26.01.1964
Neðri deild: 47. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í lögum um söluskatt eru fyrirmæli um það, að 1/5 hluti skattsins skuli renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Í því frv., sem hér liggur fyrir, þar sem ákveðin er mikil hækkun á söluskattinum, er hins vegar tekið fram, að jöfnunarsjóður sveitarfélaga skuli ekki fá neitt af þessari hækkun. Þetta verður að teljast ósanngjarnt. Sívaxandi dýrtíð bitnar á sveitarsjóðunum ekki síður en á öðrum aðilum, og sveitarfélögin hafa því fulla þörf fyrir að fá sinn hluta af þessari skatthækkun, eins og þeim skatti, sem fyrir er. Minni hl. fjhn. vill því leyfa sér að flytja brtt. um þetta atriði í frv., um það, að síðasta mgr. 5. gr. falli niður. Brtt. er skrifleg, og ég vil því mælast til þess við hæstv, forseta, að hann leiti afbrigða og hún megi koma fyrir.