18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (3072)

129. mál, ábyrgðartryggingar atvinnurekenda á starfsfólki þeirra

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um ábyrgðartryggingar atvinnurekenda á starfsfólki þeirra. Þessi till. var frumflutt á seinasta þingi af þáv. 6. þm. Sunnl., Karli Guðjónssyni, ásamt mér, en þá fékk till. ekki lokaafgreiðslu. Till., sem hér er til umr., er á þskj. 234 og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir Alþingi frv. til 1., sem geri atvinnurekendum að skyldu að kaupa fullnægjandi ábyrgðartryggingu fyrir slysabótum, sem á atvinnureksturinn kunna að falla.“

Þetta er að mínu áliti nauðsynjamál, sem ekkert vit er í að standa gegn. Þegar slys verða á fólki við störf, er atvinnurekandi oft skaðabótaskyldur lögum samkv., en sú lagaskylda leysir ekki þann vanda, sem þessi till., fjallar um. Að vísu er það svo, að mörg hinna myndarlegustu atvinnufyrirtækja í landinu kaupa ábyrgðartryggingu fyrir starfsfólk sitt og telja Það sjálfsagðan hlut, sem það líka er, auk þess sem það er hyggilegt frá sjónarmiði atvinnurekandans sjálfs. En það almenna er þó, að atvinnurekendur kaupi ekki slíkar tryggingar, og þá getur hæglega svo fárið, að þeir eða atvinnurekstur þeirra verði fyrir svo þungri bótaskyldu, að þeir verði ekki borgunarmenn fyrir. Hvimleitt er fyrir ærukæran atvinnurekanda að eiga lengi yfir höfði sér vofandi slíkar réttmætar kröfur starfsmanna eða starfsmanns og vera þess ekki umkominn að sinna þeim. En hálfu verra er þó hitt, að sá eða þeir, sem bæturnar skyldu fá lögum samkv., fá þær ekki fyrr en seint og siðar meir og jafnvel aldrei. Þetta hefur komið fyrir, og þetta getur þráfaldlega komið fyrir, nema atvinnurekendum sé gert að skyldu að kaupa ábyrgðartryggingu fyrir starfsfólk sitt og verja sig þannig skakkaföllum, eins og lagt er til að gert verði í þessari till., og það, sem mest er um vert, að löggjöf verði sett til þess að tryggja það, að sá, sem skaðabótarétt öðlast vegna slysfara eða sjúkdóma, fái skilvíslega sínar greiðslur, eins og lög ætlast til og lög standa til.

Að því er vikið í grg. þessarar till., að hver sá maður, sem tekur bifreið í notkun, verði, áður en hann tekur hana í notkun, að kaupa ábyrgðartryggingu fyrir því tjóni, sem hann kann að valda með bifreiðinni. Þetta fyrirkomulag er alveg sjálfsagt, og móti því mælir enginn. En ég er þeirrar skoðunar, að hliðstæð skylda og á bílaeigendunum hvílir til þess að kaupa ábyrgðartryggingu verði einnig lögð almennt á herðar atvinnurekendum varðandi slys og tjón, sem hlotizt geta af atvinnurekstri þeirra. Slík trygging er báðum til hagsbóta og öryggis, atvinnurekendunum og starfsmönnum þeirra. Það skyldi því enginn ætla, að hann sé að þjóna atvinnurekendum eða hagsmunum þeirra með því að standa gegn því, að slík tryggingaskylda verði lögfest.

Að lokum vil ég svo segja þetta: Það má sízt henda, að fólkið, sem starfar í þágu atvinnulífsins, verði, ef það slasast, af þeim bótum, sem það á rétt til samkv. íslenzkum lögum, en það hefur, eins og ég áðan sagði, þráfaldlega hent og getur þráfaldlega komið fyrir, þar til sett hefur verið löggjöf, sem gerir öllum atvinnurekendum að skyldu að kaupa fullnægjandi ábyrgðartryggingu fyrir slysabótum, sem af atvinnurekstrinum kann að leiða og á hann kunna að falla. Um það er þáltill. mín á þskj. 234, og vil ég vænta þess, þar sem hv. þm. hafa haft ár til umhugsunar um þetta einfalda og sjálfsagða mál, að hún fái nú afgreiðslu á þessu þingi.

Samþ. er till. um, að um þetta mál verði höfð ein umr., og fellst ég að sjálfsögðu á það og legg því til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.