26.01.1964
Neðri deild: 47. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það mun að sjálfsögðu ekki breyta miklu um meðferð og afgreiðslu þessa máls, þó að umr. um það verði lengdar hér í hv. d. Það er auðséð, að hæstv. ríkisstj. er búin að ákveða það, sem hún ætlar að gera, og hún ætlar ekki neinum ráðum að taka, heldur fara svo fram eins og stefnt er að í þessu frv. Mér finnst þó rétt að láta þetta mál ekki svo fara í gegn við 3. umr., að ekki sé nokkuð á það minnzt.

Ég held, að ég rifji það þá fyrst upp, sem mér kom einna fyrst í hug, þegar ég sá þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það rifjar upp fyrir mér atburð úr einni af Íslendingasögunum, sem mér finnst að hafi komið býsna oft fyrir hjá hæstv. ríkisstj. og mér finnst að lýsi hugarfari, sem illa fari hér á Alþingi, og erfitt muni verða að leysa mál farsællega, meðan það hugarfar er ríkjandi hjá æðstu stjórn landsins. Ég býst við og veit það, að allir hv. þm. kannast við þennan atburð, og þarf þess vegna ekki að rekja hann í löngu máli, en ég á við það, að þegar það gerðist samkv. sögu Gunnlaugs ormstungu, að þeir hinir gömlu félagar, Gunnlaugur og Hrafn, háðu einvígi og því hafði raunverulega lokið með ósigri Hrafns, þá bað hann Gunnlaug um að gefa sér svaladrykk, sem Gunnlaugur fúslega gerði, en hinn notaði svo tækifærið til þess að koma á hann höggi, sem særði hann til ólífis. Mér virðist, að framkoma hæstv. ríkisstj. í þessu máli minni nokkuð á framkomu Hrafns og hafi gert það allt of oft.

Það urðu hér á s.l. hausti átök á milli vinnustéttanna og hæstv. ríkisstj. Ég þarf ekki að rekja þessi átök, vegna þess að þau eru öllum þm. í fersku minni. Þessu einvígi vinnustéttanna og ríkisstj. lauk með því, að ríkisstj, tapaði fullkomlega leiknum. Hins vegar verður ekki annað sagt en vinnustéttirnar hafi haldið með fullkomnum drengskap á þessu máli, vegna þess að þær sömdu, a.m.k. láglaunastéttirnar, um miklu minni kjarabætur en sannanlegt er að þær hafa þörf fyrir, eins og hér hefur verið rakið, en tóku á þann hátt tillit til þeirra aðstæðna, sem eru í þjóðfélaginu. Slíkri framkomu vinnustéttanna hefði átt að svara með drengskap, slíkri framkomu vinnustéttanna hefði átt að svara með góðvild, eins og hæstv. forsrh. lætur sér svo tíðrætt um að vekja máls á hér í þingsölunum. Ríkisstj. átti að bregðast hér við, þegar þannig var á málum haldið af hálfu vinnustéttanna, á þann hátt að koma til móts við þær af drengskap og góðvild. En því miður hefur ríkisstj. ekki farið þannig að. Ríkisstj. hefur farið að eins og Hrafn. í stað þess að svara með drengskap og góðvild svarar hún með því frv., sem hér liggur fyrir, frv., sem felur í sér að taka raunverulega aftur það að mjög verulegu leyti, sem vinnustéttirnar áunnu sér með þeim tiltölulega hóflegu kjarabótum, sem þær fengu á s.l. hausti. Hér er lagt til hvorki meira né minna að algerlega þarflausu, eins og hefur verið rakið í hv. deild, og ég þarf ekki að endurtaka það, — hér er lagt til hvorki meira né minna en að hækka álögur á almenningi um 300 millj, kr. á ári, eða um 160 kr. á hvert mannsbarn í landinu, eða um 6400 kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu, því þó að það sé tölulega hægt að halda því fram, að í fyrstu hafi þessi hækkun söluskattsins kannske ekki öllu meiri áhrif á framfærsluvísitöluna en 2 stiga hækkun, þá vita allir, að það er ekki nema það, sem kemur allra fyrst inn í hana. Þessar hækkanir á söluskattinum og vísitölunni koma svo til með að hafa í för með sér alls konar víxlhækkanir, og þannig gengur þetta koll af kolli, svo að innan tíðar hafa þessar álögur, þessar 300 millj., dreifzt á allan almenning. Þá eru þetta orðnar álögur, sem nema hvorki meira né minna en 6400 kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Það er með þessum hætti, sem hæstv. ríkisstj. svarar hinum hóflegu kaupsamningum, er verkalýðsfélögin fengu fram í s.l. mánuði, að leggja að algerlega óþörfu 6400 kr., skatt á hverja 4 manna fjölskyldu í landinu.

