26.01.1964
Neðri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls lagði ég aðaláherzlu í því, sem ég sagði hér um málið, á tvö atriði. í fyrsta lagi taldi ég, að óhjákvæmilegt væri að snúa sér að því að leysa vandamál sjávarútvegsins í heild, en láta ekki við það sitja að reyna að leysa aðeins hluta af vandamáli sjávarútvegsins, sem augsýnilega lá fyrir. Ég benti á, að óhjákvæmilegt væri að taka einnig á þeim vandamálum, sem fyrir lægju varðandi rekstur vélbátaútvegsins og varðandi launakjör sjómanna. Í öðru lagi lagði ég svo áherzlu á, að það ætti ekki að leggja á nýja skatta, eins og nú stæðu mál, heldur ætti að reyna að finna aðrar leiðir til tekjuöflunar til að standa undir óhjákvæmilegum greiðslum í sambandi við stuðning við sjávarútveginn.

Við athugun á málinu í nefnd hefur nú komið í ljós, að stuðningsmenn ríkisstj. hafa séð sig nokkuð um hönd í þessum efnum. Þeir hafa sannfærzt um það, sem ég sagði, að óhjákvæmilegt var, um leið og mál þetta var hér tekið til afgreiðslu, að fást einnig við vandamál vélbátaútvegsins og að nokkru leyti við launakjör sjómanna. Og stuðningsmenn ríkisstjórnar í hv. fjhn. gera nú tillögur um, að fiskverð það, sem ákveðið hefur verið fyrir stuttu, verði nú hækkað nokkuð. En þeir gera jafnframt till. um það, að skattaálögurnar á almenning í landinu verði auknar frá því, sem áður hafði verið lagt til í frv. Mér sýnist því, að ríkisstj. hafi nokkuð lært, en hún hafi hins vegar ekki áttað sig á því, sem ekki er síður nauðsynlegt í þessu máli, að gera sér fulla grein fyrir afleiðingum þess að samþykkja nú nýjar skattaálögur, sem óhjákvæmilega hljóta að leiða til verðhækkana í landinu og síðan hljóta að leiða af sér kauphækkanir á nýjan leik.

E.t.v. hefur ríkisstj. gert sér grein fyrir þessu máli, þó að hún geri þessar till. E.t.v. er það svo, eins og ég kom nokkuð að við 1. umr. málsins, að ríkisstj. vilji raunverulega gjarnan láta það koma fram, að verðlag fari hækkandi á næstunni, til þess að hún geti betur haldið því fram, að kauphækkanir svipaðar þeim, sem samið var um í desembermánuði s.l., séu tilgangslausar, því að þær leiði óhjákvæmilega af sér verðhækkanir. Sé þetta tilgangurinn, ætlar ríkisstj. sér sýnilega að halda áfram þeim leik, sem hún er búin að halda áfram í nokkur ár. Þá ætlar hún enn að halda honum áfram, þó að hún hljóti að vera búin að margsannfærast um, hverjar afleiðingarnar af slíkum leik verða.

till., sem stuðningsmenn ríkisstj. gera nú um hækkun á fiskverði um 6%, nær auðvitað allt of skammt og leysir ekki þann vanda, sem hún átti að leysa. Hér er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig þau mál standa frá sjónarmiði þeirra, sem hér eiga hlut að máli, sjómannanna á fiskibátaflotanum og útgerðarmannanna, sem eiga bátana. Er nú þessi fiskverðshækkun um 6% sanngjörn eða eðlileg? Við hvað er hún miðuð? Er hún miðuð við það, að sjómennirnir á bátaflotanum fái svipaðar launabætur og aðrar vinnandi stéttir í landinu hafa fengið á s.l. ári? Vill einhver halda því fram? 6% hækkun á fiskverði þýðir einfaldlega fyrir sjómenn þá, sem stunda þorskveiðar, 6% hækkun á kaupi þeim til handa, til hækkunar á því kaupi, sem þeim var ákveðið fyrir rúmu ári, í desembermánuði 1962. Á þessu tímabili hefur t.d. kaup verkamanna í landi, sem flestir játa þó að hafi fengið tiltölulega minnsta hækkun, — kauphækkunin til þeirra hefur numið 30% en hér er sjómönnunum boðið upp á það, að þeir skuli láta sér nægja að fá 6% hækkun á sitt kaup. Hitt vitum við svo öll mætavel, að margar aðrar launastéttir í landinu hafa fengið miklu meiri kauphækkun á s.l. ári en verkamennirnir fengu. Ríkisstj. hefur sjálf bent á það, að starfsmenn í þjónustu ríkisins hafi fengið launahækkun á s.l. ári, sem nemi að meðaltali 45%, þessi tala er frá ríkisstj. sjálfri. Og um það verður ekki deilt, að ýmsir þeir starfsmenn ríkisins, sem hafa lengi haft tiltölulega hæst launin, hafa fengið miklu meiri kauphækkun en sem nemur 45%. En sem sagt, sjómönnunum á bátaflotanum er boðið upp á það, að þeir skuli sætta sig við 6% launahækkun, og auðvitað eiga þeir svo, um leið og þeir fá þessar 6% launabætur, eins og aðrir landsmenn að standa undir 300 millj. kr. nýjum álögum, sem á að leggja á þjóðina í hækkandi vöruverði, sem á að ganga ýmist beint í ríkissjóð til almennra þarfa ríkisins eða til þess að styrkja fiskkaupendur í landinu og togaraeigendur. Það þarf ekki glöggskyggna menn til að sjá það, að afleiðingar af slíkri ráðstöfun sem þessari hljóta að verða þær, að sjómönnunum á fiskibátaflotanum hlýtur að fara fækkandi. Þeir munu leita sér annarra starfa. Það mun draga úr rekstri báta til þorskveiða, þegar svona er á málunum haldið.

