26.01.1964
Neðri deild: 47. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru tvö til þrjú atriði í sambandi við þetta frv., sem ég vildi minnast á, án þess að fara þó að endurtaka, vona ég, nokkuð verulega það, sem hér hefur verið rétt og vel sagt til að gagnrýna það.

Það er í fyrsta lagi það, að með þessu frv. er því slegið föstu, að inn á söluskattsleiðina skuli enn einu sinni farið. Með þessu er verið að beita ríkisvaldinu af hálfu atvinnurekendastéttarinnar til að reyna að ræna af verkamönnum og öðrum launþegum því, sem þeir hafa fengið hækkað sitt kaup nú undanfarið. Það er farið inn á þessa gömlu leið, sem atvinnurekendurnir hafa gengið á Íslandi á undanförnum 20 árum, að auka í sífellu verðbólguna og gera þannig smátt og smátt 20 ára baráttu íslenzka verkalýðsins fyrir kauphækkunum að engu, misbeita ríkisvaldinu hastarlegar en nokkur yfirstétt í Evrópu annars hefur gert, til þess að ræna þannig af verkamönnum, þegar þeir standast þeim ekki snúning í þeirri daglegu, faglegu baráttu.

Ég ætla ekki að endurtaka það, sem hér hefur verið sagt um þetta efni og um, hvað þetta þýðir fyrir alþýðu manna og hvernig þetta, að knýja hana út í ný og ný hjaðningavíg, gerir þjóðfélagið að vettvangi slíkra hjaðningavíga og eyðileggur smám saman allan efnahagsgrundvöll þjóðfélagsins. Það er ótvírætt, hefur komið í ljós og hefur verið sýnt fram á það, þannig að það verður ekki hrakið, að frá sjónarmiði alþýðu er þessi söluskattur ranglæti, hann er rán. En þessi söluskattur er líka frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar og frá sjónarmiði atvinnurekendastéttarinnar sem heildar, ef hún hugsar eitthvað um íslenzkan atvinnurekstur, þá er hann heimska. Það er hægt um tíma að bjarga sér nokkuð með verðbólgu, og það getur verið jafnvel ekkert slæmt að grípa til þess um visst skeið. En að gera verðbólguna að föstu lögmáli í þjóðfélaginu og auka hennar hraða meir og meir, það drepur hvert þjóðfélag. Frá 1939 hefur verðbólgan seytjánfaldazt. Hún hafði nífaldazt 1959, síðan hefur hitt bætzt við. Og með þessum hraða fáum við slíkan æsing í þessa verðbólgu, að braskið heltekur þjóðfélagið, ekki almennt, hægfara brask, eins og við þekkjum, heldur víðtækt brask, brask, sem þýðir, að íbúðir hér í Reykjavík, sem kostar að búa til um 320 þús., eru seldar á 450–500 þús. í dag, að 4 herbergja íbúðir eru komnar upp í 900 þús. kr. Menn eru bara að hlaupa til að bjarga peningum. Þetta eyðileggur hvert þjóðfélag, og sú yfirstétt, sem á að bera ábyrgð á sínu eigin þjóðfélagi, getur ekki leyft sér að haga sér svona, ef hún hefur einhverjar ábyrgðartilfinningar gagnvart þjóðfélaginu, sem hún býr í. Jafnvel þótt það sé þægilegt fyrir hana að geta gengið í ríkisbankana, tekið út úr þeim peningana, sett peningana í fasteignir, lækkað síðan peningana í gildi og látið fasteignirnar vaxa að sama skapi að gildi, þá er ekki hægt að halda svona áfram endalaust. Það er hægt að verða ríkur og jafnvel ríkasti maður landsins á því að gera slíkt, en ekki er hægt að halda þjóðfélaginu ríku og ekki einu sinni hægt að halda við völdum atvinnurekendastétt, sem svona hagar sér, því að hún missir þá fyrr eða síðar allt traust almennings.