Við Íslendingar höfum haft við mikinn vanda að stríða í efnahagsmálum okkar á undanförnum árum. En það er alveg víst, að sá vandi verður ekki leystur fyrr en þeir, sem með völdin fara, reyna að taka á málunum með góðvild og skilningi og sætta sig við það, þótt þeir í einhverjum einstökum málum kunni að hafa beðið ósigur, þegar þeir hafa haft rangt fyrir sér, en svara því ekki með ofstopa og offorsi. Sá leikur, sem hér var leikinn sumarið 1961, þegar vinnustéttirnar höfðu knúið fram mjög hóflega kauphækkun, sýnir okkur kannske gleggst, hvernig ekki á að halda á málum. Ríkisstj. hafði beðið ósigur þá í því einvígi, alveg eins og Hrafn hafði tapað fyrir Gunnlaugi í því einvígi, sem ég minntist á áðan. Vinnustéttirnar höfðu þá knúið fram svo hóflegar kauphækkanir, að það var engin þörf á því fyrir stjórnarvöldin að gera neinar sér, stakar gagnráðstafanir, og það, sem stjórnarvöldin áttu þá að gera, var að taka á þessum málum með skilningi og góðvild. En í staðinn fyrir það var steypt yfir hinni gersamlega óþörfu gengislækkun sumarið 1961, með þeim óhugnanlegu afleiðingum fyrir atvinnuvegi og fjármál landsins, sem öllum þm. er kunnugt um og ekki þarf að rekja hér. Þetta sýnir bezt, hvernig fer, þegar valdhafar landsins láta stjórnast af hefndarhug og ofbeldishug í staðinn fyrir að reyna að taka á málum með skilningi og góðvild.

Það mun hafa verið rifjað hér upp af hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins, hvernig danska stjórnin hélt á þessum málum á s.l. vetri, þegar sérstakar efnahagsráðstafanir voru gerðar þar í landi. Það, sem danska stjórnin gerði til þess að reyna að leysa efnahagsmálin í Danmörku á s.l. vetri, var ekki að fara að vinnustéttunum með offorsi. Það var ekki að fara að þessum málum þannig eins og hún hefði öll völd og alla möguleika í sínum höndum og þyrfti ekki við neina að ræða. Það, sem danska stjórnin gerði, þegar hún vann að lausn efnahagsmálanna þar í landi á s.l. ári, var í fyrsta lagi að snúa sér til vinnustéttanna, alþýðusamtakanna, og ná samkomulagi við þau um það, sem gera ætti, og það var í öðru lagi að snúa sér til stjórnarandstöðuflokkanna á þinginu og reyna að leysa þau mál í samkomulagi við þá. Sem sagt, það fyrsta, sem danska stjórnin gerði til lausnar þessum málum, var að reyna að skapa sem víðtækast samkomulag um lausnina, með því í fyrsta lagi að ræða við fulltrúa vinnustéttanna, verkalýðssamtökin, og í öðru lagi með því að ræða við stjórnarandstöðuna á þingi um það, sem gera þyrfti, og sjá, hvort ekki næðist samkomulag um allsherjarlausn milli allra flokka þingsins um það, sem gera þyrfti.

Hefur hæstv. ríkisstj. haft þau vinnubrögð í sambandi við þetta mál? Hefur hún rætt um það við vinnustéttirnar, hvort það væri þörf á að gera þessar ráðstafanir eða hvernig þær skyldu gerðar? Nei, hún hefur vissulega ekki talað við fulltrúa vinnustéttanna, alþýðusamtökin, um þessi mál. Og hefur kannske hæstv. ríkisstj. haft þann hátt á, eins og danska stjórnin, að ræða um það við stjórnarandstöðuna á Alþingi, hvort hægt væri að ná einhverju samkomulagi um þessi mál? Nei, hæstv. ríkisstjórn hefur ekki haft þann hátt á. Hún hefur bæði vanrækt að ræða við fulltrúa vinnustéttanna, verkalýðssamtökin, og hún hefur ekki minnzt neitt á samkomulag um þessi mál við stjórnarandstöðuna á Alþ. Hún hefur farið gersamlega öfugt að við það, sem danska stjórnin gerði á s.l. ári og hæstv. fjmrh. var að vitna til. Og hæstv. ríkisstj. gerir meira. Við framsóknarmenn höfum bent á það í sambandi við meðferð þessa máls hér á þinginu, að þessi mál væru komin í svo algert strand, að það væri eðlilegt, að þingflokkarnir allir reyndu að koma sér saman um lausn þeirra án tillits til þess, hverjir sætu í stjórn eða stjórn ekki, og með þeirri till., sem fulltrúar Framsfl. í fjhn. hafa flutt hér á þinginu í dag, var boðin framrétt hönd stjórnarandstöðunnar til þess að athuga, hvort það væri ekki möguleiki á að stjórn og stjórnarandstaða gætu staðið að lausn þessara mála, eins og átti sér stað í Danmörku á s.l. ári.

