27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í D-deild Alþingistíðinda. (3280)

74. mál, Listasafn Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mjög þær umr., sem hér eiga sér stað um fsp., sem fram hefur verið borin, enda ræðutími takmarkaóur. En eins og kunnugt er og fram kemur hér í umr., á ríkið nú þegar allmikið safn listaverka, bæði verk málara og myndhöggvara og fleiri listamanna. Og nú er um það rætt og um það spurt, hvað liði undirbúningi að því að koma upp listasafni ríkisins hér í höfuðborginni. Nú vil ég aðeins skjóta því fram, beina því til hæstv. ráðh., sem þessi mál heyra undir, hvort það hafi ekki komið fram við meðferð þessara mála eða athugun, að það gæti komið til máta að byggja yfir þetta vaxandi listaverkasafn ríkisins á fleiri stöðum en einum, hvort það sé endilega sjálfsagt, að ríkið byggi listasafn á einum stað í landinu, hvort það geti ekki eins komið til greina, að þetta orð verði í fleirtölu, og byggð verði listasöfn, þ.e.a.s. að safnið, sem vonandi stækkar ár frá ári, verði geymt á fleiri stöðum í landinu en einum.

Undanfarin ár hefur verið vaxandi áhugi víðs vegar um land fyrir því, að haldnar væru sýningar á listaverkum, og ég ætla, að ríkisvaldið eða ríkisstofnanir hafi nokkuð greitt fyrir slíku og að slíkar sýningar úti um land hafi verið vel sóttar af almenningi á þeim stöðum. Þess vegna vildi ég, að þetta bærist í tal í þessum umr., og vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðh., ef hann væri viðbúinn að segja eitthvað um það, hvort þáð hefði ekki komið til greina í sambandi við þetta mál að byggja yfir listasafn ríkisins á komandi tímum á fleiri stöðum en einum í landinu.