30.10.1963
Sameinað þing: 8. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í D-deild Alþingistíðinda. (3265)

27. mál, afurðalán vegna garðávaxta

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef átt viðræður við bankastjóra Seðlabankans um þessa till. og óskað eftir að lán yrðu að þessu sinni veitt út á garðávexti. En þegar rætt er um garðávexti, er naumast um annað að ræða en kartöflur, sem kæmi til greina að lána út á. Því miður er það nú svo, að garðyrkjan hefur brugðizt víða um land að þessu sinni og er með langminnsta móti, og yrði því ekki svo fjárfrekt að lána út á þær kartöflur, sem til falla í þetta sinn. En Seðlabankinn segir, að þetta sé prinsipmál, að ef á því verði byrjað, þá verði haldið áfram. Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda og samþykkt það, að það er eins nauðsynlegt að lána út á kartöflur og garðávexti og aðrar landbúnaðarvörur, vegna þess að garðávextir eru ekki framleiddir nema með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, og þetta er nokkuð áhættusamt, vegna þess að a.m.k. í sumum landshlutum bregzt uppskeran oft. Ég hef ekki fengið endanlegt svar frá Seðlabankanum um það, hvort þetta verði tekið upp í þetta sinn, og það má segja, að kartöflur eru ekki enn þá komnar í hús, sem tilskilið væri að þær væru í, ef þær væru metnar og lánað út á þær, og þá þarf hvort tveggja að ske, það þarf að vera matsvottorð um, að varan sé góð og óskemmd, og hún þarf að vera komin í hús, sem er öruggt að verndi þær fyrir leka og frosti. Og viðskiptabankinn, sem tæki að sér að endurselja afurðavíxilinn, mundi vitanlega ganga úr skugga um það, að öllum skilyrðum væri fullnægt og að veðið væri tryggt. En það verður ekki fyrr en í næsta mánuði, sennilega ekki fyrr en í seinni hluta nóvembermánaðar, sem skýrslur liggja fyllilega fyrir um það, hversu mikið magn getur verið um að ræða.

Það er nú vitað, að mikill hluti uppskerunnar verður ekki talinn vel hæfur vegna gæðamatsins og stór hluti verður ekki látinn í slíkar geymslur, sem eru taldar öruggar. En það verður ekki fyrr en einhvern tíma í næsta mánuði, sem það liggur fyrir, hvað mikið af framleiðslunni er metið sem lánshæf vara og hversu mikið af framleiðslunni verður komið í slík hús, að það verði tekið gilt. Það má þess vegná segja, að það sé enn ekki bagi að því, þó að það liggi ekki fyrir endanlegt svar frá Seðlabankanum um þetta atriði.

Af því að við erum nú að ræða um afurðalán, þá þykir mér rétt að upplýsa það, að afurðalán til landbúnaðarins munu aukast að þessu sinni verulega frá því, sem verið hefur. Á síðasta ári var hámarkið, sem Seðlabankinn lánaði út á landbúnaðarvörur, 294 millj. kr. Það reyndist vera of lágt til þess að geta haldið fyllilega þeirri prósentu, sem æskilegt þótti að hafa, en af því að þetta var bundið við hámark á sínum tíma, sem þótti fyrir fáum árum mjög mikið, en framleiðsluaukningin varð meiri en reiknað var með og verðlagið hækkaði, þá varð þetta hámark of lítið, eins og ég sagði, og nú hefur þetta hámark verið afnumið og með því að lána 55% að þessu sinni út á landbúnaðarafurðir gæti upphæðin farið upp í 430 millj. í staðinn fyrir 294. Nú hef ég farið fram á það, að prósenttalað yrði hækkuð, en ég hef nú fengið það svar hjá bankastjórunum við Seðlabankann, að það væri kannske dálítið erfitt að gera hvort tveggja, að hækka prósentuna einmitt á þeim tíma, sem lánin hækka svo mikið vegna birgðaaukningar og hækkunar á verði. En það er fullyrt, að lánin verði að þessu sinni ekki minni en 55%, en þó því aðeins að Seðlabankinn fái aukið fé af sparifjármyndun þjóðarinnar til varðveizlu. Seðlabankinn getur ekki lánað fé, nema hann hafi það undir höndum.

Það fé, sem er bundið í Seðlabankanum nú eða var 1. okt. s.1., nam 743.7 millj. kr. Endurkeyptir víxlar voru 30. sept. 1963 til landbúnaóar 289.1 millj., til sjávarútvegs 638.8 millj. Endurkeyptir víxlar voru því samtals 927.9 millj., og það er það mesta, sem endurkeyptir víxlar hafa orðið á þessu ári.

Nú hefur Seðlabankinn veigamikið hlutverk annað en lána út á afurðir landbúnaðar og sjávarútvegs. Það er, ef svo mætti segja, að vernda gjaldeyrisvarasjóðinn, og það er ekki unnt að vernda gjaldeyrisvarasjóðinn nema eiga fjármagn, verðmæti, sem er geymt í Seðlabankanum til tryggingar honum. En gjaldeyrisstaða bankanna var 30. sept. s.l. 1 milljarður 81.1 millj. kr. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er nærri 1100 millj. og bundna féð er 743.7 millj., en afurðalánin 917.9 millj., en með þeirri aukningu, sem er á afurðalánum til landbúnaðarins og vonandi aukningu til sjávarútvegsins yrðu afurðalánin á þessu verðlagsári eitthvað á 2. milljarð. Því er það, að það er nauðsynlegt að halda áfram að binda fé í Seðlabankanum til tryggingar gjaldeyrisvarasjóðnum og til þess að unnt sé að auka afurðalánin, og að því er stefnt. Það er að því stefnt, að hægt verði að auka afurðalánin til landbúnaðar og sjávarútvegs, því að það er alveg rétt, sem haldið hefur verið fram, að það er æskilegt, að það megi takast og það tekst með því að mynda sjóð í Seðlabankanum, sem eykst og hefur möguleika til þess að lána til þessara þörfu atvinnuvega.

Nú er það svo, að þessir tveir atvinnuvegir hafa fengið nokkur lán í viðskiptabönkunum til viðbótar afurðalánunum í Seðlabankanum og þá, að ég ætla, á venjulegum víxilvöxtum. Þessi viðbótarlán munu vera yfirleitt 12-15%, þannig að unnt hefði verið að greiða strax út á afurtfirnar til framleiðenda um 2/3. En þannig hefur þetta nú verið lengi, a.m.k. með landbúnaðinn, að það hefur ekki verið unnt að borga meira en 2/3. Það var t.d. sagt frá því í fyrra, að eitt kaupfélag hefði borgað 90% strax um haustið út á kjötafurðirnar, önnur kaupfélög nokkru minna en 90%, en þó talsvert meira en 67%, og það er út af fyrir sig mjög ánægjulegt. að það getur tekizt, því að eins og oft hefur verið sagt, er það bezt fyrir framleiðandann að fá greiðslu á öllu andvirðinu sem allra fyrst.

En ég vil segja það við þetta tækifæri, að stjórn Seðlabankans hefur ekki treyst sér til að lofa hærri afurðalánum til landbúnaðarins að þessu sinni en 55%, en að því er stefnt, að það geti orðið meira, og það er álit stjórnar Seðlabankans og það er reyndar einnig álit ríkisstj. og ekki siður, að til þess að unnt verði að hækka afurðalánin eins og æskilegt er, þá þurfi Seðlabankinn að hafa fé til þess og þess vegna þurfi bundna féð í Seðlabankanum að aukast til muna frá því, sem það er nú.