Hvernig hefur hæstv. ríkisstj. svarað þessu tilboði? Hún hefur svarað því með því að hafna því algerlega og fella það hér í hv. d. fyrir nokkrum klukkustundum. Það er á þennan hátt, sem hæstv. ríkisstj. vinnur, að forðast eins og hún framast getur að leita nokkurs samkomulags um það, sem gert er, heldur fara sínu einu fram og reyna að hefna fyrir það, ef hún bíður ósigur við vinnustéttirnar og þeim tekst að knýja fram mjög hóflegar kauphækkanir, eins og átti sér stað sumarið 1961 og nú aftur á s.l. hausti. Ríkisstj. er jafnan haldin sama hugarfarinu og Hrafn að reyna að hefna fyrir sig, þegar hún telur sig hafa orðið fyrir miklum ósigri, sem oft og tíðum er kannske ekki ósigur fyrir ríkisstj., heldur má hún þakka eða fagna þeim úrslitum, sem orðið hafa, þó að henni hafi ekki tekizt að koma sínum málum fram. En þrátt fyrir það er það ekki þannig, sem hún lítur á málin. Það er alltaf hefndarhugurinn, sem stjórnar gerðum hennar fyrst og fremst. Og það á vissulega mikinn þátt í því óefni, sem íslenzk efnahagsmál eru komin í nú í dag.

Það, sem mér finnst þess vegna sérstök ástæða til þess að árétta við meðferð þessa máls, áður en það verður endanlega afgreitt frá Alþ., er, að hæstv. ríkisstj. á ekki að láta ofbeldishuginn, á ekki að láta hefndarhuginn stjórna sínum gerðum í þessum málum. Hæstv. ríkisstj. á miklu frekar að hugsa um að reyna að ná samkomulagi um þessi mál á breiðum grundvelli við vinnustéttirnar og við fulltrúa stjórnarandstöðunnar hér á Alþ., til þess að reyna að vinna að sem farsælastri lausn þessara mála. Ríkisstj. á að halda á þessum málum með svipuðum hætti og danska ríkisstj. gerði, en ekki taka Hrafn sér til fyrirmyndar.

Mér finnst rétt, áður en þetta mál verður afgreitt hér frá hv. d., að rifja það upp í stuttu máli, hverju var lofað hér í þessari sömu hv. d., þegar viðreisnin var boðuð og tilkynnt af þáv. forsrh. fyrir 4 árum, og að hverju átti þá að stefna og hvernig hefur tekizt að koma því fram. Hæstv. þáv. forsrh. í þeirri framsöguræðu, sem hann flutti, þegar hann lagði viðreisnarfrv. fyrir Alþ., sagði, að það væri sérstaklega stefnt að sex meginatriðum með þeirri stefnu, sem nú ætti að taka upp og bjarga ætti efnahagsmálum landsins og tryggja fatsæla framtíð um komandi ár. Og skal ég nú rifja þessi sex atriði upp og minnast síðan á það í stuttu máli, hvernig hefur tekizt að koma þeim fram.

