04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í D-deild Alþingistíðinda. (3307)

803. mál, flóabátaferðir og endurskoðun á rekstri Skipaútgerðar ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hygg, að tilvitnun sú, sem hér hefur verið rakin í ræðu hæstv. samgmrh. á síðasta þingi, eða það, sem hæstv. ráðh. sagði, eins og þessi tilvitnun ber með sér, hafi verið sagt í umr. í tilefni af því, að fyrir lágu till. um það, að ráðizt yrði í kaup á nýjum strandferðaskipum, bæði fyrir Vestfjarðasamgöngur og Austfjarðasamgöngur. Ég held, að það sé heldur enginn vafi á því, að það hefur komið í ljós, að það er orðin brýn þörf á því að endurnýja þann skipakost, sem Skipaútgerð ríkisins ræður yfir til þessara strandferða, og það þurfi að bæta hér nokkru við. Ég vil því í tilefni af þeim umr., sem hér hafa farið fram, spyrja hæstv. ráðherra um það, hvort ekki hafi farið fram athugun á þessu atriði, annaðhvort á vegum hinna erlendu sérfræðinga eða hinna innlendu sérfræðinga, sem hafa fjallað um málið, hvort ekki muni vera þörf á því, eins og nú er komið, að endurnýja skipakost Skipaútgerðar ríkisins eða bæta þar við nýjum skipum. Ég álít, að þetta sé alveg aðalatriði málsins.

Í þessu efni vil ég einnig benda á, að nú liggja fyrir upplýsingar um, að á næsta ári verður annað af aðalstrandferðaskipunum, af stærri skipum Skipaútgerðar ríkisins, ýmist í skyldubundnum viðgerðum, flokkunarviðgerðum eða þá í siglingum erlendis, sem gert er ráð fyrir. Það verður þannig tekið út úr strandferðaþjónustunni í um 8 mánuði af árinu. Auk þess mun svo þurfa að fara fram allmikil viðgerð a.m.k. á öðru af minni skipunum, svo að það er alveg augljóst mál, að á næsta ári verður sá skipakostur, sem Skipaútgerð ríkisins ræður yfir, með allra minnsta móti og hefur þó yfirleitt þótt vera allt of lítill á undanförnum árum.

Till., sem hafa komið fram á Alþingi, voru fyrst og fremst um það, að ráðizt yrði í kaup á nýjum skipum, að skipakosturinn yrði aukinn. En ég hygg hins vegar, að athuganir hinna erlendu sérfræðinga hafi fyrst og fremst beinzt að því, hvernig mætti draga úr taprekstrinum, sem færður er hjá Skipaútgerð ríkisins, m.a. á þann hátt að skipta þar að nokkru um vinnubrögð í ýmsum efnum. Mér fannst á þeim upplýsingum, sem hér komu fram, að hæstv. ráðh. teldi sig orðinn í allmiklum vanda, því að álit sérfræðinganna félli svo illa saman og líklega yrði að gera einhverjar tilraunir á því, hver þeirra hefði réttast fyrir sér. Ég vil því taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það verði gerðar ráðstafanir til þess, að sett verði sérstök nefnd, helzt af öllu kosin af þinginu, til þess að skoða þessi mál í heild, ef hæstv. ráðh. treystir sér ekki til að taka ákvörðun út frá þeim till., sem fyrir liggja, og kveða upp dóm í málinu, þannig að eitthvað verði aðhafzt. Ég vil svo einnig beina því til hæstv. ráðh., hvort hann telji ekki vera tök á því, eins og nú er komið þessum samgöngumálum, að Skipaútgerð ríkisins verði heimilað að taka á leigu nú á næsta ári skip, a.m.k. til bráðabirgða, því að það er alveg augljóst mál, að þessi mál eru að komast í algert öngþveiti. Eru ekki tök á því, fyrst svona hefur farið með allan undirbúning á því að gera ráðstafanir til að kaupa ný skip, að það verði þó a.m.k. til bráðabirgða tekið á leigu skip, eitt eða fleiri, til strandferðaþjónustu nú á næsta sumri?

Ég vænti þess, að hæstv, ráðh. sjái sér fært að svara þessum atriðum í sambandi við umr. um þetta mál.