26.01.1964
Neðri deild: 47. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef því miður lítið getað fylgzt með umr. um þetta stóra mál, þetta sérkennilega og skrýtna mál, og þykir leitt, að ég kem hér inn í umr. fyrst við 3. umr. En ekki þarf nú að harma það, vegna þess að með minni þátttöku í umr. á fyrra stigi málsins hefðu varla opnazt neinar leiðir til þess að fá þetta skrýtna frv. lagfært eitthvað, það hefur verið hér reynt af báðum stjórnarandstöðuflokkunum og engu fengizt um þokað.

Seinasti ræðumaður, hv. 5. þm. Reykv., minnti hér nokkuð á, á hvaða grundvelli stefna hæstv. ríkisstj. hefur verið í aðalatriðum reist og hverju hún hefur lofað, og komst að þeirri niðurstöðu, að flest þessi stærstu loforð sín hefði hún vanefnt. Ég hafði hugsað mér að minna á, þó að ég búist nú við, að það sé flestum Íslendingum í fersku minni, að eitt meginloforð, eitt grundvallaratriði stjórnarstefnu þessarar hæstv. ríkisstj. var það, að nú skyldi hætt við allar kákráðstafanir og lapparí í þjónustu sjávarútvegs og fiskiðnaðar. Nú skyldi skorið fyrir meinin, nú skyldi lagður varanlegur grundvöllur að heilbrigðri fjárhagsafkomu og rekstraröryggi sjávarútvegsins og fiskiðnaðarins. Það skyldu gerðar ráðstafanir af viti í eitt skipti fyrir öll, ekkert kák lengur. Sjávarútveginum skyldi komið á öruggan rekstrargrundvöll án uppbóta og styrkja, og alveg sérstök áherzla var lögð á, að það ætti að hverfa frá hinum fyrirlitlegu uppbótum. Styrki átti ekki að þurfa, en uppbætur urðu bannorð framan af ferli þessarar hæstv. stjórnar, eins og dans hafði lengi verið bannorð í ríkisstj., frá því að Björn Ólafsson varð ráðh., þá var bannorðið þar dans, og þá tóku félög og fyrirtæki, sem héldu dansleiki, bara upp á því að segja: hljómsveit spilar, og komust þannig hjá því að nefna dans. Bannorðið hjá ríkisstj. var: uppbætur.

Og nú sjáum við hér framan í frv., sem bendir til þess, að þeir Íslendingar séu til, sem séu búnir að gleyma öllum fögru loforðunum um varanlegar ráðstafanir til handa sjávarútvegi og fiskiðnaði, loforðunum um að koma honum á öruggan rekstrargrundvöll og hverfa frá öllum uppbótum og styrkjum. Og hvaða Íslendingar ætli það séu, sem ekki er nú hægt að sjá annað en hafi gleymt þessu? Það virðast vera hæstv. ráðh., því að það er stjfrv., sem liggur hér fyrir og er um uppbætur og styrki. Það má kannske segja það, að þetta frv. sé um fleira, en enginn neitar því, að um uppbætur og styrki er það. Þetta er einhver sá furðulegasti og fáránlegasti samsetningur, sem alþm. hafa séð í frv.-formi. Þar kennir vissulega margra grasa. Í fyrsta lagi eru sem sé boðnar fram 43 millj. kr. í slump til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í framleiðslu freðfisks, þ.e.a.s. þetta eru uppbætur eða styrkir til hraðfrystihúsanna. Ég fæ a.m.k. ekki séð, eftir hvaða reglum þessum slump á að skipta milli hraðfrystihúsanna. Mér er spurn: Hvaða framleiðniaðgerðir, hvaða framleiðniráðstafanir verða hraðfrystihús að gera til þess að verða aðnjótandi einhvers hluta af þessum 43 millj.? Af orðalaginu í 1. gr. frv., að það eigi að verja af þessu fé til tiltekinna framkvæmda, verð ég einskis vísari. Ég vænti þess, að einhverjir hæstv. ráðh, geri nánari grein fyrir því, hvaða framleiðniaðgerðir og umbætur í hraðfrystihúsunum hér er átt við, sem geri þau styrkhæf, þannig að þau fái eitthvað af þessum 43 millj., sem þarna eiga að koma sem uppbætur og styrkir.