Fyrsti megintilgangurinn, sagði þáv. hæstv. forsrh., væri að leiðrétta gengisskráninguna og afnema uppbótakerfið á þann hátt. Blasir það nú við í dag, að uppbótakerfið hafi verið afnumið? Er ekki enn þá á hinum ólíklegustu sviðum alls konar uppbótum haldið uppi? Og er ekki einmitt hér í dag fyrir forustu ríkisstj. verið að samþykkja eitthvert það mesta uppbótafrv., sem nokkru sinni hefur verið samþ. hér á Alþ.? Það er ekki aðeins, að það sé verið að samþykkja uppbætur til frystihúsanna, uppbætur til togaranna, heldur er nú verið að samþykkja uppbætur á allt fiskverð, svo að uppbótakerfið er orðið eins víðtækt núna og það var, þegar viðreisnin var tekin upp á sínum tíma. Og það er jafnvel gengið miklu lengra í þessa átt en nokkru sinni hefur áður verið gert, því að ég minnist þess ekki, að áður fyrr hafi útgerðarmenn fengið uppbætur fyrir það að gera skipin ekki út. En nú sýnist mér, að þeir togaraeigendur, sem ekki hafa gert út á síðasta ári, eigi að fá uppbætur fyrir það ár, ef þeir aðeins láta skipin fara eitthvað af stað á þessu ári. Ég held, að það sé ekki fordæmi fyrir því, að slíkar uppbætur hafi átt sér stað áður.

Annað atriðið, sem hæstv. forsrh. þáv. sagði að stefnt væri að með viðreisninni, var að hindra kjaraskerðingu af völdum dýrtíðar. Það átti að vera annað meginatriðið að hindra kjaraskerðingu af völdum dýrtíðar. Hefur það átt sér stað? Finnst mönnum, að sú stjórnarstefna, sem hefur ríkt í landinu á undanförnum 4 árum, hafi falið það í sér að hindra kjaraskerðingu af völdum dýrtíðar? Ég held, að á engum tíma áður hafi átt sér stað meiri kjaraskerðing af völdum dýrtíðar en einmitt á þessum 4 árum. Það hefur verið rakið hér við þessar umr. t.d., hvað kaupmáttur tímakaups verkamanna hefur versnað stórkostlega á þessu tímabili, þannig að kaupmáttur tímakaups verkamanna er nú mun minni en hann var árin 1953 og 1959, áður en viðreisnin kom til sögunnar. Og það hefur verið reiknað út af einum þeim forustumanni bændastéttarinnar, sem bezt hefur kynnt sér þessi mál, Hermóði Guðmundssyni í Árnesi, að bændur þyrftu nú að hafa um 20% hærra verð fyrir afurðir sínar, ef þeir ættu að búa við sömu afkomu og þeir höfðu 1958. Það er á þennan hátt, sem viðreisnarstefnan hefur haft áhrif til að hindra kjaraskerðingu af völdum dýrtíðar, eins og lofað var, þegar hún var sett á sínum tíma.

Þriðja atriðið, sem átti að stefna að með viðreisninni, var að afstýra kapphlaupi milli kaupgjalds og verðlags. Minnast menn þess, að kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags hafi nokkru sinni verið meira en einmitt á þessum árum? Ég held, að það sé ekki hægt í okkar sögu að nefna nokkur 4 ár, þegar kapphlaupið milli verðlags og kaupgjalds hefur verið meira en einmitt á þessum 4 árum, síðan viðreisnin kom til sögunnar, svo að gersamlega hefur hún misheppnazt hvað þetta snertir, enda var það vitanlegt og t.d. bent á af mér og fleirum, þegar viðreisnarlögin voru til meðferðar hér á Alþ. fyrir 4 árum, að afnám vísitöluuppbótanna, sem þá átti sér stað, mundi ekki verða til þess að draga úr þessu kapphlaupi, heldur mundi verða til þess að auka það, því að nær hvarvetna í öðrum löndum, þar sem kaupsamningar hafa verið gerðir til langs tíma, hefur það verið eitt grundvallaratriði, að annaðhvort væri samið um dýrtíðaruppbætur, sem yrðu á þessu tímabili, ellegar kaupið yrði laust og samningarnir féllu úr gildi, ef dýrtíðin færi yfir visst stig. Og þetta er alveg nauðsynlegt öryggi fyrir vinnustéttirnar, ef þær eiga að semja til langs tíma, annaðhvort að fá dýrtíðaruppbætur eða þá að samningarnir verði lausir, ef dýrtíðin fer yfir visst stig. Það var eitt af úrræðum viðreisnarinnar að fella dýrtíðaruppbæturnar úr gildi, og þannig þóttist ríkisstj. ætla að koma í veg fyrir kapphlaupið á milli verðlags og kaupgjalds. En reynslan var að sjálfsögðu sú, að þegar búið var að fella niður þessa tryggingu, sem launastéttirnar höfðu, voru þær ófúsari til þess að semja til eins langs tíma og áður, og þá fóru þær bara aðra leið til þess að fá kjarabætur fram. Þá urðu þær að fara að fjölga kaupdeilum og verkföllum til að tryggja sinn hag, og það varð til að auka þetta kapphlaup, en ekki til að draga úr því. Og það er ein meginorsökin til þess ásamt dýrtíðarstefnu ríkisstj., að kapphlaupið milli verðlags og kaupgjalds hefur aldrei verið meira en einmitt á þessum í fjórum árum og aldrei meira þó en á þessu seinasta stjórnarári viðreisnarinnar.