Það, sem vantar algerlega í viðhorf ábyrgrar ríkisstj. í sambandi við þetta frv. og hefur vantað undanfarið hér á Íslandi, það er að skapa aðhald að atvinnurekendastéttinni. Þessi leið að fara bara inn á að ræna af almenningi, fyrir utan hvað hún er ranglát, er heimskuleg, vitlaus, vegna þess að hún elur atvinnurekendurna upp í því að kunna ekki að stjórna sínu atvinnulífi, sínum eigin atvinnutækjum, hún elur þá upp í að vera duglausa, forsjálausa og skeytingarlausa um atvinnureksturinn. Og ef við lítum á, hvernig stærstu atvinnurekendur Íslands, þeir sem lifa virkilega við hákapítalískt atvinnulíf, atvinnurekendurnir hér við Faxaflóa, hér frá Sandgerði til Reykjavíkur, t.d. hraðfrystihúseigendurnir, hvernig þeir stjórna þarna, þá sjáum við, að þetta er svo hringavitlaust, að svona er ekki hægt að halda áfram, ekki bara frá sjónarmiði verkalýðsins, heldur frá sjónarmiði Íslands.

Það er verið að tala hérna í 1. gr. um framleiðni og það eigi að hjálpa mönnum til framleiðniaukningar í þessu sambandi. Við verðum að taka þessa hluti dálítið alvarlegar en með svona slagorðum. Og þegar ég ræði hér um þessi mál, vil ég taka það fram, að ég ræði um þessa hluti hér við Faxaflóa, vegna þess að hvað snertir landið annars, dreifbýlið úti um land, gilda þar allt önnur lögmál. Venjuleg lögmál kapítalistískrar þróunar komast þar ekki að vegna þess, hve smáar útgerðarstöðvarnar eru. Það er ekki raunverulegt pláss nema fyrir eitt hraðfrystihús eða eitt fiskiðjuver á hverjum af þeim stöðum, og það er eðlilegt, að þau fiskiðjuver séu rekin, til þess að þarna sé hægt að reka atvinnu. Og þau verða aldrei fyrst og fremst rekin frá neinu gróðasjónarmiði. Hér aftur á móti, sérstaklega hér frá Sandgerði til Reykjavíkur, er ástandið þannig, að þessi sama atvinnurekendastétt, sem hér heimtar 43 millj. kr. til framleiðniaukningar og annað slíkt, byggir á þessu svæði 22 hraðfrystihús, þar af 7 í Keflavík og Njarðvíkum. Mundi nokkur kapítalisti með viti byggja svona? Þessir menn tala núna um, að það þurfi að innleiða ákvæðisvinnu. Og hver er ákvæðisvinnan? Jú, það er verið að umbylta hér ýmsum hraðfrystihúsum, það er verið að setja ný borð, það er verið að mæla ýmislegt út í sambandi við, hvernig fiskurinn er flakaður og hve vel er unnið að honum og annað slíkt og sköpuð þarna keppni, mestmegnis með það fyrir augum að geta pínt meira verk og meiri vandvirkni og meiri hraða út úr nokkrum konum, sem þarna vinna, og nokkrum verkamönnum stundum líka, og þetta er kallað einhver óskapleg framleiðni. Þetta er gott og eðlilegt út af fyrir sig. En þegar menn eru að tala um og jafnvel skrifa um það í blöð, að það hafi eitthvað staðið á verkalýðnum með þetta, þá fer því fjarri, það, sem hefur staðið á, er, að okkar kapítalistíska stétt á þessu sviði hafi sýnt eitthvert vit í skipulagningunni á sínum hraðfrystihúsum hér í Reykjavík, þar sem hraðfrystihúsin þó eru einna stærst, ein fimm hraðfrystihús allstór. Eitt er úti á Seltjarnarnesi, fiskimjölsverksmiðjan, sem á að fá beinin úr því, er inni á Kletti. Hver fiskur, sem sjómennirnir koma með í land, það er draslazt með hann nokkra km fyrst út á Seltjarnarnes, svo er drattazt með beinin og hausana inn á Klett, það er draslazt með hann gegnum aðalþéttbýlið í Reykjavík, um 10 km með hvern þorskhaus. Þessir þorskhausar, kapítalistar okkar, ættu að fara að athuga framleiðnina í sínum hraðfrystihúsum. Ég benti á það, þegar byrjað var og áður en byrjað var að reisa nokkurt af þessum hraðfrystihúsum, að á Grandagarðinum ætti að vera það efna stóra hraðfrystihús, sem hér þyrfti að vera í Reykjavík, og það væri hægt að breikka Grandagarðinn, og það væri hægt að skapa uppfyllingu hinum megin við hann til þess að hafa eitt stórt hraðfrystihús og fiskiðjuver og eina stóra fiskimjölsverksmiðju á þeim Grandagarði. Og það var það eina, sem vit var í.

