11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í D-deild Alþingistíðinda. (3215)

180. mál, embætti lögsögumanns

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það mál, sem hv. 5. þm. Reykv. hreyfir hér, er mjög merkilegt og eftirtektarvert mál. Hann hefur rakið hér nokkuð þá löggjöf Norðurlanda, sem um þetta fjallar, og sú löggjöf er raunverulega tákn um, hvernig menn finna meira og meira til þess, að það er orðin brýn nauðsyn að gera sérstakar ráðstafanir til þess að vernda sjálft þjóðfélagið gegn ríkisvaldinu. Það er raunverulega það, sem felst í þessum aðgerðum, sem þarna hafa verið gerðar. Sú tvískipting, sem búin er að vera um allmargar aldir í mannfélaginu og milli þess eiginlega samfélags, mannanna, annars vegar og þess ríkisvalds, sem myndað var ofan frá, hins vegar, hún er að verða miklu harðvítugri en nokkurn tíma fyrr á okkar tímum og um leið miklu hættulegri. Og þessi merkilegu fyrirbrigði, sem frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa tekið upp, eru tilraunir einmitt til þess að hamla upp á móti ríkisvaldinu og þess ofurvaldi gagnvart almenningi, gagnvart hinu raunverulega samfélagi mannanna sjálfra, og frá mínu sjónarmiði vonandi forboði þess, sem einhvern tíma mun koma, að ríkisvaldið sjálft verði afnumið. Það, að skapa slíkan fulltrúa fyrir almenning, koma upp í kringum hann því áhrifavaldi, sem hann á að hafa, án þess að geta stuðzt við dómsvald, framkvæmdavald eða slíkt, það er alveg sérstaklega mikið átak og nauðsynlegt átak. Og það er ekki sízt nauðsynlegt hér í okkar landi, þar sem ríkisvaldið af ástæðum, sem við öll þekkjum, er ákaflega sterkt í þessum efnum vegna þess, hvað ríkisvaldið fléttast inn í öll efnahagsmálin og stjórnin á þjóðfélaginu hjá okkur er fyrst og fremst eins og stendur stjórn á efnahagsmálunum. Þar að auki hefur í svona litlu þjóðfélagi eins og okkar flokkaskipulagið og flokkavaldið þróazt þannig, að meira og meira hafa raunverulega flokkarnir orðið eins konar vátryggingarfélög einstaklinganna gagnvart ríkisvaldinu, eins konar samtök þeirra til þess að reyna að ná sínum rétti. Þeir hafa verið svo að segja samtök oftast gagnvart ríkisvaldinu eða til að beita ríkisvaldinu, til þess að reyna að ná sínum rétti og til þess að tryggja sig. Og það er öllum, sem þekkja verulega íslenzka pólitík, alveg ljóst, hvernig þetta er og hvernig þetta er miklu ríkara hér hjá okkur en það er t.d. á Norðurlöndum. Ég held það sé auðveldara í þessum málum að ná rétti sínum á Norðurlöndum en hérna. Og við vitum ósköp vel, sem þekkjum sæmilega stjórnmálasögu, að það mundi varla koma fyrir nú t. d., að harðvítugir pólitískir andstæðingar ynnu mál gegn ríkisstjórn fyrir hæstarétti, eins og kom fyrir, meðan hæstiréttur var danskur, bara vegna þess, að hæstiréttur er nú sem stendur meira tæki í höndum valdhafanna en var, meðan við áttum undir danskan hæstarétt að sækja. Vegna smæðarinnar hér heima er réttaröryggið minna en það var, og það hefur hæstiréttur bezt sýnt í sínum afskiptum af réttarmálum á Íslandi að undanförnu, þannig að réttaröryggið í landinu hefur liðið við það, að hæstiréttur var fluttur inn í landið.

Ég nefni þetta bara sem dæmi um, hvað nauðsynlegt er, ef væri hægt að koma upp einhverri stofnun, þar sem almenningur gæti álitið sig eiga einhverja stoð gagnvart ríkisvaldinu, því að það hefur sjaldan verið eins og hérna hjá okkur, að dómarnir, dómararnir og allt slíkt væru önnur eins tæki í höndum yfirstéttarinnar og hér er. Þess vegna vil ég mjög taka undir tilganginn með þessari þáltill. Það er virkilega orð í tíma talað, að við athugum okkar gang í þessum efnum.