Þá kem ég að fjórða atriðinu, sem sagt var að stefnt væri að með viðreisninni. Þetta atriði var að gera róttækar ráðstafanir gegn verðþenslu. Hvernig hafa nú þessar róttæku ráðstafanir gegn verðþenslu verkað, sem gerðar voru? Hefur verðþenslan kannske ekki verið miklu minni í landinu á undanförnum árum en áður var? Hefur þá ekki viðreisnin alltaf borið árangur að þessu leyti? Jú, hún hefur borið þann árangur að þessu leyti, að verðþensla í landinu hefur aldrei verið meiri og geigvænlegri en einmitt á þessum tíma og aldrei meiri þó en á seinasta ári eða jafnvel eins og hún er nú í dag. Þannig hafa efndirnar orðið hvað þetta snertir á því loforði eða því stefnumarki að draga úr verðþenslunni í landinu. Enda var vitanlegt, að það er ekki til nein stefna, sem ýtir meira undir verðþenslu heldur en sú stefna hæstv. ríkisstj, að vera ýmist að fella gengið eða hækka söluskattana. Þetta þýðir það, að framkvæmdir verða alltaf dýrari og dýrari, og þegar menn búast við því á hverju ári, að annaðhvort lækki hæstv. ríkisstj. gengið ellegar hækki söluskattinn, þá reyna menn að sjálfsögðu að ljúka sínum framkvæmdum sem allra fyrst, áður en ný gengisfelling eða ný hækkun söluskattsins skellur yfir. Það keppast allir við að koma sínum framkvæmdum áfram, áður en einhver ný hækkun kemur, sem er það lögmál, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt, annaðhvort að lækka gengið árlega ellegar þá að hækka söluskattana og tollana. Það er þessi ótti, annaðhvort við nýtt gengisfall eða nýja söluskattshækkun, sem veldur því, að allir vilja ljúka sér af sem allra fyrst, komast hjá þeim hækkunum, sem fram undan eru, meðan þessari stjórnarstefnu er fylgt, sem veldur því, að verðþensla hefur orðið meiri í landinu eða verðbólga á undanförnum árum og mun verða óviðráðanleg, á meðan þessari stefnu hæstv. ríkisstj. er fylgt.

Þá kem ég að fimmta atriðinu, sem átti að stefna að með viðreisninni fyrir fjórum árum. Þetta atriði hljóðaði um það að afnema haftakerfið. Það átti að afnema öll höft í landinu eða a.m.k. gera eins mikið að því og mögulegt var. Ég held, að þeir, sem fást við atvinnurekstur og verzlun í dag, hafi raunverulega ekki kynnzt verri og meiri höftum en lánsfjárhöftum hæstv. ríkisstj. Ég held, að það sé varla til sá atvinnurekandi í landinu eða sú verzlun í landinu, sem kvartar ekki undan þessum höftum. Ég held, að það verði að fara til þeirra tíma, þegar íslendingar voru ekki sjálfráðir í landinu, til þess að finna hliðstæð lánsfjárhöft og þau, sem eru í landinu í dag. Og ég held líka, að það verði að fara nokkuð langt, ef við förum til annarra landa, til þess að finna eins víðtæk verðlagshöft og þau, sem nú gilda í landinu. Og þó að því sé haldið fram, að þessi verðlagshöft eigi að vera til þess að vernda neytendur og tryggja lágt vöruverð í landinu, dreg ég mjög í efa, hvort svo sé og verðlagshöftin nái tilgangi sínum á þann hátt. Ég hef þá trú, að það mundi vera neytendum miklu hagstæðara, ef tekið væri upp svipað fyrirkomulag og hjá jafnaðarmönnum á Norðurlöndum, að verzlunin væri látin frjálsari í þessum efnum, en hins vegar yrði að sjálfsögðu að tryggja það, eins og þar er gert, að verzlun hefði þá nægilegt veltufé eða lánsfé til að geta haldið uppi nægjanlegri samkeppni. Það er að vísu eitt frumskilyrði þess, að hægt sé að gera verzlunina frjálsari en nú er. En það er mín trú, að ef leyfð væri samkeppni milli kaupmanna og kaupfélaga á þeim grundvelli, mundu neytendur búa á mörgum sviðum við hagstæðara verðlag en þeir búa við í dag. Og að minnsta kosti er það svo, að þar sem frelsið fær að ríkja í þessum efnum, eins og annars staðar á Norðurlöndum, búa launastéttirnar við hagstæðari afkomu en þær búa við hér í dag á Íslandi og það mörgum sinnum hagstæðari. Ég skal viðurkenna það, að það geti verið undir vissum kringumstæðum, t.d. þegar vöruskortur er, og jafnvel fleirum, þörf á mjög víðtækum verðlagshöftum, en ég óttast það, að þegar þessi höft haldast til lengdar, verði þau verzluninni á margan hátt alls konar fjötur um fót, valdi óheilbrigði, valdi samkeppnisskorti og þess vegna nái þau ekki þeim tilgangi oft og tíðum, sem þeim er ætlað að hafa, þ.e. að tryggja neytendum hagstæðara verð á vörunum.

