22.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

166. mál, bankaútibú á Sauðárkróki

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að flytja hér till. til þál. um bankaútibú á Sauðárkróki á þskj. 304, hv. 9. landsk. þm. og ég. Er till, þess efnis, að Alþingi skori á ríkisstj. að beita áhrifum sínum til þess, að einhver ríkisbankanna setji upp útibú á Sauðárkróki.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að bankakerfi þjóðarinnar hefur verið í miklum vexti að undanförnu, að ekki sé meira sagt. Bankarnir hafa keppzt um að reisa stórhýsi undir starfsemi sina og koma á fót útibúum. Er því ekki að leyna, að mörgum hefur blöskrað, hversu miklir fjármunir hafa fárið í þessa útþenslu bankakerfisins. Hins vegar verður ekki sagt, að allir viðskiptamenn banka hafi notið góðs af þessari bættu þjónustu bankanna, og hefur í engu rætzt úr aðstöðu sumra byggðarlaga, sem enga bankaþjónustu hafa, á sama tíma sem byggð hafa verið 3 og jafnvel 4 útibú á sama staðnum.

Skagafjörðurinn og kaupstaðurinn þar, Sauðárkrókur, er einn þessara staða, sem erfitt hefur átt um almenna bankaþjónustu. Á Sauðárkróki er að vísu starfandi sparisjóður, en löng leið er til útibúa bankanna á Akureyri, Blönduósi og Siglufirði, enda er mér sagt af Skagfirðingum, að þessar stofnanir telji ekki Skagafjörð eðlilegt viðskiptasvæði þessara útibúa.

Almennur áhugi er fyrir því á Sauðárkróki, að einhver ríkisbankanna stofni þar útibú.

Í þessu sambandi er rétt að taka það fram, að lítill ávinningur virðist vera að því, ef svo fer, að ríkisbankinn gleypi algerlega sparisjóðinn á staðnum, sem þá væri lagður niður, því að byggðarlaginu er að sjálfsögðu fyrst og fremst þörf á því að fá peningastofnun, sem flytur fjármagn til framkvæmda á staðnum, en ekki er þörf á enn einni stofnun, sem hefur það helzta hlutverk að soga fjármagnið utan af landsbyggðinni og til Reykjavíkur, til viðbótar við þá lánsfjárbindingu, sem Seðlabankinn sér um og nú á enn að herða.

Fyrir rúmu ári var samþykkt einróma í bæjarstjórn Sauðárkróks að leita eftir því við Landsbankann, að bankinn stofnaði þar útibú. Var bankaráði Landsbankans ritað bréf um málið, en enn þá hefur ekkert svar borizt.

Þar sem fordæmi eru fyrir því, að fjallað sé um slík mál á Alþingi, þykir rétt að hreyfa þessu nauðsynjamáli með till. til þál., og vil ég leyfa mér að leggja til, að þessari umr. verði frestað og málinu verði vísað til hv, allshn.