13.11.1963
Sameinað þing: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í D-deild Alþingistíðinda. (3273)

52. mál, landþurrkun á Fljótsdalshéraði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. sú, sem hér um ræðir, er í sambandi við þáltill., sem samþ. var á síðasta Alþingi. Eftir að þessi till. var samþykkt, skrifaði ég landnámsstjóra og Búnaðarfélagi Íslands og óskaði upplýsinga hjá þeim og ábendinga um, á hvern hátt líklegast væri að framkvæma þessa till. og gera ráðstafanir, sem að gagni kæmu í framræslu, ekki aðeins á Fljótsdalshéraði, heldur og víðar, því að það er vitanlega víðar, sem líkt stendur á.

Samkvæmt bréfi því, sem ég hef fengið frá landnámsstjóra, en hann skrifar fyrir hönd Landnáms ríkisins, og búnaðarmálastjóra fyrir hönd Búnaðarfélags Íslands, má heyra álit Búnaðarfélagsins og Landnámsins á þessari till., og með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að lesa upp þetta bréf:

Þál. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta svo fljótt sem verða má mæla vegna framræslu allt ræktanlegt votlendi á Fljótsdalshéraði og gera áætlun um, hvað kosta muni að þurrka þetta land.“

Framangreindar stofnanir hafa tekið mál þetta til yfirvegunar (þ.e. Búnaðarfélag Íslands og Landnám ríkisins), sérstaklega með tilliti til, hve mikið verkefni þetta er og hverja þýðingu slíkar mælingar gætu haft fyrir framkvæmd ræktunarmála á svæði því, sem um getur í þingsályktuninni. Með hliðsjón af þessum athugunum svo og því, hver kostnaður varð, er Landnám ríkisins lét gera uppdrætti með tilliti til könnunar á heildarframfræslu eins hrepps á þessu svæði, telja þessar stofnanir, að uppmæling á þeim grundvelli, sem þál. gerir ráð fyrir, sé svo umfangsmikil, að hvorki Búnaðarfélag Íslands né Landnám ríkisins hafi að óbreyttum aðstæðum umráð mannafla, sem þarf til slíkrar rannsóknar, eða fjárráð til að taka þetta verkefni upp í því formi, sem þál. gerir ráð fyrir. Þessar stofnanir eru sammála um, að æskilegt sé að undirbyggja aukna ræktun á Fljótsdalshéraði og raunar mjög víða annars staðar á landinu, þar sem bú eru of smá til að geta hagnýtt sér fullkomnari tækni og útbúnað við þústörfin en þann, sem nú er notaður, og telur jafnframt, að ná megi sama marki að öðrum leiðum en heildarmælingu á umræddu svæði. Þetta gæti orðið gert með staðbundnum rannsóknum á hverri jörð, sem takmarkaðar væru af framræsluundirbúningi og ræktunarþörf hverrar einstakrar jarðar og framræslu á beitilandi að einhverju leyti, sem ætla má, að gæti grundvallað fyrir næstu 20–25 ár eðlilega stækkun búa og skiptingu jarða, þar sem það þætti henta. 2 samræmi við þetta viljum við benda á, að framkvæmanlegt mætti telja að taka saman yfirlit um, hve mikil ræktun er á hverri einstakri jörð á Fljótsdalshéraði, og að því gerðu fara þess á leit við héraðsráðunauta Héraðsins, að þeir á næstu 2 árum framkvæmdu nákvæma skoðun á ræktunarskilyrðum hverrar jarðar og hefðu til þess stuðning af loftmyndum eða uppdráttum gerðum með uppréttingu loftmynda af Landmælingum Íslands. Að þessu fengnu er hægt að gera lauslega áætlun um framræslukostnað á því votlendi, sem ætla má, að tekið verði undir framræslu á áðurnefndu tímabili. Æskilegt má telja, að gert sé ráð fyrir, að lágmarkslandstærð, sem ætluð er til túnræktar á hverri jörð, sé 30–50 hektarar auk lands, sem ræst væri til beitiræktar.

Báðar stofnanirnar, Búnaðarfélag Íslands og Landnám ríkisins, mundu vilja styðja framkvæmd í þessu formi, en ljóst er, að vart yrði annað fært en taka upp slíka rannsókn í öðrum héruðum landsins, kæmu fram óskir um það. Er því ástæða til að gera sér strax ljóst, að auka þarf starfskrafta sérfróðra manna í héruðunum eða hjá þessum stofnunum til söfnunar og úrvinnslu þessara gagna. Jafnframt skal tekið fram, að eðlilegt er, að sifkar athuganir séu látnar fara fram einnig í öðrum héruðum landsins, þar sem líkt stendur á um sem Fljótsdalshérað, jafnvel þótt ekki komi fram óskir um það.

Pálmi Einarsson,

Halldór Pálsson.“

Niðurstöður af þessum athugunum eru þá þær að þeirra áliti, að það mætti ná sama marki og gert er ráð fyrir í till. án þess að gera heildarmælingar. Það er með því að láta fara fram athugun á hverri jörð og að héraðsráðunautarnir ynnu þetta starf. Og að áliti Búnaðarfélagsins og Landnámsins er þörf á að láta slíkar athuganir fara fram í öðrum héruðum, jafnvel þótt ekki komi fram sérstakar óskir um það, því að það er vitanlega rétt, að það er mikið atriði að ræsa fram landið. Við getum farið víða um landið og séð þessar víðáttumiklu mýrar, sem alls ekki nýtast, vegna þess að sinan er svo mikil, að búfénaðurinn getur ekki notið græna grassins, það hverfur alveg inn í sinuna. Og því er það, að það er nú að því unnið að auka framræsluna.

Ég býst við, að hv. alþm. hafi heyrt nefndan finnska plóginn, sem kom hingað til lands á s.l. ári. Hann hefur verið notaður allt þetta sumar til þess að ræsa fram mýrar austur í Holtum, og er nú þegar búið að grafa 100 km þar á mýrunum. Þetta gefur allt mjög góðar vonir, og því hafa nú verið gerðar ráðstafanir til þess að kaupa tvo sams konar plóga og þann, sem kom í fyrra, til þess að geta á næsta sumri gert enn stærra átak í þessu. En það dugir vitanlega ekki aðeins að holræsa með finnska plógnum. Það verður að grafa með venjulegum skurðgröfum skurði með hæfilegu millibili, sem taka við vatninu. En það er enginn vafi á því, að þessi aðferð flýtir mjög fyrir því að ræsa fram og þetta verður margfalt ódýrara en var með gömlu aðferðinni. Landnám ríkisins og Búnaðarfélag Íslands telja, að það sé lágmark, 30–40 hektara ræktanlegt land á hverri jörð, og það er vitanlega nokkuð, sem menn hafa almennt gert sér grein fyrir. Og í sambandi við þetta er enginn vafi á því, að það má teljast liður og merkilegur liður í því að gera ráðstafanir til aðstoðar á þeim jörðum, sem skemmst eru komnar með ræktun og hafa allt of lítil bú, til þess að það sé hægt að lifa af þeim, það er það að láta fara fram athuganir eins og þær, sem hér er rætt um, því að það verður ekki lengur við það unað, að menn búi á 5–10 hektara ræktuðu landi með 50–100 ær og 2–3 kýr. Það segir sig sjálft, að það verður aldrei hægt að hafa afurðaverðið það hátt, að menn geti lifað af þeirri framleiðslu, sem af því fæst. Það þarf þess vegna áð gera rækilegar athuganir á því, á hvern hátt megi úr þessu bæta, þannig að þeir bændur, sem enn eru með sín smáu bú og litlu ræktun, geti aukið það og búið þannig um hnútana, að það sé lífvænlegt á jörðinni.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég mun ræða frekar við Búnaðarfélag Íslands og Landnám ríkisins og aðrar stofnanir landbúnaðarins um það, á hvern hátt hentugast megi verða að framkvæma þetta, og ég tel, að það sé athyglisverð sú ábending, sem fram er komin í þessu bréfi, sem ég las upp áðan, að láta nú til að byrja með, þangað til annað verður ákveðið, fram fara á hverri jörð á Fljótsdalshéraði athugun á því, hvað mikið land er ræktað á hverri jörð, hvað mikið er ræktanlegt, og þetta starf ættu héraðsráðunautarnir þar fyrir austan að geta framkvæmt, en um frambúðarlausn á þessu máli þarf að athuga nánar, hvernig því verður við komið, því að eins og segir í bréfinu, hefur Búnaðarfélagið og Landnámið ekki starfskrafta eða fé til þess að taka þetta til gagngerðra framkvæmda, eins og nú horfir, því að eins og sagt er, verður naumast hægt að einskorða þetta aðeins við Fljótsdalshérað, það þarf að taka það á breiðari grundvelli og athuga þá nánar, á hvern hátt það megi helzt framkvæma.