Ég hef lagt hér fram till. um, að fiskverðið, sem ákveðið var með úrskurði oddamanns yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins 20. jan. s.l., verði hækkað um 15%. Það hefði verið full ástæða til þess, eins og ég segi, að fiskverðshækkunin hefði orðið mun meiri, og það hefði hún þurft að vera, ef launakjör sjómanna á bátaflotanum hefðu átt að hreyfast til samræmis við það, sem verið hefur hjá öðrum. En ég tel ekki miklar líkur á því, að till., sem lengra gengur til hækkunar á fiskverðinu en þessi, sem ég legg fram, fáist hér samþykkt, en ég vil þó freista þess að fá úr því skorið, hvort ekki er hægt að fá samþykkta þessa till. mína um 15% hækkun á fiskverðinu.

Það er líka alveg augljóst, að 6% hækkun á fiskverðinu er allt of lítil fyrir bátaeigendur í landinu. Þeir hafa orðið fyrir miklu meiri útgjaldaaukningu en sem nemur 6% fiskverðshækkun, sem vitanlega kemur ekki í hlut útgerðarinnar nema að hálfu leyti, því að hinn helmingurinn gengur auðvitað út í hækkuðum aflahlut. Það liggur fyrir, að ýmsir útgjaldaliðir bátaflotans hafa hækkað á s.l. ári mjög mikið. Þannig er talið, að veiðarfærakostnaður bátanna hafi hækkað um 40% á s.l. ári. Og margir aðrir liðir hafa eðlilega hækkað mikið. Eins og verðlag allt hefur hækkað á s.l. ári, hefur það ekki getað farið á annan veg en svo, að það hlyti vitanlega einnig að skella á útgerð landsmanna. Hér er því bátaútgerðinni boðið upp á það alveg tvímælalaust að búa við lakari kjör á þessu ári á þorskveiðum heldur en bátaútgerðin bjó við á s.l. ári, — mun lakari kjör. Ég hef ekki mikla trú á því, að þrátt fyrir þessa tiltölulega litlu hækkun á fiskverðinu, sem hér er lögð til, snúi ýmsir þeir útgerðarmenn til baka, sem þegar hafa tilkynnt skipshöfnum sínum núna vegna ákvörðunar á fiskverði, að þeir muni ekki gera út á komandi vertíð, ekki á þorskveiðar, heldur snúa sér að annarri útgerð. Ég hef ekki mikla trú á því, að þeir breyti þessari ákvörðun sinni vegna þessarar litlu hækkunar, sem hér er gert ráð fyrir að nái fram að ganga á fiskverðinu. Og ég er einnig mjög hræddur um, að þeir sjómenn, sem hafa sagt upp störfum sínum á bátunum, sem stunda eiga þorskveiðar, að margir þeirra muni halda sig við uppsögnina þrátt fyrir þessa litlu hækkun og hverfa frá störfum og leita til annarra starfa, sem betur eru borguð.

Það, sem hér er um að ræða og hæstv. ríkisstj. þarf vitanlega að gera sér fulla grein fyrir, er, að verðlagsþróunin í landinu hefur orðið þannig á s.l. ári, að það þarf miklu meiri hækkun á fiskverðinu en hér er lögð til, ef ekki á að dragast til vinnuafl frá sjávarútvegsframleiðslunni og til annarra greina. Hugsanlegt er einnig, að nokkuð kunni að dragast til innan sjávarútvegsins sjálfs frá þorskveiðunum og t.d. til síldveiðanna, en ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um, að slík tilfærsla á vinnuafli er mjög óheppileg þjóðhagslega á málið litið og óæskileg, og það er skammsýn ríkisstj., sem ekki skilur, að það ætti að koma í veg fyrir slíkt. Eins og málin stóðu, var miklu fremur þörf á því að lyfta undir þorskveiðarnar, en ýta ekki við þeim á hinn óhagkvæma hátt eða til þess að draga úr þeim, vegna þess að sú útgerð átti í nokkurri varnaraðstöðu núna fyrir m.a. öðru úthaldi. En ríkisstj. hefur sem sagt fundið, að þrýstingurinn frá hálfu bátaútvegsmanna var mikill, kröfurnar voru háværar um að fá hækkað fiskverð, og hún hefur einnig fundið, að það var rétt, sem ég og fleiri sögðum hér, að þrýstingurinn var líka mikill og alvarlegur frá hálfu sjómanna, en þá er till., sem koma frá stjórninni til úrbóta, ná allt of skammt.

