19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í D-deild Alþingistíðinda. (3339)

804. mál, niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli hv. þm. á setningu, sem kom fram í svari hæstv. ráðh. við þeirri fsp., sem hér er verið að ræða. Ég tók svo eftir, að hæstv. ráðh. segði, að eins og málin stæðu nú, teldi hann enga ástæðu til þess að skipa niðurlagningarverksmiðjunni á Siglufirði sérstaka stjórn, og vel mátti skilja ummæli hans þannig, að ríkisstj. sæi ekki heldur ástæðu til að leggja verksmiðjunni fé. eins og málin standa. Ég vil vekja athygli á því, að ef þetta er skilningur hæstv. ríkisstj. á þeirri tilraunastarfsemi, sem verið er að byrja norður á Siglufirði og var hafin í tíð sömu ríkisstj. og nú situr í dag, þýðir þessi boðskapur hvorki meira né minna en það, að niðurlagningarverksmiðjan á Siglufirði er dæmd til þess að deyja á næstu mánuðum og næstu árum, því að ég veít ekki, hvaða hugsun liggur að baki þess framferðis hjá ríkisstj., í fyrstunni á árinu 1960 að leyfa að reisa þessa verksmiðju og verja til byggingarinnar nokkrum millj. kr., en ætlast svo til þess, að sú framleiðsla, sem þarna er unnin, selji sig nánast sjálf, án þess að nokkrir sérstakir menn hafi þar um fjallað og án þess að þeir hafi nokkur fjárráð til þess að annast það nauðsynlega sölustarf, sem brýna nauðsyn ber til, til þess að koma vörunni á markaðinn.

Mér er það fyllilega ljóst, að saltsíldarmarkaðurinn er flest árin yfirfullur og ekki sízt sá markaður, sem tekur á móti niðurlagðri og niðursoðinni síld, og að honum sitja, eins og hv. 3. þm. Reykv. gat hér réttilega um áðan, mjög sterkir söluhringar, sem láta ekki hrekja sig út af þeim markaði nema fyrir mjög verulegt átak í okkar efnum. Það kæmi vissulega til álita fyrir Íslendinga að taka til athugunar, hvort það sé rétt stefna hjá okkur í síldarsölumálunum að selja saltsíldina í stórum umbúðum, í tunnum, sem innihalda um 100 kg, svo til óunna. Það er einmitt þessi síld, sem þannig er flutt út og þá aðallega til Svíþjóðar, sem framleiðendurnir þar, ABA, Bjelland o.fl., nota til þess að fylla þessa sömu markaði með, sem við erum nú að reyna að koma niðursuðuverksmiðjuframleiðslunni frá Siglufirði inn á. Ég vil því eindregið hvetja hæstv. ríkisstj. til þess að hætta ekki við hálfunnið verk. Henni ber siðferðileg skylda til að leggja fram fé til að reyna að koma framleiðslunni frá niðurlagningarverksmiðjunni á Siglufirði inn á markaðinn. Henni ber siðferðileg skylda til þess, ekki aðeins vegna þess, að atvinnuástandið á Siglufirði sé bágt, heldur ber henni skylda til þess, vegna þess að þarna er verið að stíga spor í þá stefnu að gera framleiðslu okkar verðmeiri og gera það mögulegt að vinna hana meir í landinu en okkur hefur tekizt til þessa.

Við Íslendingar þykjumst það vel menntaðir og það vel efnaðir, að við viljum ógjarnan láta setja okkur á bekk með nýlenduþjóðum, sem framleiða oft einungis hráefni, sem þær svo senda til þeirra þjóða annarra, sem lengra eru komnar í iðnvæðingu, er vinna svo úr þessu hráefni. Þannig er með saltsíldina. Við þurfum sjálfir að vinna hana miklu meira í landinu en gert hefur verið til þessa, og það er algerlega vonlaust, að það muni nokkurn tíma takast, nema einhverjir taki að sér forustuna í því hlutverki og Íslendingar leggi fram nauðsynlegt fjármagn til þess, að þessi starfsemi geti verið unnin sómasamlega.