Þegar kapítalistar stjórna atvinnurekstri í einu landi þannig, að þeir gera alla hluti margfalt dýrari en þeir þurfa að vera, þá eiga þeir að fá að borga þetta sjálfir, og þá eiga þeir ekki að fá að komast upp með það að koma í ríkiskassann og taka þar 43 millj. í dag, 100 millj. í gær og 50 millj. á morgun. Það er ekki til neins að tala um framleiðni og annað slíkt við verkalýðshreyfinguna og sýna ekki sjálfir minnsta vit í því að kunna að reka þennan atvinnurekstur.

Það má vel vera, að þeim finnist þetta praktískt hverjum frá sínu einstaka sjónarmiði, að þeir geti gengið í ríkiskassann til þess að láta hann borga sér fyrir vitleysurnar. En fyrir þjóðfélagið og meira að segja það kapítalistíska þjóðfélag er ekki hægt að þola þetta. Það má vel vera, að mönnum finnist slæmt, að það skuli ekki vera meiri rekstur hér en það, að það passi ekki nema fyrir eitt verulega stórt hús, t.d. hvað snertir Reykjavík. En við verðum að venja okkur við það, ef við ætlum að standast samkeppnina í þeim kapítalistíska heimi, að skipuleggja atvinnulíf á Íslandi jafnvel og erlendir kapítalistar gera. Við eigum við volduga aðila að etja í okkar samkeppni, og okkar íslenzku atvinnurekendur skulu ekki láta sér detta í hug, að það sé bara hægt að koma hér til Alþingis og hvaða ríkisstj. sem vera skal og segja endalaust: Minn atvinnurekstur er nú svona vitlaus, ég þarf að fá 100 millj. núna og ég þarf að fá 50 millj. á morgun, annars stöðvast þetta. — Þetta getur ekki gengið. Íslenzkur atvinnurekstur, stórrekstur eins og hraðfrystihúsin, verður á því sviði, þar sem hægt er að koma við kapítalistískum atvinnurekstri, eins og hér við Faxaflóann, að vera tæknilega, skipulagslega jafnvel útbúinn og það fullkomnasta erlendis. Við erum ekki ein stærsta fiskveiðiþjóð heims fyrir ekki neitt. Og ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur nokkurn tíma látið sína hagfræðinga rannsaka það, en einhvers staðar liggur það, að við skulum eiga meiri fisk á sjómann en nokkur önnur þjóð, 120 tonn á sjómann á ári, þegar þeir næstu eru með 25 tonn, að við skulum hafa meiri afköst en nokkur önnur þjóð miðað við sjómann og gefa lægra verð fyrir fiskinn, borga hærra fyrir olíu, láta meira í milliliði en nokkur önnur þjóð.

Ríkisstj. á Íslandi hefur ekki verið annað og verður ekki annað en stjórn á atvinnulífinu. Mesti misskilningur, sem nokkurri ríkisstj. á Íslandi hefur dottið í hug, er, að hún gæti verið eitthvað annað. Og þó að sá misskilningur hafi verið ráðandi máske hjá hæstv. ríkisstj. í byrjun hennar starfs, þá er hún fyrir löngu búin að átta sig á því. Stjórn á Íslandi verður alltaf fyrst og fremst stjórn á atvinnulífinu, og það þýðir, að ein ríkisstj. verður að skapa það aðhald gagnvart atvinnurekendastéttinni, að sú atvinnurekendastétt skipuleggi sitt atvinnulíf þannig, að hún geti barizt við hvern sem vera skal.

