19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í D-deild Alþingistíðinda. (3340)

804. mál, niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera margorður í svörum, því að það hefur að heita má ekki margt nýtt komið fram í umr. Hv. fyrirspyrjandi taldi að vísu, að ég hefði ekki skilið eðli málsins nógu vel, ég hafi ekki gert mér grein fyrir því, að verðmætið ferfaldaðist eða jafnvel fimmfaldaðist við vinnsluna, að þetta væri atvinnuaukning og annað þess háttar. En ég verð að segja honum, að ég hef haft allt þetta í huga. Ég veit þetta ofur vel og kannske fullt eins vel og hann. En það er bara ekki á þessu skilningsleysi, sem málið hefur strandað. Málið hefur í bili strandað á því, að það hefur ekki tekizt að selja framleiðsluvöruna. Ég er alveg sammála öllum þeim hv. ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls, um það, að þessi starfsemi er afar æskileg og afar nauðsynleg, en því aðeins er hún möguleg, að okkur takist að selja það, sem framleitt er.

Mér hefur skilizt á sumum ræðumönnunum, að það væri ekki mikill vilji hjá ríkisstj. til þess að efla viðskiptin við Austur-Þýzkaland eða austurblokkina yfirleitt. Þetta er mikill misskilningur. Ég hef ekki haft meiri áhuga á því að koma vörunum vestur á bóginn heldur en austur á bóginn, síður en svo. Það gildir mig alveg einu, hvora leiðina varan fer, ef þjóðin fær fyrir framleiðsluna það verð, sem bezt er og bezt mögulegt er hægt að fá. Þessi vara, sem hér er framleidd, er góð, okkur finnst hún góð, og við höfum notið við framleiðsluna aðstoðar sérfræðinga á þessu sviði, m.a. Sigurðar Péturssonar gerlafræðings, sem hefur fylgzt með málinu alveg frá upphafi og lagt á ráð með framleiðslustarfsemina. Við höfum notið aðstoðar norskra sérfræðinga, sem bæði hafa komið hér upp og starfað að framleiðslunni og líka gefið góð ráð. Allt þetta hefur verið gert til þess að reyna að gera framleiðsluna eins góða og mögulegt er. En smekkur manna er misjafn. Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa hér upp kafla úr grg. stjórnar síldarverksmiðja ríkisins til mín, dags. núna fyrir nokkrum dögum, en þar segir svo:

„Þá höfðu þeir, formaður verksmiðjustjórnar og viðskiptaframkvæmdastjóri, einnig átt tal við verzlunarfulltrúa Austur-Þýzkalands um möguleika á sölu núverandi birgða verksmiðjunnar til Austur-Þýzkalands. Taldi verzlunarfulltrúinn, að áhugi mundi ekki vera fyrir hendi á kaupum á niðurlagðri síld nema þá í sambandi við kaup á fiskimjöli. Jafnframt taldi hann, að bragð af síld þeirri, sem hann hefði fengið sýnishorn af, mundi ekki falla í smekk Þjóðverja, þannig að það virðist eins og það mundi hafa þurft einhverja enn aðra framleiðsluaðferð, til þess að hún félli í þeirra smekk, og sýnilegt, að viðskipti um þessa vöru helgast ekki af því, þó að þeir fái að kaupa hér nokkur hundruð tonn af síldarmjöli í sambandi við söluna á þessu litla magni.“

Það eru þess vegna fleiri erfiðleikar á þessum viðskiptum heldur en menn við fyrsta álit skyldu halda.

