07.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í D-deild Alþingistíðinda. (3292)

85. mál, Hofsárbrú í Vopnafirði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt, þótt hv. þm. spyrjist fyrir um það, hvenær brú á Hofsá verður gerð, Því að vitanlega er það rétt, sem hann sagði hér áðan, að það er þörf á þessu mannvirki. Og ég skal viðurkenna það, að eftir að mjólkurbúið hefur verið byggt í Vopnafirði, pá kallar vitanlega brúin enn meira eftir en áður. En það eru margar brýr í landinu, sem þörf er á að byggja og ekki sízt sem þörf er á að endurbyggja á aðalvegum, þar sem umferðin er mest, og nú vita allir hv. þm., að það hefur verið takmarkað fé til brúargerða að undanförnu og pá matsatriði hverju sinni, hvað lá mest á að framkvæma.

Í tilefni þessarar fsp. hef ég rifjað þetta mál upp með aðstoð vegamálastjóra og lagt fyrir hann nokkrar spurningar í tilefni af þessu, rifjað upp, hvað hefur verið gert síðustu árin, og þegar það kemur í ljós, ætla ég, að hv. þm. verði sammála um, að það er ekki vegna þess, að samgmrh. hafi ekki viljað byggja brúna á Hofsá, heldur eingöngu vegna þess, að það var annað, sem kallaði enn pá meira að, var enn þá nauðsynlegra en brúin á Hofsá.

Í fyrsta lagi spurði ég vegamálastjóra, hvaða brýr það voru árið 1958, sem samþykkt var að byggja fyrir fé úr brúasjóðnum. Og svarið er: „Með bréfi rn., dags. 1. júlí 1958, var ákveðið, að á næstu þrem árum skyldu byggðar brýr á Hornafjarðarfljót, Mjósund í Eyrarsveit og Ytri-Rangá hjá Hellu. Enn fremur var með bréfi rn., dags. 20. des. 1958, ákveðið, að þegar lokið væri byggingu þeirra þriggja brúa, sem um getur í bréfi frá 1. júlí 1958, skyldi byggð brú á Hofsá hjá Hofi í Vopnafirði og kostnaður við brúargerðina greiddur úr brúasjóði, að svo miklu leyti sem fjárveitingar til brúarinnar í fjárlögum hrykkju ekki til:

Þá er spurt að því, hver áætlaður kostnaður sé við brúargerð á Hofsá, og samkv, kostnaðaráætlun, sem hefur verið gerð í haust, er áætlað, að brúin muni kosta 3,2 millj., og er þá miðað við 72,5 m langa brú. Brúin á í geymslufé 480 þús. kr. frá fjárveitingum 1957 og 1958.

Þá er þriðja spurning: Hvaða brýr hafa verið byggðar árlega fyrir fé brúasjóðs árið 1959 og síðar? Til þess að hv. þm. geti þá metið það í huganum, hvort ekki hefur verið þörf á að byggja þær brýr, er eðlilegt, að það sé rifjað upp og lesið upp hér. Það hefur verið lokið við brúna á Hornafjarðarfljóti samkv. áætlun og fyrirmælum, brúna á Ytri-Rangá og brúna á Mjósundi. Þá hefur og verið lokið við að byggja brú á Fjallsá á Breiðamerkursandi, sem mikið var kallað eftir og örugglega er talin mjög nauðsynleg af öllum hv. þm., sem til þekkja. Brúará á Laugardalsvegi hefur einnig verið byggð, og ekki er að efast um, að Það var einnig nauðsyn. Þá hefur verið lokið við að gera uppfyllingu við brúna við Ölfusá, sem hafði beðið í nokkur ár, en enginn efast um, að nauðsynlegt var að gera, mjög nauðsynlegt. Þá hefur verið endurbyggð brúin á Klifanda í Mýrdal á Suðurlandsvegi, þ.e. járnbitabrú, en þeir, sem um þá brú fóru, sáu, að hún var í hlykkjum og búizt við, að hún mundi einn góðan veðurdag fljóta burt, ef hún ekki væri endurbyggð. Var hún á aðalvegi. Brúará í Laugardal, Það er bara 0.1 millj., sem varið var 1962, þ.e. að ljúka við hana. Gljúfurá í Borgarfirði og Blanda hjá Blönduósi, ekkert er nú að efast um það, að nauðsyn bar til að endurbyggja þessar brýr. Þá eru það Steinavötn í Suðursveit, sem byrjað er á að brúa, og hafa Skaftfellingar sótt mikið á, að því verði lokið, helzt átti að ljúka því á þessu ári, en verður væntanlega lokið næsta sumar. Brú á Hólmsá hjá Skaftártungu, sem var svo þröng, að stærri bílar komust þar ekki yfir, var endurbyggð á s.1. sumri. Þverá á Suðurlandsvegi, sem var timburbrú frá 1932 og talið var að gæti farið niður undan hinum bungu bílum og að áliti vegamálastjóra var ekki fært að bíða lengur með. Það er rétt að rifja upp í einu lagi, hvaða brýr hafa verið byggðar á þessum árum, siðan fyrirmælin um að byggja brú á Hofsá voru gefin. Það er í fyrsta lagi Hornafjarðarfljót, Ytri-Rangá, Mjósund, Fjallsá á Breiðamerkursandi, Brúará í Laugardal, vegfylling við Ölfusá, Þverá á Suðurlandsvegi, Klifandi á Suðurlandsvegi, Hólmsá í Skaftártungu, Gljúfurá í Borgarfirði, Blanda hjá Blönduósi.

