24.01.1964
Neðri deild: 44. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem hæstv, forsrh. beindi til mín. Ég taldi mig sýna fram á það í þeirri ræðu, sem ég flutti hér í dag, að ástæðan til þess, að viðreisnin hefur farið algerlega út um þúfur, væri sú, að stefnan hefði verið og væri í grundvallaratriðum röng og það væri rangt, sem hæstv. ráðh. hefðu á oddinum jafnan, að stefnan hefði farið út um þúfur vegna þess, að kaupkröfur í landinu hefðu verið óeðlilegar og hrundið öllu úr skorðum, en það er höfuðatriði, sem hæstv. ráðh. ævinlega hafa á takteinum til skýringar á því, hversu þeim hefur gersamlega mistekizt allt það, sem þeir sögðust ætla að koma í framkvæmd með hinni nýju efnahagsmálastefnu. Og það heyrðist á því, sem hæstv. forsrh. sagði, að ég hafði ekki farið með neinar ýkjur í þessu um afstöðu hæstv, ríkisstj., því að hann sagði, ráðh., orðrétt áðan, að það hefðu verið knúðar fram kjarabætur langt umfram það, sem framleiðsluaukning og ástæður í heild hefðu gert mögulegt að mæta. Þetta sagði hæstv. ráðh. enn einu sinni. M.ö.o.: það væri vegna hinna óhóflegu kaupkrafna, að efnahagsmálastefna þeirra hefði farið alveg út um þúfur.

En hverjar eru staðreyndirnar í þessu? Staðreyndirnar eru þær, sem ég upplýsti hér í dag og hæstv. ráðh. reyndi að vísu örlítið að mæla gegn, en án raka, sem ég mun bráðlega sýna fram á, — staðreyndirnar eru þær, að verkafólkið við fiskiðnaðinn t.d. ber raunverulega minna úr býtum núna fyrir 8 stunda vinnu en það gerði í okt. 1958. Þetta er staðreynd, sem ómögulegt er að komast fram hjá, og þetta slær alveg til jarðar þessar kenningar hæstv. ríkisstj., að málin hafi farið úr skorðum vegna óbilgjarnra krafa af hendi þessa fólks. Og sannar þetta, að það er eitthvað annað, sem kemur hér til, og um það ræddi ég í dag með ýmsu móti og skal ekki endurtaka það hér.

Hæstv. ráðh. var að reyna að finna það að þessari niðurstöðu, að hún væri miðuð við vísitölurnar þá og nú og vísitalan hefði breytzt þannig, að þessi samanburður væri ekki réttur, því að vísitalan gæfi nú réttari mynd af kostnaðinum við að lifa en hún hefði gert þá. Þá hefði hún verið, eins og hann kallaði það, skekkt með niðurgreiðslum á vörum og ýmissi tilhögun á tollum og öðru slíku, sem nú hefði verið leiðrétt, og nú væri vísitalan sannari mynd en hún hefði verið þá.

Allt er þetta hinn mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh., svo að ekki sé meira sagt, og sumt fullkomin öfugmæli. Í fyrsta lagi er nú, að niðurgreiðslur munu vera fullkomlega eins miklar nú og þá, raunverulega séð. En auk þess kemur hér inn í þetta eitt atriði, sem sker alveg úr, og það er, að vísitalan, sem notuð er við þennan samanburð, byggir á, að húsnæðiskostnaðurinn núna sé um 11 þús. kr. á ári, en það er hann ekki, heldur öllu frekar 30–40 þús. kr. á ári. En þetta er ekki tekið til greina í vísitölunni, og þetta tók ég ekki til greina í samanburðinum. Ég notaði vísitöluna núna með þessari skekkju í, en engin tilsvarandi skekkja var hugsanlega til í vísitölunni frá 1958. Það rétta í þessu er því það, og það er það sorglega við þetta, að menn bera verulegum mun minna úr býtum núna fyrir 8 stunda vinnu en þeir gerðu í okt. 1958, ef miðað er við réttan húsaleigukostnað.

