30.10.1963
Sameinað þing: 8. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í D-deild Alþingistíðinda. (3267)

27. mál, afurðalán vegna garðávaxta

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það var eingöngu vegna þess, að hæstv. landbrh. tók upp þann einkennilega sið í sambandi við svar við fsp. að halda eins konar erindi um útlán úr bankakerfinu út á landbúnaðarafurðir, að ég vildi segja hér örfá orð, út af þeim undarlega skilningi, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. í þessu sambandi. En fyrst vil ég segja það sem mína skoðun, af því að ég er kominn hingað, að auðvitað getur hæstv. ráðh. ráðið því, ef hann vill, að Seðlabankinn láni út á garðávexti, eins og margbúið er að stinga upp á hér á hv. Alþ.

Það vita allir, að hæstv. ríkisstj. getur ráðið því í Seðlabankanum í raun og veru, sem hún vill. Hún getur ráðið þessu og hefur látið Seðlabankann gera það, sem henni hefur sýnzt og það um stærri atriði en það, hvort eigi að lána einhverja fjárhæð út á garðávexti. En manni skildist á því, sem hæstv. ráðh. sagði, að þar væri um stórkostlegt prinsip-mál að ræða og ef byrjað yrði á því, þá gerðist eitthvað mikið, sem honum þó skildist ekki, hvað mundi verða. En það er nú ekki farið fram á annað en að lánað sé út á garðávexti eins og aðrar landbúnaðarafurðir, svo að það er ekki farið fram á að taka upp neitt nýtt prinsip.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að hann væri alltaf að berjast við að fá aukin lán út á landbúnaðarafurðir, en það væri ákaflega erfitt, vegna þess að Seðlabankinn væri svo fátækur og ætti svo erfitt með að sinna því að lána út á afurðirnar. Ég vil í því sambandi minna á, að Seðlabankinn lánaði 67% út á landbúnaðarafurðir, áður en núv. ríkisstj. átti hlut að því að skera lánin niður. Seðlabankinn gerði það þá, en nú er þetta komið niður í 55% og var þó enn lægra í fyrra og hittiðfyrra. Og enn þá er haldið niðri fyrirframlánunum út á landbúnaðarafurðir stórkostlega, alveg gífurlega umfram það, sem áður var, svo að það munar sennilega fremur hundruðum millj. en tugum millj.

Seðlabankinn gat gert þetta áður og gerði það. Ég veit vel, hverju hæstv. ráðh. svarar þessu. Hann segir: Þetta leiddi til verðbólgu og þetta var ekki í raun og veru hægt að gera og það er ekki hægt að gera þetta áfram. En ég svara bara einfaldlega því, sem öll þjóðin veit: Það var ekki meiri verðbólga þá en nú. Það var ekki meiri verðbólga, þegar þetta var gert til þess að greiða fyrir landbúnaðinum, en er nú og hefur verið upp á siðkastið, síðan þessir nýju hættir voru teknir upp. Og þetta ætla ég, að sé nægilegt svar við þessum vangaveltum um, að það sé ekki hægt að sinna málefnum landbúnaðarins á þessa lund, eins og ætti að vera og eins og gert var, en því er hæstv. ráðh. að pota hér inn í umr. um þetta mál, sem hér liggur fyrir, sem er eingöngu um, hvort eigi að lána út á garðávexti. Og ég vildi ekki sitja þegjandi undir þessu. Ég vil, að þessi skoðun komi greinilega fram af minni hálfu af tilefni frá hæstv. ráðh.