Þá er það til togaranna, uppbætur til þeirra, það er meginefni 2. gr. Þar er um dálítið hærri upphæð að ræða, í fyrsta lagi 51 millj. kr. auk þeirra uppbóta, sem togararnir hafa um sinn notið úr aflatryggingasjóði, og enn fremur á svo að verja þarna nokkrum millj. kr. til fiskileitar í þágu togara. Nýju uppbæturnar til togaranna eru því a.m.k. 55 millj. kr.

Þarf þá nokkuð að líta til vélbátaútgerðarinnar? Jú, það er gert í 3. gr., og þar hefur ríkisstj. hæstv. fundið út, að þau væru fullhá, útflutningsgjöldin, sem hvíldu á vélbátaflotanum og sjávarútveginum yfirleitt, að það væri nú kominn tími til að létta þá byrði eitthvað svolítið, og verður þó ekki sagt, að það sé mjög rausnarlega farið í það. Það hefði mátt ætla, að á undan annarri aðstoð til bátaútvegsins væri a.m.k. útflutningsgjaldið lækkað eigi minna en um helming. En svo er ekki gert.

Meginatriðið er það, að 3. gr. er um uppbætur og styrki til vélbátaútgerðarinnar, og þá er hæstv. ríkisstj. búin að játa það, að viðreisnarstefnan með hinum varanlegu aðgerðum sínum hefur ekki getað gert grundvöll útgerðarinnar traustari en það, að nú verður að koma henni til hjálpar með uppbótum og styrkjum til hraðfrystihúsanna, til togaranna og til vélbátanna.

Það heldur því enginn fram, að það sé að óþörfu verið að veita þessa aðstoð nú. Þrátt fyrir tvennar gengisfellingar, báðar gerðar undir því yfirskini, að verið væri að bjarga útgerðinni, og fleiri ráðstafanir í þeim dúr, þá er svo komið, að reiknimeistarar ríkisstj. viðurkenna, að það sé nú um 3 millj. kr. halli á hverjum togara með meðalafla á ári, og þó eitthvað á 4. millj. Og eftir því sem ég veit bezt, hafa reiknimeistarar ríkisstj. komizt að þeirri niðurstöðu, að vertíðarbát við Faxaflóa með meðalafla vanti um 460–500 þús. kr. til þess að vera rekinn hallalaust blómann úr útgerðartímanum, vertíðina við Faxaflóa. Það er laglega orðinn traustur grundvöllurinn þar og bærilega hægt að komast af án uppbóta og styrkja.

Og svo eru hraðfrystihúsin. Það var áður en kaupið hækkaði um 15% hjá verkafólki, sem forsvarsmenn hraðfrystihúsanna í landinu komu saman til fundar á liðnu hausti og gáfu það út frá sér í ályktunarformi, að þeir teldu, að meðalhraðfrystihús vantaði um 14% hækkun á afurðaverði allrar sinnar framleiðslu, til þess að það gæti orðið rekið hallalaust. Það er ekki hægt að skjóta sér á bak við kauphækkanir til verkafólksins, að því er þennan þátt útgerðar og framleiðslu snertir. Þetta var niðurstaðan, áður en kaupið hækkaði. Hin varanlegu bjargráð höfðu ekki gefizt hraðfrystihúsunum betur en þetta.

Það er líklega einn þáttur útgerðar, sem nú er ekki á bónbjörgum, það er síldveiðin norðanlands og síldarsöltun. En annað fyrirfinnst ekki, sem sé komið á rekstrarhæfan grundvöll eftir 5 ára viðreisnartímabil.

Þegar sleppir þessum styrkja- og uppbótaaðgerðum í frv., kemur að því, að það á að afla fjár vegna almannatrygginga. Virðist vera komið nokkuð frá útgerðarmálunum þarna, þó að frv. heiti um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Það á að afla 27 millj. eða svo til almannatrygginganna, af því að ellistyrkur gamla fólksins var hækkaður, ekki hækkaður eins og laun embættismannanna, ekki hækkaður eins og laun ráðh. um 90–100%, nei, heldur hækkaður seint og um síðir um 15%, og það er einn liður í þessu frv. að afla fjár til að standa undir þessari smámunalegu hækkun ellistyrksins til gamla fólksins.

