24.01.1964
Neðri deild: 44. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru ekki mörg orð, sem ég þarf að segja. Ég skal ekki blanda mér í þær almennu umr., sem hér hafa farið fram um efnahagsþróun síðustu ára, bæði vegna þess, að það mál er margrætt, og eins vegna hins, að þeim aths., sem hér hafa verið gerðar, hefur verið svarað allrækilega og ekki er ástæða til, að ég fari að bæta neinu við það. En til mín var beint af hv. 5. þm. Austf, þrem spurningum, sem ég skal leitast við að svara að nokkru, eftir því sem í mínu valdi stendur að gera nú á þessari stundu.

Hv. þm. spurði í fyrsta lagi, hvernig ætti að skipta þeim 43 millj. kr., sem í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að verja skuli til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í framleiðslu freðfisks? Það er gert ráð fyrir, að stofnlánadeild sjávarútvegsins úthluti þessu fé til tiltekinna framkvæmda í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands eftir reglum, sem sjútvmrh. setur. Þessar reglur hafa ekki enn verið ákveðnar, en ég vil aðeins benda á, að frá þessum aðilum sjálfum, og raunar ætla ég, að það hafi einnig komið fram í þessum umr., hefur verið talið eðlilegt, að þessi styrkur yrði veittur frystihúsunum fyrst og fremst með lækkun á útflutningsgjaldinu. Nú er útflutningsgjaldið, eins og vitað er, í beinu hlutfalli við framleiðsluafköst frystihúsanna. Þess vegna er ekki óeðlilegt að hugsa sér, að það verði a.m.k. eitt meginsjónarmið við ákvörðun skiptingarinnar, að tekið verði tillit til þeirrar framleiðslu, sem frystihúsin hafa að undanförnu afkastað. Hins vegar er mér alveg ljóst, að það geta komið fleiri atriði þar til greina, sem sjálfsagt verða tekin til athugunar, áður en endanlega verður frá þessum úthlutunarreglum gengið. En ég nefndi aðeins þetta með útflutningsgjaldið vegna þess, að náttúrlega kemur sú lækkun á útflutningsgjaldi, sem frv. gerir ráð fyrir, frystihúsunum til góða í beinu hlutfalli við framleiðslumagnið. Og ef meiri hl. en nú er ákveðið hefði verið tekinn með lækkun útflutningsgjaldsins, hefði það náttúrlega staðið í beinu hlutfalli við framleiðslumagnið. En ég endurtek, að það geta komið fleiri atriði til greina, eins og það, hvað frystihúsin ætla sér að gera í þessu efni, og líka, hvaða möguleika þau hafa til þess að gera það, og ég vildi ætla, að í hinum endanlegu ákvörðunum um úthlutunina yrði litið á þau sjónarmið, sem þannig koma fram, í viðbót við framleiðslumagn húsanna.

Þá spurði hv. þm., hvort styrkveitingar til togaranna yrðu ekki háðar því skilyrði, að saman hefðu gengið samningar á milli togaraeigenda og hásetanna, sem nú eiga í vinnudeilu við togaraeigendur, eða hvort það ætti að hugsa sér, að styrkveitingarnar til togaranna yrðu látnar fara fram, þó að skipin lægju í höfn. Út af þessu vildi ég taka fram, að það hafa verið nokkrar bollaleggingar um það, hvernig þessar styrkveitingar, alveg sérstaklega úr aflatryggingasjóði og að nokkru leyti frá ríkissjóði, færu fram. Eins og kunnugt er, segja lögin um aflatryggingasjóð, að styrkurinn úr sjóðnum skuli veittur í öfugu hlutfalli við aflamagn skipanna, þ.e.a.s. þau, sem minnst afla, fái mesta styrkinn. Þetta hefur verið nokkuð gagnrýnt, og í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er í bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir, að stjórn aflatryggingasjóðs sé heimilt að ákveða, að bætur til togaranna úr sjóðnum vegna aflabrests 1963 skuli miðaðar við úthaldstíma þeirra á því ári. Í öðru lagi vildi ég taka fram, eins og kom fram í því, sem ég sagði hér í dag, að sums staðar, eins og t.d. í Þýzkalandi, er sá styrkur, sem togurunum er veittur, miðaður við aflsmagn skipanna og þeim veittar nokkrar uppbætur á aflann, sem er víst hundraðsgjald af því, sem þeir fá fyrir aflann, þ.e.a.s. þar er aðstoðin veitt á þann hátt, að eftir því sem skipin afla meira, eftir því fá þau meiri styrk. Það er alveg öfugt við það „prinsip“, sem aflatryggingasjóðurinn gerir ráð fyrir. En nokkur gagnrýni hefur hér komið fram á því, að — aflatryggingasjóðsfyrirkomulagið væri ekki heppilegt, vegna þess að það verðlaunaði skussana með því að láta þá hafa hæsta styrkinn.

