04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í D-deild Alþingistíðinda. (3303)

803. mál, flóabátaferðir og endurskoðun á rekstri Skipaútgerðar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Fsp. sú, sem ég hef leyft mér að bera hér fram til samgmrh., er á þskj. 94, og hún er á þessa leið:

„Hvað líður athugunum þeim á flóabátaferðum og endurskoðun á rekstri Skipaútgerðar ríkisins, er ráðh. boðaði í umr. í Sþ. 19. apríl s.l. um till. til þál. um samgöngur á sjó við Vestfirði.“

Ég vil leyfa mér að rifja aðeins upp í stuttu máli aðdraganda þessa máls og tilefni þessarar fsp., en á síðasta Alþingi lágu fyrir nokkrar þáltill. um sjósamgöngur við Vestfirði og sérstakt skip fyrir Austurland, auk þess sem einnig komu fram frv., sem hnigu í sömu eða svipaða átt. En það var nokkuð liðið á þing, þegar þessi mál voru tekin þar fyrir. Þáltill. tvær, sem ég gat hér um, voru teknar fyrir í hv. allshn. Sú nefnd varð ekki einhuga um afgreiðslu þeirra, og í þinglok komu fram álit frá meiri og minni hl. n., og við umr. Í þinglokin lýsti Gísli Jónsson, hv. 1. Þm. Vestf., skoðun meiri hl., en hann hafði framsögu af hálfu meiri hl. n. og komst þá þannig að orði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vildi því vænta þess, að ef of miklar umr. yrðu hér um þetta mál.“ — og átti hann þá við, að þá var alveg liðið að þinglokum og þess vegna ekki hægt að verja miklum tíma í umr., —„að hæstv. ráðh, vildi, ef hann treysti sér til þess, lýsa því yfir, að hann léti skipa nefnd til þess að athuga þessi mál á þann hátt, sem meiri hl. leggur til, ef málið fær ekki þinglega afgreiðslu.“

till., sem meiri hl. n. flutti, en það var brtt. við þær tvær till., sem fyrir n. lágu, var þannig, með leyfi hæstv, forseta:

Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til þess að athuga allan rekstur Skipaútgerðar ríkisins. Að lokinni Þeirri rannsókn skal n. gera till. um fyrirkomulag á rekstri strandferða, sem miði að betur skipulagðri og hagnýtari strandferðaþjónustu fyrir landsmenn alla. Skal n. hafa aðgang að öllum gögnum, sem að rekstri þessum lúta, svo og till., sem fyrir kunna að liggja frá öðrum aðilum. Skal verki þessu lokið svo fljótt sem verða má og niðurstöður allar og till. Þá kunngjörðar Alþingi.

Fyrirsögn orðist svo:

Till. til þál. um skipun nefndar til að rannsaka og gera till. um rekstur strandferða.“ Eins og ég hef áður rakið, óskaði frsm. eftir yfirlýsingu hæstv. samgmrh., ef ekki ynnist tími til að afgreiða þessa till. Og ég vil þá enn fremur leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að vitna hér í þau ummæli ráðh., sem þessi fsp. er byggð á, en þau voru á þessa leið:

Hv. 1. Þm. Vestf. beindi þeim tilmælum til mín, að ég gæfi þá yfirlýsingu hér, að þessi mál skyldu verða tekin til athugunar, hvað sem þinglegri afgreiðslu þeirra liði. Og ég get með ánægju gert það.“

Enn fremur sagði hæstv. ráðh.:

„Það eru líka till. um athugun á flóabátaferðum, og ekki sízt eru þær nauðsynlegar.“ Og að lokum: „Sem sagt, ég vil svara hv. 1. þm. Vestf. því, að athugunum verði haldið áfram, hvað sem afgreiðslu þessa máls líður hér.“

Flóabátarnir hafa fléttazt þarna inn í, án þess að þær þáltill., sem ég hef verið hér að vitna í, hnigu beinlínis að því, að ferðir þeirra væru teknar sérstaklega til athugunar. En í samvinnunefnd samgöngumála hafði líka á s.1. vetri verið rætt allmikið um þessar flóabátaferðir og nauðsynina á því að taka þær einnig til endurskoðunar og einmitt sérstaklega í sambandi við mál Skipaútgerðarinnar. En í nál. samvn. samgm. frá 15. des. 1962 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi n. 15. þ.m.,“ þ.e. 15. desember, „var enn rætt um nauðsyn þess að leggja fram till. til þál. um skipun nefndar til að endurskoða og gera till. um framtíðarskipun þessara samgöngumála, þannig að fjármagn það, sem ríkissjóður leggur fram árlega til þessarar þjónustu, megi koma þeim mörgu aðilum, sem þjónustunnar njóta, að sem beztum notum. Það er sameiginlegt álit n. að vinna að því, er Alþingi kemur saman eftir áramótin, að till. til þál. varðandi þessi samgöngumál verði lögð fram af n. í sameinuðu þingi:

Af þessu varð þó ekki á síðasta Alþingi, en ég hef leyft mér að rekja þessi atriði hér til þess að sýna, hversu mikil ítök þessi mál hafa átt á Alþingi, og þá um leið, hversu mikið nauðsynjamál hér er um að ræða. Og enn hafa á þessu þingi komið fram bæði þáltill. og frv. um þessi strandferðamál. Austurland á þarna hvað mestra hagsmuna að gæta, ef svo mætti segja, eða það er, eins og fram kom í þáltill. s.l. ár, hvað mest þörfin í þessum tveimur landshlutum, Austfjörðum og Vestfjörðum. En fyrir mér lítur málið þannig út, að það er nauðsynlegt að reyna að taka það í heild til úrlausnar, og vegna þess að hæstv. samgmrh. tók svo vel í við lokaumr. hér á síðasta þingi að halda áfram þeirri ranasókn, sem staðið hefur yfir, þá vildi ég, áður en maður gerir sér grein fyrir framhaldi málsins, óska eftir þeim upplýsingum, sem fram á er farið í þessari fsp. um það, á hvaða stigi málið stendur nú og hversu langt er komið athugunum á rekstri Skipaútgerðarinnar og strandferðaþjónustunnar í heild ásamt með þeirri þjónustu, sem flóabátarnir halda uppi.