Og enn kennir nýrra grasa í þessu samsulli í frv.-formi. Það skal sem sé stoppa upp í gat á fjárl., sem vitanlega voru afgr. með hundraða millj, tekjuafgangi raunverulegum. En það hafði verið áform ríkisstj. í bjartsýni hennar í haust í baráttu við dýrtíðina, að það væri nú gerlegt að fella niður niðurgreiðslur á ýmsum vörum í landinu, án þess að dýrtíðin færi neitt ofsalega upp við það, og þess vegna höfðu þeir ekki ætlað tekjur í fjárlagafrv. á móti þeim niðurgreiðslum, sem inntar hafa verið af hendi. En nú eru þeir komnir að þeirri niðurstöðu blessaðir þó, að þessi barátta við dýrtíðina hafi ekki gengið betur en svo, að það sé nú ekki bætandi á að fella niður niðurgreiðslurnar, og þess vegna taka þeir hér í leiðinni nokkuð glettilega upphæð til þess að standa straum af þessum niðurgreiðslum.

Svo kemur enn eitt atriði óskylt þessum öllum, og það er á þá leið, að nú skuli breytt fjárl., sem voru sett á þessu þingi fyrir áramótin, nú skuli í þessu frv., í einni grein, ríkisstj. heimilað að fresta til ársins 1965 verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé er veitt til á fjárlögunum fyrir árið 1964, sem sé tvímælalaust farið fram á heimild til að breyta fjárl. afgreiddum á þessu þingi. Hafa menn nokkurn tíma séð annað eins í frv.-formi? Það á að halda öllum tekjuliðum, sem Alþ. afgreiddi á fjárl., en það á að heimila ríkisstj. að hlaupa frá framkvæmdum. Ætli það hafi nú verið svo nauðsynlegt til þess að draga úr þenslu í þjóðfélaginu í þessu frv. að koma með svona nokkuð, þegar frv. allt var þannig, að mestar voru líkur til þess, að útgerð legðist niður í landinu? Og má nokkurn veginn reikna með því, að þá hefði eitthvað dregið úr, bæði um framkvæmdir hjá ríki, bæjarfélögum og einstaklingum, og því getur enginn neitað, að þegar þetta frv. kom fram, var mönnum ljóst, að það gat fyllilega blasað við, að fáir bátar yrðu gerðir út. í fyrsta lagi er óþinglegt með öllu að hnýta inn í svona bandormsfrv., heimildum til að breyta fjárl., og í annan stað ekki ástæða til að hnykkja á um samdrátt, þegar ástandið í sjávarútvegsmálunum var þannig, að mestar líkur voru til þess, að útgerðin stöðvaðist og grundvöllurinn undir tekjuöflun þjóðarinnar færi í strand. En þetta er hér nú samt, og það er eitt með öðru, sem gerir það eðlilegt, að ég kallaði þetta frv. skrýtið frv., alveg fágætan grip meðal frv., sem sézt hafa á Alþingi.