Þá er svo hin aðaltill., sem kemur hér fram frá stuðningsmönnum ríkisstj., um það að mæta þessum auknu útgjöldum af 6% hækkun á fiskverði á þennan einfalda hátt að hækka söluskattinn enn upp í 5½% eða koma söluskattsinnheimtunni í landinu eitthvað á 7. hundrað millj. kr. Ég held, að enginn maður geti efazt um það, að afleiðingarnar af því að leggja nú á nýjan söluskatt til viðbótar þeim, sem fyrir var, upp á um 300 millj. kr., verða stórhækkað verðlag. Og afleiðingarnar hljóta að verða þær, að það gengur vel að semja um eðlilega kaupbreytingu, þegar þeir kaupgjaldssamningar renna nú út á næsta vori, sem gerðir voru í desembermánuði s.l. Það hefðu verið miklu meiri líkur til þess, að hægt hefði verið að ná samningum aftur næsta vor um tiltölulega litlar kaupbreytingar, ef verðlagið hefði verið stöðvað, ef ríkisstj. hefði gert alvarlegar ráðstafanir til þess að stöðva hið hækkandi verðlag. En þegar hún vinnur beinlínis að því að hækka verðlagið langt fram yfir það, sem þörf er á, þá hef ég ekki mikla trú á því, að það gangi vel, þegar kemur fram á vorið, að semja án harðra átaka á nýjan leik og án mikillar kauphækkunar.

Ríkisstj. verður að átta sig á því í þessum kaupgjaldsmálum, að það er alveg ranglega sett upp dæmið, þegar hún segir, að slíkar kauphækkanir á einu ári sem 30% séu auðvitað allt of miklar og ekkert efnahagskerfi fái staðizt slíkar hækkanir. Ríkisstj. þarf að athuga það, að á sama tíma og þessi kauphækkun gekk yfir var eins mikil eða meiri verðlagshækkun í landinu. Það liggur fyrir samkv. útreikningum hagstofunnar, að frá ársbyrjun til ársloka hækkuðu t.d. matvæli í landinu um 34%. Kauphækkun upp á 30% var ekki hreinn tekjuauki hjá þeim, sem kaupið áttu að fá. Þessi mikla kauphækkun fór að langmestu leyti til þess að jafna á við hækkandi verðlag. Það er rétt, að það er allmikið, þegar launþegar geta fengið á einu ári 56–7% raunverulegar launabætur, miðað við óbreytt verðlag í báðum tilfellum, en það er ekki mikið að fá 7% launahækkun, ef verðlagið á sama tíma hefur hækkað um 10%. Það eru ekki miklar bætur, þó að kauphækkunin kunni að vera á pappírnum 30%, ef verðlagið hefur hækkað enn þá meira á sama tíma. Og það er þessi þróun, sem hæstv. ríkisstj. þarf að snúa við. Hún þarf að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að stöðva verðhækkanirnar. Það er eina leiðin til þess, að hægt sé að koma í veg fyrir jafnmiklar hækkanir á kaupi og nú hafa átt sér stað. En því miður hefur stefna ríkisstj. verið allan tímann mjög í aðra átt. Það er vitanlega alveg fjarri því, að hægt sé að segja, að ráðstafanir ríkisstj., sem hvað eftir annað hafa leitt til beinna verðhækkana, hafi verið gerðar af óhjákvæmilegum ástæðum vegna launahækkana. Við skulum aðeins minnast á t.d. aðgerðir ríkisstj. sumarið 1961, eftir að launþegar í landinu höfðu búið við óbreytt kaupgjald í 2½ ár. Þá voru gerðir samningar um að hækka kaupið um 10–12%, eftir að kaupmátturinn hafði verið skertur óumdeilanlega á þessu 2½ árs tímabili um 23%, en þá var sem sagt samið um kauphækkun upp á 10–12% við mjög hagstæð efnahagskjör hjá þjóðinni, sem þá voru. Samkv. óumdeilanlegum skýrslum frá Seðlabankanum er það nú gefið út, að á árinu 1961, þegar ríkisstj. rauk til þess að lækka gengið og steypa nýrri verðhækkun yfir landsmenn vegna þessarar litlu kauphækkunar, á því ári var svo hagstætt árferði í efnahagsmálum þjóðarinnar, að meðaltalsverðhækkun á útfluttum afurðum þjóðarinnar á þessu ári reyndist vera 9%, miðað við sama gengi. Og meðaltalsverðlækkun á öllum innfluttum vörum á því ári reyndist vera 3%.

Eins og ég segi, meðaltalshækkun á útfluttum vörum þjóðarinnar var 9%, og meðaltalsverðlækkun á innfluttum vörum reyndist á því ári vera 3%. Þetta er samkv. Fjármálatíðindum Landsbankans gefið upp. En viðskiptakjör þjóðarinnar á þessu ári bötnuðu um 12%. Á sama tíma, sem hinar ytri kringumstæður voru svona hagstæðar, að viðskiptakjör þjóðarinnar bötnuðu um 12%, mátti ekki samþykkja 10–12% launahækkun, en 10–12% hækkun á kaupi er auðvitað reiknuð af miklu lægri upphæð en 12% viðskiptakjörin eru miðuð við. Hér voru því sérstaklega góðar kringumstæður til að standa undir þessari launahækkun, og við þetta bætist svo, að hér var um gott og mikið aflaár að ræða. En hér greip ríkisstj. til gengislækkunar og stóð fyrir stórfelldri verðhækkun. Þessari verðhækkun var vitanlega svarað aftur síðar með kröfu um hækkandi kaup, og þá sagði ríkisstjórnin: Nú þarf auðvitað allt verðlag í landinu að hækka, vegna þess að kaupið er hækkað. Það eru sem sagt þessi sannindi, sem hæstv. ríkisstj. verður að gera sér fulla grein fyrir. Slík stefna í efnahagsmálum fær ekki staðizt nema með þessum afleiðingum, verðlagið þýtur upp, kaupið kemur á eftir, og útflutningurinn hlýtur að lenda í erfiðleikum innan tíðar.