Ég held, að fyrir 5 árum höfum við framleitt af freðfiski um 80 þús. smálestir. Ef ég man rétt, framleiddu Norðmenn þá 20 þús. Norðmenn hafa verið að auka sína framleiðslu. Ég held, að þeir séu komnir í ein 40–45 þús. nú. Við höfum eitthvað minnkað framleiðsluna. Hvernig er þessi framleiðsla Norðmanna skipulögð? Það er einn voldugur hringur, sem er að taka þá framleiðslu og skipuleggja hana undir Findus International. Hann er að byggja stærstu hraðfrystihúsin í Noregi nú, hraðfrystihús, þar sem þúsundir manna vinna í einu hraðfrystihúsi. Það var nýlega í blöðum verið að segja frá því, — vafalaust hefur þetta hraðfrystihús verið byggt þar, sem þó nokkur floti er fyrir, en það væri verið að kaupa 10–15 togara í viðbót til þess að reka þetta eina hraðfrystihús. Við stöndum í keppni við þessa aðila. Það eru þessir aðilar, sem við stöndum í samkeppni við.

Ég heyrði um það fyrir nokkrum árum, þegar verið var að tala um, hvort við Íslendingar mundum ganga í Efnahagsbandalagið, að Findus-hringurinn hefði verið að gera ráðstafanir til þess eða athuga um það að koma sér upp hraðfrystihúsum á þrem stöðum, ég heyrði talað um Sandgerði, Rif, Tálknafjörð. Og það þurfti ekki neitt að ganga að því gruflandi, staðirnir voru allir miðaðir við, að fiskurinn væri sá nýjasti, sem yfirleitt er hægt að fá, að á þessum stöðum mundi verða hraðfrystihús, hvert um sig það fullkomnasta, sem til væri í veröldinni, þar sem ynnu 1–2 þús. manns a.m.k. á vaktaskiptum. Ég sagði þá og var þá að gefa lýsingu á, hve slæma reynslu okkar íslenzku kapítalistar hafa af sínum tækjum, sínum atvinnutækjum, og ég sagði þá um leið: Við vitum það, að þessir hringar, sem kæmu hér inn þá, mundu bæði gefa hærra verð fyrir fiskinn og borga hærra kaup, en samt mundum við heldur vilja hafa okkar íslenzku kapítalista með allri þeirra vitleysu heldur en fá þessa hringa, af því að við vissum, að þegar þessir hringar væru komnir hér inn, væri okkar efnahagslega sjálfstæði glatað. En þetta þýðir ekki það, að við ættum að láta íslenzka kapítalista komast upp með hvaða vitleysu sem er að eilífu. Þetta þýðir það, að við reynum að kenna þeim, eins og við kenndum þeim að kaupa togara, olíutogara hér á árunum, þegar þeir vildu kaupa kolatogara, kaupa togara strax, þegar þeir vildu bíða, — að við reynum að kenna þeim, að þeir verði að reyna að skipuleggja sinn atvinnurekstur betur, og við látum þeim ekki haldast uppi að stela bara úr vasa verkamanna og stela bara úr bönkunum, sem þeir eru að gera með verðbólgunni. Það er vonandi öllum ljóst, að það er beinn þjófnaður, sem þarna er um að ræða, en hann er bara fínn, af því að hann er gerður með lögum, bankarnir rændir með lögum, kaupgjaldinu rænt úr vasa verkafólksins með lögum. Þetta þýðir, að ef ein ríkisstj. hefur einhverja ábyrgðartilfinningu fyrir íslenzku atvinnulífi, þá verður hún að setja sér það að skapa aðhald gagnvart atvinnurekendunum. Látum vera, hvernig ríkisstj. hugsar gagnvart verkalýðnum. Verkalýðurinn mun reyna að svara fyrir sig, og ríkisstj. uppsker þá stjórnarkreppu, stéttabaráttu og stríð, þegar hún sáir með ráni. En gagnvart kapítalistunum á hún að sýna aðhald líka. Það er bezt fyrir þá, svo að þeir haldi ekki áfram með alla sína vitleysu.