Þetta frv. hefur aðeins tekið örlitlum breytingum, meðan það hefur verið til meðferðar hér í þessari hv. d., og er meginbreytingin sú, að nú er komið eitt efnisatriði inn í þetta sundurleita frv. enn, og það er um fiskverð. í 2. gr. frv. var ekkert um það, þegar það var lagt fram, en nú stendur þar, var samþykkt hér í dag, að frá 1. jan. 1964 er ríkisstj. heimilt að greiða sem svarar 6% viðbót, — því gátu þeir nú ekki haft einurð til að láta það heita uppbót, því að uppbót er það? — á það ferskfiskverð, sem ákveðið var með úrskurði yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins 20. jan. 1964, nú fyrir rúmri viku, var ákveðið af dómara ríkisstj. einum fyrir rúmri viku. Hann hafði lag á því að losa sig við bæði fulltrúa útgerðarinnar og sjómannanna í yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins og ákvað einn, auðvitað að fyrirmælum ríkisstj., hvað fiskverðið skyldi vera. Það skyldi vera óbreytt, eins og það var ákveðið í desembermánuði 1962, og við það fiskverð skyldu sjómenn búa ekki aðeins allt árið 1963, heldur út árið 1964 líka. Og þá var það, sem ríkisstj, Íslands bárust þau válegu tíðindi, einmitt meðan var verið að ræða frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, að bæði útgerðarmenn og sjómenn væru með það efst í huga, útgerðarmennirnir að hætta að gera út, sjómennirnir að segja upp skiprúmum sínum. Og alvarlegustu og fyrstu tíðindin í þessa átt bárust úr heimabæ hæstv. sjútvmrh., Hafnarfirði, þar sem sjómennirnir sjálfir sem einstaklingar boðuðu til fundar, ekki Sjómannafélagið. Og mér er tjáð, að þeir hafi þar samþykkt einróma að segja upp skiprúmum sínum. Þá klúðrar ríkisstj. inn í 2, gr. þessa frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins ákvæði um, að greiða beri á árinu 1964 6% viðbót ég segi uppbót — á þetta nýúrskurðaða fiskverð, sem sjómenn áttu að búa við 2 ár óbreytt, meðan stórkostlegar launahækkanir höfðu farið fram til allra hinna hærra launuðu stétta í þjóðfélaginu og þó upp undir 30% hækkun kaups til verkafólksins. Heldur hæstv. ríkisstj. að dýrtíðarbylgjan sneiði hjá heimilum sjómannanna? Heldur hæstv. ríkisstj., að tvennar gengislækkanir hafi ekki hækkað veiðarfæri og vélahluta og skip og allar rekstrarvörur útgerðarinnar, þannig að útgerðin geti verið rekin með óbreyttu fiskverði? Þetta virðist hafa hvarflað að hæstv. ríkisstj., því að ekkert var um fiskverðið, þegar frv. var lagt fram. Það er ekki fyrr en útgerðarmenn og sjómenn reiða hnefann á loft og tilkynna, að útgerðin stöðvist og sjómenn hverfi frá skipunum, ef fiskverðið verði óbreytt, eins og þjónn ríkisstj. í dómarasæti hafði úrskurðað fyrir viku. Hrædd hefur hún orðið, ríkisstj., og er ekki að furða. En ég óttast það, að hún hafi hvorki gert útgerðarmönnum fært að gera út né tryggt það, að sjómenn telji sér fært að vera hásetar á íslenzkum fiskibátum, þótt svo hún hnoði hér 6% uppbót á fiskverðið inn í þetta frv. Seint er þá betra en aldrei, og lítið er betra en ekkert, það má segja. En þetta álít ég slíka aðgerð, að hún tryggi engan veginn, að sjómenn rói á íslenzk fiskimið til fiskjar né að íslenzkir útgerðarmenn telji sér fært að gera út eftir þessa viðreistu viðreisn.

Hvernig á nú að afla fjár til þess að hjálpa hinum aðþrengdu hraðfrystihúsum, afla fjár til þess að fleyta áfram með bráðabirgðahjálp togurunum, sem tapa hver um sig á 4. millj. kr. á ári, og gera útgerðarmönnunum við Faxaflóa og annars staðar á landinu fært að gera út vélbátaflotann, sem tapar um ½ millj. kr., meðalbáturinn, á vetrarvertíð, og enn fremur að afla fjár til almannatrygginganna og til þess að ríkisstj. geti haldið áfram þeim niðurgreiðslum, sem hún ætlaði að flytjast frá? Væri nú ekki eðlilegast, að henni hefði dottið í hug: Við skattleggjum þá, sem hafa grætt á verðbólgu, við skattleggjum alla þá, sem hafa verið að auðgast á verðbólgu á undanförnum árum? — Verðbólgustefna ríkisstj. hefur skapað auðmenn, og það var í þeirra vasa, sem var fyrst og fremst réttmætt að sækja peninga til grundvallaratvinnuvega þjóðarinnar. Nei, það datt henni ekki í hug, það datt henni sízt af öllu í hug. Hún ákvað að leggja á söluskatt til að standa undir þessum útgjöldum. Af hverju söluskatt? Það skyldi þó ekki vera, að það væri af því, að orð liggur á, að næst á eftir almennum skattsvikum vegna vantalinna tekna auðmanna og fyrirtækja séu mestu skattsvikin á Íslandi drýgð þannig að skila ekki þeim söluskatti, sem innheimtur er fyrir ríkið, nema að hluta, og þarna sé þess vegna söluskatturinn, — ég segi: Það skyldi þó ekki vera, að þarna hafi verið ákveðið að hafa það söluskatt, af því að það loði dálítið eftir af söluskattinum hjá þeim, sem innheimta hann fyrir ríkið og ýmsir telja, að hafi ekki skilað honum öllum, og þarna gefist því aukið tækifæri til þess að láta eins og hjá honum stóra Kláusi loða eitthvað eftir í löggunum af gullinu, þannig að söluskatturinn, sem lagður er á þjóðina hér með, gæti orðið svolítið til tekjuauka kaupsýslunni í landinu. Ég vil ekki fullyrða, að söluskatturinn hafi orðið fyrir valinu af þessum ástæðum, en þennan ókost hefur hann, að með því eftirlitsleysi, sem hér ríkir um innheimtu hans, hefur hann illa viljað koma til skila til ríkissjóðsins.