Því er það, að grundvöllurinn undir þessu frv. er algerlega rangur. Um leið og verið er að rétta hag útflutningsins, er stefnt að verðhækkunarpólitík í landinu, sem leiðir af sér hækkandi kaupgjald fljótlega og erfiðleika fyrir útveginn. Hér er því grundvöllurinn algerlega rangur.

Ég flyt á sérstöku þskj. nokkrar brtt. við frumvarpið og vil með þeim freista þess að fá fram nokkrar lagfæringar. Ég skal nú gera grein fyrir þessum brtt. í nokkrum orðum.

1. brtt., sem er á þskj. 213, er við 1. gr. Þar legg ég til, að í staðinn fyrir orðið „framleiðslu freðfisks“ í 1. gr. komi: fiskframleiðslu. Mér finnst sem sagt ástæða vera til þess, að það sé opið fyrir ríkisstj, að verja þeim styrk, sem ráðgert er að veita samkv. 1. gr. til frystihúsarekstrarins í landinu, — að það geti verið opið fyrir ríkisstj. að verja einhverju af þessum styrk til annarrar fiskvinnslu í landinu, eins og t.d. til saltfiskverkunar og skreiðarverkunar. Mér þykir mjög óeðlilegt að ætla að víkja þessum verkunaraðferðum algerlega til hliðar, tel ekki vera ástæðu til þess, ekki a.m.k. ef á að fara eftir þeim reglum að mismuna aðilum hér sem minnst eða neita því að taka tillit til mismunandi aðstæðna. Ég skal játa, að ef það sjónarmið verður viðurkennt af ríkisstj., að hér eigi að meta hverja framleiðslugrein alveg út af fyrir sig eftir þeirri fjárhagslegu aðstöðu, sem viðkomandi grein býr við, þá kemur vissulega til mála að mismuna hér nokkuð á milli, því að verðhækkanir hafa óneitanlega orðið nokkuð misjafnar milli hinna einstöku verkunaraðferða. En ég sem sagt legg til, að í staðinn fyrir það, að þessi styrkur sé alveg bundinn í lögunum til freðfisksframleiðslunnar, þá standi það opið, að styrkurinn gangi til fiskframleiðslunnar almennt, þ.e.a.s. að aðrar verkunaraðferðir geti komið hér til greina líka.

Þá legg ég til, að önnur breyting verði gerð á 1. gr. frv., að við greinina bætist svo sem hér segir: „Í reglunum skal ákveðið, að þær fiskframleiðslustöðvar, sem hafa erfiða rekstraraðstöðu, njóti hlutfallslega hærri styrks en hinar, sem betri aðstöðu hafa.“

Ég dreg enga dul á það, að ég er á þeirri skoðun, að þegar um er að ræða að úthluta beinum styrk til atvinnurekenda, þá sé full ástæða til að meta það, hver er aðstaða þessara einstöku atvinnurekenda, það sé ekki ástæða til að láta þá, sem sannanlega hagnast á sínum rekstri og hagnast jafnvel mikið, hafa af styrknum, á sama tíma sem hinir, sem þurfa á aðstoð að halda, fá kannske sáralítið.

Nú háttar þannig til hjá okkur í rekstri hraðfrystihúsanna, að það er ekkert um það að villast, að viss framleiðsla á vegum frystihúsanna gefur mikinn hagnað. Þau frystihús í landinu, sem að yfirgnæfandi meiri hluta vinna að því að framleiða frosna síld til útflutnings og draga sig í hlé frá því að vinna annan fisk, búa flest við mjög góða afkomu, að ég segi ekki stórgróða, sum hver. En þau önnur frystihús, sem þannig eru sett í landinu, að þau hafa enga möguleika til að taka þátt í þessari framleiðslu, að frysta síld til útflutnings, — tökum t.d. hraðfrystihúsin á Vestfjörðum, þar er ekki um að ræða nýja síld, til þess að þau geti að neinu ráði tekið þátt í því að frysta, síld til útflutnings og fengið þennan hagnaðarrekstur, — þau frystihús búa því við miklu lakari aðstöðu. Og það væri því miklu meiri ástæða til þess, að þau fengju tiltölulega hærri hlut af þessum styrk en hin húsin, sem búa við þessa hagstæðu vinnslu, að ég tali ekki um, þegar svo stendur á, eins og er sannanlega í sumum tilfellum, að þar hafa frystihúsin hreinlega lokað fyrir alla vinnslu og frystingu á þorsk- og ýsuflökum, af því að þeim þykir það heldur lakari útkoma, en snúið sér einvörðungu að frystingu á síld. Þeir telja sig engar skyldur hafa í þessum efnum og velja það úr, sem gefur mestan hagnað.