Það var eðlilegt, að hæstv. ráðh. vildi reyna að glíma við þetta dæmi, því að þetta er glöggur vitnisburður um það, hvernig til hefur tekizt, en ekki verður komizt fram hjá. Og öll umræða hæstv. ráðh. um það, hvort heildartekjur manna nú séu meiri eða minni en þá, vegna þess að menn leggi meira að sér núna, vinni lengur fram eftir kvöldum og um nætur meira en áður var, er algerlega út í hött í þessu sambandi. Hér er verið að ræða um það, hvort kaupið hafi verið hækkað óeðlilega, kaupið fyrir þá vinnu, sem lögð er fram fyrir þann vinnutíma, sem atvinnuveitandinn fær á móti. Og þá verður dæmið þetta, sem ég greindi frá. Mig skal ekki furða, þótt hæstv. ráðh, vilji gjarnan leiða athyglina frá því, en það er ekki til neins, þetta liggur alveg fyrir.

Ég minnti á það hér í dag, að hæstv. ráðh. væri stundum að tala um það, — og hann gerði það enn nú áðan, — að ástandið í þessum málum væri í raun og veru ósköp ömurlegt eða ekki gott og það þyrfti að vinna að því, að menn gætu haft þær heildartekjur, sem þeir hafa núna, fyrir 8 stunda vinnu alla vinnudaga ársins. Það er nú engin smábreyting, sem þarf að verða, til þess að slíkt geti átt sér stað, því að heildartekjur manna með nætur- og yfirvinnu munu vera, að því er mér skilst, eitthvað yfir 100 þús. kr., því að svo mikið leggja menn nú að sér til þess að reyna að komast fram úr þessu. Það er því ekki neitt lítið, sem hæstv. ráðh. ætlar sér með því að lýsa þessu yfir sem stefnu. En ég spurði í dag, og ég spyr enn: Hvernig getur sá hæstv. ráðh., sem ræðir um þetta atriði á þá lund, sem hæstv. forsrh. gerir, látið sér sæma að leggja fram frv. eins og þetta, sem er byggt á því, að það verði að taka af mönnum aftur núna eitthvað af þessum 77 þús. kr., sem menn eiga nú að fá fyrir að vinna 8 stundir? Fram hjá þessu gekk hæstv, ráðh, hér áðan gersamlega þegjandi.

Ég sagði áðan, og ég segi enn, að það hefði verið aðeins fyrsti áfangi fyrir þennan hæstv. ráðh., sem telur sig sjá þetta vandamál, að reyna nú að beita sér fyrir því, að ekki þyrfti að taka til baka neitt af þessum 77 þús. kr., sem nú er ætlunin að borga fyrir 8 stunda vinnudag. En það treystir hæstv. ráðh. sér ekki til að gera. Hann vill stíga spor aftur á bak, en þykist vilja sækja áfram í þessum efnum. Hann stígur spor aftur á bak í kjaramálunum með þessu frv. í stað þess að þoka sér í áföngum áleiðis að því marki að reyna að lagfæra þetta ósæmilega og óviðunandi ástand.

Þannig hefur þessu, því miður, miðað aftur á bak, og það eru allt öfugmæli, sem hæstv: ráðh. segja um orsakirnar til þess, að allt hefur farið út um þúfur. Frammi fyrir því standa þeir, og til viðbótar standa þeir frammi fyrir því, að þetta hefur gerzt, enda þótt aflabrögð hafi verið betri en nokkru sinni fyrr og verð hagstæðara á útflutningsvörum en svo að segja nokkru sinni áður. Hvað hefur þá orðið um fjármagnið? Ég ræddi það nokkuð í dag og skal ekki endurtaka það hér.