Fiskur á helzt ekki að koma á bíl, fiskur á að fara beint úr bátnum upp í hraðfrystihúsið. Það er nógu slæmt að draslast með hann hringinn í kringum alla Reykjavík. Það er líka slæmt að draslast með hann úr Grindavík inn í Hafnarfjörð. Það verður að vera einhver skipulagning í þessu öllu saman. Það verður að vera skipulagt, hvernig þetta á að vera. Það er ekki til neins að tala um að skipuleggja vinnu innan einnar verksmiðju og ætla bara að pína sem mesta vinnu út úr verkakonum. Það verður að skipuleggja vinnuna í þjóðfélaginu, skipuleggja verksmiðjurnar, hvernig þær eigi að vera, láta ekki einn og einn atvinnurekanda ráða því: Mig langar til að byggja hraðfrystihús, ég slæ lán í bönkunum, og ég byggi t.d. hraðfrystihús í Kópavogi, eins og einnig hefur verið gert. — Þetta getur ekki gengið. Ef Ísland á að standa sig í samkeppni í heiminum, verður að skipuleggja atvinnulífið á Íslandi almennilega. Og þessi orð ætti raunverulega einhver stórkapítalisti að segja, en ekki ég. Það er hart, að það skuli ekki vera það framsýnir menn til í stétt annaðhvort hraðfrystihúseigenda eða íslenzkra auðmanna, að þeir hafi vit á að segja slíkt við sína eigin stétt. Það er hart, að við fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar þurfum að koma til þessara manna ár eftir ár og áratug eftir áratug til að kenna þeim, hvernig eigi að stjórna íslenzku atvinnulífi.

Menn hafa talað um hagræðingu vinnunnar. Það þarf hagræðingu atvinnulífsins hérna á Íslandi og það af einhverju viti. En ég tek það fram aftur, sem ég tók fram áðan, þetta gildir fyrst og fremst um svæðið hér við Faxaflóa, sem er líka við gullkistuna hér. Það gegnir allt öðru máli úti um allt Ísland, þar sem menn eru í sinni sjálfsbjargarviðleitni að halda lífinu í sér og sínum með því að gera út. Þar gilda önnur lögmál í þessu efni en hér við Faxaflóa, þar sem þau harðvítugu lögmál þess kapítalistíska atvinnulífs gilda. Þar verða menn líka að fara eftir þeim lögmálum. Þau lögmál heimta stærri rekstur, stórrekstur, þróun og skynsamlega verkaskiptingu, ekki aðeins innan hverrar verksmiðju, heldur líka í atvinnulífinu í heild. Það er umskipulagning hraðfrystihúsanna, sem er nauðsynleg hérna, en ekki að henda í þau peningum miskunnarlaust.

Það er mjög leitt til þess að vita, að íslenzkir atvinnurekendur skuli aldrei hafa getað staðið á eigin fótum. Hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir, þegar hún kom til valda, að hún ætlaði að láta þá standa á eigin fótum. En sýnt er, að þeir geta það ekki. Þeir hafa ekki getað það, en það verður að reyna þó að kenna þeim það, eftir því sem hægt er. Og það, sem eru hin stóru vandræði í þessu frv., er, að hún elur upp sömu vitleysuna, sem fyrir er, í staðinn fyrir að skapa þarna almennilega umskipulagningu.

Svo skal ég láta staðar numið um þetta atriði og ekki fara heldur inn á þau atriði, sem þeir félagar mínir, sem hér hafa talað, hafa gert svo rækileg skil, að ég þarf þar engu við að bæta, en aðeins í sambandi við 6. gr. vildi ég segja nokkur orð.

