26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í D-deild Alþingistíðinda. (3353)

805. mál, alþýðuskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég get ekki fallizt á það með hv. fyrirspyrjanda, að ekkert hafi verið í þessu máli gert af hálfu hins opinbera, síðan málið var hér rætt síðast 1960, einnig að hans frumkvæði. Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að ég taldi þá rétt að bíða álits nefndar, sem starfaði að heildarendurskoðun skólalaganna. Mér þótti sjálfsagt að fá vitneskju um, hvaða till. hún kynni að gera varðandi m.a. þetta mál. En það kom í ljós, að nefndin var sammála þeirri nefnd, sem fjallað hafði um fyrstu till. Alþ. í málinu, að hér væri um að ræða mál, sem eðlilegast væri að frjáls félagasamtök í landinu hefðu forustu um, vegna þess að slíkur skóli sem þessi ætti ekki að verða liður í hinu lögbundna skólakerfi ríkisins. Sú skoðun, sem ég hafði á málinu, var því í raun og veru alveg staðfest með starfi og áliti skólamálanefndarinnar, sem lauk starfi 1959. Síðan hef ég ekki talið, að neitt stæði upp á mig eða menntmrn. eða ríkisvaldið í þessum efnum. Það tilboð, sem ég gerði þá og get gjarnan endurtekið enn, hefur staðið öll undanfarin ár, að ef áhugi væri fyrir stofnun slíks skóla hjá frjálsum félagasamtökum í landinu, Ungmennafélagi Íslands, Íþróttasambandi Íslands, Alþýðusambandinu — Það eru þau félög, sem upphaflega voru nefnd fyrir einum 7 árum, — ef áhugi væri fyrir stofnun og rekstri slíks skóla hjá þeim eða öðrum samtökum, svo sem kirkjunnar t.d., þá er sjálfsagt, þá skal ekki standa á mér að athuga, hvern stuðning ríkisvaldið gæti og ætti að veita við stofnun og starfrækslu slíks skóla. En í þau 7 ár, sem ég hef gegnt starfi menntmrh., hefur aldrei verið rætt við mig af neinum fulltrúa Ungmennafélags Íslands, Í.S.Í. eða A.S.Í. varðandi ósk um stofnun eða starfrækslu slíks skóla. Og meðan svo er, tel ég ekki, að neitt standi upp á mig eða mína stjórnardeild varðandi þessi efni.

Hitt get ég svo gjarnan endurtekið og lokið máli mínu með því, að ég tel hugmyndina um lýðháskóla að norrænni fyrirmynd vera ágæta hugmynd, mjög æskilega hugmynd, sem sé alls góðs stuðnings verð og muni eiga stuðning vísan, ef að henni er unnið og hún undirbúin af nægilegum áhuga og á réttan hátt.