Ég get ekki stillt mig um að minna á í þessu sambandi, af því að hæstv. ráðh. sneiddi svo vendilega hjá því áðan að ræða það, að ég benti á það í dag, hvernig hefði verið mælt fyrir þessari stefnu, sem nú hefur verið framkvæmd í 4 ár, og hvernig nú væri komið, en það forðaðist hæstv. ráðh, vandlega að ræða af skiljanlegum ástæðum. En ég ætla aðeins að lofa mönnum að heyra hér nokkrar setningar eftir þessum hæstv. ráðh., sem sagðar voru, þegar farið var af stað með þetta 1960. Hann sagði, hæstv. ráðh., með leyfi hæstv. forseta:

„En fyrri ráðstafanir entust jafnilla og raun ber vitni vegna þess, að ekki var breytt um stefnu. Það dugir ekki hvað eftir annað með fárra ára millibili að taka afleiðingunum af því, að búið er að fella gengið, en gera ekki jafnframt ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að gengisfellingin haldi áfram, heldur leggja jafnvel grundvöll að framhaldi hennar með ráðstöfunum, sem gerðar eru jafnskjótt og viðurkennd er afleiðing hins fyrri ófarnaðar. Það er sú stefnubreyting að koma í veg fyrir hinar stöðugu, síendurteknu ráðstafanir ár frá ári, bráðabirgðaráðstafanir án viðurkenningar á undanförnum gengisfellingum á nokkurra ára fresti, sem hér er ætlunin að gera.“

Það er sem sagt sú stefnubreyting, segir hæstv. ráðh., að koma í veg fyrir hinar stöðugu, síendurteknu ráðstafanir ár frá ári. En hver hefur orðið reynslan af þessari stefnu, sem tekin var? Við vitum, hver hún hefur orðið. Við vitum, hvað hæstv. forsrh. hefur neyðzt til að játa hér í dag og undanfarnar vikur. En samt á enn einu sinni að slá fram þeim sleggjudómi, að þessar ófarir allar séu vegna þess, að hið almenna kaupgjald í landinu hafi verið spennt of mikið upp, þó að fyrir liggi þær staðreyndir, sem ég hef hér margsinnis sýnt fram á og óhugsandi er að hrekja. Ef á að fara að kryfja vísitöluna, sem miðað er við í þessu tilfelli, til mergjar, gerir hún niðurstöðuna enn verri fyrir hæstv. ríkisstj.

Hæstv. forsrh. sagði, að ég vildi ekki fallast á, að það þyrfti að afla tekna til þess að greiða þau útgjöld, sem frv. gerði ráð fyrir. Og það er rétt, ég hef haldið því fram, að það þyrfti ekki að afla sérstakra tekna til þess að standast þessi útgjöld, og færði fyrir því rök, sem ég skal ekki endurtaka. En hæstv. ráðh. sagði: Þetta er einkennilegt, þegar þess er gætt, að þessi hv. þm. beitti sér fyrir því og hrósaði sér af því að samþykkja vegalagafrv. frá hæstv. ríkisstj. í vetur, en í því voru 100 millj. kr. nýjar álögur. Og hann hlýtur þá að hafa álitið, að það vantaði peninga í ríkissjóð, til þess að hægt væri að láta meira fé í vegina. Og hæstv. ráðh. kannaðist ekki við að hafa heyrt neina skýringu á þessari afstöðu. Ég skal náttúrlega ekkert um það segja, hvort hann var hér viðstaddur afgreiðslu þess máls. Ég veit ekkert um það. En ég gaf á þessu þá algerlega fullnægjandi skýringu, sem ég veit nú, að er hæstv. ráðh. kunn, og hann hefði því getað sparað sér þetta, en hún var einfaldlega þessi: Ég spurði: Hvers vegna viljum við samþykkja hækkun á benzínskatti og hækkun á öðrum sköttum á umferðinni, þegar okkur er kunnugt um, að ríkisstj. hefur fullar hendur fjár, sem hún vill ekki nota? Hvernig stendur á því? Ég svaraði þessu þannig: Það er einfaldlega vegna þess, að okkur er fullljóst, að það fæst ekki einni krónu meira í vegi og brýr en nú er til þeirra veitt, nema það verði sérstaklega lögleiddir skattar á umferðina sjálfa, sem séu bundnir í lögum til vegagerðar og brúagerðar. Og þegar við áttum um það tvennt að velja, að ekkert fengist af nýju fé til vegagerðar og brúagerðar eða þá að samþykkja þessa sérstöku tekjustofna, gerðum við það, þó að okkur væri ljóst, að ríkisstj. hafði fullar hendur fjár fyrir og gat látið meira fé í vegina, ef hún hefði viljað, án þess að nýjar álögur kæmu til.

