19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í D-deild Alþingistíðinda. (3347)

147. mál, herlið, herflugvélar og hernaðarmannvirki

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Svar mitt að því er kjarnorkuvopnin varðaði var algert. Það átti bæði við það, að hér hefðu kjarnorkuvopn ekki verið staðsett og ekki heldur í farartækjum, sem hér hafa farið um. Af hálfu ríkisstj. hefur aldrei verið gefið neitt leyfi til þess, að hér væru staðsett eða flutt um kjarnorkuvopn. Það hefur aldrei verið farið fram á neitt slíkt, og eftir því sem við getum fylgzt með og eftir því sem við erum fullvissaðir um, hefur slíkt aldrei átt sér stað.

Ég vil mjög vara hv. þm. við að festa trúnað á það, sem hann kann að sjá um þetta í vissum erlendum blöðum. Það er sennilega mestmegnis komið frá fólki á Íslandi, sem er mjög óábyggilegt og óáreiðanlegt í þessum efnum, og ætti hv. þm. að gjalda varhug við að trúa slíku bæði utanlands og innan.