26.01.1964
Neðri deild: 47. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þær umr., sem hér hafa orðið út af því frv. til aðstoðar við sjávarútveginn, sem hér hefur verið til umr. undanfarna daga. Erindi mitt upp í ræðustólinn að þessu sinni er það eitt að mæla fyrir tveim brtt., sem ég leyfi mér að flytja við frv., en þar sem þær eru seint fram komnar, þarf að leita afbrigða fyrir þeim.

Áður en ég byrja að mæla fyrir þeim, langar mig þó lítillega til þess að vekja athygli hv. alþm. á því, sem raunar hefur ítrekað komið fram í umr., að með þeim boðskap, sem frv. ríkisstj. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins flytur, er ríkisstj. óneitanlega a.ð ganga gegn öllum þeim stefnumálum, sem hún hét að framfylgja í upphafi stjórnartímabilsins á árinu 1960. Ég fæ ekki betur séð en með frv. þessu og raunar ýmsu öðru, sem áður hefur gerzt á valdatímabili hæstv. núv. ríkisstj., hafi hún verið í sívaxandi mæli að feta inn á hið illræmda uppbótakerfi og niðurgreiðslukerfi, sem hún taldi vera stærstu syndir þeirrar ríkisstj., sem ríkti hér á árunum 1956–1958. Það má því segja um núv. hæstv. ríkisstj., að það, sem helzt hún varast vann, varð þó að koma yfir hana, og ég vil lýsa því yfir sem minni skoðun, að það sé ábyrgðarhlutur hjá hæstv. ríkisstjórn, sem svo sannarlega hefur glatað verulega trausti almennings í landinu og er sífellt að hopa, að ætla sér þá dul að sitja lengur ráðalaus við völd. Og ég hygg, að mesti greiði, sem hún gæti gert þjóðinni, væri sá að segja sem allra fyrst af sér.

Þær brtt., sem ég flyt við frv. við ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, eru svo hljóðandi:

Sú fyrri er þannig: „Á eftir orðinu: „freðfiski“ í 1. tölulið 1. mgr. 3. gr. komi: „af saltaðri og sérverkaðri síld.“ Efnislega þýðir þetta, að útflutningsgjald af saltaðri og sérverkaðri síld skuli lækka úr 6% í 4.2% , svo sem það er á saltfiski, skreið og freðfiski. Ég vil geta lítillega ástæðnanna fyrir því, að ég flyt þessa brtt., og vil þá sérstaklega ræða um Suðurlandssíldina, sem býr við nokkra sérstöðu í þessu efni.

Eins og menn vita, sem til þessa atvinnuvegar þekkja eitthvað, á Suðurvesturlandssíldin nú í sérstaklega harðri samkeppni um markaði í Vestur-Evrópu við Norðursjávarsíldina, sem á undanförnu ári hefur veiðzt í mjög miklu magni. Íslendingar búa að ýmsu leyti við mjög erfiða samkeppnisaðstöðu um þessa framleiðslu við Norðursjávarframleiðsluna. Ég vil nefna nokkur dæmi, sem ég hef úr grein, sem skrifuð var í dagblaðið Vísi af framkvæmdastjóra síldarútvegsnefndar í Reykjavík, Gunnari Flóvenz, en þar getur hann um 4 atriði, er sýna greinilega, við hvers konar erfiðleika er að etja á Vestur-Evrópumörkuðunum fyrir framleiðendur Suðvesturlandssíldarinnar. Í fyrsta lagi nefnir framkvstj. það, að Íslendingar þurfa að greiða af þessari framleiðslu um 350 kr. innflutningsgjald af hverri sérverkaðri flaktunnu. í öðru lagi nefnir hann það, að Íslendingar verði að greiða af þessari framleiðslu 85 kr. í útflutningsgjald. Í þriðja lagi þurfa þeir að greiða 95 kr. flutningskostnað inn á þennan markað. Og í fjórða og síðasta lagi greiða þeir um 200 kr. í umbúðakostnað, þ.e.a.s. tunnuverð. Samanlagður kostnaður þessi nemur um 730 kr., sem Íslendingar þurfa að greiða af þessari framleiðslu umfram Vestur-Þjóðverja og Hollendinga og fleiri, sem veiða síld í stórum stíl í Norðursjónum og selja á þessa gömlu markaði. Þessar 730 kr., sem Íslendingar þannig verða að greiða, eru um helmingur þess verðs, sem nú fæst fyrir saltsíldina á þessum mörkuðum. En það var í desembermánuði, ef ég man rétt, um 1400 kr. á tunnu. Til viðbótar þessu vil ég taka fram, að verð þetta er nú fallandi enn þá vegna áframhaldandi mikillar veiði í Norðursjónum. Ég veit, að þó að gegni ekki nákvæmlega sama máli um þá síld, sem veidd er fyrir Norður- og Austurlandi, af þeirri ástæðu fyrst og fremst, að hún er í sérflokki hvað gæði snertir og býr ekki við sömu samkeppnisaðstöðu á sínum mörkuðum við útlenda framleiðslu, þá hygg ég samt, að það sé í fyllsta máta réttlætanlegt og eðlilegt, að lækkun útflutningsgjaldsins komi einnig til góða framleiðendum þessarar síldar og sjómönnum, sem veiða hana.

Önnur brtt. mín hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Við bráðabirgðaákvæði. Á eftir b-lið komi nýr stafl., svo hljóðandi: Ríkisstj. skal láta fara fram endurskoðun á ákvæðum 3. gr. um útflutningsgjald. Skal endurskoðunin við það miðuð að breyta gjaldinu þannig, að það verði miðað við þunga útfluttra sjávarafurða í stað verðmætis og jafnframt lækkað verulega. Þessari endurskoðun skal lokið það snemma, að unnt verði að leggja fram frv. um þetta efni í upphafi næsta þings.“

Þessi brtt. er flutt til þess að reyna að stöðva þá öfugþróun, sem hið háa útflutningsgjald hefur í vinnslu og framleiðslu sjávarafurða. Gjaldið er, eins og hv. þm. eflaust vita, miðað við fob.-verðmæti, og þegar það er orðið eins hátt og raun ber vitni og þegar það jafnframt er miðað við verðmæti, þá vinnur gjald þetta í bókstaflegum skilningi gegn því, að Íslendingar reyni að fullvinna hráefni sjávaraflans í landinu. Það er hvatning til útflytjenda og framleiðenda að flytja sjávaraflann út sem mest óunninn til þess að þurfa ekki að greiða eins hátt útflutningsgjald af honum og þeir þyrftu ella að gera, ef hráefnið væri unnið í landinu. Allir hljóta að sjá, að það er hvorki réttlæti í þessari stefnu né nokkurt vit. Við þurfum að einbeita okkur á komandi árum að því að fullvinna sem mest sjávaraflann í landinu sjálfu og gera úr honum eins mikið verðmæti og frekast er unnt. Og þá má ekki óskynsamleg löggjöf verða til þess að hamla þessari framför. Af þessari ástæðu hef ég leyft mér að flytja þessa till. til breyt. á frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins.