fá hana fyrir í sinni heimahöfn, en þessi verðmismunur er m.a. vegna þess, að þeir þurfa að greiða af henni hér verðjöfnunargjald vegna þeirrar olíu, sem út á land er flutt.

Hér í þessu frv. er gert ráð fyrir því að veita togurunum nokkurt framlag úr ríkissjóði umfram það, sem þeir eru styrktir annars staðar frá. Þetta er ekki nýtt. Það hefur verið gert áður. 1960 var veitt togurunum í heild 34 millj., 1961 svipuð upphæð og 1962 27 millj. Þegar lögin um aflatryggingasjóð voru sett á árinu 1962, þá var ákveðið, að sjóðurinn skyldi einnig ná til togaranna, og ákvæðin um bætur til togaranna skyldu ná aftur fyrir sig til ársins 1960. Fyrsta árið, árið 1960, voru togaraeigendum greiddar bætur með skuldabréfum, sem námu í heild í kringum 30 millj. og ríkissjóður greiddi sem sitt framlag í togaradeild aflatryggingasjóðsins. Árið 1961 greiddi aflatryggingasjóðurinn alls 32,6 millj. Og 1962 var annars vegar greiðsla úr ríkissjóði 15 millj. og hins vegar úr aflatryggingasjóði 19.6 millj., það er í kringum 34 millj. samtals.

Sá styrkur, sem togararnir þess vegna hafa fengið, hefur verið fólginn í þrenns konar framlögum. Hann hefur verið fólginn í því, að úr hinum sameiginlega sjóði vátryggingarstarfseminnar hafa þeir fengið hátt í eina milljón króna á ári. Það, sem þeir hafa fengið úr aflatryggingasjóði, hefur numið svipaðri upphæð og þó stundum nokkru meiri. Til viðbótar kemur svo ríkissjóðsframlag það, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., sem nú liggur hér fyrir til umr.

Í þessu nál. togaranefndarinnar er gert ráð fyrir, að sá minnsti styrkur, sem hægt sé að hugsa sér að togararnir komist af með, sé í kringum 3 millj. kr. á ári. Þar af er gert ráð fyrir, að 1 millj. komi frá vátryggingarpúlíunni og um ½ millj. frá aflatryggingasjóði, og þess vegna sé nauðsynlegt að gera ráð fyrir því, að ríkissjóður bæti við sem svarar hálfri annarri millj. kr. á skip, eða ef reiknað er með 34 skipum, 51 millj., eins og frv, gerir ráð fyrir.

Þetta er ekki falleg mynd af afkomu togaraútvegsins á Íslandi, en ég hef talið rétt að gefa þessar upplýsingar alveg eins og n. hefur gengið frá þeim. Þessar upplýsingar allar, sem ég nú hef gefið hv. alþm., eru teknar beint úr nál. og niðurstöðum nefndarmanna af þeirri athugun, sem fram hefur farið hjá þeim. Og ríkisstj. hefur tekið upp þessa till. þeirra um að leggja fram til togaranna sem svaraði 1½ millj. kr. á skip, eða 51 millj. í allt, miðað við 34 skip.

Við þetta er svo bætt í 2. gr. frv. síðari málsl. heimild fyrir ríkisstj. til þess að leggja fram 4 millj. kr. til fiskileitar. Fiskileit hefur farið fram fyrir togarana á hverju ári upp á síðkastið, en mjög takmörkuð. Hún hefur verið svona takmörkuð vegna þess, að það hefur ekki verið veitt fé á fjárl. nema það naumt, að fiskileitin hefur ekki getað staðið nema tiltölulega stuttan part úr árinu. Hér er gert ráð fyrir, að 4 millj. kr. verði bætt við það framlag, sem á fjárl. er, sem mun vera 2 millj. kr., þannig að alls verði til ráðstöfunar til fiskileitar fyrir togarana um 6 millj. kr. á þessu ári, þannig að hún ætti með þessari upphæð að geta orðið starfrækt mikinn hluta ársins. Það er ákaflega nauðsynlegt fyrir þá, því að leitarskip getur komið að mjög miklu gagni fyrir þá eins og önnur veiðiskip, eins og t.d. síldveiðiskipin, þar sem síldarleitin hefur orðið síldveiðibátunum til ómetanlegs stuðnings.