En kemur hann ekki maklega niður á flesta, söluskatturinn? Jú, mest borga þeir söluskatt, sem mest þurfa að kaupa. Og hverjir eru það? Eru það þeir auðugustu endilega? Nei, það eru þeir, sem hafa stærstu fjölskyldurnar. Söluskatturinn verður því þyngstur skattur á stærstu barnafjölskyldurnar, sem oft að eðlilegum hætti eru hinar fátækustu. Þarna fannst hæstv. ríkisstj. vera réttast að láta tekjuöflunina koma niður á hinum mörgu fátæku. Því getur enginn neitað, að það er grundvallareðli söluskatts, að hann leggst þyngst á stærstu fjölskyldurnar í landinu. Og þetta gat Alþfl. tekið þátt í að gera. Alþfl. gat orðið til þess að velja söluskatt sem tekjustofn til að standa undir þessum útgjöldum. Það er tæpast, að ég geti trúað því, en staðreynd er það samt. Það á að taka 300 millj. kr. í söluskatt til þess að standast útgjöld þessa bandorms, sem hæstv. ríkisstj. ber fram í viðbót við, — hvað var það, sem fjárl. hækkuðu, þessa árs fjárlög? Var það ekki upp undir 400 millj.? Nærri því jafnhá upphæð skal nú koma í viðbót, 300 millj. í viðbót, eftir að menn héldu, að löggjöf um skattaálögur á landsmenn væri um garð gengin, því væri lokið. Og e.t.v. er eitthvað eftir enn í pokahorninu, áður en þessu þingi lýkur, um nýja skatta á þjóðina. En það var ekki búið með afgreiðslu fjárl., svo mikið erum við búnir að sjá.

Það hefur verið athugað af tölufróðum manni, að ef það hefði nú getað farið svo, að það yrðu eftir um 20% af söluskattinum, eins og hann verður núna í heild, í fórum þeirra, sem eiga að innheimta hann, ef það skyldi geta orðið þetta eftir af honum hjá þeim, þá gæti það numið um 160 millj, kr. Og það er kannske ekkert ónýtt fyrir ríkisstj. sérhagsmuna- og gróðamanna í landinu að geta rétt að sínum slíka upphæð, um leið og verið er að leggja nýja skatta á barnafjölskyldurnar.

Það var verið að afgreiða hér tryggingalagafrv. um daginn, það voru nokkrar breytingar gerðar á tryggingalögunum. Og skyldu menn nú ekki ætla, að með tilliti til þess, sem átti nú að leggja á barnafjölskyldurnar, hafi barnalífeyrir og fjölskyldubætur verið hækkuð í tryggingunum, þó að ekki væri til annars en að geta að einhverju leyti staðið betur undir þessum pinkli. Nei, fjölskyldubæturnar voru einmitt skildar eftir óbreyttar og hafa verið skildar eftir nú við tvennar eða þrennar breytingar á tryggingalöggjöfinni. Fjölskyldubætur geta fjölskyldurnar stóru ekki fengið hækkaðar, en þær geta fengið söluskatt, þær geta fengið söluskatt á hverja flík á börnin, á hvern bita og sopa, sem barnafjölskyldurnar þurfa að neyta. Það getur hæstv. ríkisstj. veitt þeim.

Ég verð að segja það, að mér hefur oft fundizt sem þessi ríkisstj. sé ekki skarpskyggn á það, hvað sé réttlátt og ranglátt, eða geri sér ekki mikið far um að komast að niðurstöðu um slíkt. Og það verður aldrei sannað eða sagt með rökum, að það sé réttlát tekjuöflun í þessu frv. að fara söluskattsleiðina; þegar vitað er, að hann leggst þyngst á jafnvel þá fátækustu og skilar sér illa í ríkissjóðinn frá þeim, sem hafa innheimt hann, og stafar það mest af eftirlitsleysi frá stjórnarvaldanna hendi.

