04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í D-deild Alþingistíðinda. (3308)

803. mál, flóabátaferðir og endurskoðun á rekstri Skipaútgerðar ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Austf., spurði um tvennt: Hvort þeir, sem hafa fengizt við þessa athugun á rekstri Skipaútgerðarinnar, sem ég lýsti, hefðu athugað skipastólinn, og það hafa þeir vissulega gert. En ég vil undirstrika það, sem hann líka tók fram í sínu máli, að rannsókn þeirra beindist að eðlilegum hætti að því, hvernig takmarka mætti hinn gífurlega rekstrarhalla, sem á Skipaútgerðinni hefur verið undanfarin ár. Og það var einmitt með hliðsjón af því, sem þeir hafa verið með þær till., sem ég nefndi áðan, til þess að koma fyrir hagrænni vinnubrögðum en enn þá hafa tíðkazt. En vissulega hafa þeir haft skipastólinn í huga líka og gert um hann tillögur.

Þá taldi hv. þm., að athuga þyrfti, hvort ekki væri nauðsynlegt að taka á leigu skip til strandferðanna, vegna þess að sá skipakostur, sem nú er til, fullnægi ekki þeim kröfum, sem til útgerðarinnar eru gerðar. Ég tel sjálfsagt, að þetta verði athugað, ef nauðsyn ber til.

Annars verður að taka til greina þá þróun, sem í þessum málum öllum hefur orðið á undanförnum árum. Það er mikill munur á núna, t.d. þeim persónuflutningum, sem Skipaútgerðin þarf að annast í kringum landið og áður var, þegar heita mátti, að allir mannflutningar kringum landið færu fram á sjó. Nú, þegar bæði flugvélar eru komnar til og bílar fara um allar jarðir, fer megnið af mannflutningunum með þessum farartækjum. Jafnvel vöruflutningarnir líka fara að verulegu leyti fram með bifreiðum, bæði til Norðurlands og jafnvel til Austurlands einnig. Á þessu hefur orðið geipibreyting á undanförnum árum. Menn telja sér að sumu leyti heppilegra að senda vörurnar þannig heldur en að senda þær með skipum, vegna þess að þá fá þeir afgreiðslu beint frá Þeim stað, sem varan á að flytjast frá, og til þess staðar, sem hún á að flytjast til. Þetta verður náttúrlega að taka til athugunar í þeim úrræðum, sem ákveðin verða um framtíðarskipunina.

Þá hafa bæði þessi hv. þm. og hv. 1. þm. Austf. minnzt á, að eðlilegt væri að skipa n. til að ganga frá þessum málum, og það var einmitt það, sem ég minntist á í mínu svari við fyrirspurninni, að ég teldi, að nú væri kominn tími til þess, að n. starfaði, með þeim upplýsingum og með þeim rannsóknum, sem farið hafa fram, því að vissulega hafa útlendu sérfræðingarnir og þá alveg sérstaklega þeir, sem hafa athugað hag og rekstur Skipaútgerðarinnar, haft uppi mjög mikilsverðar rannsóknir, sem gefa væntanlegri n., sem málið fær til athugunar, mjög verðmætt og þýðingarmikið efni, sem n. getur þá unnið úr. Ég er því síður en svo á móti því, að n. verði skipuð nú til þess að halda málinu áfram. Ég tel afar mikið unnið með þeim rannsóknum, sem gerðar hafa verið, og n. hafi nú gögn og skilyrði til þess að meta ýmsa hluti, sem voru ekki fyrir hendi áður.