Þetta var sú hliðin, sem að togurunum snýr. Það er kannske sú alvarlegasta, sú mest aðkallandi og sú erfiðasta að leysa. En ég tel, að með þessum framlögum, sem nú eru ráðgerð til togaraútgerðarinnar, megi jafna nokkurn veginn þann halla, sem orðið hefur á togaraútgerðinni 1963, og ég held, að það verði að teljast eðlilegt, að þessi styrkur, sem hér er lagður fram, verði miðaður við árið 1963 og miðaður við þá úthaldsdaga, sem skipunum hefur verið haldið úti á því ári.

Um frystihúsin er það að segja, að þar liggja ekki fyrir — það skal strax játað — eins ýtarlegar upplýsingar og um togarana. Þó er þess að geta, að á miðju ári, eða kannske nokkru seinna, þá kom stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna að máli við ríkisstj. og skýrði henni frá rekstrarafkomu frystihúsanna, í fyrsta lagi 1962, sem stjórn Sölumiðstöðvarinnar taldi eftir atvikum sæmilega. Þeir höfðu þá haft hagnað talsverðan upp í afskriftir, en á miðju ári 1963 töldu þeir, að rekstri frystihúsanna væri þann veg komið, að þau væru rekin með tapi og enginn eyrir til afskrifta.

Ég gleymdi áðan að svara þeirri fsp. um togarana, sem var borin hér fram, hvort reiknað væri með afskriftum í þessum niðurstöðum, sem fengnar voru um togarana, og það er. Það er reiknað með 1 millj. kr. í afskriftir á skip.

Þegar Sölumiðstöðin eða stjórn hennar kom til ríkisstj., þá hafði hún meðferðis reikninga 8 frystihúsa, sem gerðir höfðu verið upp fyrir fyrri helming ársins 1963, og niðurstaðan af því uppgjöri var, eins og ég sagði, að það væri ekki aðeins, að það væri ekkert upp í afskriftir, heldur vantaði, að mig minnir, 12 millj. kr. á, að þessi frystihús hefðu fyrir beinum rekstrarútgjöldum. Ég man nú ekki nákvæmlega, hver þessi frystihús voru, en ég man þó það, að af þeim voru 3 í opinberri eða hálfopinberri eigu. Það voru sem sagt hraðfrystihúsin í Reykjavík og Hafnarfirði, hraðfrystihús bæjarútgerðanna á þessum stöðum, og hraðfrystihús Útgerðarfélags Akureyrar, auk 5 annarra, sem þar voru talin.

Þegar þeir ræddu við ríkisstj., og þeir ræddu við hana á þeim grundvelli, að á einhvern hátt yrði mætt þeim aukna kostnaði, sem orðið hefði vegna 5% launahækkana í janúar og 7½% launahækkananna í júní, sá ríkisstj. sér ekki fært þá að verða við þeirri beiðni, vegna þess að hún taldi, að upplýsingarnar, sem fyrir lægju, væru ekki nægilega miklar, til þess að hægt væri að byggja á þeim þá aðstoð, sem farið var fram á. Hins vegar, þegar vinnudeilurnar stóðu yfir í desembermánuði s.1., þá komu hraðfrystihúsaeigendur til ríkisstj. og sögðu henni frá því, að svo illa sem þeim hefði gengið með að halda frystihúsunum gangandi eftir þær launahækkanir, sem orðið hefðu fyrr á árinu, þá væri algerlega útilokað, að þeir gætu bætt á sig nokkrum kauphækkunum í viðbót auk annarrar hækkunar á rekstrarkostnaði, sem orðið hefði. Ríkisstj. lét þá vinda að því nokkurn bug að láta kanna málið og fól Efnahagsstofnuninni að fara ofan í ekki einasta þessa reikninga, sem Sölumiðstöðin sendi, heldur líka aðra reikninga, sem hún átti kost á að skoða, og setja upp sérstakan reikning fyrir eitt meðalfrystihús. Nú eru náttúrlega, eins og allir vita, afkomumöguleikar frystihúsanna ákaflega misjafnir. Þó að eitt frystihús geti verið rekið með sæmilegum hagnaði, þá er jafnvíst, að önnur eru rekin með tapi, og erfitt að búa út nokkra lausn, sem getur hentað fyrir þau öll, því að það, sem einum kann að duga, gefur öðrum kannske óhóflega mikinn arð og þar fram eftir götunum. En það var talið, að meðalfrystihús, eins og það var kallað, mundi þurfa þeirrar aðstoðar við, sem 15% launahækkun í desember krefðist, þ.e.a.s. að frystihúsin gætu ekki tekið á sig neinn hluta af þeirri hækkun vinnulauna, sem í desember varð. Það varð til þess, að ríkisstj. hét frystihúsunum því að beita sér fyrir því, að þessi 15% hækkun, ef hún yrði, yrði bætt þeim á einhvern veg af opinberri hálfu.