Hér hefur í brbrákv. verið farið bil beggja, bæði í úthlutun þess styrks eða aðstoðar, sem ríkisstj. hefur veitt, og nú gert ráð fyrir, að aflatryggingasjóður fari í sinni úthlutun eftir sömu reglu, þ.e.a.s. að styrkurinn verði veittur sem ákveðin upphæð fyrir úthaldsdag. Þar er ekki miðað við aflann, þannig að hvorki sá, sem minnst aflar, fær mest né heldur sá, sem mest aflar, fær mest, heldur eru veitt verðlaun eða aðstoð fyrir þá viðleitni, sem sýnd er, með því að miða aðstoðina við úthaldsdag. Í því felst líka, að ég vil ætla, nokkur trygging fyrir því, að togararnir liggi ekki í höfn meira en þörf er á og verði þeim þess vegna nokkur hvöt að hafa úthaldstímann sem lengstan, þegar þeir vita, að aðstoðin, sem þeim verður veitt, verður miðuð við fjölda úthaldsdaga. Til viðbótar vil ég svo segja það, að með þeirri aðstoð, sem togurunum er veitt, er þeim náttúrlega gert betur kleift en ella mundi að verða við sanngjörnum óskum hásetanna um launahækkanir.

Þá spurði hv. þm. að lokum, hvernig aflatryggingasjóður væri fjárhagslega á vegi staddur og um hans möguleika, að mér skildist, til úthlutunar togurunum til handa. Um það vil ég aðeins segja, að það er rétt, sem hv. þm. gat um, að togaradeild sjóðsins hefur ekki reynzt fær um að greiða að fullu það, sem togararnir hafa þurft á að halda. Mismunurinn hefur verið fenginn að láni úr jöfnunardeild og úr aðaldeild sjóðsins. Aðaldeild sjóðsins eða þorskveiðideildin er mjög vel á vegi stödd og á talsverða sjóði. Síldardeildin var í skuld við aðaldeildina fram á síðustu ár, en með hinum mikla síldarafla, sem borizt hefur á land að undanförnu, hefur henni tekizt að greiða upp sínar skuldir við þorskveiðideildina og á nú nokkuð í sjóði. Hvað eign hverrar deildar er mikil, hef ég ekki við höndina, aðeins veit ég það, að togaradeildin hefur ekki að fullu getað innt sínar greiðslur af eigin rammleik, en orðið að fá til þess aðstoð. Hún hefur fengið hana frá þessum tveimur deildum, frá jöfnunardeild og frá þorskveiðideild. Hins vegar veit ég það líka, að sjóðurinn, eins og hann er nú, með þeirri sjóðseign, sem hann á nú, og með þeim — ég vil segja miklu tekjum, sem hann fær nú árlega, er þess umkominn fyllilega að veita togurunum þá aðstoð, sem þeir eiga rétt til að fá úr sjóðnum með lánum, á svipaðan hátt og áður hefur verið gert, þar sem togaradeildin sjálf getur ekki staðið undir þeim.

Þetta voru þær þrjár fsp., sem hæstv. þm. gerði til mín og ég tel mig nú hafa svarað, en að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að lengja umr. um málið.