Þá kem ég að sjötta og seinasta atriðinu, sem átti að stefna að með viðreisninni fyrir 4 árum, og það var að taka upp víðtæka endurskoðun á fjármálum ríkisins og koma þeim í heilbrigðara horf. Hvernig hefur það nú gengið? Jú, það hefur m.a. gengið þannig, að hvers konar neyzluskattar, sem eru þungbærastir fyrir þá efnaminni og alveg sérstaklega þungbærir fyrir stóra fjölskyldu, hafa verið auknir, — hvers konar slíkir skattar hafa verið auknir alveg stórkostlega og það svo mjög, að í dag nema álögurnar, sem lagðar eru á landsmenn af ríkinu, þrisvar sinnum hærri upphæð en fyrir 5 árum. Ríkisálögurnar hafa hvorki meira né minna en þrefaldazt á þessum tíma. Það er árangurinn af endurskoðun á fjármálum ríkisins hvað tekjuhliðina snertir.

Hefur þá ekki orðið einhver árangur af þessari endurskoðun hvað útgjaldahliðina snertir? Hefur ekki átt sér stað einhver sparnaður í ríkisrekstrinum og aukin vinnuhagræðing og annað þess háttar, eins og stundum hefur verið talað hér um, afnumin alls konar óþarfa embætti, sem sagt var að hefðu verið stofnuð í tíð vinstri stjórnarinnar, og dregið úr alls konar óhófsútgjöldum sem sagt var að þá hefðu átt sér stað? Ég held, að þó að væri gerð út sérstök nefnd til að leita að þeim sparnaði, sem hefur átt sér stað í ríkisrekstrinum á undanförnum árum, sé harla erfitt að finna hann. En hitt yrði mjög auðvelt, að finna dæmi um alls konar hækkanir, sem hafa átt sér stað á þessu tímabili, eins og sést líka bezt á því, að það hefur þurft hvorki meira né minna en þrefalda þær álögur, sem ríkið leggur á almenning, á þessum tíma.

Ég hef þá rakið í stuttu máli þau meginatriði, sem sagt var á sínum tíma að stefnt væri að með viðreisninni, — og hvernig hefur heppnazt að koma þeim fram? Ég held, að ég þurfi ekki að rekja þetta lengra til að sýna það, að hvert einasta atriði af þessum öllum hefur fullkornlega misheppnazt og það, sem blasir við í þessum efnum í dag, er allt annað en það, sem lofað var. Og ég er viss um það, að ef slíkt hefði átt sér stað í öðrum löndum, þar sem lýðræðisstjórn og þingræðisstjórn eru enn í heiðri hafðar, mundu þeir valdhafar, sem svo gersamlega hafa vanefnt allt, sem þeir lofuðu og ætluðu að koma í framkvæmd, mundu þeir valdhafar sjá sóma sinn í því að leggja niður völdin og láta þjóðina fá tækifæri til að dæma um þeirra aðgerðir á ný. Og ég held, að úr því sem komið er, sé það hið eina heiðarlega, sem hæstv. ríkisstj. getur gert eftir þá algeru misheppnun, sem hefur orðið á öllum þeim loforðum, sem hún gaf Alþingi og hún gaf þjóðinni á þeim tíma, þegar hún hóf hina svokölluðu viðreisnarstefnu.