05.02.1964
Sameinað þing: 38. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í D-deild Alþingistíðinda. (3317)

114. mál, alúminíumbræðsla og olíuhreinsunarstöð

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og minnt hefur verið á úr forsetastól, er hér takmarkaður ræðutími samkv. þingsköpum. En ég vil leyfa mér nú, þegar þessar umr. fara fram, að minna á bað, að Alþingi hefur á sínum tíma gert ályktun um stórvirkjunarmál Sú ályktun var gerð 22. marz 1961 í formi þál. um að undirbúa virkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju. Sjálf ályktunin var svo hljóðandi; með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvöru og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi.“

Síðan þessi ályktun var gerð hér á Alþingi, eru nálega 3 ár liðin, og nú eru hér í dag af hálfu hæstv. ríkisstj. að gefnu tilefni fsp. um þetta efni gefnar þær upplýsingar, að rannsókn á stórvirkjunarmöguleikum hafi farið fram og að niðurstaðan sé sú, að hagkvæmast virðist að virkja Þjórsá hjá Búrfelli, og að því er iðjuver varðar, virðist vera hagkvæmast að byggja það við Faxaflóa. Það er þetta tvennt, sem hér kemur fram og er sá, ef segja má, nokkuð óbeini árangur af þeirri ályktun, sem Alþingi gerði fyrir 3 árum og ég hef lesið hér upp. Jafnframt er þess getið, að þó að hagkvæmast virðist vera að byggja iðjuver við Faxaflóa, komi einnig til greina að byggja það norðan fjalla. Ég ætla ekki í þeim takmarkaða ræðutíma, sem ég hef hér, að gera að umtalsefni það, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta, og mun athuga betur þau ummæli, sem þar komu fram, þegar ræða hans liggur fyrir í handriti hér á lestrarsalnum.

Hæstv. ráðh. gat þess, sem reyndar var kunnugt, að ríkisstj. hefði vorið 1961 skipað svonefnda stóriðjunefnd til athugunar á þessu máli. Ég vil aðeins segja það í því sambandi, að mér þykir það mjög miður, að í slíka nefnd skuli ekki hafa verið skipaður neinn maður þúsettur á Norður- eða Austurlandi, með tilliti til þess mikla áhuga, sem sérstaklega hefur komið fram í þeim landshlutum á þessum málum og ekki þarf að rekja hér.

Ég vil leyfa mér að taka undir þau ummæli, sem féllu áðan hjá hv. 1. þm. Austf. um það, að málið sé nú komið á það stig, að eðlilegt væri, að Alþingi fjallaði um það eða alþm., áður en lengra er farið. Hér er áreiðanlega um ýmis atriði að ræða, sem eru þess eðlis, að þessa er full þörf.

Ég vil svo, áður en ég lýk máli mínu, leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh. og bið hann að svara því, ef hann hefur möguleika til þess, hvort í sambandi við athugun á hagnýtingu orku til framleiðslu útflutningsvöru, eins og það var orðað í þál. frá 1961, hefur ekki verið athugað um framleiðslu á tilbúnum áburði í þessu sambandi. Það er alkunna, að notkun tilbúins áburðar fer mjög vaxandi í veröldinni og hlýtur að fara vaxandi á komandi árum og þessi vara er allmikill liður í alþjóðaviðskiptum, og við höfum, Íslendingar, dálitla reynslu af framleiðslu tilbúins áburðar. Þess vegna vildi ég sérstaklega spyrja um þetta, hvort þessi möguleiki hefði verið athugaður og þá hvort fyrir liggi einhverjar niðurstöður, og þætti vænt um, að hæstv. ráðh. gæfi upplýsingar um þetta, ef hann hefur þær á reiðum höndum.