Þessi hækkun, sem hjá frystihúsunum hefur orðið á árinu, er ekki aðeins þetta. Hún er ekki aðeins 5% hækkun í jan., 7½% hækkun í júní og 15% hækkun í des., sem gefur samtals um 32% hækkun, heldur hefur líka komið til hækkun kvennakaupsins um áramótin, bæði áramótin 1962–1963 og áramótin núna, 1963–1964, og til viðbótar hefur það líka komið, að verkamenn, sem vinna í frystihúsum, hafa verið færðir á milli launaflokka og hækkaðir nokkuð, þannig að einnig það verkar í hækkunarátt. Þeir hafa haldið því fram, hraðfrystihúsamenn, að kauphækkunin á árinu hafi orðið yfir 40%. Og það liggur náttúrlega í hlutarins eðli, að ef þeir hefðu getað tekið að sér 40% launahækkun á einu ári án nokkurrar aðstoðar, hefði áður verið ofsagróði á þessu fyrirtæki. En það var vitað, að hjá þeim a.m.k. flestum var ekki um neitt slíkt að ræða. Það var þess vegna ekki hægt hjá því að komast, ef deilan ætti að leysast, að heita þessari aðstoð, eins og ríkisstj. gerði, og ég vil halda því fram, að ef frystihúsin hefðu ekki fengið þetta fyrirheit hjá ríkisstj., að beita sér fyrir þessari hækkun eða þessum bótum, mundi deilan ekki hafa leysts og væri kannske ekki leyst enn í dag. Hitt er svo annað mál, hvaða álit ríkisstj. kunni að hafa á þessum launahækkunum. Þær voru staðreynd, sem ekki var hægt að komast fram hjá, og varð þess vegna að mæta þeirri staðreynd með einhverjum þeim ráðstöfunum, sem mögulegt var að ráða við, bæði fyrir ríkisstj. og fyrir þá sjálfa, að reka fyrirtæki sín á þann hátt, að viðunandi væri.

Þessi uppbót fyrir frystihúsin, sem svaraði til 15% launahækkunarinnar í des., var reiknuð af trúnaðarmönnum ríkisstj. að nema sem svaraði 5.2% af útflutningsverðmætinu. Það varð niðurstaðan að lækka útflutningsgjaldið um 1.8%, en veita hitt í beinu framlagi til húsanna. Þegar útflutningsgjaldið var sett á sínum tíma, var það sett með hliðsjón af því, að þeir, sem gjaldið áttu að greiða, útvegsmenn fyrst og fremst og vinnustöðvar sjávarútvegsins, hefðu efni á því að greiða það, enda var nokkur hluti þessa útflutningsgjalds látinn ganga til hluta, sem að eðlilegum hætti mætti segja að ríkissjóði bæri að taka á sínar herðar. Það er út af fyrir sig ekki hægt að segja, að það sé eðlilegt, að sjávarútvegurinn taki á sig að leggja fram allt framlag til stofnlánasjóða sinna, eins og gert var ráð fyrir í þeim lögum, heldur að ríkissjóður legði þar nokkuð fram, svipað því sem gert er t.d. við stofnlánasjóði landbúnaðarins, þar sem ríkissjóður greiðir helminginn á móti öðrum. Og þess vegna var það ekki óeðlilegt, að þegar útvegurinn eða frystihúsin í þessu falli voru komin í kröggur, yrði létt af þeim þessari greiðslu til stofnlánasjóðs síns eða fiskveiðasjóðsins og ríkissjóður látinn taka á sig þann bagga.

Það má segja, eins og forsrh. rakti hér áðan, að það séu fleiri útgjöld, þó að smá séu, sem nú hvíla á útflutningsgjaldinu, og mætti taka það til athugunar í framtíðinni, hvort ekki væri hægt að létta þeim af að einhverju leyti einnig. En í þessu tilfelli munar það tiltölulega litlu, og var þess vegna ekki farið lengra í því efni.