Hæstv. ráðh. var eitthvað að ræða fram og aftur um það, að ég hefði talið útflutningsgjaldið óeðlilega hátt. Ég tel ekki stætt á útflutningsgjaldinu. Það hefur nú verið stórhækkað á allra síðustu árum, og skal ég ekki heldur endurtaka neitt af því, sem ég sagði um það í dag. En hann sagði, að það væri ekki hægt að bæta hag útvegsins öllu meira en ráðgert er í frv. með því að lækka útflutningsgjöldin, vegna þess að mest af því, sem eftir er af útflutningsgjaldinu, rynni til heilla útgerðinni. En mér sýnist blasa við, að það verði að fara þá leið að lækka útflutningsgjaldið mun meira en gert er ráð fyrir nú og ríkissjóður verði hreinlega að taka á sig ýmislegt af þeim útgjöldum, sem útflutningsgjaldinu er ætlað að standa undir, t.d. framlagið til rannsóknarskipsins og fleiri slík hliðstæð framlög, sem nú er alveg sjálfsagt að ríkissjóður taki á sig. Enn fremur tel ég, að það verði ekki hjá því komizt, að ríkið taki á sig aflatryggingasjóðinn, sennilega að öllu leyti að greiða til hans, eins og búið er að þjarma að útveginum. Ég get ekki séð, a.m.k. að óbreyttri stefnu að öðru leyti, að það sé nokkur hugsanlegur möguleiki til þess, að útgerðin sé aflögufær til að greiða í aflatryggingasjóð, og það verði þess vegna að taka það á ríkissjóð.

Og þá er það tryggingaiðgjaldið. Ef svo langt þyrfti að ganga, að það yrði að fella niður eitthvað af útflutningsgjaldinu, sem gengur til að greiða tryggingaiðgjaldið, og ríkissjóður taki það á sig, þá sagði hæstv. ráðh., að það væri alveg óhugsandi, því að þá yrðu brotnar meginreglur. Hvaða meginreglur yrðu brotnar? Hvaða þjóðfélagslögmál eru það, sem í því sambandi er fylgt og alls ekki má undir neinum kringumstæðum brjóta? Hvernig er þetta mál vaxið? Það er þannig vaxið, að það er tekið útflutningsgjald, sem allir greiða, sem eiga fisk, ekki bara útvegsmenn, heldur líka sjómenn, fiskimenn. Og þessu fé, sem tekið er með þessum skatti, því að þetta er skattur í raun og veru á fiskinn, því er sópað í eina púlíu og sú púlía greiðir vátryggingariðgjöld fyrir togara og fiskiskip. Hvaða meginregla eða hagfræðilögmál greinir, að svona skuli haldið á málum? Hér er um skattheimtu að ræða, og féð er notað á þennan hátt. Það eru engin eðlileg tengsl þarna á milli. Það er ekkert eðlilegt við það, að fiskimaður, sem á hlutinn sinn, borgi sérstakan skatt til að standa undir vátryggingariðgjaldi fyrir togara eða fiskibát. En þetta er fyrirkomulagið, sem við búum við í dag, og ég segi, að það væri ekkert meira, þó að sá háttur yrði hreinlega á hafður að lækka útflutningsgjaldið einnig sem þessu svarar eða einhverjum verulegum hluta af því, ef þyrfti, til þess að greiða fyrir fiskeigendum að fá fyrir hann sæmilegt verð, og að ríkið tæki að sér að greiða að einhverju eða jafnvel öllu leyti vátryggingariðgjöld fiskiskipanna. Það er engin meginregla brotin með því. Það er ekkert meira brot að greiða þannig einhvern kostnaðarlið að einhverju eða öllu leyti fyrir bátaútveginn og togaraútveginn en að borga með ríkisfé tiltekna kostnaðarliði fyrir frystihúsin, eins og nú er byrjað að gera. Og það yrðu því engar meginreglur brotnar, þó að þessi háttur yrði á hafður, t.d. til bráðabirgða, til þess að forða útgerðinni úr þeirri sjálfheldu, sem hún nú er komin í, sleppa útgerðinni við útflutningsgjaldið að verulegum mun meira en gert er ráð fyrir í frv. og taka eitthvað af þeim liðum yfir á ríkið, sem útflutningsgjaldið stendur undir, a.m.k. til bráðabirgða, þangað til aðrar leiðir yrðu fundnar.

