13.11.1963
Sameinað þing: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í D-deild Alþingistíðinda. (3272)

52. mál, landþurrkun á Fljótsdalshéraði

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þurrkun mýrlendisins er eitt mesta nauðsynjamál Íslendinga. Mýrlendið er til lítils nýtt óræst fram, en þurrkað verður þetta dýrindis land. Sé mýrlendið þurrkað, veróur fljótt gott beitiland, og síðan kemur ræktunin. Eitt mesta áhyggjuefni Íslendinga ætti að vera það, að enn blæs meira upp af landinu en grær. Undirstaða þess, að landgræðslan takist nógu vel, er sumpart full friðun lands og sumpart, að ekki sé ofbeitt, jafnframt því sem ræktað er og gróðursett. Framræsla mýranna mundi víða leysa beitilandsvandamálið, bæta búpeninginn og auka afurðirnar og gera mögulegt að hlífa afréttunum og öðru því landi, sem hlífa þarf, til þess að landgræðslan takist. Það þyrfti að gera meira að því en verið hefur að taka fyrir og þurrka stór, samfelld svæði með beztu aðferðum, og hefur það þó raunar verið nokkuð gert og sums staðar með mjög glæsilegum árangri.

Í apríl 1962 var samþ. svo hljóðandi þáltill. frá okkur þm. Austf., sem við fluttum sameiginlega: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta svo fljótt sem verða má mæla vegna framræslu allt ræktanlegt votlendi á Fljótsdalshéraði og gera áætlun um, hvað kosta muni að þurrka þetta land“

Við vildum, að með þessari athugun fengist hugmynd um a.m.k., hve stórfellt verkefni það væri í sjálfu sér áð þurrka Fljótsdalshérað, sem er eitt af stærri héruðum landsins, og hvað líklegt mætti telja, að það kostaði, ef unnið væri skipulega með beztu tækjum. Slíkar upplýsingar mundu teljast mjög merkilegar og þýðingarmiklar, og gætu þær orðið grundvöllur að því að átta sig á framkvæmdamöguleikum á svona miklu verki, og það mundi einnig geta haft mikla þýðingu fyrir önnur byggðarlög og landið allt að gera sér grein fyrir þessu dæmi. Nú langaði okkur til þess að vita, hvað gerzt hefði í þessu máli, og því flyt ég hérna fsp., en hún er svo hljóðandi:

„Hvað hefur verið gert til þess að framkvæma ályktun sameinaðs Alþingis frá 16. apríl 1962 varðandi landþurrkun á Fljótsdalshéraði?“

Ég þarf ekki að hafa meiri formála fyrir þeirri spurningu.