Ég tel, að það eigi ekki að halda þannig á málunum, þegar er verið að úthluta styrkjum, að þá fái þeir mikinn hluta af styrkjunum, sem sannanlega búa við gróðarekstur, en hinir, sem hafa lakari aðstöðuna, dragist jafnvel meira aftur úr. Því hef ég flutt þessa brtt., að það skuli beinlínis ákveðið í þessum úthlutunarreglum, að tillit sé tekið til rekstraraðstöðu hinna einstöku frystihúsa eða einstöku framleiðslustöðva.

Þá flyt ég brtt. við 2. gr. í fyrsta lagi legg ég til, að viðauki komi við 1. mgr. gr.: „Styrkur fyrir þann úthaldstíma, sem skip hefur veitt fyrir innlendan markað, skal þó vera helmingi hærri en fyrir þann tíma, sem það hefur veitt fyrir erlendan markað.“ Hér er um að ræða, hvaða reglur skuli gilda til útdeilingar á þeim styrk, sem gert er ráð fyrir að togararnir fái. Í frv. er greinilega við það miðað, að togararnir skuli yfirleitt fá þennan styrk, mældan eftir úthaldsdagafjölda. En ég vil gera hér mikinn mun á því, hvort togararnir eru að veiðum fyrir innlendan markað eða fyrir erlendan markað. Afkoma skipanna er tvímælalaust mun lakari, þegar þau þurfa að veiða fyrir innlendan markað, eins og háttað hefur nú um skeið, og rekstur þeirra fyrir innlendan markað er miklu dýrmætari þjóðfélagslega séð heldur en þegar þau eru rekin fyrir hinn erlenda ísfiskmarkað. Þegar skipin leggja upp afla sinn hér heima, eiga þau sinn þátt í því að skapa möguleika fyrir aukna vinnu í landinu og aukna gjaldeyrisframleiðslu. En að borga mikla styrki með skipum, sem að staðaldri eru rekin fyrir erlendan ísfiskmarkað, það er vægast sagt mjög hæpið. Því legg ég til, að það sé beinlínis ákveðið í þessari grein, að styrknum skuli þannig úthlutað, að hann skuli jafnan vera helmingi hærri, þegar er um útgerð að ræða fyrir innlendan markað, heldur en ef um er að ræða útgerð fyrir erlendan markað.

Önnur breyting mín við þessa grein er um það, að við 1. mgr. bætist ný mgr., á þessa leið; „Heimilt er ráðherra að setja þau skilyrði fyrir greiðslu styrks til togara samkv. þessari grein, að samningar hafi tekizt um sanngjarna hækkun á kaupi togarasjómanna.“ Í þessari grein frv. er gert ráð fyrir því, að setja megi það skilyrði fyrir styrkgreiðslu til togara, að viðkomandi togaraútgerð hafi gert upp skuldir sínar við ríkisábyrgðasjóð vegna vanskila við þann sjóð. En ég álít, að það sé ekki síður ástæða til þess, að ráðherra hafi heimild til að binda greiðsluna til togara þeim skilyrðum, að það hafi tekizt samningar á milli togarasjómanna og togaraútgerðarmanna um eðlilega kauphækkun til handa togarasjómönnum. Nú háttar þannig til, að togarasjómenn hafa sagt upp launasamningum sínum, og það virðist á margan hátt stefna þar beint út í verkfall, svipað því sem var fyrir nokkrum árum, þegar togaraflotinn lá yfir 4 mánuði í verkfalli. Það ár var þannig haldið á þessum málum, að styrkur sá, sem ríkið greiddi þá til togaranna, bæði í gegnum aflatryggingasjóð og beint úr ríkissjóði, var beinlínis eins og verkfallsstyrkur til togaranna. Þeir fengu allan styrkinn fyrir það að liggja í verkfalli. Og af því var vitanlega styrkurinn það ár hlutfallslega mjög hár, miðað við hvern úthaldsdag. Þetta álít ég að sé mjög óeðlilegt og það eigi að girða fyrir slíkt sem þetta, og því er eðlilegt að hafa það ákvæði, að ráðherra megi setja það skilyrði fyrir greiðslu styrksins, að samningar hafi tekizt um eðlilega launahækkun til handa togarasjómönnum.

Í þriðja lagi legg ég svo til, að við þessa gr. verði bætt eftirfarandi: „Fiskverð það, sem ákveðið var af oddamanni yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins með úrskurði þann 20. jan. 1964, skal hækka um 15%, og gildir sú hækkun frá 1. jan. 1964.“ Ég hef að nokkru leyti gert grein fyrir þessari till. Ég tel, að hér sé um lágmarkshækkun á fiskverðinu að ræða miðað við alla sanngirni, bæði fyrir eigendur bátanna og eins fyrir bátasjómenn, og það sé í rauninni ekki hægt að komast af með minni hækkun.

