19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í D-deild Alþingistíðinda. (3331)

804. mál, niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir um það bil tveimur árum tók til starfa á Siglufirði ný verksmiðja til niðurlagningar á síld á vegum síldarverksmiðja ríkisins. Framleiðslan gekk mjög vel frá upphafi og hin svokallaða Siglósíld varð strax mjög eftirsótt neyzluvara á innanlandsmarkaði. Miklar vonir voru bundnar við þessa verksmiðju, sérstaklega meðal almennings á Siglufirði, því að stöðug framleiðsla að vetrarlagi hefði getað gerbreytt atvinnuhorfum á staðnum, sem hafa verið heldur slæmar. Reyndar má segja, að víða á Norður- og Austurlandi hafi menn horft vonaraugum á þetta nýja fyrirtæki, því að allt mælir með því, að niðurlagning á síld geti orðið framtíðaratvinnuvegur fyrir marga smærri staði. sem litla atvinnu hafa að vetrinum.

En þessi verksmiðja hafði ekki starfað nema eitt ár, þegar öll framleiðsla var stöðvuð. Þegar þetta gerðist, eða seinni partinn í fyrravetur, kvaddi Gunnar Jóhannsson sér hljóðs utan dagskrár hér í þinginu og spurðist fyrir um, hverju þetta sætti. Sagðist hann að vísu vita það, að illa hefði gengið að selja framleiðsluna á erlendum mörkuðum, en það væri ekki nema að nokkru leyti eðlilegt, þar sem algerlega hefði skort rekstrarfé til að hefja söluherferð erlendis, og jafnframt minnti hann á, að Siglósíldin hefði alls staðar fengið mjög góða dóma fyrir gæði erlendis, þar sem hún hefði verið á boðstólum til reynslu.

Hæstv. sjútvmrh. svaraði þessari fsp. Gunnars Jóhannssonar hér í þinginu og sagðist því miður ekki geta lagt neitt til málanna að sinni, þar sem hann þekkti ekki til málsins og sér hefði ekki verið kunnugt um, að verksmiðjunni hefði verið lokað. En jafnframt hét hann því að kynna sér málið og athuga, hvað væri unnt að gera.

Það er skemmst af því að segja, að síðan þessar umr. fóru fram hér í þinginu, hefur niðurlagningarverksmiðjan á Siglufirði svo til ekkert starfað. Í sumar var engin síld söltuð fyrir verksmiðjuna á Siglufirði, en í haust voru keyptar nokkur hundruð tunnur austur á fjörðum fyrir verksmiðjuna, og mun það vera nokkurra daga verk að vinna úr þeirri síld, og er eitthvað byrjað á því, að því er ég held. Niðurlagningarverksmiðjan hefur hins vegar legið með allmikið af óseldum dósum frá fyrra ári, og virðist ekki hafa verið talin ástæða til að hefja starfrækslu á ný, fyrr en markaður væri fundinn fyrir framleiðsluna. Verðmæti hinnar óseldu framleiðslu er tæplega 11/2 millj. kr., og verður að fleygja öllum þessum verðmætum í sjóinn, ef ekki tekst að selja vöruna núna alveg á næstu mánuðum.

Nú gerðist það í vetur, að Austur-Þjóðverjar buðust til þess að kaupa allar óseldar birgðir, sem verksmiðjan liggur nú með, á fullu verði. Þessu tilboði fylgdi aðeins eitt skilyrði, að Þjóðverjum yrðu útveguð nokkur hundruð tonn af síldarmjöli, sem þá vanhagaði mjög um. Ég þarf varla að taka það fram, að þegar þessi tíðindi spurðust til Siglufjarðar, vöktu þau ósvikna gleði. Bæjarstjórn Siglufjarðar samþykkti einróma að skora á stjórn síldarverksmiðjanna að semja á þessum grundvelli og reyna jafnframt að tryggja markað fyrir niðurlagða síld í Austur-Þýzkalandi til frambúðar.