Aldrei hefur hæstv. ríkisstj. þó skeikað eins um mat sitt á réttlæti, eins og þegar hún á liðnu hausti, eftir þá óðadýrtíð, sem hún hafði hellt yfir land og þjóð, og eftir þá launamálabyltingu, sem hún hafði sjálf staðið að til embættismannastéttanna, þegar hún ætlaði svo að lögfesta óbreytt kaup verkafólksins. Það var ekki réttlætisverknaður, það var ekki byggt á réttlæti. Það var gengið á snið við allt, sem hét réttlæti, með þeirri lagasetningu, enda fór svo, að almenningsálitið var svo einróma og sterkt gegn þessu ranglæti, að hæstv. ríkisstj. góðu heilli heyktist á að fremja ranglætisverkið. Þetta frv. minnir að vissu leyti á það frv. Ákvörðunin um óbreytt fiskverð til sjómanna í dýrtíðarflóði hæstv. ríkisstj., það er sams konar ranglætisverk. Og almenningsálitið lét til sín heyra, eins og þegar þvingunarlögin lágu fyrir Alþingi. Sjómennirnir á Akranesi, sjómennirnir í Hafnarfirði töluðu til sinna fulltrúa hér á Alþ. þannig, að þeir skildu, að þarna varð svolítið að slaka til, það varð að hætta við lögfestingu þvingunarlagafrv. og það varð að hnoða svolitlum uppbótarböggli við 2. gr. þessa frv. Þarna var gengið í báðum tilfellum of langt, og almenningsálitið var þess megnugt að segja til vegar. Ég veit ekki á þessari stundu, hvort það tillit hefur nú verið tekið til almenningsálitsins, sem Alþ. hefur fengið vitneskju um, að útgerðin verði í gangi. En svo mikið er víst, að ef útgerðin stöðvast, þá neyðist hæstv. ríkisstj., þótt hún vilji ekki taka tillit til till. minni hl. hér á Alþ., til að reyna að taka málið upp á ný og gera enn bragarbót, hækka fiskverðið um 1–2–3%, svo að sjómenn fáist til þess að fara í skiprúm og útgerðarmenn til þess að gera út.

Það má vel vera, að þeir útgerðarmenn og hraðfrystihúseigendur í stjórnarliðinu, sem eiga hér sæti á Alþ., séu búnir að segja hæstv. ríkisstj., að þetta sé nóg, útgerðin gangi, hraðfrystihúsin verði rekin o.s.frv., og þeir eigi þess nógra kosta völ að ráða háseta á bátana. Þá er kannske ekki eðlilegt, að hún fari lengra en þetta. En ef þessir útgerðarmenn, sem hér eiga sæti á Alþ., þegja undir afgreiðslu þessa frv., en telja sig svo, eftir að þetta er orðið að lögum, ekki færa um að gera út báta og verða þess ekki megnugir að fá sjómenn til að róa, þá hafa þeir verið of þögulir, þá hafa þeir þagað, þegar þeir áttu að tala, og ættu þá helzt ekki að tala, þegar þeir ættu að þegja á eftir. Nei, hér reið á, að hæstv. ríkisstj. fengi að vita, ekki bara frá stjórnarandstöðunni, heldur einnig frá sínum mönnum um það, hvað væru hér nauðsynlegar aðgerðir til þess að búa þannig um grundvöll útgerðarinnar, að hún gæti gengið, — ekki endilega að standa við hið gullna og gefna loforð að koma útgerðinni á traustan rekstrargrundvöll, það er áreiðanlegt, að þessi ríkisstj. er ekki fær um það héðan af, útgerðinni hefur vegnað illa undir viðreisnarstefnunni, gengisfellingarnar hafa orðið henni böl, en ekki blessun, og svipt útgerðina þeim rekstrargrundvelli, sem hún hafði. Og nú er farið inn á sömu braut og áður, uppbætur, uppbætur, uppbætur af handahófi meira að segja, uppbætur jafnt til hraðfrystihúsanna, sem græða á því að frysta síld- og enginn gróðavegur er nú upplagðari í landinu — eins og hinna, sem hafa hina verstu aðstöðu, lítið hráefni, hráefni erfitt til vinnslu, meginhluta smáfisk, hvor tveggja skulu fá uppbætur, ef þau fást eitthvað við aðgerðir til framleiðniaukningar, sem ég hef ekki fengið neinar hugmyndir um, í hverju skulu fólgnar, til þess að þær verði styrkhæfar.