Í þessu bréfi stjórnar síldarverksmiðja ríkisins er líka lýsing á þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið á sölu til Rússlands. Formaður og framkvæmdastjóri skýrðu frá því, með leyfi hæstv. forseta:

„Formaður og framkvæmdastjóri skýrðu frá því, að formaður hafi eftir samþykkt verksmiðjustjórnarinnar átt viðtal við verzlunarfulltrúa Sovétríkjanna um möguleika á sölu framleiðslu niðurlagningarverksmiðjunnar á vöruskiptagrundvelli. Svar hefur nú borizt frá Prodentorg, þar sem þeir telja, að þeir hafi ekki heldur áhuga fyrir kaupum á þessum grundvelli. í samtali í morgun við formann og framkvæmdastjóra skýrði verzlunarfulltrúinn frá því, að þar sem þetta væri í þriðja sinn, sem Prodentorg hafnaði kaupum á þessari vöru, teldu þeir tilgangslaust, að þessum viðræðum yrði haldið áfram.“

Þetta sýnir, að það er ekki vegna þess, að það hafi ekki verið leitað eftir þessum sölum, það er ekki vegna þess, að það hafi ekki verið gerðar þær ýtrustu tilraunir, sem hægt var, til þess að reyna að koma þessum sölum í kring, og í því sambandi vil ég benda á, að ég tel það tæplega rétt, sem hér hefur komið fram í umr., að þessar tilraunir hafi ekkert verið annað en kák. Það hefur í þeim samningaumleitunum, sem gerðar hafa verið við stjórnvöld og verzlunarfulltrúa Austurlanda, ef ég má orða svo, verið ítrekað eins og mögulegt er, að kaupin gætu gerzt, en niðurstaðan hefur orðið sú sama. Vitanlega höfðum við líka og höfum haft samband í aðrar áttir og reynt að ná sölum þar, en niðurstaðan hefur orðið svipuð.

Hér var sagt áðan, að það væri engin ástæða til þess að selja ekki Austur-Þjóðverjum nokkuð af mjöli, þótt við ættum hjá þeim talsverðar upphæðir. Slíkar sölur færu fram á sama grundvelli til Póllands, til Tékkóslóvakíu og jafnvel annarra landa. En þar vildi ég benda á þann höfuðmismun, sem hér er á og í þessu tilviki, að skuld þessara landa við okkur er ekkert svipuð því eins og skuld Austur-Þýzkalands hefur verið, ekki einasta í dag, heldur undanfarin 4–5 ár, þegar hún aldrei nokkurn tíma úr árinu hefur komizt undir 1/2 millj. dollara.

Þá hefur verið hér rætt nokkuð um fyrirkomulag yfirstjórnar fyrirtækisins, og einn hv. þm. vildi líkja stöðu verksmiðjunnar við lítið fósturbarn, sem ætti miður góða stjúpforeldra. Og þar sem sumir ræðumenn hér nálgast nú það að vera í stjúpforeldrastaðnum, þá hafa þeir náttúrlega möguleika til þess að svara fyrir sig að þessu leytinu. En það er mín skoðun, að síldarverksmiðjustjórnin hafi haft fullkominn áhuga fyrir því að beina málum verksmiðjunnar í þá átt, sem æskilegast hefði verið, þ.e.a.s. að koma þeim á það stig, að hægt væri að stækka verksmiðjuna og hefja framleiðslu í stórum stíl. Að því er stefnt, og að því verður að stefna. Og ég vil mjög taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það verði ekki hætt á þessu stigi málsins, það dettur engum í hug. (EystJ: Það eru svo mörg börn á heimilinu, ráðh.) Já, það má vel vera, að stjúpforeldrarnir í stjórn síldarverksmiðjanna eigi nokkuð marga krakkana, en í þessu tilfelli er þó ekki að mínu viti annað að gera á þessu fyrsta stigi, þegar framleiðslan er svona lítil og einföld eins og hún er í dag, heldur en að skipuleggja söluherferð, og það er vissulega ekki meira verkefni en það, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins ætti ekki að vera ofvaxið að gera það, því að hún fer ekki sjálf að leita eftir mörkuðum, og sú nýja stjórn, sem e.t.v. yrði sett yfir fyrirtækið, fer ekki sjálf að leita að mörkuðum. Það, sem þær eiga að gera, er að koma skipulagi á sölutilraunirnar, og þegar búið er að koma því skipulagi á, eiga aðrir að framkvæma verkið, og hvort það er framkvæmt undir stjórn Síldarverksmiðja ríkisins eða enn annarri stjórn, það sé ég ekki að hafi neina úrslitaþýðingu. En mér finnst ýmislegt annað benda til þess, að það sé heppilegra á þessu stigi málsins að láta stjórn síldarverksmiðjanna fara með málið. Það er ekki svo mikið verk út af fyrir sig, eins og málum er nú háttað, að síldarverksmiðjustjórnin ráði ekki við það, aðrir eins garpar og þar eru í stjórn.

