26.01.1964
Neðri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forsett. Hv. 6. landsk., frsm. meiri hl. fjhn., nefndi till. okkar í minni hl. um að fella niður úr frv. skattálagninguna, og hann segir, að við viljum fara það sem hann kallar verðbólguleiðina með þessari till. Þetta er mesti misskilningur hjá hv. þm. Við höfum gert grein fyrir því, að við viljum nota til þeirra ráðstafana, sem hér um ræðir, það fé, sem búið er að taka af landsmönnum með sköttum umfram þarfir hins opinbera, og það, sem útlit er fyrir að verði tekið umfram þarfir á þessu ári með sköttum. Það skapar enga verðbólgu að nota það fé, sem tekið er með álögum af landsmönnum. Stjórnarflokkarnir kjósa enn sem fyrr að fara hina leiðina, sem vel mætti kalla dýrtíðarleið, að leggja á stöðugt nýja skatta, en allir vita, hvað það hefur háskalegar afleiðingar í för með sér.

Hv. 6. landsk. þm. nefndi einnig till. okkar um fiskiðnskólann, taldi vafasamt, að hún ætti heima við afgreiðslu á þessu frv. En ég vil benda á það, að þetta er ákaflega þýðingarmikil ráðstöfun einmitt til hagsbóta fyrir sjávarútveginn, að koma upp þessari skólastofnun, og því teljum við það mjög eðlilegt, að ákvæði um undirbúning að stofnun slíks skóla verði tekin inn í þetta frv.