6. gr. er þingræðislegt hneyksli. Maður þekkti að vísu svona greinar fyrir 24 árum hérna á Alþingi. Þá var svona grein nokkurn veginn algeng. Þá var hún samt þannig, það voru krepputímar, það voru atvinnuleysistímar, og þá var stundum bætt við, ýmist í fjárl. sjálf eða í einn bandorm, sem stundum kom þá nokkru seinna, grein, sem hljóðaði eitthvað á þá leið, að ef óviðráðanlegar ástæður gerðu það óhjákvæmilegt, megi skera niður t.d. um 10% eða eitthvað slíkt ákveðna liði á fjárlögum. Eitthvað á þessa leið var venjulega farið í þetta. Þetta var sérkennilegt kreppufyrirbrigði. Venjulega stafaði það af því, að fjárhagur ríkissjóðs var svo slæmur, að hann hafði ekki nóga peninga til að borga það, sem hann þurfti, m.a. jafnvel til að halda vegavinnunni gangandi allt sumarið út í gegn, svo að það er nú heldur óhugnanlegt fyrir mann, sem er búinn að lifa þetta á krepputímanum, að fá þennan fjanda framan í sig núna og það frá stjórn, sem hælir sér af því, að það sé nú sízt hætta á, að nokkurt atvinnuleysi, kreppa eða nokkuð slíkt geti dunið yfir. En það er annað, sem er enn þá verra við þetta. Og það er, að þessi grein er alveg takmarkalaus. Hún ber vott um, hvað íslenzku þingræði hefur hnignað á síðustu 25 árum. Hún ber vott um, hvað ein ríkisstj, þykist geta leyft sér núna gagnvart Alþ., sem engri ríkisstj. datt í hug að leyfa sér fyrir 25 árum. Þá hefði ríkisstj. tekið nákvæmlega til, að hún óskaði eftir leyfi til þess, ef óviðráðanlegar ástæður knúðu það fram, að hún mætti skera niður um 10% eða eitthvað þess háttar, það væri mjög takmarkað og alveg ákveðnir liðir. Nú er bara komið og sagt: Við viljum fá að skera niður rétt eins og okkur þóknast. Við viljum gjarnan fá að skera niður verklegar framkvæmdir, t.d. í kjördæmum, þar sem andstæðingarnir eru sterkir, þótt þær haldist í hinum. Eða: Við viljum fá að skera niður á þessu sviðinu og sleppa því að skera niður á hinu. Þetta er algert gerræði. Slíkt eiga menn ekki að leyfa sér að bera fram.

Mér finnst hart, að það skuli vera nauðsynlegt að minna á, að það er grundvöllur þingræðis, að Alþingi og hvaða þing í Evrópu sem vera skal vill ráða fjárveitingavaldinu gagnvart ríkisstj., og þingræðið er myndað í baráttu, harðri baráttu, stundum vopnaðri og blóðugri baráttu við konungsvald og hans ríkisstj., um það, að þingið, í hvaða landi sem það er, ráði fjármálunum, ráði fjárveitingavaldinu. Þetta er aðalatriðið. Franska byltingin, tilefnið er meðferðin á fjármálunum, að ráða fjárveitingavaldinu. M.ö.o.: einmitt þetta vald, valdið yfir fjárveitingunum, er hornsteinninn í þingræðinu. Það er í raun og veru alveg óþarfi að vera að hafa þing, ef við erum að samþykkja svona greinar, því að þetta er sama sem að segja við eina ríkisstj.: Hagið þið þessu bara eins og þið viljið. Við samþykkjum nú einhver fjárlög, en blessaðir, þið hafið það rétt eins og ykkur þóknast.

Þetta er ekki hægt. Slíkt eiga menn ekki að leyfa sér að bera fram.