Hv. 4. þm. Reykn. lagði hér orð í belg að lokum og sagði, eða mér virtist hann vilja láta liggja að því, að ef ríkisstj. vildi ekki sérstaka stjórn á fyrirtækinu, þýddi það, að hún vildi ekki láta því í té neitt fé. Þetta tvennt þarf alls ekki að fara saman. Ríkisstj. getur vel hugsað sér það, — og náttúrlega er það fyrst og fremst Alþingi þá, sem á að gera það, — að leggja féð til handa þeirri nýju verksmiðju til markaðsöflunar eða rekstrar, ef með þarf. En að það sé bundið við það, að ný stjórn fari með fyrirtækið, það sé ég ekki að þurfi að vera neitt skilyrði. Það getur alveg eins gert, þó að stjórn síldarverksmiðja ríkisins fari með málið. Og að einu leyti finnst mér, að það sé m.a. miklu heppilegra, að það sé stjórn síldarverksmiðjanna, og það er vegna þess, að stjórn síldarverksmiðjanna er svo stórt fyrirtæki, að hana munar ekki nokkurn skapaðan hlut um það að leggja þessu fósturbarni sínu svolítið lið með framlagi, ef á þarf að halda. Þar sem umsettir eru margir tugir millj., jafnvel hundruð millj. á ári, skiptir það að mínu viti sáralitlu máli, þó að hún léti þessu unga og vanmegnuga fyrirtæki nokkra fyrirgreiðslu í té, og ég er nærri viss um, að það væri hægt að fá samþykkt meiri hl. Alþingis hér fyrir því, ef á þyrfti að halda.

Hvað vakti fyrir ríkisstj. 1960? spurði hv. 4. þm. Reykn. Það vakti fyrir henni þá, þegar þetta fyrirtæki var sett á stofn, að gera tilraun með það í fullri alvöru, hvort tækist að hefja þessa starfsemi í landinu með góðum árangri. Það er rétt, sem hér hefur verið sagt, tilraunin er í tvennu lagi. Það vitum við allir. Hún er í fyrsta lagi í því fólgin að kanna, hvort hægt sé að framleiða góða vöru, og síðan í öðru lagi, hvort það sé hægt að afla þeirra markaða, sem nauðsynlegir eru. Hið fyrra hefur tekizt, vil ég meina, hið síðara hefur ekki tekizt. En það, að þetta hafi ekki tekizt enn, og það, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins var falið að halda áfram málinu, þýðir ekki, að það verði hætt við tilraunina. Henni verður vissulega haldið áfram, og ég hef þá trú, að þá muni takast fyrr eða síðar, þótt við öfluga hringa sé að etja í þessu efni, að koma okkar vöru á markaðinn, því að við höfum ýmis skilyrði til þess að geta keppt við þá.

Ég held ekki, að það hafi verið miklu meira, sem ég þarf að svara. Ég vildi aðeins undirstrika það, að ég tel, að hér sé um mjög merkilega tilraun að ræða. Hún er að vísu ekki löng. Hún hefur staðið í tvö ár, frá því í marz 1961 og fram á árið 1963 og lítils háttar eftir það. En niðurstaðan af þessari tilraun er sú, að varan er góð, en sölumöguleikana vantar, og þá verðum við að finna. Ég álit, að það sé möguleiki til þess að finna þá, og ef ég get lagt nokkurn hlut að því, að þessar tilraunir með söluna geti haldið áfram, þá skal ekki á því standa, að ég reyni að leggja þeim lið.