Annars vil ég segja það í sambandi við ákvörðun oddamanns yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins frá 20. jan., að mér finnst, að sá úrskurður hafi verið hinn furðulegasti, og ég get ekki séð, að sá úrskurður í rauninni standist lög. Í þeirri grein í lögunum um verðlagsráð sjávarútvegsins, sem fjallar um yfirnefndina, þessa 5 manna yfirnefnd, sem á að kveða upp úrskurðinn, þar segir alveg skýrum orðum, að þessi yfirnefnd, þannig skipuð, skipuð þessum 5 mönnum, sem búið er að gera grein fyrir, — þannig skipuð fellir yfirnefndin fullnaðarúrskurð um ágreiningsatriði, og ræður meiri hluti atkvæða úrslitum. Nú liggur það alveg óumdeilanlega fyrir, að það fór engin atkvgr. fram í n. um lokaákvörðunina. Oddamaðurinn lýsir því aðeins yfir, að hann úrskurði einn, að fiskverðið skuli vera þetta. Af því að hinir aðilarnir, tveir aðilar af hálfu fiskkaupenda, voru með aðra afstöðu, og tveir aðilar af hálfu fiskseljenda voru með enn aðra afstöðu, þá lætur oddamaðurinn bóka það, að hann sem oddamaður úrskurði, að þetta skuli fiskverðið vera. En í lögunum stendur, að þessi 5 manna nefnd skuli fella úrskurðinn og ræður meiri hluti atkvæða úrslitum. Þýðir þá þetta orðalag ekki neitt: meiri hluti atkvæða, af 5 mönnum í nefnd?

Ég hef að vísu heyrt þá lagaskýringu, að talað er um, að þar sem um er að ræða gerðardóm skipaðan 3 mönnum eða 5 mönnum, sem á að kveða upp endanlegan úrskurð og aðilar verða ekki ásáttir, þú muni það vera einhver dómsvenja, sem hafi skapazt, að oddamaður geti kveðið upp endanlegan úrskurð. En ég tel, að í þessu tilfelli sé þetta ekki hægt. Hér er t.d. orðalagið á allt annan veg í lögunum en er um yfirnefnd landbúnaðarins, sem getur úrskurðað þar. Þar segir aðeins, að þriggja manna yfirnefnd felli endanlegan úrskurð, og ekkert meira. Þar er það ekki beinlínis tekið fram, að það skuli þurfa meiri hluta atkvæða. En í lögunum um verðlagsráð sjávarútvegsins er það tekið fram. Ég er því einn af þeim, sem líta svo á, að þessi úrskurður oddamannsins Fái í rauninni ekki staðizt samkv. réttum lögum, því þó að lagaskýringar og túlkanir séu góðar, þá geta þær ekki gengið svo langt, að þær fari þvert gegn bókstaf laganna.

En hvað um það, úrskurðurinn liggur fyrir, og það virðist vera, að það hafi átt að halda sjómönnum og útvegsmönnum að þessum úrskurði. Og vandinn í dag miðast við það: Er hægt að breyta þessu verði, sem þarna var ákveðið, til svo mikillar hækkunar, að sjómenn og útvegsmenn sætti sig við það og það sé sanngjarnt fyrir þá miðað við aðrar breytingar, sem fram hafa farið í landinu varðandi launakjör og rekstrarafkomu hjá öðrum? Mín tillaga er sem sagt við það miðuð, að fiskverðið verði hækkað um 15%.

Þá er 3. brtt. mín, við 3. gr. frv. Þar legg ég til í fyrsta lagi, að undir tölulið 1 í þessari grein, þar sem ákveðið er útflutningsgjald á þar til greindum sjávarafurðum, það skuli vera, eins og segir í frv., 4.2% í staðinn fyrir 6% eins og það var áður, — ég legg til, að þetta útflutningsgjald verði lægra en segir í frv., að í staðinn fyrir 4.2% skuli koma 2.4%. Ég legg sem sagt til, að lækkunin á útflutningsgjaldi af þessum vörum skuli verða helmingi meiri en lögð er til í frv. Þessi lækkun á útflutningsgjaldinu mun nema eitthvað rétt rúmum 30 millj. kr.

Þá legg ég einnig til í þessari till., að þessi lækkun á útflutningsgjaldinu skuli öll koma niður á vátryggingakerfinu svonefnda, þ.e.a.s. að í staðinn fyrir það, að frv. gerir í rauninni ráð fyrir því, að til vátryggingakerfis fiskiskipa renni útflutningsgjald, sem muni nema rétt rúmum 130 millj, kr., þá geri ég till. um það, að til vátryggingakerfisins verði ekki látið renna meira fé en sem nemur í kringum 100 millj. kr., og lækka sem sagt hlutfallið til þess að ná þessu marki. En aðrir aðilar, sem fá útflutningsgjaldið, eins og fiskveiðasjóður, fiskimálasjóður og fleiri aðilar, sem þar eru upp taldir í greininni, fái jafnmikla fjárhæð og gert er ráð fyrir samkv. frv.