En það er eitt, sem ég er algerlega á móti í þessum efnum, og það er nafnið, sem hv. 5. Þm. Reykv., hv. flm., vill gefa þessum manni. Við vitum allir, að heitið lögsögumaður var tignarheiti á æðsta manni okkar lýðveldis, okkar þjóðveldis. A.m.k. í upphafi, á meðan hans áhrif, og þau byggðust ekki á valdi, — meðan hans áhrif voru sterk, fyrstu tvær aldirnar af okkar þjóðveldi, átti þjóðveldið það sameiginlegt með öllum slíkum frjálsum bændasamfélögum og gömlum ættasamfélögum, að hann var æðsti maður frjáls samfélags, sem raunverulega þekkti ekki ríkisvaldið. Hann var fulltrúi almennings, fulltrúi fólks, sem enn þá hafði ekki af ríkisvaldinu að segja, og ríkisvaldið var ekki til eða var svo rétt í byrjun að skapast, að allt þess kúgunareðli gat ekki enn komið í ljós. Þetta tignarheiti lögsögumanns er þess vegna heiti, sem við eigum að varðvelta í okkar sögu eins og það var og ekki eiga á hættu að láta það að neinu leyti verða rýrt í meðferð í nútíma þjóðfélagi, — þjóðfélagi, þar sem stéttaskiptingin er enn þá og þar sem frelsi þess vegna er ekki raunverulega til í þeirri merkingu, sem það var þá. Þess vegna held ég, að við megum varast að taka upp svona heiti. Það er álíka og þegar Lækjarbotnar voru skírðir Lögberg. Það megum við ekki gera. Hitt er rétt, að það getur verið nokkur vandi að finna heiti fyrir svona menn, þar sem þeir eru hugsaðir að vera umboðsmenn almennings gagnvart ríkisvaldinu og gegn ríkisvaldinu, ef um það er að ræða. Ég efast þó ekki um, að við munum finna, strax og samkomulag yrði um að koma þessari stofnun upp, heppileg nöfn á það, en ég vildi biðja um það umfram allt, að við tækjum ekki að hagnýta þessi gömlu tignarheiti, þau eiga að vera okkur of heilög til þess.

Hins vegar held ég eftir minni þekkingu á flokkavaldinu hér á Íslandi og meiri eða minni innlimun þess í ríkisvaldið á víxl, að verði óskaplega erfitt að finna einn mann, sem hægt sé að treysta í þessu sambandi. Það verður óskaplega erfitt. Það er alveg rétt, sem hv. flm. sagði, það er alveg óhugsandi að ætla t.d. að kjósa svona mann bara af meiri hl. Alþ. Það væri í mótsetningu við tilgang þessa embættis. Það lægi nær að kjósa hann í hvert skipti af minni hl. Alþ., ef maður vildi innleiða eitthvað slíkt. En það væri máske hugsanlegt að hafa í þessu starfi, — því að það er ég ákaflega hræddur um, að það verði ekki aðrir menn, sem fá miklu meira að gera en þessi maður, sem í þetta væri settur, — það væri spurning, hvort hugsanlegt væri að setja 2—3 jafnréttháa menn í þetta starf með mjög mikið vald, þannig að það væri alltaf tryggt, að það væri hægt að snúa sér til þessara manna, jafnvel þótt einhver þeirra eða jafnvel meiri hl. þeirra lægi undir þeim hugsanlega grun, að hann léti eitthvað undan fyrir stjórnarvöldum út af því, hvað flokksvaldið er sterkt á Íslandi, að það væri þá a.m.k. alltaf einhver þeirra, sem hægt væri að snúa sér til og væri reiðubúinn að beita því mikla valdi, sem svona maður yrði að hafa. Ég álít, að þetta eigi sú nefnd, sem þetta fær, að athuga ákaflega vel. Þetta er orð í tíma talað. Það er mjög heppilegt, að þetta komi fram. Ég hef ofur lítið kynnt mér einmitt þá löggjöf, sem hefur verið á Norðurlöndum um þetta, og fagna því mjög, að till. skuli koma fram, og vil taka undir það, að sú nefnd, sem þetta fær til meðferðar, athugi þetta fljótt og vel, og það þarf ekkí að ákveða neitt heitið á þessu. Það er nóg, að við séum sammála um, hvert innihaldið í þessari stofnun eigi að vera.