07.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í D-deild Alþingistíðinda. (3293)

85. mál, Hofsárbrú í Vopnafirði

Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir, að hann svaraði. Það er fyrsta svarið, sem Vopnfirðingar hafa fengið um þetta mál, og það ber að þakka. En ég er leiður yfir því, að ég get ekki alls kostar þakkað hans undirtektir, þó að þær væru út af fyrir sig á marga lund

brúarbyggingunni í vil. En þessi yfirlýsing hans og svar ber vott um, að hæstv. ráðh. hefur ekki haft enn þá tíma eða tækifæri til að ákveða það, hvenær Hofsárbrú skyldi vera byggð. Ég tel það í raun og veru utan við þetta málefni að fara að telja upp allar þær þýðingarmiklu brýr, sem bæði hafa verið byggðar og þurfa að byggjast. Hér er í raun og veru ekki fyrst og fremst um að ræða mat á milli brúa, heldur að hæstv. ráðh. virði þá skuldbindingu, sem hann tekur við; Þegar hann sezt í ráðherrastólinn. Það er fyrst og fremst þess vegna, sem mig undrar, að það skuli ekki enn þá fást alveg jákvætt svar frá hæstv. ráðh. í þessu efni. Það er staðreynd, að þær brýr, sem áttu að ganga á undan brúarbyggingunni á Hofsá, eru byggðar, lokið við að byggja þær á árunum 1960—1961. Það er líka staðreynd, að 1959 var byrjað að undirbúa þessa brúarbyggingu í krafti þeirrar skuldbindingar, sem ríkið var í sínum tíma búið að binda sig í um byggingu þessarar brúar, og efnið, sem komið var á staðinn, var meira að segja flutt burt, og svo sýna verkin merkin, að það hefur ekkert verið gert enn þá.

Ég ætla ekki að þreyta neinar orðræður við hæstv. ráðh. í þessu efni. Ég vil bara undirstrika það, að þetta svar hans er ekki fullnægjandi, og ég vænti þess, að fljótlega taki hann þá ákvörðun, að nú loksins verði staðið við skuldbindinguna frá 1958 og brúin byggð á næsta sumri. Og það má geta þess, eins og ég gat um og hæstv. ráðh. minntist á, að það er þó nokkur fjárfúlga til frá fjárveitingum 1957 og 1958 til brúarbyggingar, þótt þær hrökkvi nú minna en mundi hafa hrokkið, ef brúin hefði verið byggð á þeim tíma, sem ástæða var til að ætla, en þá var brúin áætluð 1.8 millj. Nú er hún áætluð 3.2. Þetta er þróunin í sambandi við kostnað við brúarbyggingar yfirleitt. Ég efa það ekki, að ráðh., m.a. vegna þess, hversu margar brýr kalla á byggingu, sem eðlilegt er, að brúasjóður standi straum af, hann hraði því að koma þessari brú a.m.k. frá, áður en verðbólgan vex enn meir.