Það hefur farið mjög versnandi með allt, sem heitir þingræði hjá okkur, mjög versnandi. Flokksræðið er að kæfa það. Sameining valdsins á hendur örfárra manna í flokkum og þá sérstaklega þeim flokkum, sem á hverjum tíma hafa ríkisvaldið, er að verða algert fámennisvald í þjóðfélaginu, sem er hætt að taka tillit til Alþ. sem slíks. Þetta er stórhætta, og sérstaklega vil ég biðja þá, sem nota orðið lýðræði, jafnvel líka þingræði, í annarri hverri ræðu, sem þeir halda, þótt það liggi nú stundum við, að þeir leggi guðs nafn við hégóma með því, að athuga ofur lítið, því að þetta hvort tveggja er meira en orð, meira en hræsni til að nota í blöðum og slíta svo út, að það væri orðið væmið að minnast á það. Lýðræði og þingræði eru hlutir, sem menn hafa barizt fyrir og fórnað lífinu fyrir, og það á ekki með tómu skeytingarleysi og ábyrgðarleysi smám saman að drepa niður, skapa slíkt andvaraleysi gagnvart þessu, að þetta svo að segja renni út úr höndunum á okkur, eins og það hefur gert. Og bara síðan þetta frv. var lagt fyrir, voru ofur litlar breytingar gerðar í dag. Þetta er gert helmingi verra en það var, og var það slæmt fyrir. Þessi 6. gr. byrjaði svona fyrir 2. umr., með leyfi hæstv. forseta: „Ef atvinnuástandið í landinu eða fjárhagur ríkissjóðs gerir það nauðsynlegt, þá er það heimilt.“ M.ö.o.: ef atvinnuástandið í landinu, ef fjárhagur ríkissjóðs gerir það nauðsynlegt, — það var þó sleginn ofur lítill varnagli hjá mönnunum, sem sömdu þetta. Þó að þeir væru að sökkva niður þarna í skeytingarleysið um þingræðið og fjárveitingavald Alþingis, þá lýsti enn þá ofur lítill neisti í dag kl. hálftvö. Og svo kom brtt. og hljóðar svona: „Ríkisstj. skal leita samstarfs við lánastofnanir, sjóði, sveitarstjórnir og einkaaðila um að halda fjárfestingarframkvæmdum á árinu 1964 innan hóflegra takmarka, og er í því skyni heimilt að fresta til ársins 1965 verklegum framkvæmdum“ o.s.frv.

M.ö.o.: gr. er gersamlega kollvelt frá því að segja með ofur litlum tætlum af kurteisi gagnvart Alþ. sem fjárveitingavaldinu enn þá: Ef atvinnuástandið í landinu gerir það nauðsynlegt, — ef það gerir það, því er ekki slegið föstu, að það geri það. Nei, með 6. gr., eins og hún var kl. 1½ í dag, vildi ríkisstj. meina: Það kann að fara svo. — Enn þá var ofur lítið reynt að hneigja sig fyrir Alþ. Það kann að fara svo, að ég neyðist því miður til þess að skera niður eitthvað á fjárl., og þá er beðið um heimild til þess, ef atvinnuástandið í landinu, ef fjárhagur ríkissjóðs gerir það nauðsynlegt. Þarna var þó ofur lítill fyrirvari. Ef þorskurinn bregzt eða síldin bregzt og illa fer í ár, þá gátu margir skilið, að fjárhagur ríkisins hefði e.t.v. gert eitthvað slíkt nauðsynlegt. Þá var þó þetta pínulitla eftir af virðingunni fyrir þinginu. En hvað er þá 6. gr. núna? Hún er fyrirskipuð. Um hvað er hún fyrirskipuð? Ríkisstj. skal leita samstarfs við lánastofnanir, sjóði, sveitarstjórnir og einkaaðila um að halda fjárfestingarframkvæmdum á árinu 1964 innan hóflegra takmarka. M.ö.o.: nú er komin fyrirskipun, fyrirskipun til bankanna, fyrirskipun til sveitarfélaganna, fyrirskipun til einkaaðila í landinu, því að það er minnstur vandinn að ráða við þá gegnum bankana: Þið skuluð fara að draga úr framkvæmdum. — Það var ekki orð um það í dag kl. hálftvö í 6. gr., að ríkisstj. ætti að ganga út um borg og bý og prédika: Dragið úr framkvæmdum, dragið úr framkvæmdum. — En það kom inn núna. Það kom inn nú. Nú á að fara að skipuleggja atvinnuleysið, hóflegt atvinnuleysi vafalaust, nei, ekki almennt atvinnuleysi, bara hóflegt atvinnuleysi. Og því er skellt inn á eftir, og allur fyrirvari, sem ríkisstj. hafði enn þá kl. hálftvö, tekinn burt. Atvinnuástandið í landinu þarf ekkert að versna, fjárhagur ríkisins þarf ekki að versna. Nei, eins og fjárhagurinn er í dag, eins og atvinnuástandið er í dag, skal ríkisstj. hafa heimild til að skera niður. Og hún skal gera meira, hún skal fara í atvinnurekendurna og reka þá til þess að skera niður, stöðva þá. En hún skal halda verðbólgunni áfram um leið samkv. hinum gr. Þetta er hreint brjálæði. Svona haga menn sér ekki. Svona reka menn ekki efnahagspólitík.