Um útflutningsgjaldslækkunina að öðru leyti er það að segja, eins og hæstv. forsrh. nefndi áðan líka, að þá nær hún til fleiri hluta en til hraðfrysta fisksins, og þótti eðlilegt, að hún næði einnig til skreiðar og saltfisks. En það er líka sú eina aðstoð, sem þeir atvinnuvegir fá, og verða þeir því að þessu leytinu harðar úti en hraðfrystihúsin. En það helgast af því, að á árinu 1963, um mitt ár og sérstaklega síðast á árinu, hefur orðið talsverð verðhækkun á þessum vörum, bæði saltfiski og skreið, og var þess vegna talið, að þeir gætu staðið betur undir þeirri hækkun vinnulauna, sem varð, heldur en frystihúsin, þar sem hækkun á afurðaverðinu hefur lítil eða engin orðið hjá þeim.

Þessar tölur líta þannig út, að það, sem kemur á ríkissjóð að greiða vegna lækkunar útflutningsgjaldsins, verður vegna frystihúsanna 19 millj., en vegna saltfisks og skreiðar 11 millj. Auk þess var svo tekin sú ákvörðun að leggja það, sem á vantaði, 5.2% af útflutningsverðmætinu, fram sem hrein framlög til húsanna, og nemur sú upphæð þá 43 millj. kr. En það var jafnframt ákveðið að láta það fylgja, að þessu fé yrði varið til þess að koma á í húsunum hagkvæmari vinnubrögðum, vinnuhagræðingu, eins og það er kallað með nýju orði, og ákveðið, að þetta fé yrði greitt stofnlánadeildinni, sem ráðstafaði því í sambandi við viðskiptabanka viðkomandi húss til greiðslu á þeim kostnaði, sem húsin hefðu af því að koma þessu kerfi á. Það er enginn vafi á því, að þar sem þessu hefur verið komið á, hefur það gefið góða raun og hefur bæði orðið til þess að auka vinnulaun þeirra, sem í húsunum vinna, og einnig til þess að bæta afkomu frystihússins sjálfs, þannig að með því að styrkja húsin til þess að koma á þessum vinnubrögðum, þá mætti gera ráð fyrir því, að þau væru betur undir það búin í næstu framtíð að vera rekin án þess að til aðstoðar þyrfti að koma. Ég skal taka það fram í þessu sambandi, að það er meining ríkisstj. að láta þetta fé einnig ganga til þeirra frystihúsa, sem þegar hafa komið á þessari hagræðingu, og koma þannig í veg fyrir, að þeim verði refsað með því að fá engan styrk, þótt þau séu búin að koma þessu á, en eigendurnir verða þá að gera grein fyrir því, hvernig það hafi verið gert, á sama hátt og hinir, sem ekki eru búnir að koma henni á, gera grein fyrir því, sem þeir ætla að gera.

Þetta er nú það, sem um þá þætti sjávarútvegsstarfseminnar er að segja, sem þessi lög eða þetta frv. snertir. Þessi upphæð, sem veitt er til sjávarútvegsins á þennan hátt, nemur samtals 128 millj. kr. Þegar verið var að undirbúa fjárl. í sumar, var það greinilegt, að með þeirri hækkun, sem orðið hefði á launum opinberra starfsmanna, mundi ríkissjóður þurfa mjög mikið fé til viðbótar því, sem hann áður hafði, til þess að mæta þessum auknu útgjöldum vegna launa hinna opinberu starfsmanna. Þá var kannað, hvaða leiðir væru til þess fallnar að jafna þessi met, og niðurstaðan af því varð sú, að með auknum innflutningi og auknum tekjum ríkissjóðs, sem reiknað var með, eins og frekast mátti verða, leit þannig út, að það mætti komast hjá því að leggja á nýja skatta, ef dregið yrði úr niðurgreiðslum á neyzluvörum. Og það var staðnæmzt við þá lausn, því að þá var ekki vitað um það, hvað síðar mundi koma, og talið, að þessi lækkun á niðurgreiðslum mundi nægja til þess að koma á jöfnuði á greiðslur ríkissjóðs. Við vorum sammála um það, að þetta mundi vera hægara en að leggja á nýja skatta. Þetta hefur síðan staðið opið og ekki verið tekin um það nein endanleg ákvörðun. En þegar sýnt var með þeim breytingum, sem orðið höfðu á efnahagskerfi þjóðarinnar, á launagreiðslum bæði ríkissjóðs og annarra, að vonlaust var að hugsa sér að komast hjá því, að til einhverra nýrra skatta þyrfti að grípa, þá var um leið talið, að þá væri bezt að láta niður falla á móti niðurfellingu eða niðurfærslu niðurgreiðslnanna, og þess vegna verður í þeirri tekjuöflun, sem hér er gert ráð fyrir handa sjávarútveginum, að bæta við þeirri upphæð, sem hugsað var að afla með lækkun á niðurgreiðslum. Það voru 55 millj., sem þannig var hugsað að taka þá. Svo kemur enn til viðbótar framlagið til almannatrygginganna, sem hækkar náttúrlega vegna þeirra almennu kauphækkana, sem urðu í des. og ekki var vitað um, þegar fjárlagafrv. var samið. Þá var ekki vitað um aðrar hækkanir en þær, sem leiða mundi af þeim kauphækkunum, sem orðið höfðu í jan. og í júní. Þessi upphæð vegna trygginganna er talin nema 27 millj. og skerðing niðurgreiðslnanna eða það, að hætt er við þær, nemur 55 millj. Samtals verða þá þau útgjöld, sem þarf að afla, bæði til sjávarútvegsins, trygginganna og niðurgreiðslnanna, 210 millj. kr.

