19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í D-deild Alþingistíðinda. (3338)

804. mál, niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Björn Pálsson:

Herra forseti. Því hefur verið slegið fram hér, að síldarverðmæti mundu fimmfaldast við að leggja síldina niður. Ég held, að þetta sé dálítið fáránleg kenning, því að vitanlega geta aðrar þjóðir keypt saltsíld og lagt hana niður alveg eins og við, og það mótar markaðinn, en ekki þó að við setlum að margfalda með fimm. Það er ekki hægt að ganga fram hjá kostnaðinum við að gera þetta, bæði umbúðum og vinnu, þannig að ég held, að það þýði ekki að vera að blekkja sig á því. Við getum ekki búizt við að hafa meira upp úr því að verka síld á annan hátt en vinnulaunin, því að aðrar þjóðir hafa möguleika á að fá þetta hráefni og geta þá boðið það á svipuðu verði. Það þýðir ekkert að segja svona vitleysu, að þetta margfaldaðist allt. Við fáum fyrir okkar vinnu, og það er líka allt í lagi að fá það. Hitt er annað mál, að atvinnuástandið er þannig norðanlands, að það veitir sannarlega ekki af því að gera eitthvað til þess að bæta úr þeim vinnuskorti, sem er hjá vissum hluta fólksins yfir háveturinn, og það er stórmál út af fyrir sig, þó að við fáum ekkert annað en kaup handa þessu fólki við að breyta vörunni í verðmætara ástand.

Ég er alveg sammála hv. 1. þm. Austf. um, að það á að skipa sérstaka nefnd, en ekki vera að bæta þessu á verksmiðjustjórnina. Ég álít, að sú nefnd eigi ekki að vera eingöngu til að stjórna þessari verksmiðju, sem raunar er nú bara á tilraunastigi, heldur eigi þetta að vera fagmenn í verzlunarmálum og í iðnaðarmálum. Ég sé ekki, að það hafi verið gert neitt til að koma þessari vöru í verð erlendis. Það eru beðnir einhverjir menn um að reyna að selja, þetta er algert aukastarf fyrir þá, og þess vegna gengur hvorki né rekur. Það þarf að athuga, hvort ekki er hægt að komast í samband við erlenda menn, sem hafa bæði tæknikunnáttu og dreifingarkerfi, aðstöðu til að dreifa vörunni. Við hættum engu, þó að við reynum að semja við einhverja erlenda aðila um slíka hluti, sem þegar eru búnir að vinna sig inn á markaðinn. Ég hef heyrt, að slíkt sé í bruggi hér við Faxaflóa, ef það er ekki þegar byrjað. Því ættum við ekki að geta notað kunnáttu og verzlunaraðstöðu erlendra manna, ef þeir eru aðeins fáanlegir til þess að vinna með okkur? Það gæti á engan hátt verið hættulegt fyrir okkur. Það er ekki eðlilegt, að einstaklingar vilji leggja sina fjármuni í hættu til þess að hefja tilraunastarfsemi á þessu sviði. Það væri ekkert óeðlilegt, þó að ríkið kostaði einhverju til. Við skulum ekki vera að blekkja okkur á því, að við getum margfaldað verðmæti hráefnisins. Við getum ekki búizt við því. En ef þetta gæti orðið til þess að tryggja atvinnu og auka atvinnutekjur fólksins í þeim kauptúnum og bæjarfélögum, sem helzt þurfa þess með, þá er um stórmál að ræða, sem ég álit að alls ekki sé hægt að ganga fram hjá. Þess vegna á að skipa sérstaka nefnd til að vinna að þessum málum. Það eiga bæði að vera verzlunarmenn og fagmenn í síldariðnaði. Það borgar sig að hafa 3 manna nefnd til að rannsaka, hvað hægt er að gera í þessu. Það er ekki hægt að fara ýtarlega út í þetta nú, en ég álít, að hér sé um framtíðarmál að ræða og stórmál, ekki sízt fyrir þau kauptún, sem standa illa að vígi í atvinnumálum. Það má alls ekki dragast, að eitthvað sé gert. Hitt er annað mál, að Alþb.-menn eru alltaf viðkvæmir fyrir öllum verzlunarviðskiptum fyrir austan járntjald. Við höfum vitanlega engin efni á því að einangra okkur viðskiptalega. Annars skal ég ekkí leggja dóm á það, hvort tilvinnandi er að selja svona mikið síldarmél fyrir ekki meira magn af niðurlagðri síld. En það verður a.m.k. að athuga allar leiðir, sem færar eru, og ég hef mikla trú á því, að við getum aukið viðskipti okkar við Austur-Þýzkaland. Þeim mun tæknilega fara fram. Þeir hafa haft erfiða aðstöðu hingað til.