19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í D-deild Alþingistíðinda. (3334)

804. mál, niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mig langar að nota rétt minn til þess að segja fáein orð í þessu sambandi, af því að ég er í stjórn síldarverksmiðja ríkisins og hef þar af leiðandi fylgzt með þessu máli frá byrjun.

Hér er um tilraun að ræða. og sú tilraun hefur sýnt, að það er hægt að framleiða hér góða vöru, niðurlagða síld, sem jafnast á við það, sem bezt er annars staðar, og líka hægt að framleiða hana með sambærilegu verði. Það er sýnilegt af þeim verðreikningum, sem gerðir hafa verið á vegum verksmiðjunnar, og tilraunum, að ef umbúðamálunum er komið í fullkomið lag, þá er hægt að bjóða þessa vöru með samkeppnisfæru verði. Þetta liggur nú orðið fyrir og er út af fyrir sig nokkuð merkilegur árangur af því, sem gert hefur verið.

Á hinn bóginn vil ég taka undir það með þeim. sem flytur þessa fsp., að sölutilraunir hafa ekki nema að sáralitlu leyti komizt í framkvæmd. Það er mín skoðun. Og þess vegna kemur ekki til mála að hætta við þetta mál, eins og það stendur nú, heldur verður að fara að á þá lund. sem síldarverksmiðjustjórnin hefur lagt til: Í fyrsta lagt að setja þessu fyrirtæki sérstaka stjórn, og það er í raun og veru aðalatriðið, því að síldarverksmiðjustjórn ríkisins hefur enga aðstöðu, innan um allt, sem hún hefur að gera, til að sinna þessu mikla verkefni eins og þarf, því að þótt hér sé ekki framleitt mikið magn, þá á Ísland meira undir því en ýmsu öðru, hvernig tekst að selja, vegna þess að hér er um svo þýðingarmikla byrjun að ræða. Þess vegna á þetta ekki að vera aukaverk á vegum þeirra, sem eru önnum kafnir við annað, eins og framkvæmdastjóri síldarverksmiðja ríkisins og stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Það á því einmitt strax á þessu stigi að setja fyrirtækinu sérstaka stjórn, eins og stjórn síldarverksmiðja ríkisins sjálf hefur lagt til. Ég hygg það misskilning hæstv. ráðh., að það sé ekki áhugamál stjórnar síldarverksmiðjanna, að þetta sé gert, a.m.k. er það mjög mikið áhugamál mitt, að þetta verði gert, eftir þá reynslu, sem ég hef af þessum málum.

Það hefur verið reynt að fá íslenzk fyrirtæki, sem flytja út vörur, til þess að selja þessa vöru, og sum af þeim hafa reynt það, en með sáralitlum árangri. Önnur hafa færzt undan að reyna.

Það er ekki fyrir það; að varan sé ekki góð, að því er sagt er, eða verðið of hátt, heldur fyrir hitt, að á markaðinum er mikið af góðri vöru með sambærilegu verði, en sjálfsagt ekkert betri vörur og ekki heldur með betra verði. En það er þægilegra fyrir þá, sem fást við þessi mál erlendis, að hafa á boðstólum þekkt merki, sem fólkið spyr eftir, en að taka að sér nýtt.

Þess vegna er augljóst mál, að það verður að eyða miklu fé, a.m.k. milljónum, ef á að verða nokkur minnsta von til þess að brjótast í gegn með algerlega nýja vöru, þó að hún sé jafngóð og sú, sem fyrir er. Þetta verða menn að gera sér ljóst. Menn verða að leggja 10—20 millj. fram alveg kalt og rólega, ef þess þarf, til þess að hægt sé að koma við öllum þeim sölutilraunum, sem duglegir menn geta fundið upp og skynsamlegar teljast.

En síldarverksmiðjustjórnin hefur sem sagt lagt til, að það verði sett sérstök stjórn fyrir fyrirtækið og að það verði veitt aukið fjármagn til fyrirtækisins, nokkurt fjármagn í rekstrarfé og sérstaklega til að standa undir markaðsleitinni.

Hitt vil ég svo taka undir, sem hæstv. ráðh. sagði, að það þýðir ekki að framleiða mikið magn á lager og hafa ekki hugmynd um, hvernig menn geta selt það. Það verða að fara saman tilraunaframleiðsla og söluherferðir. En þá mega menn ekki heldur spara það fé, sem í þetta er lagt, svo að hvort tveggja geti átt sér stað, bæði nægileg tilraunaframleiðsla og herferðir í sölumennsku, þó að kosti talsvert fé.

Ég vil enn fremur segja frá því hér, að það hefur ekki tekizt að fá framkvæmdastjóra fyrir verksmiðjuna. Það hefur verið reynt á annað ár að fá framkvæmdastjóra fyrir þetta fyrirtæki, sem væri sérlega vel til þess fallinn að sjá um sölumennskuna, en það hefur ekki tekizt. Það hefur ekki verið hægt, að því er þeir segja, sem hafa í því staðið sérstaklega, ekki hægt að fá mann, sem vel hentaði í þetta. Og það er sannast að segja ekki skemmtilegt, að það skuli ekki einhver af þeim efnilegu, ungu og vel menntuðu mönnum, sem Íslendingar hafa á að skipa í skyldum greinum eins og þessum, gefa sig fram til að taka að sér slíkt starf, sem gæti verið vel launað. En við verðum að vona, að hægt verði að leysa þetta mál, að fá framkvæmdastjóra, sem gæti séð um söluherferðina, en framkvæmdastjóraleysið hefur valdið miklum erfiðleikum.

Sem sagt það, sem fyrir liggur að mínu viti og ég veit ekki betur en stjórn síldarverksmiðja ríkisins sé alveg sammála um, er að fá sérstaka stjórn fyrir fyrirtækið, sem getur helgað sig því mikilsverða verkefni að ryðja íslenzkri niðurlagningarvöru braut á erlendum markaði. Það má ekki vera hjáverk neinna, því að hér er mikið í húfi. Það hefur auðvitað verið algert hjáverk. Í annan stað þarf að fá fjármagn af ríkisins hendi til þess að standa undir þessari starfsemi. Þar er ekki um neitt gífurlegt fé að ræða. Það eru smámunir að leggja slíkt út í samanburði við það, sem getur fengizt í aðra hönd. í þriðja lagi þarf náttúrlega að brjótast í því að ná í skeleggan framkvæmdastjóra; því að framkvæmdastjórar síldarverksmiðja ríkisins, sem eru afbragðsmenn, telja sig ekki með neinu móti geta staðið að því í hjáverkum að vera framkvæmdastjórar fyrir fyrirtæki eins og þetta með öllu því, sem þeir hafa að gera, og geta menn ímyndað sér, hvort það er ekki rétt. (Forseti: Tíminn er búinn.) Tíminn er búinn, enda er ég líka búinn og vil segja aðeins að lokum varðandi söluna til austursvæðisins, að ég tel, að við ættum hiklaust að láta nokkuð af síldarmjöli, ef það gæti orðið til þess að opna þar einhvern markað fyrir vörur verksmiðjunnar.