Þá er spurningin: Hvernig á að afla tekna í þessu augnamiði? Það koma að mínu viti tvær leiðir til greina, annaðhvort gengislækkun eða nýr skattur, sem notaður yrði á þennan hátt.

Ég vil ekki kalla þessar greiðslur til sjávarútvegsins uppbætur á sama hátt og greiddar voru í gamla daga til rekstrarins. Það er mjög ólíkt, því að hér er um að ræða að létta greiðslum af sjávarútvegi, sem mátti segja að orkað gætu tvímælis, og hins vegar styrkur í ákveðnu augnamiði til hraðfrystihúsanna til þess að koma á hjá sér betra og hagrænna vinnuskipulagi og ekki beint til rekstrarins nema togaragreiðslurnar, eins og þær hafa tíðkazt að undanförnu, og er ekkert nýtt í því. En þessi tekjuöflun til aðstoðarinnar, eins og hún er hér hugsuð, verður ódýrari og léttbærari fyrir þjóðina heldur en ef gengislækkunarleiðin hefði verið farin. Það er fyrsta atriðið. Í öðru lagi er það, að gengislækkunin vekur meiri tortryggni og meiri erfiðleika í efnahagsstarfsemi þjóðarinnar heldur en þó þessi hækkun söluskattsins gerir. Hækkun söluskattsins er talin verka þannig, að hún þýði um eitt vísitölustig fyrir hverja prósentu, eða sem svarar hækkun á framfærsluvísitölu um 2 stig eða 1.4%. En ég er sannfærður um það, að á engan annan hátt hefði verið hægt að afla þessara tekna með léttbærara móti en þennan, sem hér hefur verið farinn. Þess vegna hefur Alþfl. fallizt á að fara þessa leið, með hliðsjón af því, að úr því sem komið er, er þetta það auðveldasta af öðrum leiðum, sem yrðu þá að dæmast verri.

Ég held, að um það séu allir sammála, að það að halda að sér höndum og gera ekki neitt, hefði verið dæmd ófær leið af hv. þm. Það er enginn vafi á því, að ef það hefði verið gert, hefði framleiðslustarfsemin, sérstaklega hraðfrystihúsanna á ýmsum stöðum, stöðvazt og atvinnuleysi haldið innreið sína. Þess vegna sé einhver fyrirgreiðsla nauðsynleg, til þess að starfsemin geti haldið áfram. Og þessa fyrirgreiðslu tel ég þá hagkvæmustu, sem tiltæk er. Nú hefur að vísu komið það til eftir að frá þessu frv. var gengið, að fiskverðið hefur verið ákveðið á þann hátt, að ýmsir aðilar eru óánægðir með það. Það er nýtt vandamál, sem ekki hefur verið tekin afstaða til og ekki er mögulegt að taka afstöðu til alveg á þessari stundu, vegna þess að til þess skortir nánari upplýsingar, sem verið er að afla. En það er opið vandamál, sem taka verður til athugunar í sambandi við lausn þessara mála í heild.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Ég vildi óska þess, að hv. alþm. gætu, burtséð frá öllum flokkslínum, litið á málin frá því sjónarmiði, hvað skynsamlegast er að gera, og ég vænti þess, að ef sú athugun fer hlutlaust fram, þá komist þeir að þeirri niðurstöðu, að það séu ekki aðrar leiðir heppilegri. A.m.k. ef þessi leið verður ekki talin að þeirra dómi sú æskilegasta, þá vænti ég, að þeir geri grein fyrir því, hvað betra mætti verða.