Þetta eru því ekki nein rök hjá hæstv. ráðh. Okkur er ljóst, að með þessu frv. og ýmsum öðrum ráðstöfunum eru þeir komnir inn á þá braut að taka tillit til sérástæðna á þennan hátt og á mjög svipaðan hátt og gert var hér áður og þeir fordæmdu sem mest þá að vísu, en allt hefur reynzt markleysa. Á svipaðan hátt er farið að í öðrum löndum og það fjöldamörgum löndum, sem búa við frjáls viðskipti og hliðstætt efnahagskerfi, að það er greitt fyrir einstökum atvinnugreinum með margvíslegu móti, eins og reyndar hæstv. sjútvmrh. upplýsti hér í dag, þegar hann var að tína hér fram upplýsingarnar um það, hvað gert væri fyrir togaraútgerðina t.d. í Bretlandi. Þetta er spursmál um vilja og hvernig menn vilja koma þessu fyrir á skynsamlegan hátt, en ekki um meginreglur, því að þessi látalæti um, að allt ætti að fara eftir einhverri einni meginreglu, hafa í raun og veru aldrei komizt fullkomlega í framkvæmd, og að því leyti, sem það komst í framkvæmd, reynzt hafa slíka ókosti, að þeir, sem fyrir því stóðu, eru nú sem óðast að breyta til í þessu efni.

Hæstv. forsrh. lézt ekki skilja fremur en fyrri daginn áhríf vaxtanna í þjóðarbúskapnum. Ég skal fara létt yfir það núna. Það gefst vafalaust tækifæri til að ræða það síðar. Hann sagði, að hækkaðir vextir hefðu átt mjög ríkan þátt í auknum sparnaði. Það er alveg vafamál, því að dýrtíðaráhrifin hafa aftur komið þar á móti og hrætt menn frá að auka sparnaðinn, og það er einnig mjög vafasöm sú fullyrðing hæstv. forsrh., að sparnaður hafi orðið mikill á þessum árum. Hann hefur orðið furðulega lítill, þegar umreiknað er í rétt verðgildi peninganna. Og þegar tekið er tillit til þess góðæris, sem verið hefur í landinu, þá er sparnaðurinn ekki mikill, heldur furðulega lítill, enda er það ekkert einkennilegt, þar sem allan tímann hefur verið dunandi verðbólga og fjárfestingaræði ríkt nú á annað ár, eftir að menn sáu, að allt var komið úr böndunum.