Það á að styrkja togarana, jafnt hvort sem þeir eru styrks þurfi eða ekki, þá, sem afla mest og þyrftu kannske engrar hjálpar, það á að styrkja þá líka eftir úthaldsdögum bara, nógir peningar til, ekki bara styrkja þá, sem þess þurfa, heldur líka hraðfrystihúsin, sem hafa hina beztu rekstraraðstöðu. Nei, nei, það á ekki að skilja þau eftir, þau verða að fá styrki líka, úr því að hin, sem versta aðstöðuna hafa, þurfa þess. Og togararnir, sem fiska bezt, verða alveg eins að fá styrki og þeir, sem fiska verst, bara eftir úthaldsdögum, og ég fæ ekki betur séð en togarar, sem ekki voru gerðir út í fyrra, eigi að fá styrk, ef þeir verða gerðir út í ár. Jafnvel kannske togararnir, sem voru gerðir út í fyrra og seldir úr landi, eigi líka að fá styrk. Ég fæ ekki séð betur en svo eigi að vera líka. Það virðist ekkert benda til þess, að það séu nein auravandræði þarna. Það er hægt að setja nóg í uppbætur og styrki, úr því að farið er inn á það á annað borð.

Nei, það virðist vera mikill handahófsbragur á þessu öllu saman, og sérfræðingar ríkisstj. eða tannlæknar hennar, — nú heita það víst tannlæknar ríkisstj., — virðast ekki hafa haft tíma til að gera sér nákvæmlega grein fyrir því, hvernig ætti að veita þessar uppbætur og þessa styrki. Þegar þetta frv. er hér fyrir Alþ., veit a.m.k. enginn þm. um það. Þetta á að ákveðast seinna eftir reglum, sem ráðh. setur. En það væri full ástæða til þess, að hæstv. ráðh. gerðu einhverja grein fyrir því á Alþ., hvert á að verða megininntak í þessum reglum, hvernig á að útdeila þessum nálega 100 eða yfir 100 millj. kr., sem þarna eiga að fara í uppbætur og styrki til hinnar aðþrengdu, viðreistu og endurreistu útgerðar.

Það hefur hingað til verið talið, að það væri skylda lýðræðisstjórnar í lýðræðislandi að víkja, afsala sér völdum, segja af sér, ef hún getur ekki framkvæmt þá stefnu, sem hún hefur boðað að hún ætlaði að fylgja. Og hvað er nú að frétta af hæstv. ríkisstj., að því er þetta snertir? Ætlar hún að haga sér eins og lýðræðisstjórn ber? Hún boðaði allt aðra stefnu en í þessu frv. felst, þveröfuga stefnu. Hún hefur ekki orðið þess megnug að koma íslenzkum sjávarútvegi á öruggan rekstrargrundvöll án uppbóta og styrkja. Hún er með fangið fullt af uppbótum og styrkjum og algerlega komin í berhögg við sína yfirlýstu stefnu, hefur ekki getað haldið grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar með því að fylgja sinni stefnu og er komin inn á allt aðra stefnu. Sérhver ríkisstj. á að hafa þann manndóm að víkja, segja af sér, þegar stefnan er ekki framkvæmanleg lengur og grundvallarmálefni þjóðarinnar eru komin í strand, ef eftir henni er siglt. Annað tveggja ratar ekki núv. ríkisstj. lengur sína stefnu, getur ekki lengur þrætt hana, ellegar hún telur hana ófæra, og ég hygg, að það síðara hljóti að vera rétt. Hún er komin að þeirri niðurstöðu, að viðreisnarstefnan dugir ekki, og þar er sjón sögu ríkari. Reynslan er þessi, að í stað þess að útgerðin átti að komast á öruggan rekstrargrundvöll án uppbóta og styrkja, þarf nú að gefa með hverjum togara á ári á 4. millj. kr., með hverjum vélbát á einni vetrarvertíð ½ millj. og með hverju hraðfrystihúsi, meðalhraðfrystihúsi, þarf að gefa um 14% af söluandvirði framleiðslunnar.

Hæstv. ríkisstj. hefði helzt átt að geta bjargað sínu skinni með því, að þetta frv. hennar hefði verið fellt, því að það er andstætt hennar stefnu. En stjórnin á að falla, ef þetta frv. er samþykkt, því að þá er búið að samþykkja aðra stefnu en hún tók að sér að framkvæma, og þá á hún ekki lengur að lafa.