Mín till. er sú, að það verði ekki eytt eins miklu fé í þetta vátryggingakerfi á þeim grundvelli, sem það starfar. Ég hef lýst því hér áður í umr., að ég tel, að þarna sé farið illa með fé og uppbygging þessa tryggingakerfis sé mjög ranglát og óeðlileg. Ég vil aðeins minna á það í sambandi við þetta vátryggingakerfi, að það er m.a. með þeim göllum á, að útgerðarmönnum er þarna stórkostlega mismunað. Þeir útgerðarmenn, sem eiga skip undir 100 rúmlestum á stærð, eru skyldugir til að vátryggja skip sín hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, og þeir ráða því ekki sjálfir, hvað viðkomandi skip eru tryggð fyrir mikla fjárhæð. Það eru ákveðnir matsmenn á vegum Samábyrgðarinnar, sem ákveða tryggingarupphæð þeirra skipa. En hinir útgerðarmennirnir, sem eiga skip yfir 100 rúmlesta að stærð, eru frjálsir að leita til hvaða tryggingarfélags sem er og vátryggja skip sín þar, og þeir ráða því sjálfir í samráði við þau vátryggingarfélög, hvað þeir vátryggja skipið hátt. Og um það er ekkert að villast, að þeir hafa notað þessa aðstöðu sína yfirleitt til þess að vátryggja skip sín tiltölulega miklu hærra en hinir, sem hafa orðið að vátryggja samkv. lagaskyldunni hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Og það fer heldur ekkert á milli mála, að allir pappírar eru ekki hreinir í þessum efnum í sambandi við uppgjörið. Auk þess er svo það, að það fyrirkomulag, sem þarna gildir um tryggingarnar, þýðir, að það er verið að láta bátaflotann í landinu borga í gegnum miklum mun meira fiskmagn, sem hann leggur á land, að verulegu leyti vátryggingariðgjöld fyrir togaraflotann í landinu, því að sá hlutur, sem togararnir greiða í vátryggingarsjóðinn í heild, nemur ekki sama hlutfalli og hlutur bátanna, miðað við iðgjaldsgreiðslu þeirra. Þarna fer því fram millifærsla á milli þessara aðila, sem er mjög varhugaverð. En auk þess er svo hitt, að togararnir eru aftur á móti stórkostlega yfirvátryggðir, svo að lítið vit er í. Á því er enginn vafi, að togararnir eru flestir vátryggðir fyrir þrefalda upphæð þess, sem eigendurnir mundu góðfúslega selja þá á nú í dag, ef þeir ættu kost á því. Við þetta má svo bæta, að eigendur trillubáta í landinu, þeir sem eiga opna báta, verða að borga af sínum fiski ákveðið gjald eins og aðrir í þetta vátryggingakerfi, en flestir þeirra fá ekkert úr vátryggingakerfinu, því að bátar þeirra eru ótryggðir. Það er mjög erfitt að fá opnu bátana tryggða, nokkrir eru tryggðir að vísu, en það er með mestu afarkostum og ekkert sambærilegt við það, sem er hjá annarri útgerð í landinu. Og útkoman er því raunverulega sú, að þeir aðilar eru látnir standa undir vátryggingakerfi annarra aðila.

Ég veit, að það eru uppi till. um það nú hjá ráðh, að breyta þessu nokkuð, en þá ekki nema að örlitlu leyti á yfirstandandi ári. Ég er því á móti því, að þessu vátryggingakerfi sé haldið við. Það er orðið allt of kostnaðarsamt fyrir útgerðina, og þarna á sér stað mikil mismunun og mikið óréttlæti, og því á að komast út úr þessu kerfi, eins og margsinnis hefur verið lofað, en ekki staðið við. Ég legg því til, að gjöldin til þessa tryggingakerfis verði lækkuð og heildartekjur kerfisins verði í kringum 100 millj. kr. til þess að hægt sé að koma við mjög auðveldlega fullum og góðum tryggingum fyrir þá upphæð, ef réttilega er á haldið. En á þennan hátt er hægt að spara um 30 millj. kr. eða rúml. það og nota það til raunverulegrar hækkunar á fiskverði.

Þá er 4. brtt. mín á þskj. 213, við 5. gr. frv. Þar legg ég raunverulega til, að ákvæðið um hinn nýja söluskatt verði fellt niður úr frv.; en í staðinn fyrir söluskattinn komi raunverulega ný gr., svohljóðandi:

„Frá 1. febr. 1964 skulu vextir Seðlabanka Íslands af afurðalánum eigi vera hærri en 2% og útlánsvextir viðskiptabankanna af þeim lánum eigi hærri en 2½% fyrstu 6 mánuði lánstímans, en mega hækka úr því um ½%. Seðlabankinn skal veita afurðalán, sem nema 2/3 af áætluðu útflutningsverði vörunnar. Frá 1. febr. 1964 skulu almennir innláns- og útlánsvextir banka og sparisjóða og vextir af öllum föstum lánum færast í það, sem þeir voru, áður en efnahagslögin frá 20. febr. 1960 voru sett.“

Þessa till. hef ég lagt hér fram áður. Hún er um það, að vextir af afurðalánum verði færðir mjög mikið niður, að vextirnir verði lækkaðir um 4½% frá því, sem þeir eru nú, og að afurðalánin verði hins vegar hækkuð allverulega frá því, sem þau eru nú. Einnig er svo lagt til í þessari grein, að hinir almennu innláns- og útlánsvextir verði færðir niður í það, sem þeir voru fyrir setningu efnahagslaganna 1960. Slík vaxtalækkun sem þessi mundi auðvitað verða til mikils stuðnings fyrir allar greinar sjávarútvegsins, ekki aðeins fiskkaupendur, heldur einnig fiskiskipaeigendur og alla þá, sem við útgerð fást. Og það er mín skoðun, að þetta mundi draga miklum mun meira fyrir útgerðina heldur en hæstv. ríkisstj. vill vera láta. Ég vil nú segja það, að ef ríkisstj. tryði því raunverulega, að vaxtalækkunin mundi ekki vega meira en ríkisstj. heldur hér fram, þá ætti hún ekki að spyrna svona fast fótum gegn þessari lækkun.