Ég veit, að hæstv. ráðh. skilur þetta inn á sér, þótt hann sé enn að leika sér að þessum dæmum, sem honum hafa verið fengin upp í hendurnar um það, hve lítið sé borgað af vöxtum inn í bankana. Ég veit, að hæstv. ráðh. er enginn skynskiptingur og hann skilur þetta vel, þegar hann skoðar þau rök, sem flutt hafa verið fram um þetta. Og fyrr eða síðar neyðist hann og aðrir til þess að taka upp aðra vaxtapólitík, því að þessi vaxtapólitík er ekki framkvæmanleg til lengdar, enda átti hún aldrei að standa nema stutt. Því var marglýst yfir, þegar farið var af stað, að hér væri um bráðabirgðaráðstafanir að ræða. En eins og ég sagði, eru nú háu vextirnir að troða sér inn í efnahagskerfið og framleiðslulífið alls staðar.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann hefði alltaf haft góðan skilning á því, eða eitthvað í þá átt, að það þyrfti að hafa samráð við almannasamtökin. Hann vildi nú ekki við neitt kannast í því, að hann hefði deilt fast á vinstri stjórnina fyrir að hafa of mikið samneyti við þessi samtök. En ég segi bara: öðruvísi mér áður brá. Það fer ekkert á milli mála, hvernig haldið var á því máli af hendi hæstv. núv. forsrh. og hans félaga, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu og vinstri stjórnin lagði sig fram um að leysa þessi málefni í samráði við almannasamtökin. Og hann sagði, að ágreiningur væri eingöngu um, að úrslitavöldin í þessum málum mætti ekki taka frá Alþingi og afhenda þessum samtökum. Auðvitað hefur engum dottið slíkt í hug. Það er ekkert annað en hugarfóstur hæstv. forsrh., að nokkrum hafi dottið slíkt í hug. Hitt er annað mál, að vinstri stjórnin byggði sína stefnu þannig, að þegar henni tókst ekki að ná samstöðu við þessi almannasamtök um úrræði, sem hægt var að hafa trú á, þá baðst forsrh. lausnar fyrir vinstri stjórnina, því að hann taldi, að hún réði þá ekki við verðbólguna og það væri ábyrgðarlaust að sitja, þegar svo væri ástatt. En Alþingi afsalaði sér engu valdi í þessum málum til neins, enda kom það strax í ljós, að það var til meiri hl. á Alþ., sem treysti sér til að stjórna í stríði við almannasamtökin. Það stóð ekkert á því. Það kom strax meiri hl. á Alþ., sem var til með það, og það er sá meiri hl., sem er búinn að vera að glíma við þessi mál núna í 4 ár. Hvernig hefur þeim svo reynzt að stjórna þessum málum í styrjöld við almannasamtökin? Þeir höfðu þingmeirihl. Þeir notuðu vald það, sem Alþ. hefur, meirihlutavald á Alþ., til þess að stjórna í stríði við þessi samtök. En hvernig hefur þeim reynzt það? Þeim hefur reynzt það þannig, að nú koma þeir hér hver af öðrum og tala eins og iðrandi syndarar og bljúgum orðum um, að það sé um að gera að hafa sem allra bezta samvinnu við þessi samtök, það sé fyrir öllu og því megi menn aldrei gleyma og nú verði menn að leggja sig fram um það. Það væri betur, að þeir hefðu raunverulega eitthvað lært í þessu.

Ég skal svo ekki fara frekar út í þessi efni, því að ég vil ekki lengja þessar umr. á nokkurn hátt úr hófi fram, en vil aðeins segja það að lokum út af því, sem hæstv. forsrh. sagði, að það væri betur, ef menn vildu láta ýfingar og smádeilur liggja til hliðar og vinna að þessum málum á breiðum grundvelli. Ef hæstv. ríkisstj. meinar eitthvað með því að efna nú til friðsamlegri vinnubragða varðandi þessi vandasömu málefni, í þeim vanda, sem við nú erum stödd, þá ætti ríkisstj. að ganga á undan og leggja þetta frv. til hliðar, sem er áreiðanlega mikið ágreiningsmál og spillir stórkostlega fyrir, — leggja þetta frv. til hliðar og snúa sér að því í staðinn að láta athuga þessi mál á breiðum grundvelli, eða þá a.m.k. að fella út úr þessu frv. þær greinar, sem ágreiningurinn er mestur um, 5. og 6. gr., til þess að þær valdi ekki stórfelldum vandkvæðum, á meðan fram færi nauðsynleg grundvallarendurskoðun á öllum þessum málum. Og ég vil eindregið beina því til hæstv. ríkisstj. að hafa þennan hátt á og sýna þar með í verki, að hún vilji, að fram fari um þessi efni reglulegar samkomulagstilraunir.