Stjórn síldarverksmiðja ríkisins samþykkti einnig samhljóða að selja Þjóðverjum síldina og útvega þeim 500 tonn af síldarmjöll. Nú fyndist manni, að fátt væri eftir, svo að samningar gætu tekizt, enda mun það vera staðreynd, að Austur-Þjóðverjar láta sér nægja þessi umtöluðu 500 tonn, sem þeim er nú boðið upp á að kaupa. En enn þá hefur ekkert orðið af samningum, og því er spurt, eins og gert er með seinni fsp. á þskj. 239, lið 1 og 2, sem sagt í fyrsta lagi: „Hvað líður sölu á framleiðslu niðurlagningarverksmiðjunnar?“ Og í öðru lagi: „Hefur ríkisstj. verið fús til að aðstoða við sölu á þessari síld, t.d. með því að tengja slíka sölu við önnur verzlunarviðskipti?“

Eins og kunnugt er, fer verzlun okkar við Austur-Þjóðverja fram fyrst og fremst með vöruviðskiptum. Það er því ljóst, að Íslendingar verða að kaupa austur-þýzkar vörur í stað þess, sem selt er. Nú er mér að vísu kunnugt um það, að ríkisstj. hefur lítið gert til þess að örva viðskipti okkar við Austur-Þjóðverja, enda hefur stórlega dregið úr innkaupum okkar þaðan seinni árin. En bágt á ég með að trúa því að óreyndu, að hæstv. ríkisstj. standi bókstaflega sagt í vegi fyrir þessari sölu, þegar ljóst er, að svo mikil verðmæti eru í húfi.

Um þessar mundir hafa Siglfirðingar, eins og mörg önnur byggðarlög, hug á því að kaupa nokkra fiskibáta erlendis frá til að örva atvinnulífið heima fyrir. Mér er kunnugt um, að meðal þeirra, sem til þekkja, eru austur-þýzkir bátar í mjög miklu áliti, bæði meðal útgerðarmanna og annarra, sem til þekkja. Áreiðanlega þættu mörgum það glæpsamleg vinnubrögð, ef milljónaverðmætum, sem nota má til að greiða upp í verð þessara báta, væri kastað í sjóinn eins og nú horfir, eftir 1—2 mánuði.

Þriðja spurningin, sem ég hef hér lagt fyrir ríkisstj., fjallar um starfrækslu og stjórn niðurlagningarverksmiðjunnar í framtiðinni. Þeir, sem þetta mál þekkja, munu flestir vera sammála um, að gæfulegasta fyrirkomulagið í framtiðinni á þessari stjórn sé það, að niðurlagningarverksmiðjan verði sett undir sérstaka stjórn, henni verði veitt sérstök fjárveiting úr ríkissjóði til tilrauna- og auglýsingastarfsemi, þannig að verksmiðjan eigi þess kost að brjótast fram úr byrjunarörðugleikunum.

Siglóverksmiðjan hefur fram að þessu verið rekin á vegum stjórnar síldarverksmiðja ríkisins. Full ástæða er til að ætla, að sérstök stjórn fyrir verksmiðjuna mundi betur geta einbeitt sér að því verkefni að brjótast inn á erlenda síldarmarkaði og laga sig að óskum og vilja erlendra neytenda, enda væri óhjákvæmilegt, að stjórn verksmiðjunnar fengi ríflega fjárveitingu í nokkur ár, t.d. 2 millj. á ári, til þess að vinna slíkt brautryðjendastarf fyrir íslenzkan síldariðnað. Ég vil skjóta því hér inn, að þetta sjónarmið er reyndar nákvæmlega hið sama og fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., Jóni Kjartanssyni, þar sem hann benti á, að þetta væri einmitt nauðsynin, ef unnt ætti að vera að byggja upp síldariðnað á Siglufirði. Stjórn síldarverksmiðja ríkisins mun hafa fullan skilning á þessum málum, og hún hefur þegar ritað sjútvmrh. bréf og farið fram á, að þetta verði gert, að Siglóverksmiðjan verði sett undir sérstaka stjórn. Mér er ekki kunnugt um, að í stjórn síldarverksmiðjanna hafi verið neinn ágreiningur um þetta atriði. Nú er nauðsynlegt að fá að vita, hver eru svör hæstv. ráðh., og sem sagt, hvort hann er reiðubúinn að láta undirbúa sérstaka löggjöf um síldariðnað ríkisins, enda virðist það sjálfgefið, að hin nýja stjórn niðurlagningarverksmiðjunnar mundi einnig hafa forgöngu um uppbyggingu síldariðnaðar víðar í bæjum og þorpum á Norður- og Austurlandi. í þessari þriðju spurningu felst að sjálfsögðu einnig það, hvaða aðrar ráðstafanir hæstv, ráðh. hyggst gera, til þess að starfræksla niðurlagningarverksmiðjunnar geti hafizt að nýju.