07.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í D-deild Alþingistíðinda. (3291)

85. mál, Hofsárbrú í Vopnafirði

Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 94 til hæstv. samgmrh., svo hljóðandi:

„Hvenær er fyrirhugað að byggja Hofsárbrú í Vopnafirði, sem 1958 var ákveðið að byggja skyldi fyrir fé úr brúasjóði?“

Árið 1958 skrifaði þáv. samgmrh. svo hljóðandi bréf til vegamálastjóra, sem ég ætla hér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af viðræðum við yður, herra vegamálastjóri, hefur rn. ákveðið, að næst á eftir þeim þrem brúm. sem þegar hefur verið ákveðið að byggja fyrir fé brúasjóðs á næstu árum, verði byggð brú á Hofsá í Vopnafirði nálægt Hofi og til þess varið fé úr brúasjóði, að svo miklu leyti sem ekki verður til þessa verks veitt sérstök fjárveiting á fjárlögum.

Þetta tilkynnist yður hér með.

Hermann Jónasson,

Brynjólfur Ingólfsson.“

Þær þrjár brýr, sem í bréfi ráðh. er vikið að, voru brú yfir Hornafjarðarfljót, byggingu lokið 1961, brú yfir Mjósund, byggingu lokið 1960, og brú yfir Ytri-Rangá, byggingu lokið 1960, nema eftir var þá að setja handrið á brúna og eitthvað fleira smávegis að gera.

Í tilvitnuðu bréfi þáv. samgmrh. er vikið að fjárveitingu til Hofsár, en á fjárlögum 1957 og 1958 höfðu samtals verið veittar til brúarbyggingarinnar 480 þús. kr. Gert var ráð fyrir, að hægt væri að ljúka brúarbyggingunni 1960–1961, en ákveðið var að fara strax að undirbúa og vinna að verkinu og nota til þess þær 480 þús., sem handbærar voru samkv. fjárveitingum. 1959 var svo brúarstæðið ákveðið og trjáviður til brúarbyggingarinnar fluttur til Vopnafjarðar og einnig stöplastæði rannsökuð, og var ekki annað vitað en verkið yrði hafið það sumar eða í síðasta lagið sumarið 1960, og gat brúarbyggingunni þá auðveldlega verið lokið 1961. En í stað þessa var ekkert frekar aðhafzt og það byggingarefni, sem búið var að flytja til staðarins, var flutt burt. Að sjálfsögðu voru þetta sár vonbrigði fyrir Vopnfirðinga, og því meira hefur óánægjan vaxið sem árin hafa liðið og þeir ekki einu sinni fengið svar frá núv. hæstv. samgmrh. um það, hvenær mætti búast við, að brúin yrði byggð. Þótt slíkt ætti ekki að þurfa, þar sem staðreynd er, að ríkið hefur skuldbundið sig til þess að vera nú þegar búið að byggja Hofsárbrú, þá ætla ég að fullvissa hæstv. samgmrh. um það, að hér e; um stórkostlegt hagsmunamál fyrir Vopnafjarðarhérað að ræða og á þeim grundvelli tók þáv. samgmrh. þá ákvörðun, að brúin skyldi að mestu leyti byggð fyrir fé úr brúasjóði.

Hofsá er stór á, sem á upptök sín inni á öræfum og hefur mikið vatnasvæði frá upptökum til sjávar. Hún skiptir Hofsárdal. blómlegustu og þéttbýlustu byggð Vopnafjarðarhéraðs, að endilöngu og í það, sem kallað er Suður- og Norðurbyggð, og aðeins er ein brú yfir ána úti við sjó við fjarðarbotn. Hin fyrirhugaða brú innan við prestssetrið á Hofi, nánar tiltekið undan bænum Þorbrandsstöðum, er því ákaflega mikilvæg samgöngubót. Má t.d. nefna, að frá innstu bæjum Hofsárdals sunnan ár, t.d. frá Sunnudal, ef menn hafa erindi þaðan og þurfa á innri bæi Hofsárdals norðan ár, t.d. að býlinu Teigi, þá þurfa þeir að fara vegalengd, sem er röskir 60 km, en leiðin frá Sunnudal að Teigi, ef brúin væri komin, er 5 km. En fleira kemur til greina en samgöngubót í þessu efni. Fyrir 1958 var fyrirhugað að byggja í Vopnafjarðarkauptúni mjólkurvinnslustöð, og var þá sýnt, að brú undan Þorbrandsstöðum var ákaflega mikilvægur liður í sambandi við þá framkvæmd, rekstur mjólkurstöðvar. í trú á það, að samgmrn. virti ekki að vettugi skuldbindingar um að byggja Hofsárbrú, þá hefur nú verið byggt þetta mjóikurbú, og tók það til starfa á s.l. hausti.

Það er öllum vitanlegt. að það er ekki, eins og dýrtíðinni er nú háttað, hrist fram úr erminni að byggja margra millj. kr. fyrirtæki eins og mjólkurvinnslustöð, fullkomna mjólkurvinnslustöð samkv. þeim kröfum, sem nú eru gerðar til þeirra hluta. En það auðveldar auðvitað ekki rekstur slíkrar stöðvar, þegar ofan á það bætist, að fjárhagsleg fyrirgreiðsla í stofnsetningu slíkrar stöðvar er sáralítil og stopul, þá skuli skapast óvæntir erfiðleikar í sambandi við reksturinn, þ.e. aðdrátt framleiðsluvaranna að búinu. Þegar á það er líka litið, að Vopnafjarðarvegir hafa á undanförnum árum drabbazt niður vegna fjárskorts, bæði hvað snertir uppbyggingu og viðhald, þá er það í raun og veru til þess að kóróna allt þetta ástand að hafa ekki staðið við að byggja Hofsárbrú. Eins og sakir standa, þarf tvo mjólkurbila til þess að safna mjólkinni úr Hofsárdal að mjólkurbúinu, annan sunnan ár og hinn norðan. Og þessir bilar. sem kosta meira en 700 þús. kr. samtals, Þurfa að aka yfir eða um 70 km leið til að ná þessari mjólk til þúsins, í staðinn fyrir, að ef brúin væri komin á Hofsá nálægt Þorbrandsstöðum, væri ekki þörf á nema einum mjólkurflutningabil, sem þyrfti samtals að aka um 30 km.

Vopnfirðingar vænta því þess, að hæstv. samgmrh. gefi nú yfirlýsingu um það, að umrædd brú skuli verða byggð á næsta sumri.