20.03.1964
Sameinað þing: 56. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

136. mál, skipti á diplomatískum fulltrúum við Kínverska alþýðulýðveldið

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þessi till. til þál. fer fram á, að skipt verði á diplómatískum fulltrúum við Kínverska alþýðulýðveldið. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, býr nú í Kína fjórðungur alls mannkyns, en Kína er, eins og við vitum öll, eitt af elztu menningarríkjum heims og er nú eitt af fimm stórveldum, sem sérstaklega er viðurkennt í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Það hefur ekki verið talin sérstök ástæða til þess, að við færum að koma á beinum skiptum diplómatískra fulltrúa við Kínverska alþýðulýðveldið, á meðan við höfðum ekki heldur diplómatísk fulltrúaskipti við lönd eins og Japan eða önnur slík, sökum þess að þessi lönd voru það fjarlæg okkur, að þau sambönd, sem við þurftum við þau að hafa, gátum við jafnt haft, þótt engir diplómatískir fulltrúar væru. Hins vegar hefur þróunin orðið sú í veröldinni, að fjarlægðirnar minnka hlutfallslega alltaf og Ísland hefur nú á síðustu árum einnig fárið að taka upp diplómatísk fulltrúasambönd við þau ríki, sem eru okkur eins fjarlæg og Japan og önnur slík. Ég álít þess vegna ekki ástæðu til þess lengur, að við komum ekki okkar sambandi við Kínverska alþýðulýðveldið í samsvarandi lag.

Fram að þessu hefur það verið svo, að við höfum haft, eftir því sem ég bezt velt, svipuð samskipti við alþýðulýðveldið Kína eins og þau lönd, sem við höfum ekki haft sérstaka diplómatíska fulltrúa hjá, við skulum segja eins og við höfðum t.d. fram á síðasta ár viðvíkjandi Búlgaríu eða öðrum slíkum. Það hafa aldrei verið neinir sérstakir diplómatískir erfiðleikar fyrir Ísland í þessum efnum, eins og hafa verið fyrir sum önnur ríki. Ísland hefur aldrei haft neitt samband við stjórn Chlang-Kal-sheks á Formósu, þannig að þau diplómatísku vandamál, sem verið hafa fyrir sumar þjóðir í því sambandi, hafa aldrei verið til hjá okkur. Og við vitum það, að þegar fulltrúar hjá Kínverska alþýðulýðveldinu hafa komið hér, hefur verið tekið á móti þeim vinsamlega, líka af okkar æðsta manni, forseta lýðveldisins, eins og um fulltrúa vinveittrar þjóðar væri að ræða, sem við hins vegar hefðum ekki enn sem komið er nein diplómatísk sambönd við. Mér sýnist hins vegar eðlilegt, eins og nú er komið, að við skiptumst á diplómatískum fulltrúum við Kínverska alþýðulýðveldið. Kína lætur nú meira og meira að sér kveða á vettvangi stjórnmálanna og viðskipti þess fara sívaxandi. Þau eru bókstaflega að varða um mestallan heim og geta vafalaust verið nokkur við okkur líka. Þá ber okkur og að athuga það, að öll Norðurlönd nema Ísland hafa nú þegar og hafa haft um nokkurt skeið diplómatísk fulltrúaskipti við Kínverska alþýðulýðveldið. Um skeið mátti máske telja, að það gæti orðið nokkur ásteytingarsteinn um slíkt sökum þess, að Ísland er í Atlantshafsbandalaginu og sum lönd í því hafa verið þar æði andvíg. Nú er það hins vegar svo, að líka þau lönd. sem næst okkar standa, eins og Noregur og Danmörk og Bretland, raunar Holland 1íka, hafa um alllangt skeið haft diplómatísk fulltrúaskipti við Kínverska alþýðulýðveldið. og nú hefur það evrópska stórveldi, sem ekki hafði það áður, Frakkland, tekið þessi samskipti upp einnig og þar með meiri hlutinn af stórveldum Atlantshafsbandalagsins tekið upp diplómatísk samskipti við Kína. Og eins og nú standa sakir, virðist aðeins tímaspursmál, hvenær Kínverska alþýðulýðveldið komi til með að skipa sinn réttmæta sess hjá Sameinuðu þjóðunum, sem það hefur verið hindrað í fram að þessu.

Það er engum efa bundið, að sú þróun, sem gengur í þá átt að viðurkenna það, sem raunverulegt er þannig í heiminum, eins og sérstaklega hefur verið áberandi nú hjá VesturEvrópu og ekki sízt Frakklandi upp á síðkastið, kemur til með að bæta friðarhorfurnar í veröldinni og gera mögulegt að taka upp samninga um þau mál, sem allar þjóðir hafa áhuga fyrir að hægt sé að gera samninga um, eins og útrýmingu kjarnorkuvopnanna og annað slíkt, en allir vita, að slíkir samningar eru ekki orðnir raunhæfir fyrr en a.m.k. öll þau stórveldi, sem hugsanlegt er að geti framleitt slík kjarnorkuvopn, eru orðin raunverulega með í þeim. Það er þess vegna tákn um vilja til þess að reyna að bæta friðarhorfur í veröldinni að taka upp slík diplómatísk viðskipti eins og við þetta kínverska stórveldi og vottur um raunsæi í stjórnmálum heimsins, sem heimurinn virkilega þarf á að halda, og ég álít. að við, þó að okkar ríki sé litið, höfum sama rétt og hvert ríki, sem er hjá Sameinuðu þjóðunum. Við eigum að leggla fram okkar skerf til þessa líka, og það held ég að væri einmitt rétt gert með því, að við fælum ríkisstj. að skiptast á diplómatískum fulltrúum við Kínverska alþýðulýðveldið.

Ég vildi svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli sé vísað til utanrmn., þegar það hefur verið rætt nú, og leyfa mér að vona, að utanrmn. skili áliti um þetta mál, þannig að hæstv. ríkisstj. geti fengið að vita vilja Alþingis um það, að þessum málum okkar sé komið í lag.