15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

145. mál, aðstoð frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ræða hv. 4. þm. Vestf. áðan gefur ekki tilefni til mikilla andsvara. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum né hv. d. í að fara út í almennt pex við hann um frammistöðu einstakra flokka hér á Alþingi til mála almennt, þó að hann virðist hafa tilhneigingu til þess að byrja á slíku pexi hér. Ég er að ræða hér ákveðið mál, án tillits til þess, hverjir að því standa. Ég vonaðist eftir því, að hv. þm. hefði gert sér það ljóst, að ég var að lýsa yfir fylgi við till. hans. Ég sagði, að ég hefði ekkert á móti því, að þessi leið væri reynd, — sagði það í upphafi minnar ræðu, — sem hann er að stinga upp á. Hins vegar gat ég þess, að ég hefði ekki trú á því, að útlendingar mundu taka að sér að leysa byggðajafnvægismál okkar Íslendinga, það yrðum við að gera fyrst og fremst sjálfir. En ef hann vildi reyna að finna fé í þessum sjóði, þá mundi ég fyrir mitt leyti veita honum fararleyfi til þess, og ég vil óska honum góðs árangurs. Sem sé, mér kemur ekki til hugar, þó að þessi till. sé flutt af manni úr Sjálfstfl., að fara að leggjast á móti henni þess vegna. Og ég vildi mega vona það, að eins sé ástatt um hv. þm. Ég gat um það hér áðan líka, að þegar fyrrv. hv. þm. Vestf., þeir Gísli Jónsson og Kjartan J. Jóhannsson, fluttu till. sína um skyndiáætlun um framkvæmdir á Vestfjörðum til þess að stöðva fólksflóttann þaðan, áætlun, sem ætti að leggja fram fyrir árslok 1963, þá greiddi ég og ég held allir mínir flokksmenn atkv. með till., a.m.k. enginn á móti henni.

Þetta hafði ég haldið, að hv. þm. hefði látið sér skiljast, að þetta sagði ég í minni ræðu. Það er ekki mikilsvert í þessu máli, hvað sá sjóður á að heita á íslenzku, sem hv. þm. hefur hug á að afla fjár hjá, en það ætla ég samt, að ef það nafn á sjóðnum, sem hann sjálfur hefur tilgreint í till. á enskri tungu, er þýtt á íslenzku, þá muni þýðingin ekki vera Viðreisnarsjóður. En þetta skiptir litlu máli. Það var líka misskilningur hjá hv. þm., að ég hefði sagt, að ég gerði ráð fyrir því, að hann væri að flytja þessa till. sem sýndartill. til að draga athygli frá öðru máll. Ég sagði þvert á móti, að ég tryði því ekki, að hv. þm. hefði flutt till. í því skyni, en það á eftir að sýna sig, hvort svo er.

Hv. þm. gat þess, að honum væri ekki órótt út af meðferð jafnvægismálanna í höndum stjórnarflokkanna. Ég fagna þessum ummælum hans. Ég veit það eða þykist mega trúa því eftir ummælum hv. þm. hér í þessum umr., að ef hann væri hræddur um, að flokksmenn hans mundu á þessu þingi fella raunhæfar aðgerðir í þessum málum, hlyti honum að vera órótt, og þar sem hann tekur fram, að sér sé ekki órótt, pá tek ég það sem góðan fyrirboða þess, að áhrif hans muni ráða úrslitum um það, þessa ágæta nýja Vestfjarðaþm., að raunhæfar aðgerðir fái ekki sömu útreið á þessu þingi og þær fengu í fyrra.