06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í D-deild Alþingistíðinda. (3241)

198. mál, markaðsrannsóknir í þágu útflutningsatvinnuveganna

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 415 höfum við 6 þm. Framsfl. flutt till. til þál. um markaðsrannsóknir og sölustarfsemi í þágu útflutningsatvinnuveganna. Till. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna mþn. til þess að athuga í samráði við fulltrúa atvinnuveganna, á hvern hátt megi efla markaðsrannsóknir og sölustarfsemi í þágu útflutningsatvinnuvega þjóðarinnar, svo og bæta gæðaeftirlit, þannig að sem beztum árangri verði náð með minnstum tilkostnaði, og leggja niðurstöður fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Íslendingar eiga mikið undir því, að útflutningsverzlunin sé rekin á sem hagkvæmastan og árangursríkastan hátt. Aukið framleiðslumagn og fjölbreyttari framleiðslutegundir okkar annars vegar og síaukin samkeppni voldugra erlendra verzlunarhringa hins vegar í markaðslöndunum krefst Þess, að beitt sé kerfisbundnum aðferðum í markaðsrannsóknum og sölustarfsemi í þágu útflutningsatvinnuveganna. Eins og málum er nú háttað, vantar samræmda upplýsingasöfnun um markaði og atvinnulíf þeirra landa, sem við eigum mest viðskipti við. Sú starfsemi, sem fram fer á vegum utanrrn. í þessum efnum, er hvergi nærri fullnægjandi, enda er íslenzka utanríkisþjónustan ekki byggð upp þannig, að hún geti sinnt þessu verkefni, svo að vel sé, og má þar til nefna, að staðsetning sendiráða er ekki heppileg í þessu tilliti, og þó hitt fyrst og fremst, að sérmenntað fólk í markaðsmálum er ekki starfandi á hennar vegum, eftir því sem ég bezt veit. Á þessu þarf að verða breyting. Hins vegar hafa stærstu útflutningsgreinar fiskiðnaðarins, eins og t.d. Samband ísl. samvinnufélaga, að því er tekur til nokkurra útfluttra landbúnaðarafurða, unnið allgott starf í þessum efnum, þótt sjálfsagt sé að auka það og samræma betur.

Vinnuveitendur, iðnrekendur, útgerðarmenn og kaupsýslumenn, þ.e.a.s. allir þeir aðilar, sem atvinnurekstur hafa með höndum, hvort sem er í ríkis-, samvinnu- eða einkarekstri, verða að geta aðlagað rekstur fyrirtækja sinna breyttu viðhorfi í atvinnu- og viðskiptaháttum þeirra landa, sem við verzlum við. Til þess að svo geti orðið, er góð markaðsþekking frumskilyrði. Þetta þýðir, að afla þarf m.a. upplýsinga um neyzluvenjur á hverjum stað, verðlag, þýðingarmestu atvinnugreinar viðkomandi landa, sem við eigum að keppa við, tollalöggjöf viðskiptalandanna o.s.frv. Slík almenn upplýsingasöfnun ætti ekki að krefjast kostnaðarsamrar markaðsrannsóknastofnunar, heldur er hægt að inna hana af hendi með söfnun skýrslna um þessi mál, blaðagreina, markaðstilkynninga og með því að standa í stöðugu sambandi við markaðsstofnanir og alþjóðlegar stofnanir, sem láta sig þessi mál einhverju varða. Ég tel ástæðu til að benda á, að enginn einn aðili hér á landi hefur með slíka upplýsingasöfnun að gera, hvorki hið opinbera né einstakir aðilar. Að vísu leitast einstök samtök atvinnuveganna, ráðuneytin, bankar og fleiri aðilar við að afla sér sem beztra gagna á sínu sérsviði, en um skipulagsbundið starf, sem allir geti notið góðs af, er ekki að ræða. Ég álft, að eitt meginskilyrði þess, að vel takist til um framkvæmd markaðsupplýsingaþjónustu, sé, að í það starf veljist áhugasamir hæfileikamenn með næga menntun, menn, sem eigi kost á að fylgjast vel með, hvað gerist erlendis í þessum málum, og einnig, að þeir standi í góðu sambandi við forustumenn samtaka atvinnuveganna og ráðuneyti utanríkisviðskipta. Til þess að markaðsupplýsingaþjónustan geti innt framangreind verkefni af höndum, þarf nokkurt fjármagn. Væri það eitt af verkefnum nefndar þeirrar, sem till. gerir ráð fyrir að kosin verði til að athuga þetta mál, að gera till. um, á hvern hátt þess fjár yrði aflað.

Herra forseti. Ég legg til, að að umr. þessari lokinni verði till. vísað til hv. fjvn.