29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í D-deild Alþingistíðinda. (3220)

186. mál, ráðstafanir gegn tóbaksreykingum

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 356 svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir öflugri fræðslustarfsemi um skaðsemi tóbaksreykinga. Leitað skal til samtaka lækna og kennara um samstarf, svo og til góðra fyrirlesara. Ráðstafanir skulu gerðar til þess, að sem flestir skólar í landinu séu heimsóttir og í þeim fluttir fræðandi fyrirlestrar og kvikmyndir sýndar til aðvörunar við hættum þeim, sem tóbaksreykingum eru samfara. Heimilt er að verja úr ríkissjóði allt að 2 millj, kr. á yfirstandandi ári til framkvæmda samkv. till. þessari.“

Fyrir l1/2 ári flutti ég till. hér á Alþingi um, að ríkisstj. yrði heimilað að verja úr ríkissjóði 1 millj. kr. til baráttu gegn tóbaksreykingum æskufólks. Till. þessa flutti ég í beinu framhaldi af upplýsingum, sem þá lágu fyrir frá samtökum brezkra lækna um, að augljóst samband væri á milli sígarettureykinga og krabbameins í lungum. Þá var kunnugt um, að í mörgum löndum var þegar tekin upp öflug barátta gegn sígarettureykingum og í ýmsum tilfellum undir beinni forustu opinberra aðila. Till. mín var því miður felld hér á Alþingi. En rétt upp úr síðustu áramótum bárust enn mjög athyglisverðar upplýsingar um niðurstöðu lækna í Bandaríkjunum um þessi mál. Skoðanir þeirra staðfestu fullkomlega það, sem áður var fram komið um skaðsemi tóbaksreykinga og þá fyrst og fremst sígarettureykinga og um beint samband, sem virðist vera milli mikilla sígarettureykinga og krabbameins í lungum. Áhrif hinna bandarísku upplýsinga urðu þau, að sígarettureykingar minnkuðu stórkostlega fyrstu mánuðina, eftir að skoðanir læknanna voru gerðar kunnar. Þannig sýndu skýrslur úr flestum ríkjum Bandaríkjanna, að sala á sígarettum minnkaði þar um 20-25% fyrstu tvo mánuðina, eftir að læknaskýrslan þar kom fram. Og hér á landi hefur einnig dregið talsvert úr sölu á sígarettum, a.m.k. í bili. Það er því augljóst, að býsna margir velta upplýsingum læknavísindanna í þessum málum nokkurn gaum og vilja gjarnan taka nokkurt tillit til þeirra. En það er í þessum málum eins og öðrum, að það eru traustar og vandaðar upplýsingar, haldgóð fræðsla og skilningur á vandamálinu, sem mestu ráða um það, hver viðbrögð almennings verða. Sterkur áróður um hið sanna í málinu getur haft úrslitaáhrif. Það er skoðun mín, að í baráttunni gegn sígarettureykingum eigi að leggja höfuðáherzluna á það að koma í veg fyrir, að uppvaxandi æskufólk venji sig á sígarettunotkun.

Sennilega verður erfitt að venja það fólk af sígarettureykingum, sem vanið hefur sig á þá nautn um langan tíma og nú er orðið fullorðið. Þó er ekki ólíklegt, að einhverjir mundu hætta og aðrir draga nokkuð úr reykingum, ef á þá væri knúið á réttan hátt í þessum efnum. En unga fólkið, sem enn hefur ekki byrjað á reykingum, ætti sannarlega ekki að byrja á þeim eftir þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir um skaðsemi reykinga. Og það verður að vera verk hinna fullorðnu að reyna að koma í veg fyrir reykingar unga fólksins. Við Íslendingar megum ekki dragast aftur úr öðrum þjóðum í baráttunni gegn þessari hættu. Við þurfum að átta okkur á, að aðrar þjóðir hafa flestar hafið skipulega og öfluga baráttu gegn sígarettureykingum, einkum meðal unga fólksins. Það er skoðun mín, að erfitt verði að ná nokkrum verulegum árangri í baráttunni gegn reykingum, án þess að veruleg aðstoð ríkisvaldsins komi til og þar með allveruleg bein fjárhagsaðstoð. Þessi till. mín miðar að því að hafa áhrif á það.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa hér langt mál um þessa till. Nú eru margir mánuðir liðnir, síðan ég lagði till. hér fram, og komið er að seinustu dögum þingsins sennilega, en úrskurðaðar hafa verið tvær umr. um till. Hún þarf því að ganga til n. Ég skal því stytta mál mitt, enda vænti ég, að flestir alþm, hafi áttað sig á alvöru þess máls, sem hér um ræðir, og hafi áttað sig á því, að það er kominn tími til þess, að við förum að vinna alvarlega að því að hafa áhrif á gang þessara mála.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að till. gangi til fjvn. að lokinni þessari umr.