Það var gert grín að stjórnarandstöðunni fyrir síðustu kosningar, að hún hefði haldið, að það mundi verða atvinnuleysi, þegar þessi ríkisstj. tók upphaflega við völdum. Og það var nú eitthvað annað en það yrði atvinnuleysi. Það var rétt hjá stjórnarandstöðunni, það sem hún sagði í upphafi. Pólitík ríkisstj. miðaði að því að skapa atvinnuleysi í landinu. Ríkisstj. réð hins vegar ekki við síldina. Það er ekki í fyrsta skipti, sem síldin eyðileggur pólitík einnar ríkisstj. Ríkisstj. réð ekki við tæknina, hún réð ekki við miðunarstöðvarnar, hún réð ekki við nýju veiðitæknina. Nei, síldin kom þarna askvaðandi og eyðilagði alla slíka pólitík og hefur haldið þessu áfram, stjórnin hefur engan frið fyrir henni, hún eyðilagði allt atvinnuleysi, það var ómögulegt að koma því á. En 6. gr., eins og hún er eftir kl. 3 í dag, á að gera smátilraun til þess, hvort það sé ekki hægt að komast eitthvað í áttina. Það er verið að fikra sig áfram. Að ríkisstj. sjálf dragi eitthvað ofurlítið úr, jú, það gat verið ýmislegt skynsamlegt í því. Það er ekki skynsamlegt endilega að fara að byggja Hallgrímskirkju á þeim tíma, sem allir eru uppteknir við miklu nauðsynlegri störf. Það gat vel verið eðlilegt að gefa ríkisstj. heimild til þess að láta Hallgrímskirkju bíða. En að bæta því inn í, þegar ríkisstj. ekki aðeins fer að skera niður hjá sjálfri sér, heldur líka gangast fyrir því, að bankarnir láti einkaatvinnurekendurna fara að skera niður hjá sér, þá er auðséð, hvert er stefnt. Maður fer að kannast við gömlu bandormana aftur í sinni mynd og kannast við afkvæmi þeirra á stundum, þar sem þeir sköpuðust upp af kreppu og atvinnuleysi. Hins vegar skal nú anzi mikið til að koma því á á Íslandi. Það er nefnilega einn hlutur, sem ekki hefur tekizt að eyðileggja enn þá, sem stundum skapaði kreppu- og atvinnuleysi í gamla daga, og það eru markaðirnir. Það átti að vísu að gera það, en það tókst ekki. Og þess vegna verður nokkuð erfitt að ætla að koma slíku á á Íslandi.

En ég vil vekja athygli og undirstrika þessar herfilegu breytingar, sem orðið hafa á 6. gr. 6. gr. er þingræðislegt hneyksli. Hún er móðgun gagnvart Alþ. Það er ekki hægt að bjóða mönnum slíkt. Það er búið að samþykkja fjárl., og þau eru aðaltilgangur Alþingis og grundvöllurinn að þess valdi. Þess vegna var það mjög leitt, að hæstv. ríkisstj. skyldi fara þannig að, gera sig seka um þá ósvinnu, sem þessi gr. er. Það var reynt í dag að koma í veg fyrir þessa gr., en tókst ekki. Það er vafalaust ekki tími til þess að koma fram með till. nú um að fella hana niður. Sú till. var felld í dag og ekki einu sinni leyfilegt að koma með hana þannig. Ég veit ekki, hvort hægt er að setja nokkurt traust á Ed., að hún kunni að hafa vit fyrir, en það verða þá kannske einhverjir aðrir utan þingsins. Það eru þó 50 millj., sem ríkisstj. er búin að gangast inn á að borga milli 1. og 2. umr. til sjómanna, 6%. Kannske milli umr. í Ed. bætist við önnur 6%, kannske atvinnurekendur verði loksins látnir fara að borga eitthvað sjálfir og kannske þá meira að segja einhverjir í stjórnarherbúðunum sjálfum fari nú að ranka við sér um það, að svona, eins og gert er með 6. gr., er ekki hægt að afgreiða lög frá Alþingi.