30.10.1963
Sameinað þing: 8. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í D-deild Alþingistíðinda. (3264)

27. mál, afurðalán vegna garðávaxta

Fyrirspyrjandi (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Um alllangt skeið hafa verið veitt afurðalán út á sauðfjárafurðir, og er það mjög mikilvægt fyrir bændastéttina, að sem bezt fyrirgreiðsla sé veitt að þessu leyti. En einn þáttur landbúnaðarframleiðslunnar er garðávextir. Garðávextir eru ein sú tegund matvæla, sem þjóðina má ekki skorta, og hér á landi eru skilyrði til þess, að framleiðsla þeirra fullnægi þörf þjóðarinnar. En ræktun garðávaxta sem atvinnugrein er að því leyti svipuð framleiðslu sauðfjárafurða, að rekstrarkostnaður, svo sem áburðarkaup, fellur til á fyrri hluta árs, en uppskeran kemur ekki á markað fyrr en á haustí og sala til neytenda fer síðan fram smátt og smátt.

Það hefur lengi verið eitt af áhugamálum bænda, að veitt yrðu afurðalán út á garðávexti alveg hliðstætt því, sem veitt er út á sauðfjárafurðir. Um þetta hafa m.a. verið gerðar samþykktir á aðalfundum Stéttarsambands bænda. Þetta mál hefur einnig átt nokkrum skilningi að mæta hér á hv. Alþ. Það lá fyrir síðasta þingi till. um þetta efni, og var hún afgr. 19. apríl 1963 með svofelldri ályktun:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að veitt verði afurðalán út á garðávexti hliðstætt því, sem gert er vegna sauðfjárafurða, enda séu garðávextir komnir í örugga geymslu, þegar afurðalán er veitt.“

Út af þessu hef ég leyft mér ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Norðurl. e. að bera fram fyrirspurn, svo hljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um afurðalán vegna garðávaxta?"