5. brtt. mín er svo um það, að 6. gr. frv. falli niður, en það er sú greinin, sem á að heimila ríkisstj. að geta lækkað útgjöld á fjárl., eftir því sem ríkisstj. þóknast. Ég álít, að sú gr. eigi ekki heima í þessu frv. á neinn hátt og hér sé um algerlega óeðlilega og óvenjulega heimild að ræða, sem Alþ. geti ekki gefið ríkisstj. Og ég tel, að það sé í rauninni alveg óeðlilegt að fara fram á það að fá slíka heimild sem þessa, að vera nýbúinn að setja fjárlög og fjalla þar um hverja einstaka gr. fjárl. og hvern einstakan lið fjárl. og láta atkvgr. fara fram um það, og þá komi ríkisstj. eftir nokkra daga og óski eftir því að fá eina allsherjarheimild um það, að hún megi breyta þessum fjárl. eins og henni sýnist, — ekki það að færa niður öll útgjöld fjárlaganna um einhverja tiltekna prósentu, nei, heldur það, að hún megi breyta greiðslum samkv. fjárl. eftir því sem henni þykir nauðsynlegt vera. Ég álít, að það sé vægast sagt mjög óeðlilegt að fara fram á slíka heimild sem þessa og því eigi að fella þessa grein niður úr frv.

Þá er 6. brtt. mín við bráðabirgðaákvæði, að þar verði bætt við einum nýjum lið, sem hljóði þannig: „Ríkisstj. skal strax að lögum þessum samþykktum skipa 5 manna n., sem geri till. til Alþ. um nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma togaraútgerð landsmanna á rekstrarhæfan grundvöll.“ Ég tel, að um leið og Alþ. samþ. enn einu sinni verulega miklar fjárfúlgur, beina styrki til togaraútgerðarinnar umfram það, sem greitt er til annarrar útgerðar í landinu, þá tel ég, að eins og nú er háttað rekstri togaranna, sé ekki verjandi að samþ. slíkt, án þess að um leið séu gerðar ráðstafanir til þess að taka á vandamálum togaranna á raunhæfari hátt en gert hefur verið, að það sé óskað eftir till. um það, hvernig megi koma togaraútgerð Íslendinga þannig fyrir, að hún geti verið rekin með eðlilegum hætti, því að auðvitað er það ekki eðlilegt að þurfa ár eftir ár að borga beina styrki, sem nema hartnær 3 millj. kr. á hvert skip á ári, þegar allar launagreiðslur á einu skipi liggja á milli 3 og 4 millj. kr. Og svo er rekstri skipanna háttað þannig, að þau eru að langmestu leyti rekin fyrir erlendan markað og skapa tiltölulega litla fiskvinnslu í landinu sjálfu. Þetta er auðvitað neyðarúrræði, að grípa til þess að borga slíka styrki ár eftir ár, og ég álít, að um leið og það er gert, eigi að setja niður sérstaka nefnd, sem geri till, til Alþingis um það, hvernig eigi að taka á vandamálum togaranna. Ég hef örlítið vikið að því hér í þessum umr., hvaða skoðanir ég hef á því, og skal ekki fara út í það, enda tel ég ekki vera stað til þess að ræða það hér. En það er enginn vafi á því, að þarf að gera miklar og stórar ráðstafanir, sem þýða grundvallarbreytingar í rekstri togaranna, ef á að vera hægt að koma þeim út úr þessu skuldafargani, sem þeir eru í nú, og þessum mikla taprekstri.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum brtt., sem ég flyt hér og við Alþb. menn stöndum að. Till. okkar eru við það miðaðar að koma hér fram nauðsynlegustu leiðréttingu á fiskverðinu, til þess að kjör bátasjómanna geti orðið með eðlilegum hætti og til þess að hagur bátaútgerðarinnar í landinu, þeirrar sem gerir út á þorskveiðar, sé ekki fyrir borð borinn. Og okkar till. eru einnig miðaðar við það, að ekki verði farið út á þá óheillabraut að leggja nýjar álögur á landsmenn og æsa þannig upp dýrtíðina á nýjan leik með öllum þeim afleiðingum, sem því mundu fylgja, heldur höfum við gert grein fyrir því, að við teljum, að afkoma ríkissjóðs sé með þeim hætti, að ríkissjóður geti tekið á sig þau útgjöld, sem honum er ætlað að bera skv. þessu frv., þó að ekki verði um beinar nýjar álögur að ræða. En þær till., sem ég geri hér um lækkun á útflutningsgjaldinu og um stórfellda lækkun á vöxtum almennt, ættu að geta að mestu staðið undir þeirri fiskverðshækkun, sem er lögð til í mínum till. Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni.