27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í D-deild Alþingistíðinda. (3279)

74. mál, Listasafn Íslands

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Það er ljóst af þeim, að enn virðist nokkuð langur vegur, þar til við sjáum hér risið hús yfir listasafn, ef ekki verða alveg sérstakar ráðstafanir til þess gerðar að flýta þessu mált af hálfu þeirra aðila, sem þar hljóta um að fjalla, fjárveitingavaldsins, Reykjavíkurbæjar að því er snertir lóðamálin og stjórnarvaldanna að því er framkvæmdina snertir. Það er augljóst, að 31/2 millj. kr., sem væntanlega verður í byggingarsjóði nú um næstu áramót, hrökkva skammt til nokkurra framkvæmda, og Það er einnig ljóst, að þó að Alþingi verði næstu árin að veita á fjárlögum svo sem 1/2 millj. kr., eins og nú er, til listasafnssjóðsins, þá komumst við ákaflega lítið nær markinu með því móti, a.m.k. ef við búum við þá verðbólguþróun, sem hér hefur nú verið um skeið. Það er enginn efi á því, að þessi mál þarf nú að taka föstum tökum, ef við eigum ekki enn um ófyrirsjáanlega langa framtið að búa við það ófremdarástand í þessu efni, sem ríkt hefur.

Það skiptir vitanlega höfuðmáli, að ekki dragist öllu lengur úr hömlu að ákveða byggingarlóð fyrir Listasafnið, og ég held, að í sambandi við það verði í rauninni, áður en staðurinn er ákveðinn, að taka afstöðu til þess, á hvern hátt ætlunin er að skipa þessum málum, á hvern hátt ætlunin er að byggja, hversu mikið svæði þarf undir listasafnsbyggingu og þá garða, þá höggmyndagarða t.a.m., sem taldir væru æskilegir og jafnvel nauðsynlegir í sambandi við hana. Á að stefna að því að byggja eitt stórhýsi á tiltölulega þröngri lóð, eða á að stefna að hinu, sem ég tel hiklaust að væri réttari stefna, að byggja í áföngum, þannig að hægt væri að byrja ekki allt of stórt, en bæta við eftir þörfum, og það væri allt skipulagt að sjálfsögðu fyrir fram, hvernig útkoman yrði, þegar fullbyggt væri.

Mér þykir að lokum ástæða til að vekja athygli hv. Alþingis á því, að fyrir rúmum 19 árum, þegar lýðveldið var stofnað, sýndum við Íslendingar af okkur þann myndarbrag að koma upp byggingu yfir Þjóðminjasafnið. Alþingi og ríkisstj. sameinuðust um það mál, og þjóðin fagnaði mjög þeirri framkvæmd. Á næsta ári minnumst við þess, að lýðveldið verður tvítugt. Vissulega væri vel til fallið, að hv. Alþingi, hæstv. ríkisstj. og þjóðin öll minntust þessa afmælis með því að koma byggingarmálum Listasafnsins á fastan rekspöl með því að hefja markvissan undirbúning þess, að Íslendingar geti notið listaverka sinna á sviði myndlistar. Ég vil mega treysta því, að hæstv. menntmrh. geri sitt til, að þetta geti orðið.