Og þá er rétt að gera sér grein fyrir því, hvaða verkefni bíða úrlausnar á árinu 1964 og næstu árum. Vegamálastjóri hefur rifjað þetta upp og gert sér grein fyrir því, hvað það er, sem kallar mest að. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með bréfi til rn., dags. 26. sept. 1961, var gerð till. um framkvæmdaáætlun fyrir brúasjóð fyrir árin 1962–1964. í áætlun þessari var tilgreindur kostnaður við þær brýr, sem lagt var til að byggðar yrðu 1962 og 1963, miðað við lauslegar kostnaðaráætlanir, sem fyrir hendi voru, en engar slíkar áætlanir voru fyrir hendi um þær brýr, sem lagt var til að byggðar yrðu 1964. Téða framkvæmdaáætlun samþykkti rn. síðan með bréfi, dags. 29. sept. 1961, með þeirri breytingu, að í stað brúar á Hofsá í Vopnafirði, sem var lagt til að byggð yr$i 1962, skyldi byggð brú á Gljúfurá í Borgarfirði.“

M.ö.o.: í staðinn fyrir brúna á Hofsá í Vopnafirði var lagt til, að byggð yrði brú á Gljúfurá í Borgarfirði, sem áætlað var að byggja 1963, en í stað Gljúfurárbrúar skyldi 1963 byggð brú á Tungufljót í Biskupstungum.

Það má e.t.v. segja, að það hafi verið matsatriði, hvort skyldi frekar byggja brú á Hofsá eða endurbyggja Gljúfurárbrúna. En síðan ég fór að fara um Norðurlandsveginn, hefur alltaf verið talað um, að gamla brúin á Gljúfurá væri mjög hættuleg á þessum fjölfarna vegi, og margir höfðu undrazt, hversu lengi það hafði dregizt að endurbyggja þá brú.

Framangreindri áætlun hefur síðan verið fylgt með téðri breytingu rn. Þau verkefni, sem bíða úrlausnar í brúamálum á vegum brúasjóðs á árinu 1964 og síðar miðað við téða framkvæmdaáætlun frá 1961, eru þessi: Miðfjarðará á Norðurlandsvegi, brú á Steinavötn í Suðursveit, brú á Tungufljót og Brúará á Biskupstungnabraut, brú á Hofsá í Vopnafirði, brú á Fnjóská á Norðurlandsvegi, brú á Skjálfandafljót á Norðurlandsvegi, brú á Laxá hjá Búðardal á Vesturlandsvegi, brú á Norðurá hjá Haugum í Borgarfirði.

Þetta eru 8 brýr, sem þarf að byggja á næsta ári og 1965, en þessar 8 brýr munu kosta sennilega nær 30 millj. heldur en 20, og þarf því ekki að reikna með, að því verði öllu lokið á næsta ári, jafnvel þótt við fáum ný vegalög og aukið fjármagn. Það hefur ekki verið ákveðið enn, í hvaða röð þessar brýr verða teknar, en fullyrða má þó, að brýrnar á Fnjóská og Miðfjarðará mega ekki bíða lengur og brú á Steinavötn, Það má segja, að það liggi fyrir loforð um að gera þá brú á næsta ári. En örugglega verður nú gert eitthvað meira en þetta á næsta ári, og ég get upplýst hv. fyrirspyrjanda um það, að ég tel brúna á Hofsá vel koma til greina á næsta ári, þótt ekki verði unnt að ljúka öllu þessu, sem hér er talið, og ég tel, að sú brú kalli meira eftir nú en áður, vegna þess að mjólkurstöðin er komin, og það er rétt, sem hv. þm. sagði, á meðan ekki er brú upp frá hjá Hofi, verður að nota tvo bíla til flutninganna í staðinn fyrir einn, ef brúin væri komin. Þetta finnst mér vega allþungt, þegar um það er að ræða, í hvaða röð Hofsárbrúin eigi að koma. Þegar þessar 8 brýr eru taldar, er talað um þær brýr, sem voru með í framkvæmdaáætluninni frá 1961, og þess má geta, að það eru margar fleiri brýr, sem eru mjög aðkallandi. Það er Hverfisfljót í Fljótshverfi, Eldvatn hjá Stórahvammi á Suðurlandsvegi Eystri-Rangá á Suðurlandsvegi, Hvítá í Borgarfirði, Langá á Stykkishólmsvegi, Haffjarðará á Stykkishólmsvegi, Hvítá á Norðurlandsvegi, Djúpadalsá í Skagafirði, Jökulsá á Breiðamerkursandi. Margar fleiri brýr mætti nefna, en þessi upptalning ætti að nægja til þess að sýna, hversu verkefnin eru mörg, sem fram undan eru, og þörfin á auknu fjármagni til þessara framkvæmda er mikil.

Sem svar við spurningu hv. fyrirspyrjanda vil ég segja það, að brúin á Hofsá er á framkvæmdaáætlun, sem gerð var 1961, brúin er aðkallandi að mínu áliti og miklu frekar nú, eftir að mjólkurstöðin er komin, en það hefur ekki enn verið tekin endanleg ákvörðun um það, hvaða brýr verði teknar á næsta ári af þessum 8, sem ég nefndi, og ekki enn vitað, hversu margar af þessum 8 er unnt að taka. En Hofsárbrúin kallar að að mínu áliti, sérstaklega vegna mjólkurbúsins.